Korter í kosningar
—
Nú þegar nokkrir dagar eru í alþingiskosningar á Íslandi er áhugavert að skoða aðeins flokkana, sem eru í framboði. Hér verður ekki kafað djúpt í stefnuskrár né áherslumál eða kosningaloforð. Hins vegar má fullyrða að því meira sem framboð lofar, þeim mun meira er það líklegt til að svíkja. Rétt er að taka fram að hugleiðingar höfundar, sem er í ritstjórn Neista, endurspegla ekki endilega afstöðu annarra ritstjórnarmeðlima. Hér verður stiklað á stóru um framboðin og til að gæta sanngirni verða þau tekin fyrir í stafrófsröð listabókstafanna.
B – Framsóknarflokkurinn var stofnaður af Jónasi frá Hriflu o.fl. 1916 sem hagsmunaflokkur bændastéttarinnar og var það tvímælalaust á árum áður en hann þróaðist yfir í algeran hentistefnuflokk, sem í dag getur málamiðlað um nánast hvað sem er til að komast í ríkisstjórn.
C – Viðreisn er einfaldlega ESB armur Sjálfstæðisflokksins og að öðru leyti með svipaða stefnu og áherslumál. Varðandi inngöngu í ESB tel ég reyndar að þjóðin ætti að fá að kjósa um áframhaldandi viðræður svo við getum slegið þetta út af borðinu. Haraldur Ólafsson skrifar góða grein á Vísi og ræðir 10 ókosti og einn kost þess að ganga í ESB.
D – Sjálfstæðisflokkurinn er útvörður auðvaldsins og auðvaldsskipulagsins á Íslandi. Hann hefur á undanförnum 33 árum, þ.e. frá og með Viðeyjarstjórninni, einkavætt eignir ríkisins, þ.e. þjóðarinnar, sem leitt hefur til meiri gjaldtöku fyrir lélegri þjónustu og leiddi til bankahrunsins árið 2008. Á sama tíma hefur flokkurinn staðið fyrir skattalækkunum, þó meira hjá hátekjufólki en almenningi, sem aftur leiðir til þess að opinber þjónusta versnar og verður dýrari. Þá gerir hann, eins og alltof margir flokkar, út á útlendingaandúð.
F – Flokkur fólksins er lýðskrumsflokkur. Hér má t.d. nefna hvernig þau ætla að láta lífeyrissjóðina (en ekki auðstéttina eða atvinnurekendur) borga fyrir bætt kjör öryrkja og aldraðra (sem þó fá eftirlaun úr þessum sömu sjóðum) með því að skattleggja iðgjöldin í stað þess að skattleggja eftirlaunin. Ögmundur Jónasson skrifaði um daginn ágæta grein um lífeyrissjóðina og hvort eigi að skattleggja inn- eða útgreiðslurnar. Hér finnst mér aðalatriðið vera að ætla að nota skattgreiðslur á iðgjöld lífeyrissjóðanna til að bæta kjör aldraðra og öryrkja en ekki sækja peningana til auðstéttarinnar. Fyrir mitt leyti persónulega vil ég fá að borga skatta af tekjum mínum ævilangt og ég veit að ég er ekki einn um þá skoðun.
Annað atriði, sem má nefna, er hvernig flokkurinn (og sérstaklega formaðurinn) reynir að eigna sér baráttuna gegn lagaákvæði um afnám persónuafsláttar Íslendinga búsettra erlendis, sem hefðu tekið gildi um næstu áramót en Alþingi afnam ákvæðið fyrr í þessum mánuði. Það vill svo til að tillagan um að fella ákvæðið út kom frá meirihluta efnahags- og viðskiptanefnadar alþingis.
Að lokum má nefna að flokkurinn styður málstað síonista og, eins og svo margir flokkar, gælir við útlendingaandúð.
Það er leitt að baráttufólk eins og Ragnar Þór skuli ekki sjá í gegnum skrumið.
J – Sósíalistaflokkur Íslands er líklega skásti kosturinn í þessum kosningum. Þó vil ég benda á ágæta grein Þórarins Hjartarsonar, sem birtist á Neistum 2021. Hún er, virðist mér, enn í fullu gildi. Mér virðist sem flokkurinn leggi mesta áherslu á stéttabaráttu innan veggja alþingis (sem er ekkert annað en kratismi) en minna á stéttabaráttu úti í þjóðfélaginu. Barátta Eflingar með Sólveigu Önnu í fararbroddi er glæsileg undantekning en ég sé ekki að sú barátta sé að undirlagi Sósíalistaflokksins, amk hef ég ekki séð sérstakar stuðningsyfirlýsingar flokksins við baráttu Eflingar. Þá er ekki trúverðugt að flokkurinn skuli ekki hafa tekið afdráttarlausa afstöðu gegn ESB, NATO og fleiri útvörðum vestrænnar heimsvaldastefnu þó að hann eða amk sumir frambjóðendur hans hafi talað einarðlega gegn NATO og vopnastuðningi við Úkraínu sbr. grein sem birtist á Neistum um daginn.
L – Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar er klofningsframboð út úr Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn er á móti „bókun 35“ og vopnakaupum ríkisstjórnarinnar og er það hvort tveggja gott og vel. En flokkurinn er á móti loftslagssamningum, gælir við útlendingaandúð og vill klárlega auka einkarekstur á kostnað opinbers rekstrar. Þá er formaðurinn yfirlýstur „antivaxer“ og formaður transfóbísku samtakanna 22 leiðir lista flokksins í NV kjördæmi.
M – Miðflokkurinn er mikið öfugnefni á flokki, sem er líklega lengst til hægri í þessum alþingiskosningum. Þó talaði hann gegn vopnakaupunum í sumar og barðist gegn 3. orkupakka ESB á sínum tíma. Hins vegar byggir flokkurinn mikið á lýðskrumi. Hann rær á gömul, þjóðleg og rómantísk gildi (sem eitt sinn voru Framsóknarflokksins) en prédikar um leið líklega hörðustu stefnu útlendingaandúðar, sem hér hefur sést í langan tíma. Formaðurinn varð að hrökklast úr embætti forsætisráðherra vegna spillingar en einhvern veginn tekst honum alltaf að lenda á afturfótunum.
P – Píratar eru leifar af óánægjuflokki, sem varð til eftir bankahrunið og bauð fyrst fram 2013. Birgitta Jónsdóttir, einn af stofnendum flokksins, kallar flokkinn í dag eins konar „Samfylkingu light“. Flokkurinn hefur lítið til málanna að leggja og þó að hann þykist vilja alls konar umbætur fyrir alþýðuna má hann ekki heyra nefnt að krukkað sé í auðvaldsskipulagið. Þá er hann mjög ESB sinnaður. Hann má þó eiga að hann hefur ekki tekið sér stöðu með þeim öflum, sem gera út á útlendingaandúð OG amk þingflokkurinn hefur tekið einarða afstöðu með Julian Assange, sem beinlínis leiddi til þess að hann er ekki lengur pólitískur fangi Breta og Bandaríkjamanna.
S – Samfylkingin er annar af hinum tveimur hrunflokkum (hinn er að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkurinn) síðan 2008 og það borgar sig ekki að gleyma því þó að ESB-kratarnir reyni að telja okkur trú um annað. Þetta er enn einn ESB-flokkurinn og mjög NATO sinnaður. Þó að formaðurinn segi að innganga í ESB sé ekki lengur forgangsmál nr. 1, þá ber að taka þeirri yfirlýsingu mjög varlega.
V – Vinstrihreyfingin – grænt framboð er sögulegur arftaki Kommúnistaflokks Íslands, Sameiningarflokks alþýðu – sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins. Í hnignunarsögunni má segja að í VG hafi botninum verið náð. Eitthvað segir það um veruleikafirringu þessa flokks að hann skuli kjósa til „nýrrar“ forystu þau sömu og voru ráðherrar í þeirri ríkisstjórn, sem nú leggur upp laupana. Páll H. Hannesson lýsir þessu vel í færslu á Facebook vegg Einars Ólafssonar (birt með leyfi PHH):
Félagi Einar. Ég þakka þér fyrir þessi minningarorð um VG, jafnvel þó þú hefðir að mínu mati gert öllum greiða með að skera dýpra og vera hvassari í greiningu þinni. Það er auðvitað skiljanlegt að svo er ekki, þar sem þú hefur ótrauður bundið trúss þitt við ekki bara hinn góða málstað sem skráður var í samþykktir VG, heldur einnig það sem afdrifaríkara reyndist, við farartæki það sem átti að koma málstaðnum á áfangastað, sjálfan flokkinn VG. Og þá skiptir miklu máli hver situr undir stýri, hver er aftursætisbílstjórinn og hvaða vegakort, ef eitthvað, er notast við. Bílstjórinn Katrín, ung og ekki laus við að vera upp með sér af eigin útliti og prófseinkunnum, var óörugg á hvað var hægri og hvað var vinstri, og hlýddi því baksætisbílstjóranum þrautreynda, Steingrími. Hver bar svo ábyrgð á þeim mistökum að setjast upp í drossíuna með Garðabæjargæjanum sem ók eftir allt öðrum GSP hnitum og ætlaði sér allt aðra leið en Kata í Lödunni, er ekki gott að segja. Ofurtrú leiðtogans á eigin hæfileikum og ágæti, sem hafði vaxið í takt við hversu marga viðhlæjendur hún fékk í skoðanakönnunum, gerði það að verkum að hún hélt að stefna VG skipti minna máli enn ofurhæfileikar hennar til „að byggja nýjar brýr í íslenskum stjórnmálum“. Og svo var eitthvað svo tryggt að vera í samfloti með fjármagninum, eitthvað svo hlýtt og notalegt við tilhugsunina að öll dýrin í skóginum væru vinir. Reyndar var Kata, með Steingrím og fleiri í fremstu varnarlínu, tilbúin að hvessa klærnar þegar einhverjir „villikettir“ vildu halda sig við upphaflega kortið og vegaáætlunina; það var spegill sem forysta VG þoldi ekki að væri brugðið á loft. Það var auðveldara að halda áfram á rangri braut en að sjá að sér; með öðrum orðum voru eigin persónur farnar að skipta meira máli en pólitíkin. Þegar ætlast var til af landsmönnum á sínum tíma að þeir leggðu sitt af mörkum til handa fátækum í söfnun Þjóðkirkjunnar á sínum tíma, brást almenningur vel við. Þegar í ljós kom að aðeins 10% af innsöfnuðum fjármunum runnu til hinna fátæku, hvarf traustið og fólk vildi ekki láta hafa sig að fíflum öðru sinni. Sama hefur gerst með VG undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Það sem verra var, er sú staðreynd að hún leiddi Sjálfstæðisflokkinn, undir forystu manns sem innblandaður í helstu spillingarmál samtímans, til valda. Og að tryggð hennar reyndist bundin við persónur og leikendur úr efsta lagi valdapíramýtans, fremur en málstað vinstri manna og almennings. Hún og forysta VG ber því ábyrgð á því að flokkurinn er gjörsamlega rúinn trausti, hvað svo sem annars kann að standa á blaði um ágæt stefnumál í samþykktum flokksins.
Y – Ábyrg framtíð er flokksnefna á móti sóttvarnaraðgerðum og bólusetningum.