Trump-kenningin og nýja MAGA heimsvaldastefnan
—
Kynning: Afstaðan til persónunnar í embætti Bandaríkjaforseta, og ekki síður til fyrirbærisins „trumpismi“ hefur æði víða valdið óvissu og ruglingi undangengið misseri. Það á við í stjórnmálalífi meginstraums á Vesturlöndum, en það gildir raunar einnig um marga óháða greinendur og „valkvæða“ miðla.
Einkum er það spurningin um breytingar á bandarískri heimsvaldastefnu sem aðkallandi er að svara og hefur gefið misjöfn svör: Horfist Trump-stjórnin í augu við að einpóla heimsskipan sé hrunin? Gefur hún upp á bátinn stórveldakeppnina um heimsyfirráð og ástundar í staðinn einangrunarstefnu? Getur Trump e.t.v. þar með með réttu kallað sig „friðarkandídat“. Viðlíka spurninga hefur verið spurt hér í greinum á Neistum – og svörin hafa kannski ekki verið einhlít hér heldur.
John Bellamy Foster styður það sterkum rökum að svara beri öllum þessum spurningum neitandi. Hann segir að breytingarnar á bandarískri heimsvaldastefnu séu ekki breytingar á innihaldi hennar heldur fyrst og fremst á pólitískum aðferðum – breytingar í átt til naktari valdbeitingar. Það á ekki síður við um innanríkispólitík Trump-stjórnarinnar, sem höfundur vill kenna við nýfasisma.
Tímaritið Monthly Review er leiðandi marxískt tímarit í Bandaríkjunum. John Bellamy Foster, prófessor í félagsfræði, er ritstjóri þess. Hann hefur ritað mikið magn bóka og greina um sósíalisma, vistfræði, hagfræði – og ekki síður heimsvaldastefnu. Greinin í Monthly Review er alllöng og birtist hér nokkuð stytt. Þ.Hj.
– – – –
Hin dramatíska breyting á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna í forsetatíð Donalds Trump, bæði á fyrra kjörtímabili hans og enn frekar á því yfirstandandi, hefur valdið gríðarlegum ruglingi og felmtran í miðstöðvum valdakerfisins. Hin skyndilega breyting á utanríkisstefnu Bandaríkjanna birtist í því að yfirgefið er bæði hið frjálslynda alþjóðlega skipulag sem byggt var upp undir forræði Bandaríkjanna eftir seinni heimsstyrjöldina og einnig langtímastefnan um stækkun NATO gegnum staðgengilsstríð við Rússland í Úkraínu. Álagning hárra tolla og breytt forgangsröðun hernaðarmála hafa bakað Bandaríkjunum ágreining við jafnvel langtíma-bandamenn sína, á meðan nýja Kalda stríðið gegn Kína og hinu hnattræna suðri fer harðnandi.
Svo mikil er breytingin á beitingu Bandaríkjanna á valdi, og svo mikill er ruglingurinn sem þetta hefur valdið, að jafnvel sumir þeir sem lengi hafa verið tengdir vinstri vængnum hafa fallið í þá gildru að líta á Trump sem einangrunarsinna, andmilitarista og andheimsvaldssinna. Þannig hefur óánægði vinstri maðurinn Christian Parenti haldið því fram að Trump „sé ekki andheimsvaldsinni í vinstri skilningi. Hins vegar er hann eðlislægur Bandaríkin-fremst einangrunarsinni“, en markmið hans, „meira en nokkurs forseta í seinni tíð“, sé „að rífa niður óformlegt heimsveldi Ameríku“, og að stuðla að nýrri „andmilitarískri“ utanríkisstefnu sem sé „andstæð heimsveldi“.
Trump er þó langt frá því að vera andheimsvaldsinni, heldur stafar hin hnattræna breyting á utanríkistengslum Bandaríkjanna undir Trump af ofurþjóðernissinnaðri nálgun við hnattrænt vald, sem byggir á lykilhlutum hinnar ráðandi auðmannastéttar, sérstaklega hátæknieinokunaraðilum, sem og Trump-kjósendum sem eru að mestu úr neðri millistétt. Samkvæmt þessu nýfasíska og „hefnigjarna“ sjónarhorni eru Bandaríkin á undanhaldi sem ráðandi heimsveldi og þeim er ógnað af öflugum óvinum: menningarmarxisma og innflytjendum sem „innrásaraðilum“ innan frá, Kína og hinu hnattræna Suðri utan frá, samtímis eru þeim hamlað af veikum og of háðum bandamönnum.
Allt frá fyrstu Trump-stjórninni eftir kosningarnar 2016 hefur stjórn hans staðið fyrir harðri hægrisveiflu á alþjóðavettvangi sem og innanlands. Á heimsvísu á að beina öllum tiltækum úrræðum að núllsummu aukningu á valdi Bandaríkjanna og að sigri yfir Kína sem nýjum keppinaut [núllsumma þýðir að ávinningur minn er tilsvarandi tap annarra svo summan verður núll]. Þannig var það á fyrsta kjörtímabili Trumps sem nýja kalda stríðið gegn Kína hófst af alvöru, með tilheyrandi breytingu í átt að slökunarstefnu í samskiptum við Rússland. Þó að stjórn Joe Biden hafi síðar haldið áfram fyrri áætlunum Washington um staðgengilsstríð gegn Rússlandi (sem hófst með hægri sinnuðu valdaráni í Úkraínu árið 2014 með stuðningi Bandaríkjanna), fylgdi hún engu að síður línu Trumps í því að halda áfram nýja kalda stríðinu gegn Kína, og stóð þannig frammi fyrir báðum stórveldunum í Evrasíu samtímis. Þegar Trump komst aftur til valda leitaðist hann við að binda enda á staðgegilsstríð NATO í Úkraínu, en sneri sér enn ákveðnar að baráttunni í Asíu. Jafnvel Mið-Austurlönd, þar sem stjórn Trumps styður nú opinberlega útrýmingarstefnu gagnvart Palestínumönnum – algjöra eyðingu eða fjarlægingu þeirra frá Gaza í nafni „friðar“ – á meðan hún varpar sprengjum á Jemen og eykur þrýsting á Íran, eru talin vera aukaatriði hjá nýja Kalda stríðinu gegn Kína.
Hin róttæka nýja heimsvaldastefna sem stjórn Trumps stendur fyrir, sérstaklega í seinni stjórnartíð hans, byggir á hugmyndinni um „Bandaríkin fyrst“. Þetta felur í sér höfnun á hefðbundnu hlutverki Bandaríkjanna sem ríkjandi hnattrænt veldi [hegemón], í þágu hins ofurþjóðernissinnaða heimsveldis „Bandaríkin fyrst“. Birtingarmynd þessa er árás Bandaríkjanna á alþjóðastofnanir þar sem þau hafa ekki algjöra yfirráð eða þar sem þau bera meintar óhóflegar byrðar, svo sem Sameinuðu þjóðirnar eða jafnvel NATO. Enn fremur er litið á viðskiptatengsl ekki svo mikið sem gagnkvæmt hagstæð skiptaferli (sem í raun þjóna aðallega ríkari þjóðunum), heldur frekar sem viðskiptatengsl sem ákvarðast eingöngu á grundvelli valds ríkja.
Í þessu samhengi er álagning tolla stjórnar Trumps á öll önnur lönd, þar á meðal háa tolla á um sextíu lönd (á „Frelsisdags“-lista hans frá 2. apríl), ekki einfaldlega tilraun til að öðlast efnahagslegt forskot heldur ber að líta á það sem valdatæki til að tryggja hnattræna hagfræðilega og geopólitíska yfirburði. Samkvæmt Bandaríkin fyrst stefnu Trumps leitast Washington við að fá skatt frá bandamönnum sínum, sem þurfa héðan í frá að greiða á einn eða annan hátt fyrir hernaðarstuðning Bandaríkjanna, sem leiðir til átaka milli heimsvelda (eða innan heimsvelda) í nýjum myndum.
Með Kína í sigtinu gerir opinber tillaga Trumps að hernaðarútgjöldum fyrir komandi fjárhagsár ráð fyrir næstum 12 prósenta aukningu, upp í eina billjón dollara (raunveruleg hernaðarútgjöld eru venjulega tvöfalt hærri en opinberar tölur segja).
Líklegasta niðurstaða slíkrar þróunar – ef hún verður ekki stöðvuð – er ný öld hamfara, á skala ekki ólíkum fjórða áratug síðustu aldar, sem einkennist af efnahagslegri, vistfræðilegri og stríðsættaðri eyðileggingu. Þetta mun leiða ekki til aukinna yfirráða Bandaríkjanna heldur til hraðari hnignunar þeirra, þar sem dollarayfirráð þeirra og alþjóðastofnanirnar sem bandarískt vald hefur sögulega hvílt á verða enn frekar undangrafin. Innan stjórnar Trumps munu tilraunir Washington til að beita valdi sínu á heimsvísu aðeins auka á innri átök milli einokunarfjármagns með hnattræna efnahagshagsmuni sína og þrengri þjóðernissinnaðrar Gerum Ameríku Mikla Aftur (MAGA) hreyfingar Trumps. Allar tilraunir til að halda slíkri afturhaldssamri stjórn saman munu krefjast aukinnar kúgunar, á meðan framtíðin mun velta á umfangi uppreisnarinnar sem þessi kúgun veldur – bæði innanlands og á heimsvísu.
Trump-kenningin
Það er kaldhæðnislegt að sterkustu og vafasömustu fullyrðingarnar varðandi friðsamlegt og andheimsvaldssinnað eðli stjórnar Trumps hafa verið settar fram af fyrrverandi vinstri mönnum eins og Parenti. Í grein sem birtist í MAGA-ráðandi tímaritinu Compact árið 2023, undir fyrirsögninni „Raunverulegi glæpur Trumps er andstaða við heimsveldi“, hélt Parenti því fram að Trump stæði fyrir and-Pentagon og „andheimsveldissinnaða utanríkisstefnu“, sem sýndi algjöra „fyrirlitningu á ‘þjóðaröryggis-samsteypunni’“.
Hins vegar, með því að lýsa Trump sem andheimsvaldssinna, virðist Parenti hafa gleymt allri gerð heimsvaldastefnunnar, sem snýst um hnattrænt arðrán/eignarnám og stefnur að heimsyfirráðum. Trump kynnti ekki aðeins sögulegar hækkanir á hernaðarútgjöldum í sinni fyrstu stjórn og beitti banvænu afli á alþjóðavettvangi við mörg tækifæri (þar á meðal að slaka á takmörkunum á sprengjuárásum gegn almennum borgurum), heldur, sem mikilvægara er, hóf hann nýja kalda stríðið gegn Kína. Síðari stjórn Trumps er aftur að auka gríðarlega útgjöld til varnarráðuneytisins og stuðla að átökum við Kína á enn stærri skala. Það sem Parenti og aðrir líta á sem einhvers konar andheimsvaldsstefnu er í raun ný hnattræn heimsveldisstefna bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, sem miðar að því að snúa við hnignun bandarískra yfirráða og sigra Kína.
Þessi stefnubreyting nýtur mikils stuðnings bæði innan MAGA hreyfingarinnar og þeirra hluta einokunarauðvaldsins, sérstaklega í hátækni-, einkafjárfestinga- og orkugeirunum, sem eru samstíga lýðskrumskenndri stjórn hans. Eins og hinn frægi indverski marxíski hagfræðingur Prabhat Patnaik hefur bent á, er utanríkisstefna Trumps hvorki andveldissinnuð né hugsunarlaus heldur er best lýst sem „endurreisnaráætlun heimsvaldastefnunnar“.8
Þjóðernispopúlíska MAGA hreyfingin byggir á kynþáttamiðaðri heimssýn þar sem Bandaríkin eru talin vera hvítt kristið þjóðríki með örlagahlutverk. Samkvæmt þessu sjónarhorni náðu Bandaríkin þeirri stöðu að vera „þjóð númer eitt undir Guði“ á tuttugustu öldinni, en voru síðan veikluð bæði utan frá og innan, sem kallar á endurreisn glataðrar stöðu.
Það er engin tilviljun að Trump hengdi upp mynd af James K. Polk, ellefta forseta Bandaríkjanna, í Oval Office í mars 2025. Polk stýrði stærstu landtöku í sögu Bandaríkjanna í gegnum Mexíkó-Bandaríkjastríðið, þar sem Washington tók yfir meira en fimm hundruð þúsund ferkílómetra af landi, þar á meðal Kaliforníu og stóran hluta suðvesturríkjanna, á meðan Texas var innlimað og yfirráð fengin yfir umdeildum svæðum í Norðvesturhluta landsins í gegnum Oregon-sáttmálann.9 Hrokafull markmið Trumps um að innlima Grænland, endurheimta Panamaskurðinn og jafnvel (þó ólíklegra sé) að gera Kanada að fimmtugasta og fyrsta ríki Bandaríkjanna – að ógleymdu því að endurskíra Mexíkóflóa Ameríkuflóa – miða öll að því að endurvekja anda „hins rísandi bandaríska heimsveldis“.10
Til að skilja heimsvaldastefnu MAGA stjórnarinnar er nauðsynlegt að skoða „Trump-kenninguna“. Venjulega eru kenningar Bandaríkjaforseta um utanríkismál dregnar fram og útskýrðar af fjölmiðlum á grundvelli yfirlýsinga Hvíta hússins um mikilvæg utanríkismál. Hins vegar var Trump-kenningin að fullu sett fram innan frá af leiðandi MAGA-hugmyndafræðingi, Michael Anton, sem var meðlimur bandaríska þjóðaröryggisráðsins og aðstoðarmaður forsetans í stefnumótandi samskiptum frá febrúar 2017 til apríl 2018. Hann er nú forstöðumaður stefnumótunar í utanríkisráðuneytinu, staða jafngild aðstoðarutanríkisráðherra. Á fyrsta kjörtímabili Trumps var Anton greinilega falið það verkefni – þegar hann var ekki lengur í beinni vinnu hjá Hvíta húsinu – að gefa samhengi fjölmörgum, að því er virtist mótsagnakenndum yfirlýsingum Trumps um utanríkismál.
Árið 2019, á meðan hann starfaði sem fyrirlesari og rannsóknarfélagi við MAGA-ráðið Hillsdale College í Michigan, birti Anton grein í Foreign Policy byggða á fyrirlestri við Princeton háskóla undir heitinu „Trump kenningin“ sem átti eftir að verða hálfopinber yfirlýsing um heildarstefnu MAGA stjórnarinnar.11 Verkefni Antons var að skilgreina „Bandaríkin fyrst“ stefnu Trumps sem stefnu sem væri í samræmi við þjóðernispopúlisma og and-alþjóðahyggju en þó nægilega stríðsgjörn til að teljast ný árásargjörn hnattræn stefna. Hún fól því í sér það sem var kallað „prinsippföst raunsæisstefna“, sem byggði á þjóðarhagsmunum, í samræmi við íhaldssama túlkun á hugmyndum hugsuða eins og Niccolo Machiavelli og Thomas Hobbes. Utanríkis- og hernaðarstefnu Trumps var lýst af Anton í „Trump kenningunni“ sem and-heimsveldissinnaðri af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi væru heimsveldi í eðli sínu „fjölþjóða“ og stefna Trumps væri algjörlega andvíg fjölþjóða sýn á bandaríska verkefnið. Í öðru lagi væri heimsveldisstefna, eins og nýíhaldsmenn stunduðu hana, tengd hnattvæðingu, en Trump-kenningin væri andstæða frjálslyndrar hnattvæðingar. Hnattvæðing er í MAGA-hugmyndafræðinni talin gagnast vaxandi stórveldum, eins og Kína, á kostnað rótgróins stórveldis eins og Bandaríkjanna. Trump kenningin, útskýrði Anton, var því sjálfri sér samkvæm þjóðernishyggja á öllum sviðum: Sigurþjóðirnar fá ránsfenginn.12
Slík sjálfri sér samkvæm þjóðernishyggja var sögð vera í fullu samræmi við „mannlegt eðli“. Ef Aristóteles hefði sagt – samkvæmt Anton – að hinar þrjár pólitísku einingar væru „ættbálkurinn [þjóðerni], polis [eða ‘borgríkið’] og heimsveldið“, þá lagði Trump áherslu á bandarískt þjóðerni og bandaríska ríkið í útvíkkuðu formi á alþjóðavettvangi, og dró úr mikilvægi fjölþjóðlegs heimsveldis, og gerði þannig Bandaríkin mikil á ný. Að þessu leyti hafði Trump-kenningin fjórar stoðir: (1) þjóðernispopúlisma, (2) höfnun á frjálslyndri alþjóðahyggju, (3) samkvæma þjóðernishyggju fyrir öll lönd, og (4) endurkomu þjóðarinnar í einsleitan „eðlileika“ hins klassíska „þjóðernis og borgríkis“ – andstætt fjölbreyttum karakter nútíma fjölþjóðlegs heimsveldis (og heimsins í heild). Fjórða stoðin fól þannig í sér kynþátta- og þjóðernislega skilgreiningu á þjóðar-sjálfskennd, sem undirliggjandi kynþáttaþjóðernishyggju. Eins og í tilfelli Thrasymachus í Ríkinu eftir Plató, var siðferðilegur grundvöllur Trump-kenningarinnar skýr: réttlæti er sama sem „hagsmunir hins sterkari“.13
Efnahagsleg heimsvaldastefna og Trump-kenningin
Þann 2. apríl 2025 lagði Trump, í því sem hann kallaði „yfirlýsingu um efnahagslegt sjálfstæði“, með því að nota neyðarheimildir, 10 prósenta tolla á öll lönd heims, með hærri tollum á um 60 önnur lönd eða viðskiptabandalög. Þetta fól í sér ný tollagjöld upp á 34 prósent á Kína (ofan á fyrri 20 prósent sem gerði það að 54 prósenta tolli), 46 prósent á Víetnam og 20 prósent á Evrópusambandið. Eftir að Kína tilkynnti um gagntoll hækkaði Trump uppsafnaða tollahækkun á Kína í 104 prósent, og síðan, í frekari stigmögnun, í 145 prósent. Í stríðslegri yfirlýsingu sagði Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að hvert það land sem kýs að „hefna sín“ eða endurgjalda nýju bandarísku tollana verði talið ábyrgt fyrir „stigmögnun“, sem leiði til þess að Bandaríkin bregðist við með því að fara upp stigmögnunarstigann. Aðgerðir Trump stjórnarinnar eru að skapa alþjóðlegt viðskipta- og gjaldmiðilsstríð – alþjóðlega efnahagskreppu. Ný MAGA tollastefna skapaði ótta á Wall Street, sem hafði þangað til sýnt embætisrekstri hans mikinn skilning, og virtist kljúfa fjármálaelítuna í sundur þar sem verðbréf hrundu. Þetta neyddi Trump til að fresta sumum tollum, en á sama tíma hækkaði hann þá á Kína. Trump tollarnir voru reiknaðir út frá því sem þurfti til að skapa tvíhliða viðskiptajöfnuð við hvert land – tillaga sem hafði engan beinan efnahagslegan rökstuðning en veitti stjórninni gróft vopn til að ná víðtækari markmiðum sínum.14
[*** Hér er sleppt kafla með nánari greiningu á tollapólitík Trumpstjónar og afleiðingum hennar]
Nýfasismi og heimsveldið
Gríðarlegar breytingar á utanríkis- og hernaðarstefnu Bandaríkjanna sem innleiddar eru undir Trump-kenningunni eiga rætur sínar að rekja til nýrra stéttatengsla sem tengjast nýfasisma MAGA-hreyfingarinnar og nánum – samt mótsagnakenndum – tengslum hennar við ráðandi milljarðamæringastétt, sérstaklega í hátækni-, einkafjárfestingar- og olíugeirunum. Stéttargrundvöllur fasismans í marxískri kenningu liggur alltaf í bandalagi milli einokunarauðmagns og lægri millistéttarinnar. Sú síðarnefnda samanstendur af smáatvinnurekendum, smáleigusölum og lágstéttarstjórnendum fyrirtækja, ásamt trúaröfgamönnum og smábændum í dreifbýli. Hún nær einnig til sumra forréttindameiri hluta verkalýðsstéttarinnar. Lægri millistéttin er hlutfallslega hvít og höll undir kynþáttahyggju.
Trump dró til sín flesta þá kjósendur í forsetakosningunum 2024 sem höfðu minna en fjögurra ára hærri-skóla gráðu [college degree], hópur sem nær yfir meirihluta bæði lægri millistéttar og verkalýðsstéttarinnar. Sömu útgönguspár sýna að Trump vann bæði lægri millistéttina og verkalýðsstéttina, miðað við tekjur, en tapaði meðal fátækustu kjósendanna. Milljónir þeirra sem höfðu kosið Demókrata árið 2020, aðallega úr verkalýðsstéttinni, völdu „Flokk ekki-kjósenda“ árið 2024.27 Tryggi stuðningshópur Trumps er áfram lægri millistéttin, sem nær einnig til forréttindameiri verkamanna.
Sögulega séð er lægri millistéttin eða smáborgarastéttin ekki aðeins hneigð til hvítrar yfirburðahyggju heldur er hún einnig feðraveldissinnuð og íhaldssöm hvað varðar kyn- og kyngervissambönd. Hún myndar varðsveit kapítalíska kerfisins og er gjarnan virkjuð af fasískum stjórnvöldum á grundvelli eigin innbyggðrar hugmyndafræði, sem tengist hefnigjarnri þjóðernishyggju sem miðar að því að gera tiltekið þjóðríki mikið aftur. Ernst Bloch, sem skrifaði um nasista Þýskalands á fjórða áratugnum, sá slíka hópa einkennast af afturhaldssamri „ekki-samtímahyggju“, sem miðaði að endurheimt hugsjónakenndrar arískar fortíðar.28
Eins og Phil A. Neel hefur skrifað, varðandi stéttargrundvöll MAGA þjóðernispopúlisma í Bandaríkjunum í bók sinni Hinterland: America’s New Landscape of Class and Conflict,
Repúblikanaflokkurinn starfar á nokkuð samhverfum grunni sem byggður er upp meðal hvítra undirelíta í dreifbýli og fjölda smáborgaralegra hagsmuna í borgum eða jaðarsvæðum borga…. Í efnislegum skilningi hefur öfgahægrið tilhneigingu til að safnast saman meðal hagsmuna smáeigenda eða sjálfstætt starfandi en samt tiltölulega vel stæðra verkamanna í dreifbýlinu…. Efnislegur kjarni öfgahægrisins er… hvítleitt úthverfið [utan við meginborgirnar og úthverfin]… sem virkar sem tenging milli borgarsvæða og dreifbýlis, sem gerir auðugri landeigendum, atvinnurekendum, lögreglumönnum, hermönnum eða sjálfstætt starfandi verktökum kleift að ráða fólk frá aðliggjandi svæðum þar sem ríkir alger fátækt meðal hvítra…. Ofbeldi gegnir lykilhlutverki hér…. Hægt er að endurreisa heiminn… með frelsandi ofbeldisverkum, sem geta þvingað fram hrun og flýtt fyrir komu „Hins sanna samfélags“.29
Fjöldahreyfingin MAGA, sem á rætur sínar að rekja til lægri millistéttar/smáeigenda, er fyrst og fremst knúin áfram hugmyndafræðilega af því sem hún kallar „Kalda borgarastyrjöld“ gegn frjálslyndum elítum efri millistéttarinnar fyrir ofan og gegn verkalýðsstéttinni neðan við. Þetta á rætur sínar í öfgaþjóðernislegum skoðunum hennar; tengslum hennar við „trú þrælaeigenda“ hvítra evangelista; dýrkun hennar á fyrri landvinninga-útþenslu Bandaríkjanna; tíðri upphafningu á öfgafullu ofbeldi; kynþáttahaturs- og þjóðrembutilhneigingum hennar; og sterku feðraveldisviðhorfi – sem allt er í fullu samræmi við hugsunina um „Bandaríkin fyrst“ í Trump-kenningunni.30 Þetta felur í sér á alþjóðavettvangi stuðning við niðurrif bandarískrar þróunaraðstoðar (með því að leggja niður Bandarísku alþjóðlegu þróunarstofnunina, eða USAID) og andstöðu við staðgengilsstríðið í Úkraínu. Úkraínustríðið er talið þjóna aðallega evrópskum elítum, en átök þeirra við Rússland gagnast ekki Bandaríkjunum, á meðan það beinir Washington frá helstu asísku óvinum sínum: Kína og íslamska heiminum.31
Kristin þjóðernishyggja evangelíska MAGA-heimsins hefur leitt til sterks stuðnings við bandalag Trumps og Benjamins Netanyahu um algjöra útrýmingu/fjarlægingu Palestínumanna frá Gaza, þar sem Bandaríkin eiga að fá ýmis efnahagsleg réttindi, og jafnvel eignarhald – í tilviki draumsýnar Trumps um bandarískt Riviera-hótel – ásamt forgangssamningum um olíu á Gaza-svæðinu.32
Eins og Georg Lukács benti á í tengslum við mun eldri sögulega persónu:
Hitler hafnaði gömlum áætlunum Hohenzollern um nýlendustofnun og landvinninga. Hann gagnrýndi sérstaklega harðlega markmiðið um að þvinga hernumdar þjóðir til að samlagast með þýskvæðingu (germaníseringu). Það sem hann mælti með var útrýming. Fólki var ekki ljóst, útskýrði hann, „að þýskvæðingu er aðeins hægt að framkvæma á landinu sjálfu, aldrei á manneskjum.“ Það er að segja, þýska ríkið ætti að vaxa, leggja undir sig frjósöm lönd og reka út eða útrýma íbúum þeirra.33
Á svipaðan hátt heldur hin áberandi MAGA-hugveita, Center for Renewing America (CRA), sem stofnuð var af Russell Vought, framkvæmdastjóra skrifstofu stjórnunar og fjárlaga Trumps, því fram að Palestínumenn geti ekki samlagast í Ísrael eða Bandaríkjunum og því verði að útrýma/fjarlægja þá, á meðan nauðsynlegt sé að leggja undir sig land þeirra í heild sinni svo það verði numið af „siðmenntaðri“ þjóðum. Að sögn CRA sjálfs eru það „menningarhættir Palestínumanna“ sem skortir öll almenn gildi og, „aðallega beinast að kvörtunum gegn Ísrael, Gyðingum og Bandaríkjunum, í samfélagi sem hneigist í grundvallaratriðum í átt að ofbeldi og öfgum“ og „nútíma dauðadýrkun.“ Þeir eru því „ósamrýmanlegir“ „okkar gildum, sem eiga rætur í vestrænni sögu og biblíulegri hugsun.“34
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Trumps, upphefur oft krossferðir kristinna gegn íslam á tólftu öld og leggur til að Trump ætti að gerast krossferðaforseti. Hegseth er með húðflúr á brjóstinu með Jerúsalemkrossinum, einnig þekktum sem Krossferðakrossinum, ásamt húðflúri á upphandlegg með orustuhrópi krossfaranna. Bók hans American Crusade inniheldur kafla um „Gerum krossfarann mikinn á ný,“ sem vísar til stríðs gegn íslam – krossferð sem á að útvíkka enn frekar til stríðs gegn „vinstristefnu“ og gegn öllum skoðunum sem líta kristna sem „vantrúaða.“35
Í nóvember 2023 hóf jemenska stjórnin undir forystu Ansar Allah að skjóta á skip tengd Ísrael í Rauðahafinu sem viðbrögð við þjóðarmorði Ísraels í Palestínu. Í kjölfar „hefndaraðgerða“ Bandaríkjanna og Breta var þetta útvíkkað til skipa tengdum Bandaríkjunum og Bretlandi
Stjórn Trumps hóf gríðarlegar loftárásir í Jemen 15. mars 2025 og lofaði „ótakmörkuðum stríðsátökum“, á sama tíma og slakað var á sumum takmörkunum á slíkum árásum sem stjórn Bidens hafði innleitt, sem gerði það að mun banvænni stríðsrekstri gegn almennum borgurum. Trump lofaði að Ansar Allah, sem hann vísaði til sem „Houthi-villimenn“, yrðu „gjörsamlega þurrkuð út“.36
Opinber dýrkun Trumps á Polk, sem var hlynntur bæði þrælahaldi og heimsveldi og þekktastur fyrir mexíkósk-bandaríska stríðið, er í samræmi við afturhaldssama MAGA-hugmyndafræðina. Það er í sama heimsvaldasinnaða anda þegar stjórn hans lýsir yfir að Bandaríkin þurfi að endurheimta Panamaskurðinn og eignast Grænland „með einum eða öðrum hætti“.37 MAGA-útgáfur halda því fram að afsal Bandaríkjanna á Panamaskurðinum til Panama hafi ekki verið löglegt af hálfu Panama, sem geri það löglegt fyrir Bandaríkin að yfirtaka hann aftur. Frammi fyrir þessum hótunum hefur Panama gert ýmsar tilslakanir, dregið sig út úr Belti og braut framtakinu [kínverska] og sett spurningarmerki við stjórnun kínverskra fyrirtækja á skurðinum. Hins vegar hélt Washington Trumps því fram að þetta væri ekki nóg og að Bandaríkin þyrftu beina eignaraðild og stjórn á Panamaskurðssvæðinu, og Trump fyrirskipaði bandaríska hernum að skipuleggja innrás til að taka svæðið yfir. Í apríl 2025 sömdu Bandaríkin við Panama um að leyfa þeim að setja aftur upp allar fyrri herstöðvar sínar á Panamaskurðssvæðinu og er að flytja fjölda hermanna í þessar stöðvar, á sama tíma og þau neita að viðurkenna eignarhald Panama á skurðinum. Panamískir gagnrýnendur kalla þetta „dulbúna innrás“ þar sem Panamaskurðssvæðið hefur verið tekið yfir af bandaríska hernum „án þess að hleypt sé af skoti“.38
Á sama tíma beitir stjórn Trumps alls kyns þrýstingi til að eignast Grænland, þar á meðal hugsanlegum kauptilboðum til íbúanna. Í MAGA-hugmyndafræðinni er því haldið fram að þar sem Grænland sé á vesturhveli jarðar falli það undir áhrifasvæði Bandaríkjanna eins og það er skilgreint í Monroe-kenningunni. Því ætti það ekki að vera sjálfstjórnarsvæði undir Danmörku. Sagt er að gríðarlegar auðlindir Grænlands og mikilvæg staðsetning geri það tilvalið fyrir yfirtöku Bandaríkjanna, sem myndi skapa „Nýja bandaríska norðurslóðaöld“.39
Í áframhaldandi tilraunum til að steypa Bólivaríska lýðveldinu í Venesúela hefur stjórn Trumps hótað að leggja 25 prósenta tolla á öll lönd í heiminum sem kaupa olíu frá Venesúela.40 Undir forystu Rubio er utanríkisráðuneytið að setja þvingunaraðgerðir á lönd sem gerðu samninga um kúbverska læknisþjónustu, með því að neita vegabréfsáritunum til núverandi og fyrrverandi embættismanna sem vinna með eða styðja kúbverska lækna. Kúba er með yfir tuttugu og fjögur þúsund lækna starfandi í fimmtíu og sex löndum um allan heim, aðallega í hinu hnattræna suðri, sem veita nauðsynlega læknisaðstoð. Washington heldur því fáránlega fram að þessir læknar séu „nauðungarverkamenn“ sem tákni „mansal“.41
Hvít yfirburðahyggja sem er innbyggð í MAGA utanríkisstefnu Trumps er sérstaklega augljós í árásum hennar á suður-afrísku ríkisstjórnina. Í kjölfar suður-afrískra umbótalaga um landeignir sem leitast við að takast á við afleiðingar nýlendustefnu og aðskilnaðarstefnu í landi þar sem hvítur minnihluti, sem telur um 7 prósent íbúanna, á enn um 72 prósent landsins, sökuðu Trump, Rubio og Elon Musk Suður-Afríku um kynþáttafordóma gegn hvítum. Þessu fylgdi gagnrýni á Suður-Afríku fyrir hlutverk sitt í að færa rök fyrir því fyrir Alþjóðadómstólnum að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð í Gaza. Í bráðabirgðaúrskurði hafði Alþjóðadómstóllinn úrskurðað Suður-Afríku í hag og gegn Ísrael.42
Trump hélt því ranglega fram að land væri tekið eignarnámi frá hvítum án bóta eða lagalegs úrræðis, og hélt því fram að svokallaðir hvítir flóttamenn frá Suður-Afríku væru „fórnarlömb óréttlátrar kynþáttamismununar“ og væru velkomnir í Bandaríkjunum. Rubio fylgdi í kjölfarið með því að ásaka Suður-Afríku um að „taka eignarnámi einkaeign með óréttmætum hætti“. Musk, sem fæddist og ólst upp í aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku, hefur ýtt undir goðsögn um „þjóðarmorð“ gegn hvítum bændum, og vísaði ranglega til „kynþáttabundinna eignarhaldslaga gegn hvítum“ og „stórfelldra morða á [hvítum] bændum“. Byggt á þessum ósönnu ásökunum gaf Trump út framkvæmdatilskipun sem stöðvaði alla fjárhagsaðstoð til Suður-Afríku, sem hafði að mestu farið í baráttu gegn HIV/alnæmi. Sendiherra Suður-Afríku í Bandaríkjunum, Ebrahim Rasool, var vísað úr landi af Rubio eftir að MAGA netfréttasíðan Breitbart greindi frá fyrirlestri sem Rasool hélt á veffundi skipulögðum af suður-afrískri hugveitu. Í fyrirlestri sínum hafði Rasool, samkvæmt orðum Associated Press, talað „á fræðilegu máli um aðgerðir stjórnar Trumps gegn fjölbreytileika- og jafnréttisáætlunum og innflytjendum og nefnt möguleikann á Bandaríkjum þar sem hvítt fólk yrði brátt ekki lengur í meirihluta“.43
Sendiherraefni Trumps fyrir Suður-Afríku, L. Brent Bozell III, er frændi íhaldsritstjóra National Review, Williams F. Buckley Jr., og stofnandi hægrisinnaða Media Research Center. Bozell III er hvítur yfirburðasinni þekktur fyrir vörn sína fyrir aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku á meðan hann var forseti National Conservative Political Action Committee, en á þeim tíma lýsti hann því yfir að hann væri „stoltur af því að gerast meðlimur í bandalaginu gegn hryðjuverkum ANC [African National Congress]“. Bozell III kom með kynþáttafordómafulla yfirlýsingu um að Barack Obama Bandaríkjaforseti „liti út eins og horaður krakkhaus úr fátækrahverfi“. Sonur Bozell III, L. Brent Bozell IV, var einn af MAGA-stuðningsmönnunum sem var handtekinn fyrir að storma þinghúsið 6. janúar 2021.44
MAGA-hugmyndafræðin sýnir sig líka í úrsögn stjórnar Trumps úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsbreytingar frá 2015 og úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, með þeirri fullyrðingu að þessi skref væru nauðsynleg til að endurheimta bandarískt „fullveldi“.45 Heimsvaldasinnuð „Bandaríkin fyrst“ hugmyndafræði Trumps nær út fyrir landamærin með því að krefjast þess að evrópsk fyrirtæki hlíti framkvæmdatilskipunum hans um að fjarlægja öll ákvæði um fjölbreytileika, jafnrétti og þátttöku (DEI) ef þau vilja eiga viðskipti við Bandaríkin.46
Öfgakennd eðli þessara afstöðu hefur fjarlægt stjórn Trumps frá Council on Foreign Relations (CFR), sem er þekkt sem „heimsveldisheilinn“ og sem „hugveita Wall Street“. Tvíflokka hugveitan CFR hefur verið ráðandi afl í geopólitískri stefnu Bandaríkjanna allt frá seinni heimsstyrjöldinni.47 Í takt við almenna MAGA-hugsun sakaði Hegseth CFR um frjálslynda hnattvæðingu í bréfi þar sem hann sagði sig úr samtökunum.48 James M. Lindsay, sem skrifar fyrir CFR út frá hnattvæðingarsjónarmiði, hefur gagnrýnt Trump-kenninguna sem „truflandi“ afturhvarf til „valdastjórnmála og áhrifasvæða 19. aldarinnar“. Samkvæmt Lindsay er Trump sekur um að taka upp „Thúkýdídeska heimssýn – þar sem ‘hinir sterku gera það sem þeir geta og hinir veiku þola það sem þeir verða’“. Frjálslyndir hnattvæðingarsinnar eins og Lindsay eru ekki á móti heildarmarkmiðum hnattrænna valdastjórnmála Trumps að þessu leyti. Þess í stað kvarta þeir yfir því að hún sé of klunnaleg og óskilvirk í samanburði við lævísari aðferðir hefðbundinna stórstjórnmálamanna bandaríska heimsveldisins.49
Trump-kenningin og stríðið gegn Kína
Árin 2010-2011 kynnti Obama-stjórnin „Snúning til Asíu“, sem miðaði að hernaðarlegri og hagfræðilegri umkringingu Kína. Á þeim tíma vonuðust Bandaríkin þó enn eftir því að „Gorbatsjov“ myndi birtast í Kína sem myndi standa fyrir afgerandi breytingum í átt að kapítalisma, grafa undan Kommúnistaflokknum og gera Bandaríkjunum kleift að endurheimta yfirburði sína í Asíu. Árið 2015 var orðið ljóst að þessar vonir bandarískra heimsvaldastefnumanna höfðu brugðist og að uppgangur Xi Jinping sem formanns Kommúnistaflokksins og forseta Alþýðulýðveldisins Kína sýndi endurnýjun „sósíalisma með kínverskum einkennum“. Þess vegna voru það repúblikanskir stefnumótendur í kringum Trump í fyrstu stjórn hans sem hófu nýtt kalda stríð gegn Kína, samhliða tilraunum til slökunarstefnu í samskiptum við Rússland, allt miðað að því að halda aftur af og sigra Peking.50
Á tímabili Biden-stjórnarinnar eftir forsetakosningarnar 2020 varð breyting aftur til langtíma heimsvaldastefnu um austurstækkun NATO, til Úkraínu. Grunnurinn að því hafði þegar verið lagður með hægrisinnuðu Maidan-byltingunni sem Bandaríkin skipulögðu og leiddi til falls lýðræðislega kjörins forseta, Viktors Janúkovitsj, árið 2014, og borgarastyrjöld í Úkraínu sem kom í kjölfarið. Árið 2022, eftir átta ár af blóðsúthellingum og hunsun Kænugarðs á Minsk-friðarsamningunum sem geraðu Donbass að sjálfstjórnarhéraði, þróaðist borgarastyrjöldin í Úkraínu yfir í fullskala staðgengilsstríð milli NATO og Rússlands, þegar Moskva greip inn í málefni rússneskumælandi Donbass á landamærum sínum og kom í veg fyrir árás sem stjórnin í Kænugarði var að undirbúa.51 Engu að síður, jafnvel þótt Bandaríkin væru þátttakendur í stóru staðgengilsstríði gegn Rússlandi í Úkraínu, þar sem Bandaríkin/NATO veittu gríðarlega hernaðaraðstoð og stuðning við birgðaflutninga, hélt Biden-stjórnin áfram að ýta fram nýja kalda stríðinu gegn Kína sem Trump hóf og ógnaði með því Rússlandi og Kína samtímis.52
Með endurkjöri Trumps árið 2024 hefur stefna Bandaríkjanna nú breyst aftur í tilraunir til að binda enda á staðgengilsstríð Bandaríkjanna við Rússland í Úkraínu, til að einbeita sér að því eina markmiði stórveldisstefnunnar að hefta uppgang Kína. Í því sem hefur verið kallað „öfug Kissinger-stefna“ hefur Trump-stjórnin enn á ný leitast við að koma á slökunarstefnu í samskiptum við Rússland í tilraun til að sundra þessum tveimur ofurveldum Evrasíu.53 MAGA-stjórnin heyr nýtt Kalda stríðið gegn Kína á sífellt árásargjarnari hátt, eykur hernaðarútgjöld sín, færir þjóðarauðlindir frá öðrum forgangsverkefnum erlendis og innanlands og vopnar öll efnahagsleg og tæknileg úrræði sín, ásamt nýrri McCarthy-stefnu. Þetta er að þróast sem hluti af stærri kynþáttafordómafullri herferð gegn öllum innflytjendum, „útlendingum“ og stuðningsmönnum Palestínu, Kína og almennt fólki utan Vesturlanda, ásamt pólitískum brottvísunum – í sumum tilfellum til fangabúða erlendis.54
Rubio, harður andkommúnískur hugmyndafræðingur, lýsti því yfir í þingnefndarfundum um tilnefningu sína að Kína hefði „svindlað til að öðlast stöðu risaveldis“ á kostnað Bandaríkjanna. Hegseth hefur lýst því yfir að „kommúníska Kína… lifir á harðstjórn, þjófnaði og blekkingum“ og sé aðalóvinur Bandaríkjanna. Sem varnarmálaráðherra hefur hann lýst því yfir að Washington sé „undirbúið“ undir stríð við Peking, sem það vill þó að sögn enn forðast. Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, sem var rekinn úr stöðu sinni í maí vegna Signal-hneykslisins, vísaði beint til „Kalda stríðsins“ við Kína og lýsti „Kommúnistaflokki Kína“ sem helsta óvini Washington.55
Til að skilja grundvallarþætti Kalda stríðs Bandaríkjanna gegn Kína og hættuna á heitu stríði sem það skapar er mikilvægt að skilja eðli gagnárásarstefnunnar og hugmyndina um takmarkað kjarnorkustríð milli risavelda… Gagnárásarkenningin hefur sem meginmarkmið að þróa getu til fyrsta höggs eða kjarnorkuyfirburði (sem myndi gera Washington kleift að útrýma í fyrsta höggi getu hins aðilans til að svara fyrir sig).
[*** Hér er sleppt útskýrandi kafla um bandaríska stríðsstrategíu þar sem helstu strategistar, svo sem Colby varavarnarmálaráðherra, þróa áætlanir, í fullri alvöru um að Bandaríkin heyi „takmarkað kjarnorkustríð“ (limited nuclear war) við Kína, og hafi sigur]
Óþarfi er að taka fram að þótt hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna séu að jafnaði settar fram og orðaðar sem „varnir“, fylgir því óhjákvæmilega yfirlýsing um að Bandaríkin séu, samkvæmt opinberri kjarnorkustefnu sinni, reiðubúin að greiða „fyrsta högg“, framkvæma fyrstu kjarnorkuárásina, sem sé alltaf „á borðinu“. Eins og Elon Musk, stærsti verktaki Pentagon í hernaðarmálum, orðaði það í viðtali við Trump árið 2024, „kjarnorkuhelför er ekki eins hræðileg og fólk heldur.“ Hann bætti við: „Hiroshima og Nagasaki voru sprengdar en nú eru þær aftur fullar borgir.“ Trump tók undir og svaraði: „Það er frábært, það er frábært.“64
Bandaríkin fyrst/Amerika Über Alles
Noam Chomsky hélt því fram sem frægt er að áróður í lýðræðissamfélögum þyrfti að vera flóknari en í einræðisríkjum, þar sem hann fer í fyrrnefndu ríkjunum fram bak við tjöldin og reiðir sig á djúpt innrætt gildismat og samverkun fjölmiðla, með því að nota allar þær aðferðir sem þróaðar hafa verið í auglýsingum og markaðssetningu, á meðan hann gæti verið nokkuð grófur og opinskár í þeim síðarnefndu, framfylgt með kylfunni.68 Engu að síður er áróður í fasista-stíl gegn heilum þjóðernishópum og þjóðum, eins og gerðist í Þýskalandi Adolfs Hitlers, líklega hvað áhrifaríkastur þegar hann er settur fram á sinn grófasta og bersýnilegasta hátt, og reiðir sig ekki svo mikið á kylfu heldur á að fá fjöldann til að samsama sig honum opinskátt, jafnvel þótt fólk geri sér grein fyrir mannfyrirlitningu hans og þvingandi eðli, í krafti „uppsafnaðrar reiði“ sem kapítalisminn hefur skapað. Þetta verður þá hápunktur óröklegrar hugsunar. Eins og Bloch skrifaði voru brúnskyrturnar algjörlega „heiðarlegar í einu: í listinni að segja ekki sannleikann“, ósvífin flótti frá því röklega.69
Gott dæmi um slíkan órökrænan áróður er hið alræmda nasistaveggspjald frá nóvember 1933 sem á stóð „Með Adolf Hitler, Já fyrir jafnrétti og friði.“70 Versalasamningurinn frá 1919 hafði takmarkað þýska herinn við hundrað þúsund hermenn. Þegar Þjóðabandalagið neitaði að verða við kröfum Hitlers um að endurvopna landið, hélt Hitler þjóðaratkvæðagreiðslu 12. nóvember 1933, á fimmtándu ártíð vopnahlésins sem batt enda á fyrri heimsstyrjöldina. Slagorð nasista, eins og á veggspjaldinu, var ákall um að styðja Hitler fyrir „Jafnrétti og friði.“ Þjóðin var beðin um að styðja Führer í kröfum hans um jafnrétti fyrir þýsku þjóðina hvað varðar getu hennar til að fara í stríð, ásamt meðfylgjandi loforði um frið í gegnum styrk. Allt þetta var hluti af tilraun til að gera Þýskaland aftur mikið eftir ósigur þess í fyrri heimsstyrjöldinni og niðurlæginguna sem fylgdi Versalasamningnum.71
Áróður snýst ekki eingöngu um lygar, hann getur einnig átt sér stað þegar sannleikskröfur eru algjörlega lagðar til hliðar. Innan nútímaheimspeki er hugtakið „bull“ [bullshit] talið vera form „sannfærandi samskipta, aðgreint frá lygum, sem tekur ekkert tillit til sannleika, þekkingar eða sönnunargagna.“ Í því að binda enda á rökræna umræðu er hreint bull oft áhrifaríkara en hefðbundinn áróður, jafnvel af Orwellskum toga, þar sem það snýr ekki einfaldlega sannleikanum við, heldur sýnir opinskáa fyrirlitningu á sannleika af hvaða tagi sem er og auglýsir vöðvastælt, hæðnislegt, undanbragða sjónarhorn sitt.72 Þannig er það öflugt vopn órökrænnar hugsunar. Afneitunaraðilar loftslagsbreytinga reiða sig oft á bull í þessum skilningi til að berjast gegn vísindum og sýna stolta afneitun sína á skynseminni sjálfri.73 Þegar Trump tilkynnti um „Frelsunardag“ tolla sagði hann að „í áratugi hefur land okkar verið rænt, rústað, nauðgað og rænt af þjóðum nær og fjær, vinum og óvinum jafnt,“ og notaði orðræðu sem var svo ýkt og órökrétt að hana má flokka ekki svo mikið sem lygi heldur sem hreint bull. Hún gerði ekki einu sinni tilraun til að vera nákvæm lýsing á sannleikanum, heldur sýndi fyrirlitningarfullt viðhorf gagnvart öllum heiminum – viðhorf sem, eins og marxíski hagfræðingurinn Paul A. Baran sagði í tengslum við persónu Fyodors Dostojevskí, Neðanjarðarmanninn, „ælir skynsemi.“74
Þegar Trump lýsti því yfir í kosningunum 2024 í Dearborn, Michigan, að „Ég er friðarframbjóðandinn“, og hélt áfram með því að segja „Ég er friður“, tóku sumir hann einfaldlega bókstaflega, án þess að átta sig á að þetta var áróðursyfirlýsing frá leiðtoga nýfasískrar, ofurþjóðernissinnaðrar, kynþáttahaturshreyfingar, studdum af íhaldsömustu geirum bandarísku yfirstéttarinnar.75 Í kosningabaráttu sinni gaf hann í skyn að hann hefði leynilega áætlun um að koma á friði í Gaza. Hann hóf að hrinda þessu í framkvæmd þegar hann kom í Hvíta húsið með því að leggja til, með Netanyahu, útrýmingu/fjarlægingu allra palestínskra íbúa Gaza: það er að segja, frið grafarinnar.
Sumir fyrrum vinstri menn eins og Parenti hafa haldið því fram að Trump sé „Bandaríkin fyrst einangrunarstefnumaður“ sem sé andvígur heimsveldi.76 Í raun er „Bandaríkin fyrst“ sögulega séð heimsvaldaslagorð, sem tengist meira merkinguð‘ nasistaslagorðsins Deutschland über alles („Þýskaland ofar öllu“) en sögulegri einangrunarstefnu Bandaríkjanna, sem sjálf er að mestu goðsögn. Deutschland über alles var tekið úr þýska þjóðsöngnum sem var tekinn upp á tímum Weimar lýðveldisins, þar sem það vísaði upphaflega til sameiningar Þýskalands. Það var endurtúlkað og gert að slagorði, vígvæddi þjóðsönginn í Þriðja ríki Hitlers, og stóð fyrir nokkurs konar augljós hlutverk Þýskalands til að stjórna Evrópu. Í nokkuð hliðstæðri sögulegri þróun var slagorðið „Bandaríkin fyrst“ kynnt af Woodrow Wilson til að standa fyrir hlutleysi Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni – rétt áður en Bandaríkin gengu inn í „Stríðið til að enda öll stríð“. Á fjórða áratugnum setti fjölmiðlakóngurinn William Randolph Hearst „Bandaríkin fyrst“ á forsíðu blaða sinna og fagnaði „miklu afrekum“ nasistastjórnarinnar í Þýskalandi, og tók Hearst sjálfur viðtal við Hitler. Charles Lindbergh, heimsfrægur flugmaður, varð formaður „Bandaríkin fyrst“ nefndarinnar á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og talsmaður yfirburða aríska kynstofnsins og gyðingahaturs. Honum var afhent orða af Hermann Göring hershöfðingja fyrir hönd Hitlers. Mótmælendabandalagið The Anti-Defamation League hvatti Trump til að hætta að nota „Bandaríkin fyrst“ slagorðið, í ljósi nasískrar sögu þess, en hann hélt áfram að nota það til að skilgreina utanríkisstefnu sína.77
Slagorð Trumps um „frið gegnum styrk“ á uppruna sinn að rekja til Rómaveldis. Sagt er að keisarinn Hadríanus hafi fyrstur notað það, en hann er þekktastur fyrir Hadríanusarmúrinn, sem var byggður í rómversku héraði Bretlands árið 122 e.Kr. Múrinn átti að hjálpa til við að verja landamæri Rómaveldis, á hápunkti útþenslu þess, gegn „innrásarmönnum“ barbaranna.78 Þegar hnignun heimsveldisins hefst, verður hugmyndin um innrásir barbara fljótt alls ráðandi, sem leiðir til krafna um byggingu landamæraveggja og gylltra hvelfinga. Órökrænt eðli Trump-kenningarinnar um endurnýjuð yfirráð Bandaríkjanna á heimsvísu í gegnum ágengna kynþáttaþjóðernishyggju bendir til þess sem István Mészáros kallaði „hugsanlega banvænasta stig heimsvaldastefnunnar“, tímabil kjarnorkuvopnaðs barbarisma.79
Árið 1935, á meðan nasistastjórnin var að festa sig í sessi, skrifaði Bloch í „Arfleifð okkar tíma“: „Við höfum í raun náð tromp-spili hér eftir hundrað ára sögu þýsku verkalýðshreyfingarinnar: skrímsli hefur orðið að veruleika og er að hlekkja öreigana við Þúsund ára ríkið, við fjármagnseign sem þjóðarsamfélag.“80 Árið 2025 er Bandaríkjunum ógnað af nýfasisma sem hefur gríðarlega þýðingu, þar sem „trompið“ hér – eftir langa sögu lýðræðislegrar baráttu sem á rætur sínar að rekja til verkalýðshreyfingar – er að „skrímsli hefur orðið að veruleika“, sem „hlekkjar“ verkafólk í auknum mæli við „fjármagnseign sem þjóðarsamfélag“ og við nýtt Kalda stríð gegn Kína og hinu hnattræna suðri.
Milljarðamæringastéttin í Bandaríkjunum hefur – samhliða stuðningi við þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum og hugsanlegt stríð við Kína – fært stuðning sinn frá frjálslyndu lýðræði til nýfasisma, eða í besta falli til bandalags nýfasisma og nýfrjálshyggju. Lykilhlutar auðmannastéttarinnar hafa virkjað lægri millistéttina á grundvelli þjóðernissinnaðrar, hefndargjarnrar hugmyndafræði, þar sem íbúar stærsta hluta heimsins [hnattræna Suðrið] eru taldir óvinir. Verið er að koma upp kerfum sem eiga að útrýma möguleikanum á lýðræðislegri fjöldauppreisn að neðan og viðsnúningi á eyðileggjandi þróun nútímans. Aðeins ein hreyfing á jörðinni er fær um að snúa þessum hættulegu og eyðileggjandi straumum við fyrir hönd mannkyns í heild: hin hnattræna hreyfing í átt að sósíalisma, sem er einnig óhjákvæmilega hreyfing gegn heimsvaldastefnu. Verstu mistök sem hægt væri að gera í þessari hörmulegu stöðu væru að vanmeta hættuna, eða umfang þeirrar byltingarsinnuðu mennsku baráttu sem nú er nauðsynleg.
Tilvísanir
- ↩ Christian Parenti, “Trump’s Real Crime Is Opposing Empire,” Compact, April 7, 2023.
- ↩ Détente with Russia as part of the launching of a New Cold War with China was central to the first Trump administration. See John Bellamy Foster, Trump in the White House (New York: Monthly Review Press, 2017), 50–52, 74–75.
- ↩ Trump has threatened to bomb Iran if it does not make a deal with the United States on its (nonexistent) nuclear weapons program, declaring in early April: “If they don’t make a deal, there will be bombing. It will be bombing the likes of which they have never seen before.”Doina Chiacu and David Ljunggren, “Trump Threatens Bombing if Iran Does Not Make Nuclear Deal,” Reuters, March 30, 2025; Chris Bambery, “Trump’s War Plans for Iran: Opening the Other Gates of Hell,” Counterfire, April 4, 2025.
- ↩ Leo Shane III, “Trump Promises $1 Trillion in Defense Spending for Next Year,” Defense News, April 8, 2025; Gisela Cernadas and John Bellamy Foster, “Actual U.S. Military Spending Reached $1.537 Trillion in 2022—More than Twice Acknowledged Level: New Estimates Based on U.S. National Accounts,” Monthly Review 75, no. 6 (November 2023): 18–26.
- ↩ On the “Age of Catastrophe,” 1914–1945, see Eric Hobsbawm, The Age of Extremes (New York: Vintage, 1994), Part I.
- ↩ Parenti, “Trump’s Real Crime Is Opposing Empire.”
- ↩ Jeff Heer, “Surprisingly Durable Myth of Donald Trump, Anti-Imperialist,” The Nation, April 17, 2023; John Bellamy Foster, “The New Cold War on China,” Monthly Review 73, no. 3 (July–August 2021): 1–20.
- ↩ Prabhat Patnaik, “Imperialism’s Revival Strategy,” People’s Democracy, March 2, 2025, peoplesdemocracy.in.
- ↩ Josh Dawsey, Vera Bergengruen, and Alexander Ward, “The Painting That Explains Trump’s Foreign Policy,” Wall Street Journal, March 13, 2025.
- ↩ R. W. Van Alstyne, The Rising American Empire (Oxford: Basil Blackwell, 1960).
- ↩ Michael Anton, “The Trump Doctrine: An Insider Explains the President’s Foreign Policy,” Foreign Policy, 232 (Spring 2019): 40–47.
- ↩ Anton, “The Trump Doctrine”; Amanda Taub, “The Trump Doctrine: The World Is a Zero-Sum Game,” New York Times, March 7, 2025
- ↩ Anton, “The Trump Doctrine”; Plato, Republic, trans. Francis MacDonald Cornford (New York: Oxford University Press, 1945), 14–22.
- ↩ Bryan Mena, “Key Takeaways from Trump’s ‘Liberation Day’ Tariffs,” CNN, April 2, 2025; Peter Foster and Sam Fleming, “Donald Trump Baffles Economists with Tariff Formula,” Financial Times, April 3, 2025; Nick Beams, “Trump’s ‘Reciprocal Tariffs’ Escalate Economic War Against the World,” World Socialist Web Site, April 3, 2025, wsws.org; Jack Izzo, “Posts Online Correctly Cracked the Formula for Trump’s Tariffs,” Snopes, April 3, 2025; Helen Davidson and Joana Partridge, “Trump Imposes New Tariffs on Dozens of Partners, Sparking Fresh Market Turmoil,” Guardian, April 9, 2025; Josh Boak, “Trump Backs Down on Most Reciprocal Tariffs for 90 Days, but Raises Rate on Chinese Imports to 125 Percent,” PBS News, April 9, 2025; Léonie Chao-Fong, Tom Ambrose, Graeme Wearden, and Kate Lamb, “US Markets Close with Steep Losses as Trump Tariffs Branded ‘Worst Self-Inflicted Wound’ by a Successful Economy,” Guardian, April 10, 2025.
- ↩ “Oren Cass,” American Compass, n.d.; Influence Watch, “American Compass,” n.d., influencewatch.org; Influence Watch, “Thomas D. Klingenstein Fund,” n.d.; Jason Wilson, “The Far Right Financier Giving Millions to the Republican Party to Fight ‘Woke Communists,’” Guardian, August 4, 2023; Thomas D. Klingenstein, “Winning the Cold Civil War,” Newsweek, September 8, 2021.
- ↩ “Where’s the Growth?,” American Compass, March 15, 2022, americancompass.org; Oren Cass, “Why Trump Is Right About Tariffs,” Wall Street Journal, October 27, 2023.
- ↩ “A Hard Break from China: Protecting the American Market from Subversion by the CCP,” American Compass, June 8, 2023; David Azerrad, “How to Put Woke Capital Out of Business,” American Compass, September 2, 2021; Vivek Ramaswamy, Woke, Inc.: Inside Corporate America’s Social Justice Scam (New York: Center Street, 2021).
- ↩ Peter Navarro, The Coming China Wars (New York: Financial Times Press, 2008), 203–5; Jacob Heilbrunn, “The Most Dangerous Man in the Trump World?,” Politico, February 12, 2007; John Bellamy Foster, Trump in the White House, 84–85; Alan Rappeport, “Trump’s Trade Advisor Pick, a China Hawk, Was Jailed over Jan. 6,” New York Times, December 4, 2024; D’Angelo Gore, “Independent Analyses Contradict Navarro’s $6 Trillion-Plus Tariff Revenue Estimate,” FactCheck, April 10, 2025, factcheck.org.
- ↩ David Randall, “Hudson Bay, Morgan Stanley, Took Positions in Trump Social Media Firm in Q1,” Reuters, May 15, 2024; Stephen Miran, A User’s Guide to Restructuring the Global Trading System, Hudson Bay Capital, November 2024, hudsonbaycapital.com.
- ↩ Josh Lipsky and Jessie Yin, “Meeting in Mar-a-Lago: Is a New Currency Deal Plausible?,” Atlantic Council, March 13, 2015, atlanticcouncil.org.
- ↩ Miran, A User’s Guide to Restructuring the Global Trading System, 13–14, 35.
- ↩ Michael Hudson, “Trump’s Tariff Threats Could Destabilize the Global Economy,” Geopolitical Economy, January 25, 2025, geopoliticaleconomy.com
- ↩ Miran, A User’s Guide to Restructuring the Global Trading System, 37.
- ↩ David Deuchar, “Donald Trump and the Dollar: The Triffin Dilemma and America’s Exorbitant Privilege,” Seeking Alpha, May 24, 2016; Robert Triffin, Gold and the Dollar Crisis: Yesterday and Today, Essays in International Finance, no. 132 (Princeton, New Jersey: Princeton University Press, 1978), 1–6; Ismail Shakil, “Trump Repeats Tariff Threat to Disuade BRICS Nations from Replacing US Dollar,” Reuters, January 30, 2025.
- ↩ Hudson, “Trump’s Tariff Threats Could Destabilize the Global Economy.”
- ↩ Carol D. Leonnig and Philip Rucker, “‘You’re a Bunch of Dopes and Babies’: Inside Trump’s Stunning Tirade Against Generals,” Washington Post, January 17, 2020.
- ↩ Green Party US, “Alienated, Not Apathetic: Why Workers Don’t Vote,” August 5, 2019, gp.org; “Median Income in the United States in 2023, by Educational Attainment of Householder,” Statista, statista.com, n.d. In the 2024 elections, according to exit polls, Trump expanded beyond his lower-middle class base support into the working class, winning a majority of those with family incomes between $30,000 and $50,000 a year, but he still lost to the Democrats among the poor (those with family incomes of $30,000 or less). The major domestic issue accounting for this shift was the economy, principally inflation. “Exit Polls,” NBC News, November 5, 2024. Millions of previous Democratic voters chose the Party of Nonvoters.
- ↩ Ernst Bloch, The Heritage of Our Times (Berkeley: University of California Press, 1990), 54, 68, 79, 108, 113. On the patriarchal, conservative sex/gender tendencies of the lower-middle class in capitalist societies and the role of this in generating fascist tendencies, see Wilhelm Reich, The Mass Psychology of Fascism (New York: Farrar, Straus and Giroux, 1970), 52–59.
- ↩ Phil A. Neel, Hinterland: America’s New Landscape of Class Conflict (London: Reaktion Books, 2018), 36, 57–58. Contradicting his own argument, Neel suggests that these developments do not point to the development of fascism or neofascism in Trump’s Make America Great Movement, despite the similar class dynamics. Neel, Hinterland, 48.
- ↩ Charles R. Kesler, “America’s Cold Civil War,” Imprimis 47, no. 10 (October 2018); Jonathan Wilson-Hartgrove, Reconstructing the Gospel: Finding Freedom from Slaveholder Religion (Lisle, Illinois: InterVarsity Press, 2018).
- ↩ Leila Abboud, Adrienne Klasa, and Henry Foy, “U.S. Tells European Companies to Comply with Donald Trump’s Anti-Diversity Order,” Financial Times, March 28, 2025.
- ↩ Dennis Laich, “Trump’s ‘Gaza Riviera’—A Profile in Arrogance,” The Hill, March 9, 2025.
- ↩ Georg Lukács, The Destruction of Reason (London: Merlin Press, 1980), 737
- ↩ CRA Staff, “Primer: Palestinian Culture is Prohibitive for Assimilation,” Center for Renewing America, December 1, 2023, americarenewing.com.
- ↩ Lydia Wilson, “Pete Hegseth’s Tattoos and the Crusading Obsession of the Far Right,” New Lines, November 29, 2024; Pete Hegseth, American Crusade (New York: Center Street, 2020), 13, 24, 289–90, 301.
- ↩ Jon Gambrell, “Trump Threatens Houthi Rebels That They’ll Be ‘Completely Annihilated’ as Airstrikes Pound Yemen,” Associated Press, March 20, 2025.
- ↩ Dawsey, Bergengruen, and Ward, “The Painting That Explains Trump’s Foreign Policy.”
- ↩ Micah Meadowcroft and Anthony Licata, “Primer: The American Canal—The Case for Revisiting the Panama Canal Treaties,” Center for Renewing America, January 31, 2025; Brett Wilkins, “Trump Orders U.S. Military to Plan Invasion of Panama to Seize the Canal: Report,” Common Dreams, March 13, 2025, commondreams.org; “‘Camouflaged Invasion’: Panama Opposition Slams Security Pact with the US,” Al Jazeera, April 12, 2025.
- ↩ Sumantra Maitra, “Towards Greater Engagement and Integration with Greenland and a New American Arctic Century,” Center for Renewing America, March 3, 2025.
- ↩ José Luis Granados Ceja, “Trump Threatens 25% Tariff on Countries Buying Venezuelan Oil as US Continues Migrant Crackdown,” Venezuelanalysis, March 24, 2025
- ↩ Farah Najjar, “Why Are Caribbean Leaders Fighting Trump to Keep Cuban Doctors?,” Al Jazeera, March 15, 2025; Vijay Prashad, “Why Cuban Doctors Deserve the Nobel Peace Prize,” MR Online, August 25, 2020.
- ↩ Kate Bartlett, “What’s Trump’s Beef with South Africa?,” NPR, February 7, 2025; Michelle Gavin, “Trump’s Misguided Policy Toward South Africa,” Council on Foreign Relations, February 12, 2025, cfr.org; “Do White People Own ‘Only’ 22 Percent of South Africa’s Land?,” AFP Fact Check, July 19, 2019, factcheck.afp.com.
- ↩ Brett Davidson, “What Musk and Trump Describe Is Not the South Africa I Know and Love,” Al Jazeera, March 25, 2025; Bartlett, “What’s Trump’s Beef with South Africa?”; Gavin, “Trump’s Misguided Policy Toward South Africa”; Trita Parsi, “ICJ Lands Stunning Blow on Israel Over Gaza Genocide Charge,” Responsible Statecraft, January 26, 2024, responsiblestatecraft.org; Gerald Imray, “Expelled South African Ambassador Returns Home, Says Will Wear US Sanction as a ‘Badge of Dignity,’” Associated Press, March 23, 2025.
- ↩ Hunter Walker, “Trump’s Pick for Ambassador to South Africa Actively Opposed Fight to End Apartheid,” Talking Points Memo, March 26, 2025; Stephen Millies, “Trump Wants a Super Bigot to Be Ambassador to South Africa,” Struggle for Socialism/La Lucha por el Socialismo, April 1, 2025, struggle-la-lucha.org; Lucas Shaw, “Barack Obama: Now He’s a Skinny, Ghetto Crackhead?,” Reuters, December 23, 2011.
- ↩ Stewart Patrick, “Trump’s Distorted View of Sovereignty and American Exceptionalism,” Carnegie Endowment for International Peace, January 30, 2025; Donald Trump, “The Inaugural Address,” The White House, January 20, 2025.
- ↩ Abboud, Klasa, and Foy, “U.S. Tells European Companies to Comply with Donald Trump’s Anti-Diversity Order.”
- ↩ Laurence H. Shoup and William Minter, Imperial Brain Trust: The Council on Foreign Relations and United States Foreign Policy (New York: Monthly Review Press, 1977); Laurence H. Shoup, Wall Street’s Think Tank (New York: Monthly Review Press, 2015).
- ↩ Hegseth, American Crusade, 92–94.
- ↩ James M. Lindsay, “The Costs of Trump’s Foreign Policy Disruption,” Council on Foreign Relations, January 31, 2025.
- ↩ Foster, Trump in the White House, 50–52, 74–75
- ↩ See Thomas Palley, “The Russia War Explained: How the U.S. Exploited the Internal Fractures in the Post-Soviet Order,” Monthly Review 77, no. 2 (June 2025).
- ↩ John Bellamy Foster and Brett Clark, “Imperialism in the Indo-Pacific—An Introduction,” Monthly Review 76, no. 3 (July–August 2024): 6–13.
- ↩ Vijay Prashad, “Donald Trump’s Reverse Kissinger Strategy,” People’s Dispatch, March 6, 2025.
- ↩ This is the case with respect to deportations to Guantanamo and to notorious prison complexes in El Salvador. See Chris Hedges, “American Concentration Camps,” ScheerPost, April 17, 2025.
- ↩ Antara Ghosal Singh, “China’s Rubio Dilemma,” Observer Research Foundation, February 11, 2025, orfonline.org; Hegseth, American Crusade, 157; Sarah Ewall-Wice, “Pete Hegseth Says the US Is ‘Prepared’ for War with China After Tariff Retaliation Threat,” Daily Mail, March 5, 2025; Selina Wang, “Rubio and Waltz Picks Put China Back at the Center of U.S. Foreign Policy,” ABC News, November 12, 2024.
- ↩ See John Bellamy Foster, “The U.S. Quest for Nuclear Primacy,” Monthly Review 75, no. 9 (February 2024): 1–21.
- ↩ Daniel McCarthy, “Why Elbridge Colby Matters,” Compact, February 21, 2025; Kelley Beaucar Vlahos, “Realists Cheer as Elbridge Colby Named Top DoD Official for Policy,” Responsible Statecraft, December 23, 2024; Elbridge A. Colby and Kevin Roberts, “The Correct Conservative Approach to Ukraine Shifts the Focus to China,” Time, March 21, 2023.
- ↩ U.S. Department of Defense, Summary of the 2018 National Defense Strategy: Sharpening the American Military’s Competitive Edge, Defense Acquisition University, dau.edu; John Bellamy Foster, “The U.S. Quest for Nuclear Primacy,” 15; Jacob Heilbrunn, “Elbridge Colby Wants to Finish What Donald Trump Started,” Politico, April 11, 2023.
- ↩ Elbridge A. Colby, The Strategy of Denial: American Defense in an Age of Great Power Conflict (New Haven: Yale University Press, 2021), 83, 95, 147, 172, 183.
- ↩ Colby, The Strategy of Denial, 182–83, 197; Elbridge A. Colby and Yashar Parsie, Building a Strategy for Escalation and War Termination, Marathon Initiative, November 2022, 9, 17–18, 20–23; Abdul Rahman, “China Demands Withdrawal of U.S. Missile System from the Philippines, Calls It a Threat to Regional Peace and Security,” People’s Dispatch, December 28, 2024. On the U.S. forward military deployment and the encirclement of China, see Foster and Clark, “Imperialism in the Indo-Pacific,” 13–19.
- ↩ Colby, The Strategy of Denial, 90; Colby and Parsie, Building a Strategy of Escalation and War Termination, 17; Bill Gertz, “Pentagon Policy Nominee Says U.S. Must Act or Risk Losing War with China: Colby Vows to Adopt America First and Peace Through Strength,” Washington Times, March 4, 2025.
- ↩ John Bellamy Foster, “‘Notes on Exterminism’ for the Twenty-First Century Ecology and Peace Movements,” Monthly Review 74, no. 1 (May 2022): 1–17.
- ↩ Micah McCartney, “China Will Launch War This Decade, Trump Nominee Says,” Newsweek, January 16, 2025; “Taiwan Needs to Hike Defense Spending to 10%—Pentagon Nominee,” Reuters, March 4, 2025; Noah Robertson, “How DC Became Obsessed with a Potential 2027 Chinese Invasion of Taiwan,” DefenseNews, May 7, 2024; John Culver, “China, Taiwan, and the PLA’s 2027 Milestones,” The Interpreter, February 12, 2025, lowyinstitute.org/the-interpreter.
- ↩ Alisha Rahaman Sarkar, “Elon Musk Draws Fire for Playing Down Impact of Atomic Bombing of Japan: ‘Not as Scary as People Think,’” Independent, August 13, 2024; Sumanti Sen, “Elon Musk Under Fire for ‘Minimizing’ Hiroshima and Nagasaki Tragedy by Saying It’s ‘Not as Scary as People Think,’” Hindustan Times, April 13, 2024.
- ↩ Patrick Tucker, “Trump to Get Golden Dome Options Next Week: Defense Source,” Defense One, March 27, 2025; Binoy Kampmark, “Trump’s Star Wars Revival: The Golden Dome Antimissile Fantasy,” Dissident Voice, March 25, 2025.
- ↩ Zeke Miller and Michelle L. Price, “Trump Wants Denuclearization Talks with Russia and China, Hopes for Defense Spending Cuts,” Associated Press, February 14, 2025.
- ↩ Donald J. Trump, “The White House, Protecting American Energy from State Overreach,” Executive Orders, April 8, 2025.
- ↩ Noam Chomsky interviewed by David Barsamian, Chronicles of Dissent (Monroe, Maine: Common Courage Press, 1992), 62–63.
- ↩ Bloch, The Heritage of Our Times, 70, 108–11, translation punctuation slightly modified.
- ↩ “Propaganda Advertisement Implying that Hitler Supports Equality and Peace,” United States Holocaust Memorial Museum, Accession Number: 1990.333.7, collections.ushmm.org/search/catalog/irn3775.
- ↩ Norm Haskett, “Germany Exits League of Nations,” The Daily Chronicles of World War II, ww2days.com.
- ↩ Vukašin Gligorić, Allard Feddes, and Bertjan Doosje, “Political Bullshit Receptivity and Its Correlates: A Cross-Country Validation of the Concept,” Journal of Social and Political Psychology 10, no. 2 (2022): 411–29; Harry G. Frankfurt, On Bullshit (Princeton: Princeton University Press, 2005).
- ↩ Joshua Luczak, “Climate Denialism Bullshit Is Harmful,” Asian Journal of Philosophy 2, no. 1 (2023): 1–20.
- ↩ Josh Boak, “Trump Launches Tariffs, Saying Global Trade Has ‘Looted, Pillaged, Raped, Plundered’ US Economy,” Associated Press, April 2, 2025; Paul A. Baran, The Longer View (New York: Monthly Review Press, 1969), 104.
- ↩ Mehdi Hasan, “Is Donald Trump a Foreign Policy Dove?: If Only,” Guardian, November 13, 2024; Tia Goldenberg, “Trump Promises to Bring Lasting Peace to a Tumultuous Middle East. But Fixing It Won’t Be Easy,” Associated Press, November 6, 2024.
- ↩ Parenti, “Trump’s Real Crime Is Opposing Empire.”
- ↩ Lawrence S. Wittner, “The Ugly Origins of Trump’s ‘America First’ Policy,” Foreign Policy in Focus, March 19, 2024.
- ↩ Jarrett A. Lobell, “The Wall at the End of Empire,” Archaeology 70, no. 3 (May–June 2017): 26–35.
- ↩ István Mészáros, Socialism or Barbarism (New York: Monthly Review Press, 2001), 23–56.
- ↩ Bloch, The Heritage of Our Times, 67.







