1. maí ávarp á baráttufundi Stefnu á Akureyri 2024
—
Félagar. Til hamingju með daginn. Frá 1889 hefur 1. Maí verið dagur verkalýðsstéttarinnar. Ekki aðeins verkalýðshreyfingarinnar og hagsmunabaráttunnar, heldur einnig dagur sósíalismans sem er pólitík verkalýðsstéttarinnar.
Nauðsyn sósíalískrar baráttu fyrir umsköpun samfélagsins og félagslegum lausnum verður æ meira knýjandi. Afleiðingar kapítalismans hrannast upp. Ójöfnuður eykst. Auðmagnið krefst aukinna fjárfestingartækifæra og hagvaxtar sem margfaldar framleiðni. En afrakstur hennar rennur í örfáa vasa.
Niðurskurði í opinberri þjónustu er beitt til þess að knýja fram einkavæðingu og auka þannig gróða fjármálaauðvaldsins á kostnað almennings og á kostnað umhverfisins. Öll vandamál nútímans eiga rætur sínar í hagkerfi og samfélagsgerð kapítalismans, efnahagsleg, félagsleg og umhverfisvandamál. Svo ekki sé minnst á stríðsbrjálæðið.
Framleiðsla í heiminum er orðin margföld á við þarfir fólksins og þess vegna mætti hún dragst saman til að létta ok vinnunnar. En ef framleiðsla er dregin saman innan ramma auðvaldskerfisins kemur það hrikalega niður á fátækasta og verst setta hluta alþýðunnar, en öllu er þannig komið fyrir að auðstéttin haldi sínu að minnsta kosti. Fátækt eykst þrátt fyrir aukna framleiðni og leiðir af sér kvíða og útskúfun stórra hópa í samfélaginu.
Vaxandi umhverfisvandi á öllum sviðum á rætur sínar að rekja til kröfu kapítalismans um hagvöxt og útþenslu. Afleiðingin er m.a. rányrkja auðlinda, eyðing skóga, aukin losun CO2 og annarra gróðurhúsaloftegunda, ofnýting ferskvatns o.fl. Það er engin ein lausn á þessum vanda. Orkuskipti og ýmsar tæknilega lausnir geta verið brot af slíkum lausnum, en aldrei meira en það að óbreyttu. Til að vinda ofan af umhverfisvandanum og koma á jafnvægi í samskiptum mannsins og náttúrunnar eru nauðsynleg alger umskipti í samfélagsgerðinni, þannig að framleiðsla og samfélagsleg starfsem verði miðuð við þarfir fólksins en ekki þarfir fámennrar auðstéttar fyrir þenslu og aukinn gróða.
Þetta eru staðreyndir sem ekki verður horft framhjá. Tal um að beita einhverjum hvötum til að draga fram aðra mynd er innantómt. Kapítalisminn hefur aðeins einn hvata sem yfirskyggir allt annað. Það er sóknin eftir hámarksgróða. Einnig er tilgangslaust að dæsa og nöldra yfir afleiðingum kapítalismans ef ekki er ætlunin að uppræta hann og gera gagngerar breytingar á samfélagsgerðinni.
Margt bendir til að áður en langt um líður komi til uppstokkunar í vinstri hreyfingunni á Íslandi þar sem hriktir í gömlum flokksböndum og enginn flokkur getur vísað til yfirburða í styrk eða mikilfenglegs leiðtoga til að sækja aukinn stuðning. Þá gæti runnið upp stund sannleikans þar sem við öll verðum krafin um svör við raunverulegum spurningum og vegvísi fyrir þróun samfélagsins. Þá getum við hugsanlega rætt saman á jafnréttisgrundvelli án þöggunar, útskúfunar og baktjaldamakks.
Þannig hefur það oft áður verið þegar vinstrihreyfingin lendir í uppnámi. Þá neyðist fólk til að rifja upp, hvað var það aftur sem við ætluðum með þessu öllu saman. Og þegar öll kurl koma til grafar stöndum við síendurtekið frammi fyrir sömu spurningunum. Er okkur alvara með að losa okkur við böl kapítalismans til að geta loks skapað mannsæmandi samfélag sem ekki er sífelld ógn við lífið á jörðinni? Eða ætlum við að beygja okkur fyrir takmörkum auðvaldskerfisins til að fá að vera með í galskapnum og telja okkur trú um að við höfum áhrif?
Ef við tökum fyrri kostinn getum við átt heiðarlega umræðu um leiðir og aðferðir. Ef við tökum síðari kostinn er allt unnið fyrir gýg.