Heilbrigðiskerfi og covid – samanburður á Íslandi og Færeyjum
—
Þegar árangur Íslands annars vegar og Færeyja hins vegar í viðbrögðum við sars-cov-2 smitum er borinn saman kemur margt athyglisvert í ljós. Bæði ríkin taka tölulegar upplýsingar um þessa farsótt og birta á þar til gerðum vef. Á Íslandi er það covid.is, en í Færeyjum er það vefsíðan corona.fo. Þar koma helstu samtölur um fjölda smita og andláta, gróf aldursgreining (þó ekki sett eins upp) og annað sem spítalar landanna hafa tekið saman.
Í ljós kemur að nokkurn veginn jafnhátt hlutfall Íslendinga og Færeyinga hafa fengið staðfest smit á sars-cov-2. Á Íslandi hafa skv. aldursgreindri töflu 6204 Íslendingar fengið staðfest smit, en það er eitt smit á hverja 59 íbúa (heildaríbúafjöldi í dag er 365991), en í Færeyjum hafa 834 landsmenn fengið staðfest smit, en það er eitt smit á hverja 58 íbúa. Þessum smituðu vegnaði ólíkt. Á Íslandi eru 30 dauðsföll skráð hjá þessum 6204 smituðu. Í Færeyjum er eitt einasta skráð dauðsfall af völdum covid-19. Hlutfall andláta af (staðfest) smituðum er 0,48% á Íslandi. Hlutfallið í Færeyjum er 0,12%.
Eru Íslendingar svona heilsulausir miðað við frændur okkar í suðri, eða er hægt að finna einhverjar meira sannfærandi skýringar á því að dánartíðnin af völdum smits af þessari veiru er fjórum sinnum hærri hér?
Þegar fleiri tölur eru skoðaðar er ef til vill hægt að finna hluta úr skýringunum á þessum muni. Ekki er það bólusetning, en bólusetningarhlutfall er um 90% á Íslandi en tæplega 60% í Færeyjum. Ein skýringin er sú að af hinum smituðu á Íslandi eru meira en 2% úr aldurshópnum 80 ára eða eldri. Í Færeyjum voru tæplega 0,8% hinna smituðu eldri en 79 ára. Færeyingum tókst því mun betur en Íslendingum að halda smitum úr hjúkrunarheimilum.
Annað sem er sláandi þegar samanburður er gerður á ríkjunum tveimur er að finna á hagtölum Færeyja annars vegar, og Íslandi hins vegar. Nýtingarhlutfall í færeyskum sjúkrahúsum er nú 65%, þ.e. í Færeyjum er starfhæft heilbrigðiskerfi. Á Íslandi er nýtingin að flakka á milli 130% og 200%. Viðvarandi neyðarástand ríkir á öllum deildum, sama hvort farsótt ríkir eða ekki og allir starfsmenn eru að bugast. Á Íslandi eru nú einungis 2,8 sjúkrarými á hverja 1000 íbúa m.v. tölur frá Alþjóðabankanum. Til samanburðar voru árið 1990 16,7 sjúkrarými á hverja 1000 íbúa á Íslandi. Hrun íslenska heilbrigðiskerfisins er algjört.
Ef það var eitthvað sem hægt var að læra af reynslunni í fyrra var það að heilbrigðiskerfi okkar er orðið svo veikt að við getum ekki lengur tekist á við nýja sótt, ólíkt því sem var árin 1957 og 1968, síðast þegar stærri faraldrar gengu yfir landið. Viðbrögðin hjá ríkisstjórn undir forystu VG eftir árið 2020 var hins vegar meiri niðurskurður, bæði á sjúkrahúsunum og einnig í fjárframlögum til hjúkrunarheimila. Hversu lengi ætla meintir íslenskir vinstrimenn að láta þetta viðgangast?