Þögnin um þjóðernishreinsunina í Nagorno Karabakh

30. desember, 2023 Jón Karl Stefánsson

Nærri algjör þjóðernishreinsun hefur farið fram í fjallahéraðinu Nagorno Karabakh. Á nokkrum dögum flúðu 150 þúsund manns frá heimilum sínum í landi sem hefur geymt menningu þeirra í árþúsundir. Í hugum margra Armena er þetta bergmál frá armenska þjóðarmorðinu í Ósmanska ríkinu. Hvers vegna heyrist ekkert frá „Alþjóðasamfélaginu“?

Hér verður ekki farið mjög djúpt í sögu Nagorno Karabakh, eða Artsakh eins og svæðið heitir á armensku. Fá svæði á jörðinni hafa jafn flókna sögu og Kákasusfjöllin og einhver stutt útgáfa af slíkri sögu verður í besta falli ónákvæm, í versta falli röng. En nokkur atriði verður að hafa í huga til að fá einhverja mynd af því sem hefur nú gerst. Kannski er besta leiðin til að reyna að skilja þetta allt saman er að reyna að setja sig í spor íbúanna. Saga Armena Í Nagorno Karabakh er mun lengri en saga Íslendinga í heild sinni; nær í mínustölur miðað við okkar tímatal. Í klaustrum Artsakh varð armenska stafrófið til og íbúar þar hafa varist árásum ýmissa heimsvelda í gegnum tíðina. Þetta er fjallahérað, rúmlega 1000 metra yfir sjávarmáli að jafnaði, sambærilegt að stærð og Austfirðir. Í því bjuggu um 150 þúsund manns árið 2022.

Átökin á þessu svæði má í raun rekja til atburða sem áttu sér stað árin 1915 til 1923: Armenska þjóðarmorðsins. Á þessum árum ákváðu ráðamenn í Ottómanveldinu að losa sig endanlega við armenska minnihlutann. Á þessu átta ára tímabili myrtu hermenn Ottómana meira en milljón Armena. Helsta ástæðan var sú að Armenar voru kristnir. Grikkir, Assýringar og fleiri kristnir fengu svipaða meðferð.

Aserbaísjan fékk á svipuðum tíma, þ.e. árið 1918, sjálfstæði frá persneska heimsveldinu. Þeir voru múslimar og menningarlega tengdir Tyrkjum. Miklar breytingar urðu árið 1920 þegar Tyrkland varð til úr rústum Ottómanveldisins, og þegar bæði Aserbaísjan og Armenía urðu Sovétlýðveldi. Þegar landamæri voru teiknuð lenti nú Nagorno-Karabakh innan Aserbaísjan, þrátt fyrir að þar væru að mestu Armenar. Úlfúð milli Armena, sem margir hverjir höfðu nýlega upplifað tilraun til þjóðarmorðs, og svo Asera, varð viðvarandi. Armenar gerðust sjálfir sekir um morð á ýmsum hópum múslima, m.a. Tatara, og Aserar svöruðu í sömu mynt. Átökunum var þó haldið í skefjum á meðan Sovétríkin voru enn til.

Þetta breyttist um leið og Sovétríkin tóku að liðast í sundur. Íbúar Nagorno-Karabakh tóku að berjast fyrir því að landsvæðið yrði hluti af Armeníu. Þetta vildu Aserar ekki og stríð braust út. Það varði til ársins 1994. Íbúar svæðisins lýstu yfir stofnun eigin lýðveldis, en þetta ríki var ekki viðurkennt sem slíkt hjá Sameinuðu þjóðunum. Menningarlega hélt svæðið áfram að vera kristið og að mestu byggt fólki af armenskum uppruna. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, skipaði sérstakan starfshóp sem hélt utan um tilraunir til að koma á friði á svæðinu og stöðva skærur sem brustu reglulega út. Armenía, Aserbaísjan og Rússland gerðu sérstakan samning um hvernig halda skyldi friðinn. Rússland spilaði þar lykilhlutverk og friðargæslusveitir þarna voru rússneskar eftir að friðarsamkomulag var undirritað árið 1994.

Nagorno-Karabakh, eða Artsakh, er algerlega aðskilið frá Armeníu. Birgðarflutingar hafa farið fram eftir örmjórri landræmu, Lachin. Hersveitir Asera lokuðu þessari leið í byrjun árs til að svelta íbúana.

Tyrkland færir vígasveitir úr Sýrlandi til Nagorno-Karabakh

Árið 2011 fór að syrta enn í álinn milli Armena og Asera. Það var ekki síst vegna stríðsins gegn Sýrlandi. Tyrkland og Aserbaísjan studdu uppreisnarsveitir á borð við Al Nusra, FSA og reyndar einnig Daesh (Ísis), en Armenar studdu stjórnvöld í Damaskus. Þarna spiluðu trúarbrögð enn stóra rullu, en sýrlensk stjórnvöld héldu hlífðarskyldi yfir minnihlutahópa á borð við kristna.

Árið 2020 hófu tyrknesk og Aserbaísjísk stjórnvöld að flytja vígamenn frá Sýrlandi beint til Aserbaísjan, að því er virðist sérstaklega til að taka þátt í stríði gegn Armenum þar (McKernan, 2020a). Þeir unnu nú fyrir tyrkneskt öryggisfyrirtæki sem „landamæraverðir“. Blaðamenn der Spiegel í Þýskalandi orðuðu þetta sem svo: „Tyrkland hefur sent sýrlenska bardagamenn til Kákasus í margar vikur. Þeir eiga að útfæra stórveldisfantasíur tyrkneska forsetans – margir borga fyrir þetta með lífi sínu“ (Alasaad, Perrier og Reuter, 2020).

Ekki hjálpaði að í gegnum svæðið liggja mikilvægar olíu- og gasleiðslur, en þetta gerði það að verkum að erlend stórfyrirtæki höfðu nú mikinn áhuga á framvindu þeirra stríðsátaka sem áttu nú eftir að magnast. Tyrkir fluttu enn fleiri vígamenn frá Sýrlandi til Aserbaísjan um leið og forseti þeirra lýsti yfir eindregnum stuðningi við baráttu Aserbaísjan til að ná fullum völdum yfir Nagorno Karabakh (Smith o.fl., 2020).

Heimatilbúinn riffill í Nagorno Karabakh. Stríðsástand hefur ríkt frá því að Sovétríkin liðuðust í sundur.

Rússland hélt þó enn friði á svæðinu, en það átti eftir að breytast eftir að Úkraínustríðið braust út fyrir alvöru. Hersveitir Rússlands voru nú uppteknar við annað, og Tyrkir og Aserar sáu leik á borði. Gerðar voru tilraunir til að fá hinn svokallað Minsk hóp ÖSE úr svæðinu á þeim forsendum að samskipti Bandaríkjanna, Frakklands og Rússlands væru orðin stirð. Sú samvinna hélst þó, en færri friðargæsluliðar sinntu nú störfum sínum í Nagorno Karabakh. Vígamenn gerðu reglulega skærur á varnarsveitir íbúa héraðsins meðan stærra áhlaup var undirbúið.

Þann 27. september 2020 hóf Aserbaísjan áhlaup á Nagorno Karabakh. Í 44 daga létu hersveitir Asera sprengjum rigna á heimili fólks. Á fimmta þúsund almennra borgara lét lífið í árásunum og um 30 þúsundir flúðu til Armeníu. Áhlaupinu lauk er ritað var undir samningum vopnahlé, með tilstilli Rússlands í nóvembermánuði. Um tveimur árum síðar, þann 13. September 2022 hófu aserskar hersveitir á ný árásir á Nagorno Karabakh. Í skyndiáhlaupi tóku þeir höndum hundruð hermanna heimamanna. Þessir hermenn voru margir hverjir pyntaðir til dauða.

Nagorno Karabakh „hreinsað“

Í desembermánuði 2022 hófst svo einhver ógeðfelldasti hluti átakanna. Vígasveitir Asera einangruðu algjörlega Nagorno Karabakh með því að hertaka einu leiðina sem tengdi svæðið við Armeníu; Lachin veginn. Nú hófst sveltistefna sem varði í rúmlega 9 mánuði. Aserar gerðu allt sem í valdi þeirra stóð til að koma í veg fyrir að vistir kæmust til íbúa Nagorno Karabakh; þetta náði til matvæla, lyfja og meir að segja vatns. Þetta varð til þess að efnahagur svæðisins hrundi og landið var komið á barm hungursneyðar. Á þessum tíma gerðu vígasveitir tengdar Aserbaísjan stöðugar árásir á bæði hermenn og almenning í Nagorno Karabakh. Þessi stefna virkaði og þann 24. September 2023 flúðu nærri því allir íbúar svæðisins. Á einungis átta dögum flúðu þannig 120 þúsund Armenar frá Nagorno Karabakh yfir til Armeníu. Í fyrsta skiptið frá árinu 189 f.o.t. var svæðið Nagorno Karabakh ekki lengur skipað Armenum. Aserar sigruðu, en Nagorno Karabakh er tómt. Þetta var algjör þjóðernishreinsun.

Til að fá nákvæma mynd af því sem átti sér stað er hægt að lesa skýrslu frá samtökunum Center for Truth and Justice (CFT) sem birt var nú í desember (CFT, 2023).

Á haustmánuðum 2023 flúðu nærri allir íbúar Nagorno Karabakh endanlega til Armeníu eftir margra mánaða umsátur.

Að fá athygli hinna „skynsömu“

Nú kemur svo spurningin. Hvers vegna heyrum við ekkert frá þessum þjóðernishreinsunum hér á landi? Það ætti að vera borðleggjandi að Íslendingar setji sig í spor Armena. Við ættum að geta ímyndað okkur hvernig það væri ef við yrðum flæmd frá Íslandi af t.d. Kanada eða Rússlandi á þeim forsendum að erlendir aðilar hefðu ákveðið að Ísland skyldi tilheyra öðru menningarsvæði. En ekki bofs, hvorki hér né annars staðar á Vesturlöndum. Hvað veldur?

Hér skal því haldið fram að ástæður þess að Vesturlönd hunsa þessa þjóðernishreinsunar séu nokkrar. Meðal þeirra eru þær að Armenar eru í vinasambandi við fólk sem okkur hefur verið kennt að hata síðustu árin. Þeir stóðu þannig með hinum „vondu“ stjórnvöldum í Sýrlandi gegn góðu uppreisnarmönnunum sem við studdum. Þeir eru í góðu sambandi við hina rosalega vondu Rússa og aðra í hinum rétttrúnaðar-kristna heimi (t.d. Serba og Belarússa). Þeir passa ekki í geópólitíska heimsmynd stórveldanna í Vestri; þyrnir í þófa þeirra sem vilja spila slíka leiki í þágu Vesturlanda. Vestrænir pólitíkusar vilja gefa Tyrklandi og bandamönnum þeirra Nagorno Karabakh í skiptum fyrir að vinna gegn Rússlandi.  Íbúar Nagorno Karabakh eru peð í skákborði heimsveldanna og við eigum ekkert að vera að skipta okkur af svoleiðis. Blaðamenn hér á landi eru „skynsamir“, þ.e. þeir fylgja því sem þeim er sagt að sé skynsamt hjá þeim fjölmiðlum sem starfa náið með stórpólitíkerum í Bandaríkjunum og Evrópu. Ef CNN, NRK og BBC er sama um málið, þá skiptir það ekki máli. Það er skynsamlegt. Ef almenningur sér þetta ekki í fréttunum þá er það ekki mikilvægt. Þannig fellur enn einn kafli í hörmungarsögu Armena í öftustu hillu í bókasafninu.

Heimildir

Alasaad, D., Perrier, G., og Reuter, C. 2020. Syrische Söldner in Bergkarabach: „Ich kann euch gleich hier erschießen”. Der Spiegel. Sótt frá https://www.spiegel.de/ausland/syrische-soeldner-in-bergkarabach-ich-kann-euch-gleich-hier-erschiessen-a-00000000-0002-0001-0000-000173743589

Center for Truth and Justice (CFT). 2023. What happened to all the Armenians in Nagorno-Karabakh? White Paper. CFT. Sótt frá https://www.cftjustice.org/wp-content/uploads/2023/12/Exodus_FinalV4.pdf

McKernan, B. 2020. Syrian rebel fighters prepare to deploy to Azerbaijan in sign of Turkey’s ambition. The Guardian. Sótt frá https://www.theguardian.com/world/2020/sep/28/syrian-rebel-fighters-prepare-to-deploy-to-azerbaijan-in-sign-of-turkeys-ambition

Smith, H. L., Bennetts, M. Spencer, R. 2020. Nagorno-Karabakh clashes: Turkey sends Syrian mercenaries into combat against Armenians. The Times. https://web.archive.org/web/20200930002607/https://www.thetimes.co.uk/article/nagorno-karabakh-clashes-turkey-sends-syrian-mercenaries-into-combat-against-armenians-wz6cqjc57