Google og Amazon starfa fyrir Ísrael
—
Í aprílmánuði 2021 gerði Ísraelsher samning við Google og Amazon upp á 1,2 milljarða Bandaríkjadala um skýjalausn (cloud service) sem gengur út á að „vernda upplýsingar innan landamæra Ísraels undir ströngum öryggisviðmiðum“. Verkefnið ber nafnið „project Nimbus“ og gengur meðal annars út á að auðvelda Ísraelsríki- og her að fylgjast með og safna upplýsingum um Palestínumenn og meinta óvini ríkisins í tráss við alþjóðlega mannréttindasáttmála. Ekki aðeins brýtur þetta reglur um friðhelgi einkalífsins, heldur auðveldar Ísraelsher að auðkenna einstaklinga sem á að taka af lífi án dóms og laga, finna þá sem reyna að fela sig og auðvelda þjóðarmorðið sem á sér stað nú í Palestínu.
Mörgu starfsfólki hjá fyrirtækjunum, Amazon og Google, ofbauð að sjá þennan samning og í októbermánuði gáfu meira en 90 starfsmenn Google og 300 starfsmenn Amazon út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir mótmæltu honum. Í yfirlýsingu starfsfólksins sagði meðal annars:
„Við höfum þegar séð Google og Amazon gera ógnvekjandi samninga við stofnanir eins og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, innflytjenda- og tollþjónustuna (ICE) og lögregludeildir ríkja og sveitarfélaga. Þessir samningar eru hluti af áhyggjuvekjandi mynstri af hervæðingu, skorti á gagnsæi og eftirlitsfælni.
Í áframhaldi af þessu mynstri skrifuðu atvinnurekendur okkar undir samning sem kallast Verkefni Nimbus til að selja hættulega tækni til ísraelska hersins og ríkisstjórnarinnar. Þessi samningur var undirritaður sömu viku og ísraelski herinn réðist á Palestínumenn á Gazasvæðinu – og drap nærri 250 manns, þar á meðal meira en 60 börn. Tæknin sem fyrirtæki okkar hafa samið um að byggja mun gera kerfisbundna mismunun og fólksflutninga sem ísraelski herinn og ríkisstjórn framkvæma enn grimmdarfyllri og banvænni fyrir Palestínumenn.“
Starfsfólk fyrirtækjanna mótmælti á ný áframhaldi á Nimbus-verkefninu í kjölfar nýjustu ofbeldisherferðar Ísraels gegn Palestínumönnum fyrr á þessu ári. Viðbrögð fyrirtækjanna voru kannski fyrirsjáanleg: Þeim sem mótmæltu innrás Ísraels í Gaza hefur verið sagt upp. Mótmælendur hafa hins vegar ekki látið þetta buga sig og halda mótmælunum áfram. Því miður virðast fáir fréttamiðlar sýnt vilja til að sýna málinu áhuga.