Í tilefni alþjóðadags fjölmiðlafrelsis

4. maí, 2024 Jón Karl Stefánsson

Í gær, 3. maí, var alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis (World Press Freedom Day).

Í dag hafa að minnsta kosti 97 blaðamenn og aðrir starfsmenn í fjölmiðlum verið myrtir af Ísraelsher frá því í október í fyrra. Auk þess sitja í það minnsta 25 blaðamenn í varðhaldi og 4 eru týndir (cpj.org). 

Í dag eru 1849 dagar síðan Julian Assange var fyrst lokaður inni í Belmarsh fangelsi. Hann bíður þess enn að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann verður líklega tekinn af lífi fyrir að hafa tekið þátt í að dreifa réttum upplýsingum um stríðsglæpi.

Í dag eru 113 dagar síðan bandaríski blaðamaðurinn Gonzalo Lira lést í fangelsi í Úkraínu. Fangaverðir höfðu pyntað Lira ítrekað meðan hann var í varðhaldi og ekki veitt honum nauðsynlega læknisþjónustu. Hann hafði verið handtekinn í krafti nýrra laga í Úkraínu um upplýsingastjórn á stríðstímum, lögum sem svo gott sem bönnuðu frjálsa blaðamennsku í landinu. Glæpur Lira var að birta réttar upplýsingar sem komu sér illa fyrir ríkisstjórn Zelinskis og ríkisstjórn Bidens í Bandaríkjunum (Helsinki Times).

Í dag eru 3484 dagar síðan blaðamaðurinn Serena Shim var myrt af tyrkneskum yfirvöldum fyrir að hafa sýnt fram á tengsl og viðskipti Tyrklandsstjórnar við hryðjuverkahópa í Sýrlandi á borð við íslamska ríkið og Al Nusra. Á sama tíma var blaðakonan Jackie Sutton einnig alveg örugglega myrt af tyrkneskum stjórnvöldum, einnig fyrir blaðamennsku (sjá hér).

Í dag eru 14 ár síðan upp komst um leynilegan dráp-lista Obamastjórnarinnar, þeim fyrsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Á þeim lista voru meðal annars bandarísku blaðamennirnir Anwar Awlaki og Samir Khan sem myrtir voru í drónaárásum í Jemen árið 2011. Sextán ára sonur Anwars var svo myrtur á sama hátt nokkrum vikum síðar (sjá frétt hjá the Guardian).

Hér á Íslandi hafa árásir á blaðamenn tekið á sig aðrar myndir, meðal annars í formi vafasamra uppsagna og pólitískra ofsókna.

Svona mætti lengi halda áfram um hegðun okkar eigin stjórnvalda og þeirra sem við köllum okkar bandamenn hvað varðar árásir á frjálsa blaðamennsku. Við þurfum að taka til í okkar eigin garði og tryggja tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna, ekki síst nú þegar almannatengslaiðnaðurinn er smátt og smátt að éta síðustu leifar alvöru blaðamennsku á Vesturlöndum og æ fleiri lög eru samþykkt til ritskoðunar og orðræðustýringu.