Réttur og rangur sannleikur

15. október, 2024

Þann 20. október 2016 fór fram fundur í fjölmiðlaráði norska ríkisfjölmiðilsins NRK. Þar sátu við palloborðið Thor Germund Eriksen, útvarpsstjóri, og Per Edgar Kokkvold, formaður útvarpsráðs. Þetta var á meðan kosningabaráttu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum stóð og stóðu öll spjót á frambjóðandanum Donald Trump. Fundurinn snerist um það hvernig ætti að samræma fjölmiðlaumfjöllun um Trump. Fundurinn var sýndur á heimasíðu NRK.

Á fundinum sagði Kokkvold meðal annars þetta:

„Það væri undarlegt ef NRK myndi spila alveg hlutlausa rullu í þessari forsetakosningu… [Trump] er persóna sem ég myndi ekki bara kalla dóna, heldur einhver sem ber merki þess að vera með það sem á fagmáli kallast siðblindur“.

Við þetta fékk Kokkvold spurningu úr salnum svohljóðandi: „Sagðir þú að þér þætti að NRK ætti ekki að vera hlutlaust í umræðunni?“ Kokkvold svaraði því: „Nei (þ.e. NRK á ekki að vera hlutlaust)“.

Eriksen, útvarpsstjóri, tók undir með Kokkvold og sagði:

Það er nú einu sinni þannig að sumir hlutir í heiminum eru réttir og sumir rangir. Og okkar hlutverk, sem er mér mjög ofarlega í huga hér, er að við eigum að styrkja lýðræðið, við ætlum að vinna gegn jaðarsetningu, við ætlum að styrkja, vera límið í samfélaginu… Það er klárt að í sumum tilfellum munum við hampa sumum þeim viðmiðum sem koma fram í samþykktum okkar… Og það er ljóst að þegar maður fær svona umræður sem þú ert að benda á núna. Konur, jafnrétti kynjanna, lýðræði. Þá er þetta ekki alltaf einhliða heldur er þetta umfjöllun um það sem gerist þar og þá. Svo vil ég bara segja það, vegna þess að ég brenn mjög fyrir því, að við eigum að sjálfsögðu að fylgja ritstjórnargildum blaðamanna, við eigum að fjalla um hlutina, draga fram mismunandi skoðanir. En við höfum líka lýðræðislegt verkefni og svo eru takmörk fyrir því hvenær við getum líka í umfjöllun okkar sýnt fram á að eitthvað sé rétt og rangt.

(NRK, 2016).

Það er ekki hægt að gera of mikið úr yfirlýsingu sem þessari þar sem æðstu yfirmenn stærsta fjölmiðils lands lýsa því beinlínis yfir að þeir líti það á sitt hlutverk að velja hvað er rétt og hvað er rangt að greina frá. Fjölmiðlar eiga, samkvæmt þeim, ekki að vera hlutlausir, heldur hampa sumu en ekki öðru þegar æðstu yfirmenn ákveða fyrir okkur hin hvað er rétt og hvað er rangt. Það er ekki eins og þessi stefna hafi ekki gilt í okkar heimshluta, hér var einfaldlega sagt frá því tæpitungulaust.

Norski ríkisfjölmiðillinn er nefnilega ekkert einn um slíka stefnu, heldur má gefa þeim þó það hrós að hafa fjölmiðlaráðsfundi sína aðgengilega svo hinn almenni borgari fái nú að heyra hvað fer fram á slíkum fundum. Fjölmiðlar almennt hafa almennt hætt að fjalla hlutlaust um staðreyndir málanna, heldur velja kinnroðalaust úr það sem passar fyrir hvert málefni sem ákveðið hefur verið að sé „rétt“ eða „rangt“. Þessi hugtök, „rétt“ eða „rangt“, hefur ekkert með staðreyndir málanna að gera, heldur er um að ræða gildismat, eða ákveðna sýn. Það er til orð fyrir þetta, sem því miður er ofnotað, en það merking þess er nákvæmlega sú sem yfirmenn NRK eru að færa fram. Þetta orð er áróður.

Áróður og ekki áróður

Alþjóðlega orðið fyrir áróður, propaganda, á rætur sínar að rekja til upplýsingastríðs kaþólsku kirkjunnar gegn uppgangi villutrúar. Árið 1622 stofnaði kaþólska kirkjan „hin heilaga stofnun fyrir útbreiðslu trúarinnar“, eða Congregatio de Propaganda Fide. Þessi stofnun var almennt einfaldlega kölluð Propaganda Fide. Síðan þá hafa ótal stofnanir og fyrirtæki sprottið upp í svipuðum tilgangi, þ.e. til að dreifa út ákveðinni mynd af heiminum sem hampar tiltekinni lífsskoðun, hugmyndafræði, stefnu og heimsmynd. Tilgangur Propaganda Fide var þannig að breiða út þá heimsmynd sem æðstu stjórnendur kaþólsku kirkjunnar vildu að aðrir litu á sem hina réttu og hreinu (Britannica, 2022). Það sama á við um allar aðrar áróðursstofnanir.

Hugtakið áróður er því miður búið að eyðileggja að stórum hluta með því að nota það sem samnefnara fyrir önnur hugtök. Orðið er nú einfaldlega notað sem fúkyrði. Orð eða greinar eru kallaðar „áróður“ af þeim sem hafa aðra skoðun eða sjónarhorn, eða vilja einfaldlega ekki að þessi orð séu sögð. Þetta er alvarleg skrumskæling á hugtakinu.

Ein manneskja sem segir ósatt eða er hlutdræg er ekki að stunda áróður. Að færa rök fyrir máli sínu er ekki áróður. Áróður er ekki eitthvað sem einstaklingar sjá um, heldur er þetta skipulögð herferð stofnunar, sérstaklega þeirra sem hafa mikil völd og ítök. Að stunda áróður er ekki einu sinni samnefnari fyrir þá iðju að ljúga. Hægt er að stunda áróður algjörlega án þess að ljúga, þó lygum geti verið beitt. Það er tilgangurinn sem skilgreinir áróður og tilgangurinn er að breiða út fyrir fram ákveðna heimsmynd, að fá fólk á band stofnunar, fyrirtækis eða hugmyndafræði og ná fram skýrum markmiðum. Það eru æðstu stjórnendur stofnunarinnar sem ákveða það fyrir hvaða hugmyndafræði á að reka áróður fyrir og þá má beita öllum brögðum. Brögðin sjálf eru nú ótal mörg. Það má meir að segja nota fallega hluti á borð við listaverk og samkomur til að reka áróður. Áróður getur meir að segja falist í því að nota skilaboð sem á yfirborðinu virðast ekki koma málinu neitt við. Þannig lögðu áróðursmeistarar Þriðja ríkisins mjög mikla áherslu á dægurmálaumfjöllun í stríði sínu um hug og hjörtu þýsku þjóðarinnar. Frá árinu 1933 notuðu nasistar mikið púður í að þróa dægurmálatímarit, útvarpsþætti og kvikmyndir sem höfðu enga augljósa tengingu við nasismann. Tilgangur þeirra var að halda fólki uppteknu og glöðu við dægurmál, skapa góða ímynd og tengingu við þróun stjórnmálanna og samfélagsins undir nasismanum og koma í veg fyrir óánægju m.a. (Führer, 2011).

En lykilatriði í áróðri er að hampa ákveðnum atriðum en ekki öðrum í þeim tilgangi að skapa „rétta“ ímynd af því sem á sér stað í heiminum og breiða út ákveðnar hugmyndir, gildismat og heimssýn. Þetta er nákvæmlega það sem stjórnendur NRK eru að gera hér. Hugmyndirnar sem þeir eru að breiða út eru auðvitað ákaflega göfugar: Jafnrétti, lýðræði og frelsi. Þeir ættu hins vegar að hafa í huga að kaþólska kirkjan, nasistaflokkurinn og aðrar stofnanir sem hafa gert garðinn frægan í áróðri notuðu oft einmitt þessi sömu hugtök til að réttlæta áróðursstarfsemi sína: Jafnrétti, stöðugleika, lýðræði, frelsi og önnur fögur orð. Nærri allir telja sig, eða segjast, berjast fyrir lýðræði, frelsi og framtíð barnanna. Þetta eru falleg hugtök. Það liggur alltaf eitthvað meira að baki og sú heimsmynd og hugmyndafræði sem NRK er að breiða út eru ekki einungis jafnrétti, lýðræði og frelsi, heldur margt meira og oft alls ótengt þessum fallegu orðum.

Okkar fjölmiðlar fylgja þessari stefnu, að ákveða fyrir fram hverju er rétt að greina frá og hverju ekki, hvernig er best að færa fram upplýsingarnar, og setja sig í það hlutverk að almenningi sé ekki treystandi sjálfum til að ákveða hvað er „rétt“ og hvað er „rangt“ á grundvelli hlutlaust veittra upplýsinga, en ég held ekki að þetta sé gert að ígrunduðu máli um þá hugmyndafræði sem þeir eru að reka áróður fyrir. Þeir eru einfaldlega að fylgja stóru fjölmiðlunum í nærumhverfinu, fá frá þeim vísbendingar um hvernig umfjöllunin á að vera, hvaða sjónarmið séu hin sönnu og réttu, hverju á að greina frá og hverju ekki. Þau eru ómeðvitaðir þátttakendur í áróðursherferð sem þeir skilja ekki.

Heimildir

Britannica (online). 2022. „Congregation for the Propagation of the Faith“. Sótt þann 4.06.2022 frá https://www.britannica.com/topic/Congregation-for-the-Propagation-of-the-Faith

Führer, K. C. 2011. Pleasure, Practicality and Propaganda: Popular Magazines in Nazi Germany, 1933–1939. In book: Pleasure and Power in Nazi Germany (pp.132-153). Hægt er að nálgast greinina á https://www.researchgate.net/publication/304655885_Pleasure_Practicality_and_Propaganda_Popular_Magazines_in_Nazi_Germany_1933-1939

NRK. 2016. 20. Okt. 2016, Kringkastingsrådet. Sótt þann 04.06.2022 frá https://tv.nrk.no/serie/kringkastingsraadet/201610/AINF00000616/avspiller

Mynd á forsíðu: „Portrait of the Bourgeoisie (1939) by David Alfaro Siqueiros“. Fengin frá https://monthlyreview.org/2023/12/01/imperialist-propaganda-and-the-ideology-of-the-western-left-intelligentsia/