Hvað um Sósíalistaflokkinn?
—
Ég er sósíalisti. Ég er í Alþýðufylkingunni en hún býður ekki fram í ár. Það gerir hins vegar Sósíalistaflokkur Íslands (SÍ). Flokkurinn hefur náð athyglisverðum árangri með málflutningi sínum. Að íslenskur flokkur sem kennir sig við sósíalisma hafi 8% stuðning eru tíðindi. Maður verður að taka afstöðu til slíks framboðs.
Baráttustefna SÍ
Það er ljóst að við í Alþýðufylkingunni eigum samstöðu með SÍ í mörgum málaflokkum. Mest um vert er að SÍ hefur sett á dagskrá endurreisn verkalýðsbaráttunnar, og komið með stéttahugsun og stéttabaráttu aftur í hina pólitísku orðræðu. SÍ hefur sett fram framsæknar umbótakröfur í mörgum málaflokkum, nefna má húsnæðismál, skattamál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, félagslegar lausnir í stað markaðslausna (afstaðan gegn nýfrjálshyggju er alveg afdráttarlaus) – og flokkurinn kennir sig við sósíalisma. Þess er að vænta að slíkur flokkur sé bandamaður Alþýðufylkingarinnar í stéttabaráttunni oftar en aðrir flokkar.
SÍ heyr kosningabaráttuna af krafti. Það er athyglisvert að hún hefur einkum farið fram á samfélagsmiðlum – og þar er framleiðnin mikil – en smám saman einnig í öðrum fjölmiðlum. Það er ekkert leyndamál, og blasir við, að Gunnar Smári Egilsson er helsti áróðursmaður flokksins. Hann er mælskur og öflugur áróðursmaður, ennfremur býsna glúrinn og skarpur pólitískur greinandi – og skoðar mál mjög oft frá stéttasjónarmiði sem er vissulega kostur á sósíalista.
En það eru göt og eyður í stefnu og störf SÍ. Þar vantar atriði sem hreint ekki má vanta. Raunar er ekki hægt að tala um neina stefnuskrá flokksins, frekar lista aðskildra stefnumála sem lesandinn þarf að raða saman til að fá heildarstefnu. Eftirfarandi gagnrýni beinist fremur að langtímastefnu (eða stefnuleysi) flokksins en stefnu og málflutningi hans í einstökum kosningamálum.
Sósíalismi?
SÍ kallar sig sósíalískan flokk. Allt bendir þó til að hann berjist fyrir umbótum á kapitalismanum fremur en afnámi hans, að stefna hans sé innan ramma kratískra umbóta fremur en byltingarsinnaður sósíalismi. Lítt hefur verið skilgreint hvað felst í þessum „sósíalisma“. Ekki er í neinum stefnuplöggum minnst á sósíalískt þjóðfélag, valdatöku framleiðenda, eign þeirra á framleiðslutækjum, valdaafnám auðstéttarinnar eða slíkt.
Eitthvað í ætt við greiningu á sósíalisma frá SÍ-fólki er t.d. þetta: „Sósíalismi hefur alltaf verið farvegur og hreyfing fólks sem berst fyrir auknu réttlæti í samfélaginu. Sósíalismi er andstæðan við kapítalisma, hugmynd um að hægt sé að byggja réttlátt samfélag þar sem allir geta lifað mannsæmandi lífi.“ (Andri Sigurðsson) Gunnar Smári Egilsson hefur þó talað um framtíð þar sem „alþýðan taki völdin sem tilheyra henni“. En þetta eru samt frasar án skýringa eða áþreifanlegs innihalds.
Hættulegasta ljónið á veginum er endurbótastefnan (kratisminn). Sú hugsun að endurbæta megi kapítalismann gegnum ríkisstjórnir, stig af stigi yfir til sósíalisma. Aðeins meira um það:
Ríkisvaldið og stéttabaráttan
SÍ vantar alla skilgreiningu á eðli ríkisvaldsins. Það er sígild spurning – og atriði sem helst greinir á milli kratisma og byltingarsinnaðs sósíalisma. Ætlar SÍ að koma á réttlátu samfélagi gegnum Alþingi, ríkisstjórnir og núverandi ríkiskerfi? Ég hef ekki séð SÍ taka fram að sú leið sé ófær, þess vegna liggur rennibrautin niður í kratismann beint við.
Það vantar að SÍ skilgreini vægi þingræðislegrar baráttu í heildarstarfinu, og þá fyrst og fremst takmarkanir hennar. „Það er gríðarlega áríðandi að almenningur noti þessar kosningar til þess að ná völdum“ segir Gunnar Smári í sjónvarpi, og slíkur málflutningur vekur því miður hættulegar tálvonir um það ríkisvald sem við búum við. Slíkur málflutningur vinnur gegn áðurnefndri stéttabaráttuhugsun innan SÍ og horfir framhjá styrkleikahlutföllum í íslenskri stéttabaráttu. Vinstri flokkar sem leggja megináherslu á þingræðislega baráttu innan ríkiskerfis auðstéttarinnar styrkja vald þeirrar stéttar í reynd, nánast óháð því hve róttæk málefni þeir setja á oddinn – og dæmast smám saman til að verja valdið og kerfið sem þeir fordæma. Róttæk stefnumál verða að tómu froðusnakki og blekkingu á Alþingi nema á bak við þau sé samtakaafl til að knýja þau fram.
Verkefni byltingarsinnaðs flokks getur ekki verið að komast „til valda“ í núverandi valdakerfi heldur byggja upp „mótvaldið“ í samfélaginu. Það sem alþýðu Íslands vantar er flokkur sem gengur á undan og skipuleggur baráttu hennar sjálfrar. „Frelsun verkalýðins verður að vera hans eigið verk.“ „Í sókn sinni að völdum hefur verkalýðurinn ekkert annað vopn en samtök sín“ var skrifað (Marx og Lenín) og er jafn satt ennþá. Það er aðeins ein leið möguleg að sósíalískri umbyltingu: ræktun samtakaaflsins og síharðnandi stéttabarátta. Eftir langan stéttasamvinnutíma á Íslandi er það afl (mótvald) ósköp veikt. Þess vegna er allt tal um að nota „þessar kosningar til að ná völdum“ villandi og meira en það.
Framboðslistar
Þegar Sósíalistaflokkur Íslands varð til 2017 fór einnig fram andstöðuframboð innan Eflingar stéttarfélags sem gaf vonir um að nú gæti fæðst stéttabaráttufokkur. Og Efling hefur staðið fyrir sínu, m.a. háð vel rekið verkfall. En hjá SÍ hefur framhaldið ekki uppfyllt þær væntingar. Það hefur ekki kviknað önnur hliðstæð grasrótarbarátta kringum SÍ á þessum 4 árum. Og hvers konar barátta hans utan samfélagsmiðla hefur farið lágt þar til í þessari kosningabaráttu hér.
Framboðslistar SÍ, ekki síst í Reykjavík, segja sína sögu í því samhengi. Þeir hafa ekki mikinn verkalýðssvip, sérstaklega ekki efri hluti þeirra, heldur mennta- og millistéttarsvip. Lykilhópurinn almennt launafólk, félagslega virkt, er þar lítt á blaði og því hætt við að þungamiðja baráttunnar verði áfram samfélagsmiðlar frekar en almannasamtök, hagsmunabarátta og slíkt.
Utanríkisstefnan
Afstaða SÍ í utanríkismálum birtist seint og illa, raunar engin fyrr en í júlí í sumar, eftir rúmlega fjögurra ára starf. Það segir sitt um áhersluna á það svið.
Engin heimsvaldastefna. Í plagginu um utanríkisstefnu er ekki minnst á heimsvaldastefnu. Og lítt í öðrum skrifum frá SÍ (undantekning eru skrif Sólveigar Önnu Jónsdóttur). Heimsvaldastefna varðar ekki bara utanríkisstefnu, heldur formgerð kapítalismans, samþjöppun valds og eigna á okkar dögum. Umfjöllun um kapítalismann án þess að fjallað sé um heimsvaldastefnuna er gagnslaus.
Ekkert um NATO. Í utanríkisstefnu SÍ er ekki minnst á NATO, hinn volduga fulltrúa hernaðar, yfirgangs og vestrænnar heimsvaldastefnu – nema ögn um þjóðaratkvæðagreiðsu um NATO-aðild, sem telst varla afstaða.
Ekkert um ESB. Í utanríkisstefnuplaggi er heldur ekki minnst á ESB/EES, skrifræðisstofnunina sem byggð er á og utan um vesturevrópskt einokunarauðvald og heimsvaldastefnu, sem lýtur strangri markaðshyggju, og sem Ísland er meira og minna undirlagt gegnum EES-samninginn.
Fullveldið? Ekkert er í stefnu SÍ um skylduna til að verja fullveldið og þjóðlegan sjálfsákvörðunarrétt (sem er hluti af því að verja lýðræðið). Það er lýsandi og dæmigert að í kaflanum um auðlindamál er ekki minnst á orkupakka ESB, og var þó auðlindastefna flokksins einmitt mörkuð á meðan átökin geysuðu ákafast um Þriðja orkupakkann 2019.
Þetta er ekki traustvekjandi. Afstöðuleysið á þessum sviðum er kerfisbundið og ber vott um tækifærisstefnu. Stefnan sýnist valin til að geta haft báða hópana með: ESB-sinna og ESB-andstæðinga, NATO-sinna og NATO-andstæðinga, andstæðinga og fylgjendur orkupakkanna, hnattvæðingarsinna og fullveldissinna… Það getur mögulega skýrt hluta af fylgi flokksins nú um stundir. En við höfum enga þörf fyrir enn eina atkvæðamaskínuna sem getur ekki stigið ákveðið í fæturna.
Marxismi?
Ég held að hvergi sé minnst á marxisma í stefnumálum og skjölum SÍ. Það er vissulega ekki nauðsynlegt að draga þangað inn allar kreddur úr sögu kommúnismans. Enginn endanlegur «stóri sannleikur» hefur verið höndlaður, rétt er það. En full fjarvera marxismans boðar ekki gott. „Ríkjandi hugmyndir á hverjum tíma hafa alltaf verið hugmyndir ríkjandi stéttar" segir í Kommúnistaávarpinu, og til að rífa sig undan auðvaldinu þarf verklýðurinn pólitíska vitund og þekkingu í samræmi við stéttarlega stöðu sína. Marxisminn inniheldur greiningu á gangverki kapítalismans og mótsögnum þeim sem kapítalisminn á sjálfur engar lausnir við. Marxisminn er stéttbundin samfélagasfræði, byggð á reynslu verkalýðsstéttarinnar, og án hans verður sósíalisminn aftur að einberri siðferðilegri draumsýn.
Keynes-sósíaldemókratí eða sósíalismi?
Af stefnuplöggum SÍ að dæma er gagnrýni flokksins á kapítalismann að mestu takmörkuð við að fordæma nýfrjálshyggjuna. Þar kemur fram að nýfrjálshyggja hafi á nokkrum áratugum «brotið niður samfélgið» og skapað á Íslandi «drottnunarhagkerfi hinna fáu». Skilja má að flokkurinn vilji afturhvarf til tímans fyrir Reagan og Davíð, að láta kapítalismann bakka í tíma, sem er fánýt hughyggja. Samkvæmt því boðar flokkurinn sk. MMT (Modern Monetary Theory) í ríkisfjármalum, en sú stefna er tilbrigði við keynesisma, boðar aðgerðasamt ríkisvald með lántökur og peningaprentun í haglægðum til að vinna gegn samdrætti, og deyfa þannig hagsveiflur.
Á sínum tíma voru það evrópskir sósíaldemókratar sem ákveðnast fylgdu eftir Keynes- hagstjórn. En stefnan sú var og er ekki sósíalismi. Hagstjórn Keynes átti aldrei að vera valkostur við kapítalisma heldur að láta kapítalismann ganga betur. Og hann gekk og virkaði betur – en við ákveðin skilyrði, keynesismi var háður skilyrðum almennrar kapítalískrar þenslu, stéttasamvinnu og velferðarkapítalisma áratuganna eftir stríð. Þegar því vaxtarskeiði lauk og innbyggð kreppuhneigð kapítalismans birtist aftur óbreytt snéri auðvaldið sér frá aðferðum Keynes yfir til nýfrjálshyggju – og sósíaldemókratar og stjórnmálastéttin yfirleitt sveiflaðist með. Keynesismi og nýfrjálshyggja eru bara ólíkar hagstjórnaraðferðir auðvaldsins við ólik skilyrði.
Eftir 2008 hefur stórauvald Vesturlanda (Davos-liðið) horfið að nokkru frá nýfrjálshyggju. Lausnarorð þeirra núna er „samstarf einka- og opinbers reksturs“. Covidkreppan er notuð til að herða á þeirri þróun. En aðgerðasamt ríkisvald með innspýtingu í atvinnulífið þjónar ekki bara atvinnulausum heldur skapar líka sogrör fyrir stórauðvaldið yfir í opinbera sjóði. Það hver hagnast mest á ríkisafskiptum fer eftir styrkleikahlutföllum stéttanna (stuðningur ríkisins við Icelandair í fyrra er eitt dæmi um það).
Hvernig flokk?
Við þurfum sem sagt flokk sem getur leitt baráttu alþýðunnar (hennar sjálfrar, berst ekki FYRIR alþýðuna). Slíkur flokkur þarf að vera hugmyndalega samstæður og agaður. Hugmyndaleg eining hans er forsenda fyrir baráttugetu hans og er þess vegna á margan hátt mikilvægari en mikið fjöldafylgi í kosningum.
Slíkri einingu er varla fyrir að fara hjá SÍ. Hann er áberandi hugmyndlega ósamstæður. Hann hefur einkenni lauslegrar hreyfingar fremur en flokks. Hann er framsækinn á mörgum sviðum en þokukenndur eða stefnulaus á öðrum grundvallarsviðum. Það getur mögulega unnið honum fylgi nú, en mun óhjákvæmilega koma niður á baráttugetu í stéttabaráttu.
Sósíalistaflokkurinn stendur nær mér en aðrir flokkar í framboði og vel má vera að ég greiði honum atkvæði að þessu sinni. Það er bráðabirgðaafstaða meðan þróun hans skýrist. Margt í henni vekur áhyggjur.