Ávarp við kertafleytingu á Akureyri
—
Kertum var fleytt og hernaðarhyggju mótmælt á Akureyri á degi Nagasakísprengjunnar 9. ágúst. Kertafleytingin var sú 24. á röð á Akureyri. Oft var tilefnið brýnt en aldrei sem nú. Árni Hjartarson jarðfræðingur flutti ávarp og beindi máli til Íslendinga og íslenskra stjórnvalda.
Kæru félagar,
það eru áratugir síðan íslenskt friðarbaráttufólk og friðarhreyfingar tóku upp þann sið, sem upprunnin er í Japan, að safnast saman og fleyta kertum til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí þann 6. og 9. ágúst 1945. Þótt kröfuspjöld og borðar séu sjaldnast á lofti í þessum aðgerðum þá hefur málstaðurinn alltaf verið ljós. Þetta er ekki hljóðlát helgiathöfn sem snýst um leyndar óskir eða óskilgreindan frið. Þetta er aðgerð friðarhreyfinga og friðarsinna sem vilja láta rödd sína heyrast, rödd sem talar gegn hervaldi og ofbeldi sem leið til að leysa deilumál þjóða. Við erum á móti stríði og hernaði og við stöndum gegn yfirgangi hervelda vítt og breitt um heiminn, við erum á móti beinum og óbeinum stuðningi Íslands við stríðsátök. Ísland á alltaf að leggja lóð sitt á vogarskál friðarins en aldrei í vogarskál stríðs og illinda.
Veigamikill þáttur í starfi friðarhreyfinga hefur lengi verið baráttan gegn kjarnorkuvopnum og kjarnorkuvígvæðingu. Kertafleytingar vítt og breitt um heiminn á þessum ágústkvöldum ár hvert undir kjörorðunum – Aldrei aftur Hírósíma, aldrei aftur Nagasakí – er ljóst dæmi um þetta. Baráttan gegn kjarnorkuvígvæðingunni var meira áberandi fyrr á árum en hún hefur verið á síðari tímum. Hún náði hámarki í kaldastríðinu á níunda áratug síðustu aldar þegar stórveldin stóðu grá fyrir járnum hvert gegnt öðru og hótuðu tortímingu landa og útrýmingu lífs. Þau létu sér ekki nægja að koma sér upp kjarnorkuvopnabirgðum sem dugðu til að útrýma mannkyninu öllu einu sinni, vopnin urðu að vera nógu öflug til að útrýma því oft. Þetta var kallað overkill á erlendu hernaðarmáli og var mikið keppikefli kjarnorkuveldanna. Einkunnarorð kaldastríðsins voru gagnkvæm gereyðing, Mutual Assured Destruction á máli hervelda, skammstafað MAD. Hugsið ykkur bara – Gagnkvæm gereyðing – það er nú varla hægt að ímynda sér mannfjandsamlegri og ömurlegri yfirskrift fyrir pólitíska og hernaðarlega stefnu. Það sem friðarsinnum hérlendis hefur löngum þótt illþolanleg staðreynd er að Ísland hefur aldrei gagnrýnt kjarnorkuvopnastefnuna á alþjóðlegum vettvangi. Fulltrúar landsins hafa jafnan greitt atkvæði sitt gegn tillögum friðsamra og óháðra ríkja um bann við kjarnorkuvígvæðingu og beitingu atomvopna, í besta falli hafa þau setið hjá. Á friðarárina hafa íslensk stjórnvöld aldrei lagst. Ástæðan er aðild okkar að kjarnorkuvæddu hernaðarbandalagi.
Og nú er enn og aftur skollið á stríð. Síðastliðna fimm eða sex mánuði höfum við haft af því daglegar fréttir. Rússar réðust inn í Úkraínu og komu af stað átökum með öllum þeim hryllingi sem stríðum fylgja. Hernaðarhyggja og stríðsæsingar hafa síðan farið eins og sinueldur um alla álfuna og raunar um allan heim. Ljóst er að hernaðaröflin nýta þessa stöðu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Við heyrum raddir um að nú þurfi á ný að koma upp viðvarandi setuliði á Íslandi, friðartímar séu fyrir bí, allir þurfi að vígbuast. Stríðið sýnist vera að þróast upp í stórveldastríð milli NATÓ og Rússlands þar sem Úkraínu er fórnað á blóðvellinum. Vopnaframleiðendur maka krókinn sem aldrei fyrr og hergagnaiðnaðurinn blómstrar.
Ef við tökum þeim fréttum bókstaflega sem við heyrum í útvarpi allra landsmanna eða sjáum í sjónvarpi þá er dagljóst hverjum þetta er að kenna. Það er Pútín Rússlandsforseti sem hóf þetta stríð og heyr það á forsendum stór-rússneskrar útþenslustefnu. Ef einhver segir – Sjaldan veldur einn þá tveir deila – er sá hinn sami litinn tortryggnisauga. Það örlar ekki á sjálfsgagnrýni hjá ráðamönnum hér í vestrinu. Enginn þeirra spyr sig þeirrar spurningar hvort við hefðum geta gert eitthvað til að forða þessu stríði? Enginn spyr sig hvort eitthvað hefði mögulega verið hægt að gera betur eða öðruvísi, hvort mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir þjáningar Úkraínumanna. Vandamálið er kannski það að ráðamenn innan NATÓ vildu ekki forða þessu stríði. Þrátt fyrir þá ritskoðun og stýringu sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlum dag hvern þá vita allir hver er aðalorsökin fyrir Úkraínustríðinu: Það er linnulaus útþensla NATO til austurs, inn í bakgarð Rússa, þvert á fyrirheit sem gefin voru í lok kalda stríðsins fyrir 30 árum. Á þessu tímabili hefur NATÓ-ríkjum fjölgað úr 14 og upp í 30. Flest hinna nýju aðildarríkja tilheyrðu áður austurblokkinni og Sovétinu. Var virkilega nauðsynlegt að vígvæða hvert ríkið á fætur öðru þarna austurfrá, kunni það góðri lukku að stýra? Er ekki ljóst að þessi ofuráhersla á vígvæðingu hefur ekki tryggt frið heldur hefur hún komið af stað stríði? Við heyrum að svar ráðamanna hér á Íslandi og víðast um Evrópu við þessari spurningu er NEI, þróun mála sýni að stækkun NATO upp að landamærum Rússlands sé og hafi verið bráðnauðsynleg og það sé út úr kú að gefa í skyn að hún hafi leitt til innrásarinnar – Pútín sé einfaldlega skúrkur, Hitler nútímans, og það megi ekki gefa þumlung eftir. Fjölmiðlarnir sýna okkur svart-hvítan heim og við erum hvítu taflmennirnir í góða liðinu.
Það er nokkuð ljóst að innrásin í Úkraínu á sér enga siðferðilega réttlætingu, þetta er siðlaus og viðbjóðsleg og ólögmæt innrás, sem fordæma skal skilyrðislaust, ekki ósvipað Íraksstríðinu sem var álíka viðbjóðslegt og siðlaust og háð á upplognum forsendum. En við komumst ekki hjá því að sjá að þetta er óskastríð NATÓ. Hernaðarbandalagið getur tekist á við erfðafjanda sinn án þess að hætta neinu til. Það getur prófað öll nýju vopnin og vígtólin, látið reyna á samhæfinguna, þjappað aðildarþjóðunum saman og náð til sín ríkjum sem áður voru tvístígandi. Það getur látið Úkraínu um hitann og þungann af stríðinu, og látið Úkraínsku þjóðina taka á sig blóðbaðið, mannfallið, eyðilegginguna og allan þá viðurstyggð sem fylgir stríðsrekstri. Vesturveldin horfa á í hæfilegri fjarlægð og hvetja sína menn að ganga harðar fram. Nató-ríkin virðast tilbúin að berjast til síðasta Úkraínumanns. Hvað svo tekur við veit enginn. Og nú bætist það við að menn eru teknir að magna ófriðarspennu austur í Asíu og þar eru blikur á lofti. Það geysar kalt stríð í Asíu og heitt stríð í Evrópu.
Það er áfall fyrir okkur friðarsinna að verða vitni að þessum atburðum. Ýmsir héldu að þetta gæti ekki gerst í Evrópu. En friðarhugsjónin sjálf lifir þó enn. Stríðið í Úkraínu og ástandið í heiminum sýnir að barátta okkar er brýnni en nokkru sinni fyrr. Rödd okkar verður að heyrast.
En hvað getum við gert? Hvers eigum við að krefjast af stjórnvöldum? Jú, Íslendingar eiga að taka upp nýja stefnu í friðar- og öryggismálunum. Við verðum að hætta að vera þögulir jábræður hernaðarhyggjunnar. Öryggisstefna landsins á að grundvallast á því að taka
alltaf málstað friðar og samninga. Við krefjumst þess að leitað verði friðsamlegra lausna í alþjóðamálum. Það verður að styrkja og standa við alþjóðlega friðar- og afvopnunarsáttmála. Jafnframt verður að berjast gegn uppgangi og aðferðum hernaðarbandalaga í valdatafli stórvelda.
- Við eigum alltaf og ævinlega að standa gegn hernaðarhyggju og hernaðarlegum lausnum í samskiptum þjóða
- Við eigum alltaf og ævinlega að fordæma árásarstríð og sprengjuherferðir
- Við eigum alltaf og ævinlega að standa gegn gereyðingarvopnum
Þetta er vegarnestið sem við skulum fara með inn í ágústnóttina og halda hátt á lofti inn í framtíðina. Þakka ykkur fyrir!