Hvers vegna Pútín mun ekki fara í kjarnorkustríð
—
Ian Proud er breskur diplómati sem hefur starfað í Rússlandi. Greinin birt á vefsíðu hans.
Margir vestrænir fréttaskýrendur spá í ofboði um yfirvofandi upphaf þriðju heimsstyrjaldarinnar í kjölfar ákvörðunar Joe Biden um að leyfa notkun bandarískra ATACMS eldflauga innan Rússlands. Rússneskir fjölmiðlar og stjórnmálamenn munu án efa bregðast harkalega við þessu. En mikið veltur á því hvernig flugskeytin eru notuð. Þar sem ríkisstjórn Trump er í vændum, þar sem hann hefur umboð til að binda enda á stríðið, tel ég að Pútín verði hófsamur í sínum viðbrögðum.
Repúblikanar hafa fordæmt ákvörðun Biden fyrir að auka hættuna á þriðju heimsstyrjöldinni
Ólíkt 2016, hefur verið nokkuð útbreidd fordæming frá stuðningsmönnum Trump við ákvörðun Biden, sem litið er á sem mikla stigmögnun. Donald Trump Junior fór á X til að halda því fram að Biden-stjórnin væri að reyna að „koma þriðju heimsstyrjöldinni af stað áður en faðir minn fær tækifæri til að skapa frið og bjarga mannslífum.“ Aðrir stjórnmálamenn Repúblikana, þar á meðal öldungadeildarþingmaðurinn Mike Lee frá Utah og fulltrúardeildarþingmaðurinn Marjorie Taylor Greene í Georgíu, hafa endurómað þessa viðvörun um hættuna á þriðju heimsstyrjöldinni. Viðskiptajöfurinn og stuðningsmaður Trump, David Sacks, spurði hvort að markmið Biden væri „að afhenda Trump verstu mögulegu stöðuna”?
Biden leikur eftir síðasta bragð Obama í hans embætti, að brjóta upp diplómatíska jarðveginn fyrir komandi forsetaembætti Trump
Tilgangurinn með ákvörðun Biden var að gera diplómatíska umhverfið erfiðara fyrir Trump þegar kemur að stefnunni gagnvart Úkraínu.
Pútín mun einnig líta á þetta þannig.
Hann mun muna að Obama forseti gerði svipað bragð – þó talsvert hættuminna – á sínum síðustu dögum í embætti. Ein af síðustu aðgerðum Obama í embætti var að tilkynna refsiaðgerðir gegn Rússlandi fyrir meint kosningaafskipti, og reka 35 rússneska stjórnarerindreka frá Bandaríkjunum. Þetta vakti upp mikinn fréttaflaum og vangaveltur um hvernig Pútín myndi bregðist við, svipað og við höfum séð undanfarin sólarhring. Að lokum kaus Pútín að svara ekki í sömu mynt, í staðinn staldraði hann við til að sjá hver stefna Bandaríkjanna yrði undir komandi ríkisstjórn Trump.
Ákvörðunin er ekki eins afdrifarík og hún virðist vera þar sem hendur Zelensky eru enn bundnar
Ákvörðun Biden er framlenging á ákvörðuninni frá því í maí um að leyfa takmarkaða notkun bandarískra HIMARS kerfa til að skjóta á hernaðarmannvirki rétt innan við landamæri Rússlands, sem þá var gert til að draga úr árásum á Kharkiv. Zelensky mun ekki hafa nóg af vopnum til að fá að skjóta að vild innan Rússlands. Þó þessi stefnubreyting sé stigmögnun þá er hún ekki eins afdrifarík og hún virðist vera.
Samkvæmt þeim vísbendingum sem berast frá Bandaríkjastjórn er eins og að ATACMS eldflaugarnar megi aðeins nota til að stöðva væntanlega sókn Rússa á úkraínskar herfylkingar sem hafa komið sér fyrir í Kúrsk-héraði.
Ákvörðun Biden var tilraun til að hjálpa Zelensky að bjarga andlitinu eftir að sóknin í Kúrsk misheppnaðist
Úkraína hefur tapað um helmingi af landsvæðinu í Kúrsk sem þeir hertóku í innrásinni í ágúst. Að halda fast við þetta landsvæði þar til friðarviðræður munu óumflýjanlega eiga sér stað til að binda enda á stríðið, segir Zelensky að muni leyfa honum á táknrænan hátt að skipta á rússnesku landi fyrir úkraínskt land sem Rússar hafa hernumið. Síðan Kúrsk sóknin hófst hefur Úkraína tapað meira landi fyrir hinni linnulausu, malandi sókn Rússa í Donbas, sem tekur lítil skref flesta daga. Að missa fótfestuna í Kúrsk mun leiða í ljós það sem margir fréttaskýrendur hafa þegar bent á, að innrás Úkraínu inn í Rússland hafi verið strategískt klúður hjá Zelensky sem mun ekki breyta niðurstöðu stríðsins sem hann er að tapa. Þannig að ákvörðun Bandaríkjanna um að leyfa notkun ATACMS eldflauga er í besta falli tilraun Biden-stjórnarinnar til að hjálpa Zelensky að bjarga andlitinu.
Viðbrögð Rússa munu ráðast af raunverulegum ATACMS eldflaugaárásum
Þar sem notkun ATACMS eldflauga er algjörlega háð upplýsingaöflun Bandaríkjanna og “targeting”, er ólíklegt að fráfarandi Biden-stjórn muni leyfa víðtækari árásir utan Kúrsk. Hinsvegar eigum við eftir að sjá hvernig eldflaugarnar verða notaðar. Pútín mun þá taka mið af því hvernig þær eru notaðar, frekar en að bregðast við á fyrirbyggjandi hátt.
Athugasemd þýðanda: Úkraína gerði á aðfaranótt 19. nóvember árás með 6 ATACMs eldflaugum í Bryansk-héraði (utan Kúrsk). Sjá hér.
Pútín verður að bregðast við með einhverjum hætti
Þrátt fyrir notkun HIMARS sem hefur þegar átt sér stað innan landamæra Rússlands, þá verður Pútín að svara á einhvern hátt, eftir að hann sagði í sjónvarpsútsendingu í St. Pétursborg í september að hann myndi gera það. Hann hefur ekki pólitískt svigrúm til að bregðast ekki við.
Athugasemd þýðanda: Pútín brást við þessari áras sama dag með því að skrifa undir nýja kjarnavopnastefnu Rússlands sem lækkar þröskuldinn fyrir notkun kjarnavopna. Með þessu er hann að senda skýra skilaboð og viðvörun. Sjá hér.
Pútín hefur verið þarna áður og mun líklegast ekki bregðast of harkalega við
Pútín veit að meiriháttar hefndaraðgerð Rússa núna, sem myndi beinast að bandarískum hernaðarlegum skotmörkum, myndi gera Trump mun erfiðara fyrir að framfylgja stefnu sinni um að stilla til friðar milli Rússlands og Úkraínu, eins og hann hefur lofað að gera. Ég tel það vera ólíklegt að Pútín komi til með að stigmagna upp í kjarnorkustyrjöld á grundvelli þess sem er í meginatriðum taktísk breyting á notkun vestrænna vopna. Hann mun ekki vilja skerða svigrúm Trump til að semja um frið, en það er einmitt markmið Biden með þessari ATACMS ákvörðun, að reyna að takmarka þetta svigrúm hans til þess.
Þó að hann hafi fjármagn og pólitískan stuðning til að halda áfram að blæða Úkraínu út, þá er stríðið í Úkraínu ennþá kostnaðarsamt fyrir Rússland, bæði efnahagslega og einnig með tilliti til mannfórna. Trump býður upp á hugsanlegan “off-ramp” sem myndi skila Pútín í betri stöðu en hann var í mars 2022, þegar Bandaríkin og Bretland komu í veg fyrir friðarsamkomulagið í Istanbúl.
Pútín mun fagna því ef rússneskir fréttaskýrendur blása upp hættuna á stigmögnun
Eins og gerðist seint á árinu 2016 mun Pútín án efa hvetja rússneska fréttaskýrendur til að æsa upp hræðslu í vestrænum fjölmiðlum um hugsanlega stigmögnun af hálfu Rússlands. Það mun gefa honum svigrúm til að bregðast við á hófsaman hátt og mála upp vestrænu pressuna sem hysteríska, rússófóbíska og ómarktæka, sem er algeng árásarlína Rússa á vestræna fjölmiðla.
Líklegra er að hann muni:
- auka strategískar árásir á orkuinnviði í Úkraínu;
- mögulega skjóta á dreifingarmiðstöðvar NATO í Póllandi;
- gera takmarkaða og fyrirfram tilkynnta árás á bandaríska hernaðarstöð í Evrópu eða annars staðar.
Áhættan fyrir Bretland og Frakkland
Það eru merki um að Bretland og Frakkland ætli að fylgja aðgerðum Bandaríkjanna með því að leyfa hugsanlega notkun Storm Shadow og Scalp stýriflauga innan Rússlands. Ég tel að sömu takmarkanir myndu gilda fyrir notkun þessara eldflauga, eins og að ofan. Með sömu hættu á takmarkaðri gagnárás Rússa á hernaðarleg skotmörk sem tilheyra Bretlandi og Frakklandi.
Hinsvegar er meiri hættan fyrir þessi lönd sú að Trump-stjórnin muni snúa við þessari ákvörðun um notkun bandarískra ATACMS innan Rússlands, sem myndi skilja bæði þessi lönd eftir í þeirri stöðu að Úkraína er enn að skjóta þeirra vopnum inn í Rússland á sama tíma og Trump er að reyna að stilla til friðar milli Zelensky og Pútín.
Það þýðir að Frakkar og Bretar muni þurfa að stíga talsvert lengra niður frá sinni stefnu um ótvíræðan stuðning við stríð í Úkraínu þegar viðræður um vopnahlé hefjast. Einkum í Bretlandi gæti það sett þrýsting á að auka útgjöld ríkisstjórnarinnar gríðarlega til að styðja áfram við stríðið, á sama tíma og verið er að hækka skatta talsvert og kaupmáttur almennings heldur áfram að dragast saman. Það er meira svigrúm fyrir Frakkland til að hafa áhrif á heildarstefnu ESB-ríkjanna, en framlag ESB til Úkraínu getur aldrei jafnast á við fjárhagslegan stuðning Bandaríkjanna, eftir að Trump hefur kúplað sig út og er í staðinn farinn að beita sér fyrir friði.
Keir Starmer hefur þegar farið illa af stað með Trump með því að senda aðgerðasinna Verkamannaflokksins til að styðja við kosningabaráttu Harris. Hann er í hættu á að skilja Bretland eftir sífellt einangrara og áhrifalaust varðandi stefnuna gagnvart Úkraínu.
Í bili skulum við ekki búast við að þriðja heimsstyrjöldin hefjist á einni nóttu. Keep calm and carry on, og þrýstum á að þessu tilgangslausa stríði ljúki.
Þýðandi: Tjörvi Schiöth