Alþjóðalög eru hér með einskis virði

5. mars, 2024 Jón Karl Stefánsson

Á 150 dögum hefur Ísraelsher myrt 364 sjúkraflutningamenn og rænt 269, eyðilagt 155 heilsugæslustöðvar og 32 spítala og sprengt 126 sjúkrabíla. Frá því að Ísrael hóf árásir sínar hafa meira en 100.000 Palestínumenn verið drepnir eða særðir. Heilbrigðisyfirvöld í Gaza hafa haldið tölfræði sem sýnir að Ísraelsher hafi myrt 30.320 manneskjur og sært 71.533. Fjöldi barna sem hefur látist af völdum næringarskorts fer stígandi. Frá þessu greinir palestínska fréttaveitan Quds í sláandi frétt sem lesendur eru hvattir til þess að skoða. Fréttina má nálgast hér.

Í meira en 70 ár hefur Ísrael beinlínis og opinskátt stundað aðskilnaðarstefnu, apartheid. Dæmi um að stjórnvöld í Ísrael stundi vísvitandi pyntingar, mannrán, morð, þar á meðal á börnum, ólögmætar innilokanir og stuld á landsvæðum eru svo mörg að þau eru regla, engin undantekning. Og þessi háttsemi er beinlínis skilgreining Sameinuðu þjóðanna á hugtakinu „Glæpir gegn mannkyni“. Þessi lög SÞ eru þau allra mikilvægustu í alþjóðalögum.

Þessum lögum er óspart beitt gegn ríkjum sem leiðtogar Vesturlanda hafa kallað óvini sína. Þau ríki eru beitt refsiaðgerðum, grafið er undan þeim með skuggahernaði og áróðri, og þau geta lent í árásarstríði frá hinni miklu hervél Vesturlanda á grundvelli ásakana um glæpi gegn mannkyni. Í þeim tilfellum þarf oft ekki einu sinni sannana við. Sektin þarf ekki einu sinni að vera raunveruleg. Íslensk stjórnvöld studdu til að mynda refsiaðgerðir og loftárásir gegn Sýrlandsstjórn í nafni eiturvopnaárása sem þeir stóðu ekki einu sinni fyrir sjálfir. Þegar sannleikurinn er kominn í ljós fylgir ekki einu sinni afsökunarbeiðni. Við „héldum“ að þið væruð sek, það var nóg.

Aðfarir Ísraela, ólíkt hinum meintu óvinum okkar Vesturlandabúa, eru hins vegar þannig að það tekur af öll tvímæli um það hvort sektin sé raunveruleg eða ekki. Viðbrögð ríkisstjórnar okkar og opinberra stofnana eru engin. Ekki einu sinni að sniðganga áróðurssamkomu Ísraels í kringum söngvakeppni. Að þetta sé grátlega vandræðalegt nægir ekki að lýsa því.

Að baki þessari óstjórnlegu hræsni er óljós, en sterk hugsun um að það sé einhvern vegin öðruvísi ef vinir okkar stunda ofbeldi. Hugsunin snýst um „lögmæti“; þeir sem við lítum ómeðvitað en sterkt á sem yfirboðara okkar, fólkið sem stjórnar áróðursmyndinni sem við ölumst upp með, hafa lögmæti til að gera það sem þeim sýnist. Við treystum þeim, og „sérfræðingunum“ sem stjórna. Þetta er hugsunarháttur hins „ábyrga“ og hlýðna þegns í alþjóðasamfélaginu.

Ef alþjóðalög gilda einungis fyrir suma, þá eru þau ekki lengur lög í hinu rétta skilningi. Þau eru áróðurstól fyrir hina valdamiklu í baráttu gegn hinum veiku. Slík skrumskæling á þessum lögum er ólíðandi.

Kæru ráðherrar og stjórnsýslustarfsmenn. Þið megið hér með aldrei nota hugtakið „glæpir gegn mannkyni“ eða brot á „alþjóðalögum“ til að færa rök fyrir árásum okkar yfirboðara gegn óvinum Vesturlanda. Þið hafið firrt ykkur þeim rétti. Þið getið falið ykkur á bakvið látbragð og klæðaburð sem á að lýsa skynsemi og ábyrgð, þýðist undirlægjuhætti og leikaraskap. Þið standið nakin í vindinum.