Frelsi, jafnrétti og samvinna eru í eðli manneskjunnar: Hugleiðing á 1. maí.

1. maí, 2024 Jón Karl Stefánsson

Samfélaginu er ekki einungis stjórnað í gegnum formlegar valdastofnanir eins og lögregluna, löggjafarvaldið og auðræðisreglur. Annað mikilvægt stjórnunartæki eru „sjálfsögð sannindi“ – sögur sem við lærum og tyggjum þangað til við trúum þeim svo heitt að þær verða að sakramenti. Franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu kallaði þetta „doxa“: Viðhorf, gildi og venjur sem eru tekin sem óumdeilanleg og sjálfsögð í samfélaginu.

Eitt þessara sanninda er trúin á stigveldið, hírarkíuna. Ef ekki væri fyrir stjórn hinna skynsömu, skipulögð ofan frá og niður með skipunum, reglum, refsingum og verðlaunum fyrir hlýðni, þá myndi samfélagið leysast upp í ofbeldi og eyðileggingu. Þessi trú er sterk, svo sterk að margir eru fullkomlega ómeðvitaðir um að það sé yfir höfuð til nokkuð annað stjórnarform en stigveldið: Stigveldið verður fyrir þá einfaldlega samnefnari fyrir skipulag; og án skipulags er jú ringulreið. Þetta er nánast eina stjórnkerfið sem við lærum í skólunum, á vinnustöðunum, í fréttamiðlunum og öðrum stofnunum sem eiga að útskýra fyrir okkur hvernig hlutirnir virka.

Af þessum sjálfsögðu sannindum leiða nokkur önnur sjálfsögð sannindi. Meðal þeirra eru þau „sannindi“ að þar sem sumir eru staðsettir í efri lögum stigveldisins, þá hljóta þau að hafa mannkosti ofar þeim sem eru staddir neðar í stigveldinu. Almúginn er hópur einfeldninga sem þarf að stjórna af hinum skynsömu og hreinu. Annað er svo aragrúi af fullyrðingum um „mannlegt eðli“. Meðal þess sem haldið er fram að sé hluti af þessu mannlega eðli eru ofbeldishneigð, samkeppni, öfund og stjórnfýsn. Bækur á borð við Lord of the flies, heimsendakvikmyndir og kennisetningar trúarbragða halda þessum hugmyndum að okkur hvíldarlaust. Þessar sögur halda okkur í þeirri trú að án stjórnunar yfirvaldsins myndi samfélagið verða hreint helvíti. Við þurfum stjórn frá þeim sem eru í efri lögum stigveldisins, enda eru þau, eðli málsins samkvæmt, betri og skynsamari en almúginn. Það er okkur sjálfum fyrir bestu að þau stjórni okkur: Brot gegn valdastjórninni mega ekki viðgangast.

En stigveldið er einungis eitt stjórnarform af mörgum sem nota má til að stýra samfélagi. Íslendingar og forfeður þeirra ættu að þekkja að til eru form af samfélagsskipulagi sem krefjast ekki atbeina formlegs yfirvalds; hið beina lýðræðisform þinganna til forma virkaði öldum saman. Það sem gerir stigveldisskipulagið svo ráðandi í samfélaginu er sú staðreynd að það hentar einstaklega vel fyrir þá sem vilja skapa kerfi þar sem auðurinn streymir upp og safnast þar saman. Kapítalisminn hefði aldrei verið mögulegur án þess. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir ráðastéttina; auðvaldsstéttina, fyrir Larry Finka heimsins, að þetta stjórnarform haldist.

Til að skilja hversu mikla þýðingu þetta stjórnarform hefur sem kúgunartæki á alþýðuna, þá skulum við spyrja okkur: Hvað er best heppnaða samfélag mannkynssögunnar? Hægt væri að svara því út frá einhverjum arkítektúr, hernaðarlegum sigrum og montsögum. Þá gætum við nefnt Rómarríki, breska heimsveldið eða eitthvað álíka. En mun betri merkisteinn fyrir velgengni samfélags hlýtur að vera lífseigla og hamingja. Ef við horfum fram hjá neyslumenningarlegum þáttum, þá er svarið annað: Best heppnuðu samfélög mannkynssögunnar eru menningarhópar á borð við San-fólkið. Á meðan heimsveldi risu upp og féllu í duftið eitt af öðru, í samkeppni, plágum og öfund, héldu þessi samfélög einfaldlega sínu striki. Þau standa þar enn. Og hvernig skyldi nú stjórnkerfið vera þar?

„San-fólkið hefur enga formlega valdastjórn eða höfðingja, heldur stjórna þau sér sjálf með samstöðu hópsins. Ágreiningur er leystur með löngum umræðum þar sem allir hlutaðeigandi fá tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós þar til einhver samstaða næst.

Ákveðnir einstaklingar geta tekið að sér leiðtogahlutverk á tilteknum sviðum þar sem þeir skara fram úr, svo sem í veiðum eða lækningarathöfnum, en þeir geta ekki náð stöðum almennra áhrifa eða valds. Hvítum nýlenduherrum fannst þetta mjög ruglingslegt þegar þeir reyndu að gera samninga við San-fólkið. Leiðtogahlutverk meðal San-fólks er haldið fyrir þá sem hafa búið innan hópsins í langan tíma, hafa náð virðulegum aldri og góðum karakter. San-fólkið er að mestu jafnréttissinnað, þar sem fólk deilir gæðum sín á milli.“

Og um það hvernig þau nota daga sína segir þetta:

„Börn hafa engar félagslegar skyldur aðrar en að leika sér, og frítími er mjög mikilvægur fyrir San-fólk á öllum aldri. Miklum tíma er eytt í samræður, brandara, tónlist og helgisiðdansa. Konur geta verið leiðtogar eigin fjölskylduhópa. Þær geta einnig tekið mikilvægar ákvarðanir fyrir fjölskylduna og hópinn og gert tilkall til vatnshola og söfnunarsvæða. Konur taka aðallega þátt í söfnun matar, en stundum taka þær einnig þátt í veiðum.“

Svo þarna ríkir ekki stigveldi, heldur frelsi, jafnrétti og samvinna. Allt þetta án atbeina yfirvalds. Getur verið að þarna sé að finna vísbendingar um að „eðli“ mannsins sé aðeins flóknara en haldið er fram?

San-fólkið er auðvitað ekki eina dæmið um samfélagsgerðir sem sniðganga öll okkar doxa um stigveldi, nauðsyn launavinnu, um „mannlegt eðli“ sem felst í hatri og samkeppni og að gera upp á milli fólks. Þessi samfélög eru til um allan heim og hafa ætíð verið það. Þau afsanna allt sem sagt er um „eðli mannsins“. Hatrið og samkeppnin, þrælslundin og streitan eru lærð fyrirbæri. Ef manneskjan fær að þróa stjórnkerfi án valdastjórnarinnar, þá virðumst við frekar leitast að því að láta gildi eins og þau sem San-fólkið vinnur eftir ríkja.

Einhver gæti gert lítið úr slíkum samfélögum á þeim forsendum að þetta séu hirðingjar og safnarar; frumstæð samfélög og að við höfum það miklu betra. Við skulum muna þá fullyrðingu þegar okkar siðmenning líður undir lok eins og öll þau sem komu á undan okkur, nema samfélög á borð við samfélög San-fólksins. Á meðan þau segja hvort öðru sögu og deila gæðum sín á milli, og við vinnum okkar 12 tíma vaktir til þess að borga víxlana okkar, skulum við endilega gera lítið úr þessum samfélögum.

Markmið baráttu alþýðunnar eru þau sömu og þau hafa ætíð verið: Frelsi, jafnrétti og samvinna. Frelsi frá kúgunartækjum valdastéttarinnar, hvort sem það er formleg valdastjórn eða þau „sjálfssögðu sannindi“ sem gera okkur sannfærð um nauðsyn hennar; jafnrétti, sem krefst um leið opinnar umræðu á jafningjagrundvelli og afnáms stigveldisins, og samvinna sem hreyfiaflið sem heldur samfélaginu gangandi. Allt annað eru flækjur.

  • Myndin er af fundi fulltrúa hinna fimm þjóða Iroquoi í Norður-Ameríku (fengin frá Britannica.com).