Hinir nytsömu sakleysingjar í orkupakkamálinu

25. ágúst 2019 — Bjarni Harðarson


Bjarni harðar
Bjarni Harðarson

Stjórnmálamenn sem hampa þeirri miður göfugu hugsjón að græða á daginn en grilla á kvöldin hafa síðustu misserin eignast nytsama bandamenn í hugsjónafólki sem sér aðild Íslands að ESB sem langtímamarkmið. Það er fullgild skoðun að vilja þá aðild þó að ég og stór hluti þjóðarinnar hafi aðra skoðun. En það er sorglegt að sjá ágæta ESB sinna sem til þessa hafa hallast að náttúruvernd og mörgum góðum gildum verða að nytsömum sakleysingjum þeirra sem eiga græðgina eina að hugsjón.

Nú kann vel að vera að áhrif orkupakkasamþykkis verði minni en svartsýnustu spár gera ráð fyrir. En hitt er enginn vafi að í þessu leikur þjóðin sér með fjöregg verðmætasköpunar og sjálfstæðis. Í þjóðsögum er sagt frá heimskum tröllum sem léku sér að því að kasta milli sín fjöreggi sínu og fórst sjaldan vel að sögulokum. Engin ágreiningur er um að gríðarleg verðmæti eru fólgin í möguleikum Íslendinga til orkuframleiðslu. Að sama skapi er mikilvægt að stjórnvöld taki enga vanhugsaða áhættu þegar kemur að stjórn og tilhögun þeirra mála.

Það eru einkum Sjálfstæðismenn sem fara fyrir orkupakkamálinu og hafa gert það án þess þó nokkru sinni að svara af einlægni og heiðarleika fyrir þá gagnrýni sem fram er komin. Þar skiptir þá miklu vissan um samþykki málsins sem helgast af því að ekki einungis er búið að múlbinda stjórnarþingmenn. Stjórnarandstaðan virðist að stærstum hluta bundin málinu vegna ofurtrúar á allt sem lýtur að Evrópusamvinnu og gleypir hræðsluáróður um endalok EES ef ekki verður farið að tillögu græðgismanna þingsins. Í Icesave málinu lágu bæði reiðilestur og hótanir ESB á borðinu og skiljanlega vildu fylgismenn ESB aðildar ekki þar gegn. En í orkupakkamálinu eru heimildir fyrir ESB hótunum miklu óljósari. Það er raunar vafamál að það muni nokkru breyta fyrir EES samstarf Íslendinga þó að Orkupakka þrjú verði frestað eða jafnvel hafnað. Þar er ekki hægt taka sem fullgild vitni kostaðan eftirlaunaþega frá Evrópu, jafnt þó háttsettir hafi verið í eina tíð.

Eftir nýlegt viðtal við forstjóra Landsvirkjunar þar sem hann hvetur til samþykkis Orkupakkans er engum blöðum um það að fletta hvað það er sem dregur vagninn í þessu görótta máli. Þar ræður vilji einkavæðingargæðinga sem sjá sér færi á að nota Evrópusambandstilskipanir til þess að sópa undir einkavæðingaráform orkufyrirtæki sem nú eru í þjóðareigu.

Það er sjaldnast af stjórnmálalegri hugsjón sem oligarkar og banksterar heimsins vilja afnema ríkisrekstur. Drifkraftur þeirrar baráttu er hið óskemmtilega græðgiseðli að sölsa undir sig sjálfan opinberar eigur. Alla jafna hefur fótgöngulið Sjálfstæðisflokksins verið lið hinna nytsömu sakleysingja í þeirri baráttu en nú er mörgu á haus snúið. Illt er að sjá ef gamalgrónir vinstrimenn ætla nú að taka við fyrrnefndu hlutverki bergþursanna sem kasta milli sín fjöregginu.


Höfundur er rithöfundur, bóksali og vinstrimaður. Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 19. ágúst.