Sjálfsskoðun: Neistar ársins 2021

13. janúar, 2022 Þórarinn Hjartarson

Hvernig var árið 2021 hjá okkar byltingarsinnaða vefriti, Neistum? Þar er fyrst að nefna að á árinu birtust alls 43 greinar. Það þýðir svo mikið sem ein grein með 8,6 daga millibili allt árið. Neistar fóru af stað í október 2017 (rétt öld var liðin frá Októberbyltingunni 1917, og fjórar greinar birtust um hana áður en árinu lauk!). Síðan þá hefur gilt nokkurs konar óskrifuð regla sem miðast við vikulega nýja grein í ritinu, í rúm fjögur ár. Frá byrjun hefur það viðmið haldist rétt tæplega eða gein á 7,3 daga fresti (218 greinar á 1523 dögum). Við höfum örlítið hægt á okkur sl. ár en þó haldið vikulega taktinum nokkurn veginn.

Einhver sérkenni hefur árið 2021 miðað við fyrri ár. Þá mætti fyrst nefna að á árinu birtist aðeins ein ályktun frá Alþýðufylkingunni (á 1. maí) og voru þær þó alltíðar á fyrri árum ritsins. Það segir væntanlega sína sögu um lífskraft móðursamtakanna. Frá upphafi hafa skrif í ritið verið mjög borin uppi af fáum einstaklingum, yfirleitt ritstjórninni. Sú tilhneiging hélst og varð ennþá eindregnari. Raunar er meiripartur greina á árinu skrif tveggja einstaklinga, og er þó aðeins annar þeirra í ritnefnd.

Á meðan svona hefur dregið úr greinaskrifum annarra Alþýðufylkingarfélaga – og ályktunum móðursamtakanna – hafa á árinu verið birtar fleiri aðfengnar geinar, eftir «utanaðkomandi» fólk. Þetta er ritinu styrkur og tekst vonandi að þróa áfram. Myndin af efnisvali í Neistum er sjálfsagt nokkuð flókin. Þar sem skrifin byggjast meira á einstaklingsframtaki en áður eru þau sjálfsagt sundurleitari og jafnvel tilviljunarkenndari, bæði að efnisvali og stefnu/skoðunum.

Í þeim málum sem hafa yfirskyggt öll önnur á árinu, í sóttvarnapólitíkinni, hefur Alþýðufylkingin enga skýra, samræmda stefnu. Þeir sem mest skrifa í Neista eru hins vegar mjög krítískir á Covid-stjórnarfarið, og hafa á undangengnu ári fókusað á alvarleg áhrif sóttvarnaraðgerðanna á samfélagsgerðina og þróun mannréttinda. Aðrar áherslur hafa þó sést í ritinu. Það verður að segjast að þessi nefndu skrif eru fjarri því að endurspegla almenna tilhneigingu á vinstri væng stjórnmála þar sem ríkjandi tónn virðist jafnvel vera harðari útgáfa af ríkjandi «covidstjórnarfari».

Í Alþingiskosningunum sl. haust hafði Alþf. ekki heldur samræmda stefnu, t.d. gagnvart mikið umtöluðu framboði Sósíalistasflokksins og komu þar fram mismunandi sjónarmið. Kosningamálflutningurinn sem birtist hjá Neistum má nánast kenna við «afskiptaleysi» af kosningunum.

Skrif til höfuðs heimsvaldastefnunni eru umfangsmesta sviðið eins og alltaf hefur verið á Neistum. Skrif tengd hernaðar- og heimsyfirráðabrölti vestrænnar heimsvaldastefnu undir stjórn bandarísks fjármálavalds – og viðnáminu gegn því hinu sama – hafa fengið þyngsta áherslu. Með Úkraínu og Suður-Kínahaf sem heitustu bletti, en einnig um vígvæðinguna á Íslandi. Neistar fullyrða með stolti að þeir séu lang-gagnlegasta (og nánast eina) málgagn gegn heimsvaldastefnu á Íslandi.

Í verkalýðsbaráttu reynum við að halda merkinu á lofti, en mun réttara er að kenna það við «viðleitni» en baráttu. Við reyndum sl. ár að dekka hin afdrifaríku átök innan Eflingar stéttarfélags, einnig atlögurnar að grunnréttindum launafólks (undir Covid-stjórnarfari) sem lengst hafa gengið í flugrekstrargeiranum (efni um þetta var samt meira áberandi 2020 en 2021).

Svo hefur nokkuð birst af sögulegum greinum í ritinu: greinar um sögu sósíalismans, bæði alþjóðlegs sósíalisma og íslensks (m.a. um bók Kjartans Ólafssonar Draumar og veruleiki, grein 28. maí), um Heimsstyrjöldina síðari, sögu Parísarkommúnunnar, leyniþjónustunnar CIA o.m.fl. Slík söguskrif eru vel þegin og mikið lesin.

Þá birtust greinar sem flokka má sem almannaupplýsingu eða vísindi fyrir almenning. Sumt reyndar á mörkum hins alþýðlega (t.d. nýjustu uppgötvanir í öreindafræði) en einnig um uppruna lífsins og vísindaleg hindurvitni m.m.

Beint fræðilegt efni, svo sem af sviði vísindalegs sósíalisma er reyndar lítið að finna í ritinu, og hefur það þó verið á stefnuskránni að hafa með slíkt efni. Ekki er það þó alveg fjarverandi úr ritinu, og má t.d. benda á grein um «Fjórðu iðnbyltinguna» og sögulega þróun samfélagslegrar vinnu (grein 19. mars).

Ég tel að uppsetning Neista sé góð og notendavæn. Myndefni er oftast smekklegt og lífgar upp á greinarnar. Það er auðvelt að leita í efninu fram og aftur á forsíðunni og slá upp leitarorðum. Þannig er til orðinn fjögurra ára greinasafn sem auðvelt er að fletta í og nýta sér.

Neistar eru eina ritið á Íslandi sem kennir sig við róttækan sósíalisma og baráttustefnu í verkalýðsmálum eina ritið sem berst skipulega gegn (hnattvæðingarsinnaðri) heimsvaldastefnu. Ekki er auðséð, ef útgáfa Neista hætti, að skarðið yrði fyllt af neinum þeim sem sjáanlegur er hér og nú. Niðurstðan er: Neistar skipta máli, en rödd þeirra þyrfti að heyrast betur.