Bjöllurnar í Wuhan

15. október, 2024

Ræða Árna Daníels Júlíussonar á samkomu DíaMat um kínversku byltinguna í tilefni 75 ára afmælis Alþýðulýðveldisins.

Á 75 ára afmæli kínverska byltingarinnar

Fyrir 14 árum vorum við hjónin í Kína þeirra erinda að ná í barn sem við höfðum ættleitt. Við fengum barnið afhent í borginni Wuhan í Hubei héraði, sem liggur við fljótið Yangtse-kiang. Á ferð okkar komum við í byggðasafn Hubei héraðs og sáum þar margt dýrgripa, en mesta athygli okkar vöktu munir úr gröf kínversks höfðingja sem Rauði herinn hafði fundið í héraðinu árið 1978. Meðal þessara muna var hljóðfæri, stórt samsett hljóðfæri úr bjöllum steyptum úr bronsi, sem þurft hafði mjög mikla tækniþekkingu, þekkingu á málmblöndum og málmsteypu til að búa til. Hljóðfærið þurfti 5 manns til að spila á það, og heyrðum við nokkur lög spiluð á eftirlíkingu sem gerð hafði verið og var einnig í byggðasafninu. Hljóðfærið var 2500 ára gamalt. Okkur fannst það gefa til kynna dýpt, fágun og háan aldur kínverskrar menningar. Þessi einkenni ætti kannski að hafa í huga þegar fjallað væri um Kína annars, t.d. á 75 ára afmæli kínversku byltingarinnar.

Fyrir 50 árum var kínverska byltingin ekki nema 25 ára. Ég var 15 ára. Þá fór ég að kynna mér hvernig hægt væri að skipuleggja sig á vinstri vængnum, því mér fannst Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem ég hafði stutt fram að því, skyndilega of hægfara. Ég bjó með foreldrum mínum, tveimur systkinum, ömmu, afa, fimm villiköttum, tveimur hundum og hundrað ám í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal og hafði gengið í Húsabakkaskóla, grunnskóla sveitarinnar. Um haustið hóf ég nám í Menntaskólanum á Akureyri, sama haustið og kínverska byltingin varð 25 ára. 

Frá því um 1965 og fram til 1972 hafði bandaríski herinn stöðugt hert á grimmdarlegum hernaði sínum í Víetnam, en þetta haust, haustið 1974, var stórveldið komið á undanhald. Bandaríkjamenn voru hættir þáttöku í landhernaði í Víetnam, og árið eftir hrundi leppstjórn Bandaríkjamanna í Suður-Víetnam. Kommúnistar unnu fullan sigur á heimsveldinu. Það var annar stórsigur and-heimsvaldasinnaðra Asíubúa á 20. öldinni, sá fyrri var sigur kommúnista í kínversku byltingunni, sem einmitt var lýst yfir 1. október 1949. 

Víetnamstríðið hristi heldur betur upp í æskulýð Vesturlanda. Það er engin leið að botna í þróun mála á þessu tímabili, 1965 til 1975, án þess að hafa það í huga. Í Bandaríkjunum var herskylda og hver árgangurinn af öðrum af ungum amerískum strákum var kallaður í herinn, klæddur í græna einkennisbúninga og sendur á vígvöllinn í Víetnam. Þetta leiddi til víðtækra mótmæla æskulýðs í Bandaríkjunum. Fjöldi ungra manna flúði Bandaríkin til að forðast herskyldu. Upp úr 1968 fór af stað hreyfing almennra hermanna í Bandaríkjahernum í Víetnam, sem drápu liðsforingja sína í stórhópum. Sú uppreisn var líklega eitt af því sem hreyfði þannig við bandarískum ráðamönnum að þeir áttuðu sig á því að stríðið í Víetnam var tapað. 

Meðal þess sem gerðist var að á öllum Vesturlöndum myndaðist fjöldahreyfing æskulýðs. Sú hreyfing var mjög víðtæk. Bítlarnir, Rolling Stones og Bob Dylan voru forystusauðirnir, bæði pólitískt og menningarlega. Tariq Ali og aðrir vinstri pólitíkusar voru vinir John Lennon í Bítlunum. Aðrir þekktir leiðtogar voru Rudi Dutscke í Þýskalandi og Daniel Cohn-Bendit í Frakklandi. Hippahreyfingin blómstraði og krafðist friðar. Rote Armeé Fraktion í Þýskalandi undir forystu Andreas Baader og Ulriku Meinhof voru ekki á því að friðarhjal myndi skila neinu. Líkt og vinstri sinnaðir skæruliðar á Ítalíu og í Japan börðust þau með vopnum í heimalöndum heimsvaldastefnunnar fyrir sigri alþýðunnar í Víetnam og gegn morðæði heimsvaldasinna. 

Minna var um vopnaða andstöðu íslenskra ungmenna við heimsvaldastefnuna. Eftir 1960 efldist róttæk vinstri hreyfing stöðugt, og á Íslandi fann hún sér meðal annars tiltölulega friðsamlegan farveg í Æskulýðsfylkingunni, ungliðahreyfingu Sósíalistaflokks Íslands. Einnig varð til æskulýðsmenning af nýju tagi, hippar, rokktónlist og neysla kannabisefna, stundum kynnt sem valkostur við áfengisdrykkju.

Menningarbyltingin

Rauða kverið lesið á tímum Maós

Árið 1966 hófst í Kína hreyfing sem nefndist menningarbyltingin. Æskulýðurinn á þeim slóðum reis upp, 17 árum eftir lok byltingarinnar og krafðist þess að Kommúnistaflokkur Kína legði af braut endurskoðunarstefnu, skrifræðis og íhaldssemi. Á tímabilinu 1966-1976 geisaði í Kína bylting í byltingunni, og hún varð gríðarlegur innblástur unga fólkinu á vinstri vængnum á Vesturlöndum, sem og um allan heim. Unga fólkið leit svo á að þeir flokkar sem fyrir væru á vinstri vængnum ættu það sammerkt með Kommúnistaflokki Kína, Kommúnistaflokki Sovétríkjanna og kommúnistaflokkum á Vesturlöndum að hafa orðið skrifræði, íhaldssemi og vinskap við kapítalista að bráð. Svo ekki sé talað um sósíaldemókrata. 

Um allan heim mynduðust á 7. áratungum nýir stjórnmálaflokkar eða hópar, sem í grundvallaratriðum urðu til í kringum tvenns konar viðhorf. Annars vegar voru stuðningsmenn Leon Trotskís, andstæðings Stalíns, sem töldu að skrifræði hefði tekið völdin í Sovétríkjunum með valdatöku Stalíns og þangað væri ekki neinar fyrirmyndir að sækja, og ekki heldur til Kína. Þar ríkti stalínismi, sögðu trotskíistar og voru ekkert sérstaklega hrifnir af sósíalismanum þar – en töldu það samt vera sósíalisma. Trotskí hafði greint veikleika sovéska kerfisins ítarlega í ritum sínum, skarplegum og vel skrifuðum. Hann hafði auðvitað sjálfur verið einn helsti foringi byltingarinnar í Rússlandi 1917 og þekkti því þróun mála mjög náið. Hins vegar voru maóistar, þeir sem sóttu fyrirmyndir til Kína og ekki síst til menningarbyltingarinnar. Þeir lögðust í lestur á ritum Mao Zedong, foringja kínversku byltingarinnar. Þeir töldu, eins og kínverska flokksforystan, að það væri ekki lengur sósíalismi í Sovétríkjunum, hann hefði hrunið með valdatöku Krjússoffs 1956. Hins vegar væri enn sósíalismi í Kína.

Það var alls konar munur á því að sækja fyrirmyndir fyrir nýja kommúnistaflokka um 1968 til Sovétríkjanna eins og þau störfuðu 1917-1927, á þeim tíma þegar Lenín og svo Trotskí voru við völd, eða til Kína og kínversku byltingarinnar. 

Þrjár byltingar

Mao Zedong lýsti yfir stofnun kínverska alþýðulýðveldisin 1. október 1949.

Skoðum aðeins stöðu og sérstaklega aðdraganda þriggja byltingarhreyfinga, í Rússlandi 1917, Þýskalandi 1918-1923 og Kína 1911-1949, sem trotskíistar og maóistar sóttu sínar fyrirmyndir til. Í Rússlandi og Þýskalandi höfðu fyrir byltingu starfað öflugir flokkar á vinstri vængnum, meira og minna um allt samfélagið, og eins og margir þekkja sköpuðu þýskir sósíaldemókratar eins konar samfélag í samfélaginu, þar sem meðlimum hreyfingarinnar var séð fyrir öllum félagslegum, andlegum og fræðilegum þörfum í verkalýðsfélögum, sósíalískum kvenfélögum, æskulýðsfélögum, íþróttafélögum, sósíalískum dagblöðum o.s.frv. Í Þýskalandi höfðu sósíalistar haft leyfi til að starfa á opinberum vettvangi frá 1890. Í fyrri heimsstyrjöldinni klofnaði svo sósíaldemókrataflokkurinn, hluti hans studdi stríðsrekstur þýsku keisarastjórnarinnar (m.a. á þeim forsendum að annars myndi afturhaldið í Rússlandi ná öllum völdum í Evrópu) á meðan fámennur minnihluti í forystunni snérist gegn stríðinu. Þessi minnihluti stækkaði fljótt og var orðinn að meginstraumi á vinstri vængnum þegar um 1916. Það var einungis tímaspursmál hvenær byltingin í Þýskalandi hæfist, og það gerðist haustið 1918. Eftir áramótin gerðu vinstri sósíalistar byltingartilraun í Berlín, en hún var kveðin niður af bandalagi yfirstéttar og forystu sósíaldemókrata, sem beittu fyrir sig sveitum fyrrverandi hermanna, Freikorps. Þessar hersveitir myrtu þau Rósu Luxemborg og Karl Liebknecht, foringja þýskra kommúnista. Byltingingarólgan hélt þó áfram allt til 1923.

Í Rússlandi máttu sósíalistar ekki starfa opinberlega. Þar urðu bolsévíkar reka hreyfingu með leynilegum hætti. Rússneskir kommúnistar – bolsévíkar – höfðu lært mjög mikið af byltingartilraun sem blossaði upp meðal almennings eftir ósigur keisarastjórnarinnar í Rússlandi fyrir Japan 1905. Einnig héldu þeir mjög ákveðið í byltingarmarkmið sósíalista, andstætt hægri sósíaldemókrötum eins og mensévíkum. Þegar bylting braust út í Rússlandi 1917 voru bolsévíkar því betur búnir undir hana heldur en þýskir sósíalistar að því leyti að þeir höfðu reynslu úr annarri, eldri byltingartilraun. Svo fór að bolsévíkar náðu tökum á byltingarhreyfingunni, sem eins og 1905 var í upphafi sjálfsprottin og var fjöldahreyfing í orðsins fyllstu merkingu. Byltingin var bæði í sveitum og í borgum, ekki síður meðal bænda en verkamanna. Af ýmsum orsökum þróuðust mál þannig að um 1929 fór svo af stað eins konar styrjöld hins sósíalíska ríkisvalds gegn bændum. Andstaða bænda við stjórn bolsévíka, sem vildu skattleggja bændur til að geta farið af stað með iðnbyltingu leiddi til harðra átaka á milli þessara tveggja arma byltingarinnar. Bændur máttu þola harkalegt ofbeldi af hálfu ríkisvaldsins, samyrkjuvæðingu með valdbeitingu o.s.frv. Ein mikilvægasta orsökin fyrir þessum deilum var stríðsógnin að vestan, sú hætta að heimsvaldasinnar myndu reyna að kveða niður byltinguna með hervaldi. Sovétmönnum lá á að iðnvæðast, bæði til að efla efnahag og til að efla hernaðarmátt sinn. 

Í Kína var málum farið á allt annan veg. Kínverska byltingin hófst 1911 þegar keisarastjórnin féll. Kína hafði mátt þola hvers kyns ágang og yfirgang vestrænna heimsveldi allt frá því í ópíumstríðunum árin 1839-1842 þegar Bretar börðust gegn keisarastjórninni og höfðu sigur og 1856-1860 þegar bæði Bretar og Frakkar tóku þátt og höfðu aftur sigur gegn keisarastjórninni. Árið 1919 hófst hreyfing kommúnista innan byltingarhreyfingarinnar og hafði nokkrum árum síðar náð sterkri stöðu meðal verkalýðshreyfingarinnar, t.d. í Shanghai. Kommúnistar höfðu gengið í ráðandi arm kínversku byltingarinnar, Kuomintang-flokkinn árið 1923 að ráðum Komintern, alþjóðasambands kommúnista sem stýrt var af vestrænum kommúnistum. Það fór ekki betur en svo að, Kuomintang-flokkurinn með herforingjann Chiang Kai-Shek í forystu réðst árið 1927 gegn kommúnistum og drap fjölda þeirra. 

Borgarastyrjöld hófst þá í Kína. Kommúnistar reyndu að gera uppreisn í nokkrum borgum en voru sigraðir og flúðu út í sveit. Þar byggðu þeir upp fjöldahreyfingu meðal bænda og mynduðu ríkisstjórn eða héraðsstjórn í nokkrum rauðum héruðum.  Árið 1934 var staðan sú að Kuomintang hafði sigrað kommúnista nær alls staðar nema á litlu svæði í Shaanxi norðan til í Kína. Kommúnistar úr öðrum héruðum hófu þá Gönguna löngu. Hinn rauði her kommúnista mátti berjast við stjórnarherinn við hvert fótmál og með miklum fórnum, en Rauði herinn þraukaði og náði til Shaanxi árið eftir. Þar settust þeir um kyrrt og héldu velli á meðan Japanir reyndu að leggja undir sig Kína 1937-1945. Við upphaf þeirrar árásar heimsvaldasinna á Kína myndaðist á ný bandalag milli Kuomintang og kommúnistaflokksins. Þetta bandalag varðist Japönum og náði miklum árangri í vörn sinni, þannig að Japanir náðu aldrei að sigra kínverska herinn. Framsækin öfl sóttu mjög í sig veðrið í síðari heimsstyrjöld með sigri Sovétmanna á nasistum og Kínverja á Japönum. 

Upphafleg stjórn kommúnista, í rauðu sveitunum, varð síðar grundvöllurinn í hinu nýja ríkisvaldi Kommúnistaflokksins, eftir að þeir sigruðu Kuomintang í endurnýjaðri borgarastyrjöld 1945-1949. Tengslin milli kommúnistaflokksins og bændaalmúgans voru því sterk og kjarninn í byltingunni. Meðalaldur hermanna í Rauða hernum var 19 ár, og forysta flokksins var skipuð fólki sem flest var á þrítugs- eða fertugsaldri og höfðu orðið kommúnistar um eða upp úr 1919, þá í kringum tvítugt.

Einingarsamtök kommúnista

40 árum síðar gerðist það að stofnuð voru Einingarsamtök kommúnista á Íslandi eftir klofning í Fylkingunni. Trotskíistar sigruðu í innanflokksátökum þar, þannig að maóistarnir gegnu út. 

Trotskíistar voru því öflugir í Reykjavík, og háðu harða samkeppni við maóista, en á Akureyri var aðstaðan önnur. Þar voru maóistar gjörsamlega ráðandi í nýju vinstri hreyfingu. Ekki aðeins voru Einingarsamtökin öflug með tvær sellur og mikla starfsemi, heldur voru Kommúnistasamtökin, KSML líka starfandi með verulegt starf, og KSML (b) eitthvað líka. Flestir liðsmenn Einingarsamtakanna voru krakkar á aldrinum 16-18 ára, margir þeirra nemendur í Menntaskólanum á Akureyri. Þar höfðu bylgjur æskulýðsuppreisnarinnar risið hátt um 1970, og foringjar þeirrar uppreisnar voru líka forystumenn Einingarsamtakanna, um áratug eldri en flestir aðrir liðsmenn. Öðru hverju barst liðsauki að sunnan, en starfið var fyrst og fremst borið uppi af 10-20 manna hópi úr Menntaskólanum. Liðsaukinn að sunnan var þar að auki ekki alltaf til fagnaðar, en var það stundum. Starfið fólst í fyrstu í fræðslu nýrra meðlima, leshringir voru myndaðir og fólk lærði þar bæði kenningu og starfshætti kommúnistaflokks. Síðan hófust söluherferðir á Verkalýðsblaðinu og öðrum ritum sem samtökin gáfu út. Einnig var innanflokksblaðið, Þjónn fjöldans, sem kom út reglulega mikið lesið. Samtökin gengust fyrir árlegri 1. maí göngu í bænum líkt og í Reykjavík. Smám saman jókst starfið á opinberum vettvangi Menntaskólans sjálfs og þar fór af stað hreyfing sem barðist fyrir betri kjörum og betri aðbúnaði nemenda, m.a. í mötuneyti heimavistar skólans, sem var frægt fyrir misjafnan mat. Einnig náðist æ betra samband við verkalýð bæjarins, t.d. í verksmiðjum á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga sem unnu iðnvarning úr sauðfjárafurðum. Innanflokksátök urðu líka, sumir félagar leituðu í samstarf við nýja hreyfingu krata á vegum Vilmundar Gylfasonar og það var ekki vinsælt hjá flokksforystunni. 

Einn liðurinn í starfinu var að fylgjast með gangi mála á alþjóðavettvangi. Einingarsamtökin voru í nánu samstarfi við maóista á Norðurlöndum, sérstaklega í Noregi. Þar var nokkuð stór og öflugur maóistaflokkur sem gaf út blað sem hét Klassekampen. Það barst reglulega norður á Akureyri og þar mátti lesa um nýjustu þróun mála í Kína. Meðal þess sem liðsmenn Einingarsamtakanna á Akureyri voru forvitnir um var gangur menningarbyltingarinnar. Framvinda mála eftir fráfall formannsins Mao Zedong vakti óskipta athygli, ekki síst afdrif fjögurra manna gengisins svonefnda, en þar sat m.a. ekkja Maós. Sú valdabarátta hefur lítið verið rædd undanfarið, en þegar ekkja Maós og félagar hennar lutu í lægra haldi í baráttu við hægri væng Kommúnistaflokksins má segja að menningarbyltingunni hafi lokið. 

 Í staðinn náði Deng Xiaoping völdum í flokknum og lagði grunninn að áframhaldi nývæðingu á vegum Kommúnistaflokksins með heldur betur óhefðbundnum aðferðum, þegar miðað er við hvernig hagstjórn hafði verið háttað í sósíalískum ríkjum fram að því. Þær aðferðir reyndust hins vegar mjög vel til að bæta lífskjör kínverskrar alþýðu hratt og örugglega, og á tímabilinu 1980-2020 var hagvöxtur í þessu risaríki hraðari en sést hefur á byggðu bóli. Nú er staðan sú að heimsvaldasinnar undirbúa opinberlega styrjöld á hendur Kína, sem ógnar forræði Bandaríkjanna í heimsmálum að mati forvígismanna þar vestra. 

Skömmu eftir að Deng náði völdum í kínverska flokknum liðu Einingarsamtökin undir lok. Þau voru orðin mjög löskuð þegar um 1979. Mörgum brá illa þegar fréttir bárust af styrjöld milli Kína og Víetnams, en á Akureyri kom líka deyfð í starfið vegna þess að margir flokksmenn höfðu útskrifast úr Menntaskólanum og haldið til háskólanáms, sumir í Reykjavík  þar sem oft tókst ekki að viðhalda sama krafti í starfinu. Mikið og langvarandi starf, vikulegir sellufundir o.s.frv. var líka farið að íþyngja fólki, kulnun lét á sér kræla. Slík kulnun var vel þekkt vandamál á vinstri vængnum í Evrópu og Norður-Ameríku á þessum árum. Einingarsamtökin náðu aldrei nægilegri viðspyrnu í verkalýðshreyfingunni eða á öðrum vettvangi, t.d. í kvennahreyfingunni, til að ná flugi á eigin forsendum. Á tímabilinu 1979-1984 þróaðist þó hér á landi eins og víða annars staðar í Evrópu mjög öflug fjöldahreyfing gegn kjarnorkuvopnavæðingu, sem stóð fyrir margs kyns viðburðum, uppákomum og aðgerðum í Reykjavík og víðar á þeim tíma. En hvorki maóistasamtök né samtök trotskíista voru þar í forystu.

50 árum síðar

50 árum síðar erum við hér. Heimsvaldasinnar berjast um með kjafti og klóm í gegnum staðgengla sína í Ísrael og Úkraínu, a.m.k. í Miðausturlöndum við sams konar óvini og í Víetnamstríðinu, við eina frelsishreyfingu þriðja heimsins, bandalag Hamas, Hizbollah, Houtha og Írans, og eru með stöðugar stríðshótanir gagnvart Kína. Svíþjóð og Finnland eru opinberlega gengin í NATO. Ný tegund af hægristefnu lætur á sér kræla í heimsvaldaríkjunum. Sumir þessara nýhægrimanna eru hrifnir af Pútín og leiðsögn hans fyrir rússnesku þjóðina. Það er einkennilegur snúningur, en ráðandi öfl í heimsvaldaríkjunum eru enn sem komið er meira miðsækin. Þau sækja hugmyndir sínar í leifar nýfrjálshyggjunnar, og þar eru demókratar í Bandaríkjunum sem eru ákveðnastir í að fara með báli og brandi gegn Kína og öðrum „einræðisríkjum“ eins og þau kallast í munni áróðursmiðla Vesturveldanna. 

Það er raunar talsvert annar blær á menningarafurðum „einræðisríkisins“ Kína t.d. á sviði framleiðslu á vísindaskáldsögulegum kvikmyndum en hliðstæðum afurðum „lýðræðisríkja“ eins Bandaríkjanna. Annars vegar, í kvikmyndinni Wandering Earth II er samfylking allra landa gegn hvers kyns ógnum frá sjálfri sólinni sem að lokum leiðir til ferðalags allrar jarðarinnar frá núverandi sólkerfi til Alpha Centauri, með mannkynið innanborðs, og hins vegar hálffasískar túlkunar Hollywood á t.d. því hvernig Bruce Willis sigrast á sams konar ógnum af hálfu halastjörnu sem stefnir á jörðina í kvikmyndinni Armageddon. Þar er einstaklingshyggja og einkaframtak í fyrirrúmi og má spyrja sig hvort er einræðislegra. 

Um afdrif kínversku byltingarinnar á s.l. 50 árum má segja að Kína náði miklu betri árangri en rússneska byltingin. Það á að minnsta kosti við um efnahagslegan árangur. Kína er nú í fremstu röð á öllum sviðum tækni og vísinda, og „einræðisríkið“ Kína blómstar á því sviði. Það var einmitt rekinn mikill áróður þess eðlis hér á árum áður í þá veru að „einræðisöfl“ kommúnistaflokka þar sem þeir voru við völd sæju til þess að tækni og vísindi mundu staðna vegna ofríkis og ofbeldis Flokksins, sem myndi kæfa hvers kyns einkaframtak og einstaklingsblómstrun, sem svo væri forsenda framfara. Kína virðist nú hafa afsannað það. Á sviði grænnar tækni er „einræðisríkið“ svo framarlega að Vesturlönd hafa neyðst til að leggja 100% toll á kínverska rafmagnsbíla til að vernda eigin framleiðslu. Í Kína er hraðinn á grænni rafvæðingu, sólarsellum og vindorku, nær tíu sinnum meiri en á Vesturlöndum. Kína er raunverulega forystuafl heimsins á sviði viðbragða við hnattrænni hlýnun, á meðan Bandaríkin draga lappirnar á því sviði. Forystuafl hins „frjálsa heims“ hefur ekki tök á að takast á við það vandamál af neinu viti, ekki frekar en það getur tekið á vitfirringu ísraelskra forystumanna af neinu viti, heldur styður hana og tekur þátt í henni. 

Um 1980 ákvað Kína í raun að leggja af þeirri braut sem mörkuð hafði verið með menningarbyltingunni, þegar unga fólkið gerði uppreisn og vildi raunveruleg alþýðuvöld. Franski heimspekingurinn Alain Badiou komst að þeirri niðurstöðu að með kínversku menningarbyltingunni, sem líka má nefna alþýðu- og æskulýðsuppreisnina í Kína 1966-1976 hafi lokið tímaskeiði þeirra byltinga sem hófust með frönsku byltingunni 1789. 

Nú vill svo til að einmitt þetta land hér, sem við stöndum á, Ísland, upplifði sína langmestu byltingaröldu, byltingarkreppur, samfélagskreppu eða fjöldahreyfingu löngu eftir lok þessarar „síðustu byltingar“ Badious. Á því tímaskeiði ævinnar sem þáttaka í starfi í kommúnistaflokks var, fékk maður oft að heyra frá eldri fjölskyldumeðlimum að kommúnismi gæti kannski komið að gagni fyrir fátæk og vanþróuð lönd eins og Rússland og Kína – en ekki í löndum eins og Íslandi þar sem allt væri svo gott, lífskjör góð, heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða, menntakerfi líka gott, félagsleg aðstoð góð o.s.frv. Hér væri líka lýðræði, málfrelsi og trúfrelsi, sem ekki væri í einræðisríkjum kommúnismans. Það tók hins vegar ekki nema tæp 30 ár fyrir kapítalismann hér á landi að sigla velferðarsamfélaginu í algert hrun. Það gerðist eftir stefnubreytingu sem varð um 1984 frá áherslu á uppbyggingu velferðarkerfis og til áherslu á niðurskurð í velferðarkerfinu, einkavæðingu, alþjóðavæðingu, fjármagnsvæðingu og annað í þeim dúr. Um 1990 herti mjög á framtaki og dugnaði á þessu sviði og árið 2003 voru bankarnir „einkavæddir“. Það tók forvígismenn hinna nýju banka aðeins fimm ár að keyra bankana í þvílíkt þrot að úr varð eitt mesta gjaldþrot í heimssögunni. Ég man ekki hvar þetta gjaldþrot er í röðinni, en fá gjaldþrot hafa orðið stærri. 

Kapítalisminn á Íslandi fékk sitt tækifæri og glutraði því svo gjörsamlega niður að sjaldgæft er. Ekki nóg með það, heldur myndaðist fjöldahreyfing í landinu gegn þeim stjórnvöldum sem að þessu höfðu staðið. Sú hreyfing mótaðist á aðeins tveimur mánuðum, og náði síðan að fella stjórnvöld úr sessi og leiða vinstri öflin til valda. Stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, eins helsta verkalýðsforingja vinstri hreyfingarinnar, gekk að ýmsum kröfum fjöldahreyfingarinnar á fyrstu mánuðum eftir valdatöku sína en mistókst svo eftir það hrapallega í öðrum málum, svo sem Icesave málinu, þar sem stjórnin vann þar gegn kröfum sömu hreyfingar. Einnig voru ríkisstjórninni vægast sagt mislagðar hendur við að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fjölskyldna, þannig að 12.000 fjölskyldur misstu heimili sín á uppboðum vegna gjaldþrots. Stjórnin var nánast lömuð síðustu tvö ár sem hún sat við völd vegna andstöðu almennings.

Fjöldahreyfingin gegn hrunsöflunum

Fjöldahreyfingin gegn hrunsöflunum varð til úr nánast engu í október og nóvember 2008. Á tímabili var Ísland miðpunktur heimsróttækninnar, hingað streymdu forystumenn róttækra afla eins og Julian Assange o.fl. og bera fór á því að aðgerðasinnar frá Frakklandi, Spáni og Portúgal leituðu hingað til að spyrjast fyrir um „þöglu byltinguna“. 

Íslenska fjöldahreyfingin gegn hrunsöflunum skipulagði sig á mjög svipaðan hátt og þær fjöldahreyfingar sem síðar spruttu upp á Spáni, í Túnis, Egyptalandi og loks í Bandaríkjunum í Occupy Wall Street hreyfingunni á árunum 2010-2011. Hún varð raunar fyrirmynd þeirra í einhverjum mæli. Í íslensku hreyfingunni voru fundir haldnir á einum stað reglulega, á hverjum laugardegi á Austurvelli. Þar sló púls hreyfingarinnar, þar fjölgaði þáttakendum stöðugt um hverja helgi og þar komu fram forystumenn sem síðan unnu í vikunni á milli hörðum höndum að því að byggja upp skipulag hreyfingarinnar. Í desember var komið fram skipulag, skipuleg samtök sem stóðu að fjöldafundi á Arnarhóli þann 1. september. Sami hópur stóð síðan að framboði Borgarahreyfingarinnar í þingkosningum um vorið og náði fjórum þingmönnum á þing. Ég fylgdist náið með því þegar félagar mínir í svokölluðum Akademíuhópi sem var einn armur Borgarahreyfingarinnar náðu inn á þing á vængjum Búsáhaldabyltingarinnar. Ég sagði raunar skilið við hópinn þegar flokksstofnun komst á dagskrá, mér leist ekki á blikuna.

Þetta var alveg klassísk sjálfsprottin hreyfing, mjög athyglisverð fjöldahreyfing. Á Íslandi var öfgafull nýfrjálshyggja, hún var hömlulaus, verkalýðshreyfingin bauð ekki fram neina mótspyrnu, né aðrir aðilar. Helst voru það nokkrir anarkistar sem hlekkjuðu sig við vinnuvélar í Kárahnjúkum sem réru gegn straumnum. Vinstri bylgjan frá 1968 var nánast alveg horfin. 

Á meðan stóð Kína og bjargaði kapítalismanum. Það er nokkuð athyglisvert, Kína var á tímabilinu 2008-2011 kjölfestan í heimshagkerfi kapítalismans. Fjármagnsvæðingarbylgjan sem lék um heiminn eftir 1980 hafði leikið forystusamfélög heimskapítalismans. Alþýða heimsvaldaríkja eins og Bandaríkin og Bretland voru grátt leikin af frelsi kapítalismans. Framleiðsla var í stórum stíl lögð niður og flutt til Asíu, oft einmitt Kína. Hver verksmiðjan af annarri var lögð niður í svokölluðum ryðbeltum þessara ríkja, norðausturhluta Bandaríkjanna, Indiana, Ohio, Pennsylvaníu o.s.frv. og norðurhéruðum Bretlands, borgum eins og Manchester, Leeds, Newcastle, Glasgow. Eftir sat atvinnulaus og í Bretlandi sigruð verkalýðsstétt eftir mikinn ósigur í verkafalli kolanámumanna 1985. Í Kína varð á sama hraðasta iðnvæðing sögunnar, í þessu ríki sem kallaði sig sósíalískt og sem stýrt var og er af Kommúnistaflokki Kína. 

Það er þekkt að á því tímabili sem hefur verið kallað hið langa 68 tímabil, stundum skilgreint sem tímabilið 1955-1985 þá leiddi hin öfluga fjöldabarátta alþýðu, æskulýðs, verkalýðs og andspyrnuhreyfingar í nýlendum til þess að þau róttæku öfl sem fyrir voru efldust að marki. Þetta átti sér t.d. stað í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndunum. Sósíaldemókrataflokkurinn á Norðurlöndunum og velferðarkerfið sem hann hafði byggt upp efldist verulega þegar vindar alþýðubaráttu léku um heiminn. 

Það fer ekki hjá því að manni detti í hug að eitthvað svipað hafi átt sér stað í Kína. Upp úr 2010 fer maður nefnilega að heyra um nýja þróun í Kína, eflingu maóismans. Í ljós kom að í kínverskum háskólum voru enn við störf marxískir hugmyndasmiðir eins og Wang Hui. Xi Jinping kom fram á sjónarsviðið sem þjóðarleiðtogi og lagði eða hefur lagt verulega áherslu á einhvers konar endurvakningu alþýðuvalda í anda maóismans. Getur verið að heimsuppreisnin eftir 2008 hafi ýtt að einhverju marki undir þessa vinstri sveiflu í Kína? Spyr sá sem ekki veit. Þetta er alls ekki ólíklegt. Einnig er spurning hvort einhvers konar alþýðuhreyfing er að baki stjórnvalda í Kína. Lögmæti stjórnvalda þar er að líkindum mjög mikið vegna þess hve landið hefur eflst á undanförnum 75 árum. 

Sósíalískt ríkisvald hefur í Kína byggt upp nútímalegt hátækniríki á 30 árum eins og áður segir, með góðum lífskjörum fyrir þegnana. Því virðist hafa tekist að halda stjórn á þeim kapítalísku öflum sem hleypt var lausum í Kína upp úr 1985 eða svo, og voru nýtt til að byggja upp samfélagið. Flokkurinn stýrir samfélaginu, og kapítalistar hafa ekki úrslitavöldin, sýnist vera. Því hefur verið á annan veg farið í löndum sósíaldemókratismans eins og Svíþjóð, Danmörku og Noregi þar sem kapítalistar hófu mikla gagnsókn gegn velferðarkerfinu  upp úr 1985 og sýnast hafa lyklavöld á þjóðarheimilinu þar, öfugt við Kína.

Lokaorð

Nú er barátta fyrrum (og núverandi) nýlendna gegn heimsvaldasinnum enn á ný í brennidepli. Harðasti slagurinn er að sjálfsögðu núna í Palestínu og Líbanon. Þjóðir Suður-Ameríku kjósa oft og tíðum vinstri flokka til valda, þar er andkapítalískar fjöldahreyfingar hvað öflugastar. Framtíðin er óviss og ófriðarskýin hrannast upp. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að efla skipulag verkalýðssinna og andheimsvaldasinna. Hér hefur orðið til ákveðinn vísir að slíkri hreyfingu eftir hrun, t.d. með stofnun DíaMats, Alþýðufylkingar, Sósíalistaflokks og ekki síst í hinni öflugu baráttu í Eflingu og öðrum róttækum verkalýðsfélögum. Aðstaðan er að ýmsu leyti betri á vinstri vængnum en um 1980, þegar önnur róttæknibylgja var að hníga. Og Kína heldur ennþá velli og heimsvaldasinnar líta nú á það sem helsta óvin sinn. Þar er við völd Kommúnistaflokkur Kína. Árið 2010 þegar ég var í heimsókn í Kína kom ég í bókabúð nærri torgi hins himneska friðar og fannst áhugavert að sjá að í búðinni voru verk fjögurra forystumanna kínverska alþýðulýðveldisins höfð á áberandi stað. Það voru Mao Zedong, Sjá Enlaí,  Deng Sjá Ping og svo sá fjórði sem ég man ekki hver var, kannski var það Hua Kuofeng. Og á torginu hvílir stýrimaðurinn mikli, Mao enn í grafhýsi sínu.