Orsakaði samyrkjuherferðin hungursneyðina 1933?

29. júní, 2023 Þórarinn Hjartarson

Fyrsta grein af þremur hér á Neistum tók fyrir kenninguna um “Holodomor” í Úkraínu  sem hópmorð/þjóðarmorð “af ásetningi” eins og Alþingi Íslendinga ályktaði í vor. Niðurstaða okkar var að þær söguskýringar stæðust ekki á neinn hátt.

Snúum okkur þá að næsta flokki söguskýringanna: Það var raunverulegur matarskortur í Sovétríkjunum 1932-33 sem olli hungursneyðinni, m.a. í Úkraínu. Af hverju stafaði sá skortur ef ekki “af ásetningi”?

Voru orsakirnar umhverfisþættir eða samyrkjuherferðin?

Skýringar sagnfræðinga á raunverulegum matarskorti í Sovétríkjunum 1933 eru helst tvenns konar. Sú meginskýring sem örugglega á þar flesta formælendur er sú að hungursneyðin hafi sprottið af hinni miklu ringulreið sem hlaust af þeim risavaxna kollveltingi sem samyrkjuherferðin í Sovétríkjunum vissulega var. Þeir R. W. Davies og Stephen G. Wheatcroft meðal annarra hallast að henni sem meginskýringu. Það er líka meginskýring núverandi stjórnvalda í Moskvu á umræddri hungursneyð.

Önnur meginskýring er sú að umhverfisþættir hafi ráðið mestu. Sú skýring hefur komið upp á seinni árum og er Mark B. Tauger örugglega fremsti fulltrúi hennar á Vesturlöndum. Ég ætla að leyfa mér að taka hana fyrir fyrst.

Tauger skrifar á einum stað: „Hungursneyðin stafaði fyrst og fremst af röð náttúruhörmunga árin 1931-32 sem komu ekki fram í opinberum hagtölum né í síðari söguritun um ásetningsdráp.“ (Tauger, „Stalin, Soviet Agriculture and Collectivization“, bls 112).

Á meðan miklir þurrkar þjáðu landið 1931 var yfirdrifin væta og rakt loft vandamálið árið 1932 (í Úkraínu tvö- til þreföld meðalúrkoma). Það ár leit uppskeran vel út að sumrinu, og opinberar tölur um hana byggðu mikið til á því, en þær tölur hrósuðu happi of snemma: ryðsveppur, sótsveppur og fleiri plágur ollu gríðarlegum afföllum í slætti og þreskingu. Sérstaklega var þetta slæmt í Úkraínu (einnig Norður-Kákasus) þar sem allt upp í 70% uppskerunnar spilltist á stórum svæðum.

Um hið sérlega slæma ástand í Úkraínu hefur Tauger ýmsar tölur. Ein vísbending er uppskerutölur frá ríkisbúum (sovkhoz) þar í landi 1932. Þær sýna að búin hafa aðeins náð að uppfylla 60% af álögðum kvóta sem hafði þó verið stórlega lækkaður.

Önnur vísbending um hinn alvarlega uppskerubrest 1932 er sú mikla aukning sem varð á uppskerunni milli áranna 1932 og 1933, og sú aukning varð einmitt langmest í Úkraínu:

„Tölur frá TsUNKhU [sovésk þjóðahagsstofnun á 4. áratug] sýna líka mikla uppskeruaukningu á árinu 1933: í Úkraínu úr 4,98 centners á hektara í 8,08 centners þ.e.a.s. 60% aukningu, í Rússneska sovétlýðveldinu jókst uppskeran úr 5,2 í 6,03 centners sem er um 20% aukning.“ (Tauger, „The 1932 Harvest…“, bls. 81).

Þetta var aðalástæða uppskerubrestsins skv. Tauger, en að hans mati höfðu stjórnvöld hins vegar tilhneigingu til að kenna mannlegum þáttum um frekar en umhverfisþáttum, þ.e.a.s. vanstjórn eigin starfsmanna og einnig mótþróa og undanskotum bænda. Úkraínskir þjóðernissinnar voru stundum nefndir sem sökudólgar en yfirleitt voru þeir ekki taldir neitt meginatriði vandans.

Samyrkjuvæðing – orsakir og afleiðingar

Maturinn kom úr sveitinni. Samyrkjuherferðin sem sett var á fullt í ársbyrjun 1930 var mikil kollsteyping á eignastrúktúr og framleiðsluháttum á landsbyggðinni. Meira en helmingur bóndabýla var orðinn samyrkjuvæddur þegar á árinu 1931. Í slíkri „sjokkmeðferð“ var eðlilega margt eitt tilefni til að framleiðsla drægist saman: óánægja meðal bænda, andspyrna meðal bænda, ofbeldið gegn stórbændum, forgangur iðnaðarins að fjármagni og framleiðsluþáttum, uppflosnun og gríðarlegt fólksflæði frá sveit til bæja. Og ekki síst – öngþveiti.

Síðan komu tvö ár með uppskerubrest, 1931 og 1932, og þrengingar. Skömmtun var á öllum mat í bæjum Sovétríkjanna, og skammturinn svo ítrekað minnkaður bæði þessi ár. Tauger lýsir háu stigi öngþveitis, og einnig nokkrum viðbrögðum stjórnvalda við því:

Samyrkjubúskapur í Sovétríkjunum. Mynd: Eirik Sundvor (1902 – 1992)

„Brotthlaup úr verksmiðjum ásamt með flótta frá samyrkjubúum svo að milljónir manna voru á reki um landið í leit að betri skilyrðum. Sem viðbrögð við þessu endurinnleiddu stjórnvöld undir árslok 1932 kerfi innanlandsvegabréfa frá keisaratímanum.“ (Tauger, „The Harvest of 1932…”, bls 86/87).

Sérstaklega munu stjórnvöld hafa með þeirri aðgerð hafa reynt að stöðva fólksstraum inn til matarlausra borga og bæja. Þessi vegabréfsskylda hefur í hefðbundinni borgaralegri sagnfræði verið túlkuð sem liður í alræði Stalíns (og nú sem liður í „hópmorði“). En í reynd var hún miklu fremur merki um útbreitt stjórnleysi í landinu á þessum tímapunkti en merki um öfluga miðstýringu og alræðisvald. 

Á hinn bóginn: Ef öngþveitið var bein afleiðing samyrkjuherferðarinnar hlýtur að mega skrifa meðfylgjandi hungur og þrengingar að verulegu leyti á hennar reikning. Það gera líka flestir sagnfræðingar sem fást við þessa spurningu. Þó svo að veðurfarslegar orsakir hafi valdið uppskerubresti, sbr. ofanskráð, er nærtækt að álykta að sá brestur hafi hitt Sovétríkin, ekki síst Úkraínu, fyrir á viðkvæmu augnabliki beint ofan í eða strax eftir þá miklu kollsteypu sem samyrkjuvæðingin var. Landbúnaðurinn stóð varla vel til að mæta veðufars- og umhverfislegu áfalli líka.

„Mark B Tauger vill samt ekki undirskrifa það að samyrkjuvæðingin sem slík hafi valdið hungri. Rökin gegn því eru ekki síst þau að uppskeran árið 1933 var góð, einnig í Úkraínu“

Mark B Tauger vill samt ekki undirskrifa það að samyrkjuvæðingin sem slík hafi valdið hungri. Rökin gegn því eru ekki síst þau að uppskeran árið 1933 var góð, einnig í Úkraínu. Og hún var góð þó að sáning það vor væri framkvæmd einmitt þegar hungursneyðin var í hámarki. (Tauger, „Soviet Peasants and Collectivization, 1930-39: Resistance and Adaptation”, bls 84-85).

Til að meta áhrif samyrkjunnar þarf að skoða forsendur hennar og líta eitthvað til baka í tíma. Sósíalíska byltingin sem ólgaði víða í Evrópu í stríðslok 1918 hafði einangrast í einu landi, m.a.s. bændalandi með frumstæðan landbúnað. En samkvæmt marxískri hefð voru bolsévíkar þó sammála um að sósíalisma yrði að byggja á grunni þróaðs iðnaðar. Átök þeirra á meðal á 3. áratugnum snérust um það hvernig mögulegt væri að byggja upp iðnaðinn frá hinum sovéska grunni, án aðstoðar frá neinum öðrum sósíalískum löndum.

Sá efnahagsgrunnur sem byggja varð á var aftarlega á meri þróunar. Robert C Allen er alþjóðlega virtur prófessor (í Bretlandi, Kanada, Abu Dhabi) í efnahagssögu og landbúnaðarsögu og skrifaði árið 2003 bókina Farm to Factory. A Reinterpretation of the Soviet Industrial Revolution sem er mikil stúdía í rússneskum og alþjóðlegum hagtölum (ekki síst frá Angus Maddison 1995). Á mælikvarða opinberra hagtalna var efnahagslíf og framleiðslustig Sovét-Rússlands og Sovétríkja 3. áratugar, tíma sem kenndur er við NEP (stefnan New Economic Policy, ríkti 1921-28), líkt Suðaustur-Asíu og fátækari hluta Suður Ameríku en átti fátt sammerkt með löndum eins og Þýskalandi eða Bandaríkjunum (Allen, bls. 3-4).

Aðalatriðið í vanþróuninni var landbúnaðurinn. Allen ber rússneskan landbúnað (Evrópuhluta) saman við annan landbúnað við sambærileg veðurfarsskilyrði á sléttum Kanada (svæði sem bolsévíkar báru sig einmitt gjarnan saman við) á öðrum áratug 20. aldar. Eftir hans reikningum var framleiðslan á hektara u.þ.b. sú sama á þessum tveimur svæðum, á meðan framleiðsla á hvern vinnandi mann var 8 sinnum meiri í landbúnaðinum í Kanada (Allen, bls 73).

Árið 1928 bjuggu heil 82% sovéskra þegna í sveitum, vinnandi á afar lágu tæknistigi. Sveitirnar voru yfirfullar og skiluðu lítilli umframframleiðslu á markað bæjanna. Ein afleiðing þess var sú að landið var viðkvæmt fyrir hvers konar áföllum og matarskortur og hungur komu reglulega upp. Ein helsta krafa Októberbyltingarinnar og kjörorð sem eflaði henni stuðnings var „brauð!“ Á 3. áratug urðu nokkrar hungursneyðir. Sú alvarlegasta var í lok borgarastríðsins 1921-22. Fórnarlömb hennar voru líklega um 5 milljón manns. Önnur alvarleg hungursneyð varð 1928-1929.

Það versta var að þróun landbúnaðarins eftir Októberbyltingu var á margan hátt í öfuga átt. Hann skilaði minnkandi umframframleiðslu (umfram neyslu þeirra sem við hann störfuðu). Hér munaði mest um það að hlutfall landsmanna búandi í sveit hafði hækkað úr tæpum 70% síðasta fyrirstríðsárið 1913 í heil 82% árið 1928. Niðurstaðan var því sú að í þjóðarframleiðslu á mann stóð Rússland/Sovétríkin nánast í stað 1928 miðað við 1900 og hafði lækkað miðað við árið 1913 (Allen, bls. 5)

Endurlit: Hluti af rússnesku byltingunum árin 1917 og 1918 var bændabylting þar sem bændur skiptu upp jörðum aðals og stærstu bænda. Þetta gátu bændur gert í krafti byltinganna sem orðið höfðu í borgum landsins. Sú mikla uppskipting jarðnæðisins var ekki í samræmi við landbúnaðarstefnu bolsévíka, sem gekk út á stækkun búa og félagslegan rekstur, en þeir studdu samt þessa sjálfsprottnu bændabyltingu eftir að hún fór af stað. Útkoman var m.a. sú að bændabýlum fjölgaði og þau smækkuðu. Árið 1913 voru býlin 16 milljónir en 1928 voru þau orðin 28 milljón talsins.

Að byggja upp iðnaðinn með innlendum kröftum kallaði á risafjárfestingu en hvaðan skyldi sú fjárfesting koma? Uppbygging iðnaðarins hlaut að verða í samspili við stærsta atvinnuveginn, landbúnaðinn. En miðlungsbændur lifðu í sjálfsþurftarbúskap og seldu nánast ekkert á markað. Sú umframframleiðsla inn á markað bæjanna sem um var að ræða kom því nánast öll frá stærri bændum. Verðlagning á iðnvarningi miðað við landbúnaðarvörur varð að lykilspurningu í stjórnun á seinni hluta NEP-tímans. Og ef verð og viðskiptakjör voru landbúnaðinum hagstæð efldust fyrst og fremst stórbændur og kapítalísk þróun geirans. Ef hins vegar viðskiptakjör voru iðnaðinum í hag skiluðu landbúnaðarafurðir sér einfaldlega ekki á markað og gagnkvæm viðskipti geiranna tveggja drógust saman.

Afleiðing mikillar uppskiptingar landsins varð sem sé sú að landbúnaðarafurðir „til sölu“ í bæjunum drógust mjög saman. Árið 1928 höfðu þær dregist saman um 24% frá árinu 1913 fyrir afurðirnar í heild. Og fyrir mikilvægustu afurðina og mikilvægustu næringuna, kornið, var samdrátturinn rúmlega 50%. Samdrátturinn var svipaður fyrir kartöflur og grænmeti. Flokkurinn og efnahagspólitík hans voru í sjálfheldu af þessum sökum (Allen, bls. 79-81).

Auk þess hafði hveiti og annað korn verið aðalútflutningsvara Rússneska keisaraveldisins. En kornútflutningurinn 1928 var aðeins 1/20 partur af því sem hann hafði verið árið 1913.

Þetta var ástæðan fyrir því sem nefnt hefur verið „kreppa NEP-stefnunnar“. Árið 1927 drógust kornbirgðir ríkisins enn saman þrátt fyrir góða uppskeru. Árið eftir var uppskeran lakari og þá kom upp hungursneyð. M.ö.o., í ríkjandi kerfi sýndi landbúnaðurinn afar litla hæfni til að auka framleiðni sína og fyrir vikið var samfélagið berskjaldað fyrir sífellt yfirvofandi hungursneyðum.  Stuðningurinn við NEP var hverfandi meðal hins róttæka verkalýðs og í Bolsévíkaflokknum varð sú stefna ofan á að nauðsynlegt væri, fyrir matvælaöryggi landsins og fyrir iðnvæðingu þess, að endurskipuleggja landbúnaðinn.

Samyrkjan forsenda iðnvæðingarinnar

Stökkið var tekið. Það stökk var samyrkjuherferðin. Framkvæmd hennar skal ekkert útlistuð hér. Það yrði allt of langt mál. En hver var hin efnahagslega útkoma hennar, fyrir framleiðslu, framleiðni og fyrir getu landbúnaðarins til að brauðfæða bæi og borgir og iðnað Sovétríkjanna?

Í stuttu máli: Framleiðslan dróst saman vondu árin 1931 og 1932 en jókst svo skjótt aftur. Árið 1937 var heildarframleiðslan um 10% meiri en 1928. Meira munaði þó um að kornstreymi til bæjanna hafði á sama tíma aukist um 62% (einnig þar var samdráttur árin 1931 og 1932). Skýringin lá í því að framleiðnin hafði tvöfaldast með samyrkjuvæðingunni, helmingi færri vinnustundir þurfti á hektara. Mestu munaði að stærri rekstrareiningar voru forsenda fyrir dráttarvélum og annarri vélvæðingu búskapar. Samyrkjuvæðingin losaði vinuafl úr landbúnaði í stórum stíl og veitti því til iðnaðarins. Á fjórða áratugnum fluttust 25 milljónir sovétborgara úr sveitunum, það voru íbúar nýrra og rísandi sovéskra iðnaðarbæja (Allen, bls. 100-101).

Samyrkjubúskapur í Sovétríkjunum. Mynd: Eirik Sundvor (1902 – 1992)

Í heild var því samyrkjuvæðingin forsenda fyrir hinni hröðu iðnvæðingu Sovétríkjanna. Sú iðnvæðing var raunverulegt risastökk í þessu risalandi. Allen sýnir með hagtölum þróun vergrar landsframleiðslu á mann (GDP) fyrir Rússland/Sovétríkin. Um aldamótin 1900 stóð sú tala í 1218 (í dollurum ársins 1990), árið 1928 hafði hún ekki hækkað nema í 1370 en var árið 1970 komin í 5569. Sem sagt, landsframleiðslan stóð í stað fyrstu þrjá áratugi aldarinnar en fjórfaldaðist svo á fjórum næstu áratugum, frá og með samyrkjuvæðingu (Allen, bls 5).

„Niðurstaðan er sú að án samyrkjuvæðingar hefði hin hraða iðnvæðing ekki verið möguleg – né heldur sigurinn í Seinni heimsstyrjöldinni“

Niðurstaðan er sú að án samyrkjuvæðingar hefði hin hraða iðnvæðing ekki verið möguleg – né heldur sigurinn í Seinni heimsstyrjöldinni. Jafnframt þessu var samyrkjan forsenda fyrir því að bundinn var endir á þær síendurteknu hungursneyðir sem hrjáð höfðu Rússland um aldir. Hungursneyðin 1932-33 var vissulega alvarlega mannskæð en hún var líka síðasta hungursneyðin í landinu, að frátalinni vægari neyð 1946-47 þegar miklir þurrkar fylgdu í kjölfar þrenginga seinna stríðs.

Í heild verður samyrkjuherferðin (í ljósi þessara hagtalna) að teljast efnahagslega vel heppnuð bylting þó að hún mögulega hafi stuðlað að hörðum en skammvinnum harðindum áranna 1932-33 (ég gef ekki afgerandi svar við þeirri spurningu). Pólitískt séð var hún hins vegar síður velheppnuð af því ekki var hægt að segja að hún væri lýðræðislega framkvæmd (Stalín kallaði hana seinna “byltingu að ofan”). Þess vegna varð hún á ýmsan hátt pólitískur baggi á sovéska sósíalismanum. En það verður ekki frekar útlistað að þessu sinni. 

Næsta og síðasta grein fjallar um sögutúlkunina, og pólitísku hreyfinguna, “tvöfalt þjóðarmorð” og þátt “Holodomor” í þeirri hreyfingu.

Meginheimildir

Robert C. Allen, Farm to Factory. A Reinterpretation of the Soviet Industrial Revolution, Princeton University Press, 2003

R.W. Davies og Stephen G Wheatcroft, The Years of Hunger: Soviet Agriculture 1931-1933, Macmillan 2004

Mark B.Tauger, „The 1932 Harvest and the Famine of 1933“, Slavic Review 50:1, 1991Mark B. Tauger, “Stalin, Soviet Agriculture and Collectivization”, í Frank Trentmann og Flemming Just (ritstj), Food and Conflict in Europe in the Age of the Two World Wars, Macmillan 2006