Sameiginleg refsing og framferði pólitískrar elítu Ísraels

13. október, 2023

Sameiginleg refsing (collective punishment) er bönnuð samkvæmt þeim alþjóðasáttmálum sem náðst hefur samstaða um frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þannig segir í 33. Grein Genfarsáttmálanna „Grein 33 – Ábyrgð einstaklingsins, sameiginlegar refsingar, rán á eignum almennings og hefndaraðgerðir: Engri manneskju undir vernd má refsa fyrir brot sem hún hefur ekki framið sjálf. Sameiginlegar refsingar og um leið aðgerðir sem miða að því að vekja ótta eða hryðjuverk eru bönnuð. Rán á eigum almennings [í kjölfar hernaðaraðgerða (en. pillage)] er ólöglegt. Hefndaraðgerðir sem beinast að vernduðum manneskjum og eignum þeirra eru óheimilar“ (ICRC, „Geneva Convention of 1949).

Þessar reglur ættu að vera sjálfsögð sannindi. Það er með öllu óafsakanlegt að refsa hópi fólks sem hafði ekkert með eitthvað brot að gera fyrir þann glæp. En þessar reglur voru ekki settar á að ástæðulausu. Það var ekki einungis algengt í seinni heimsstyrjöldinni að refsa venjulegu fólki fyrir t.d. aðgerðir andspyrnuhópa, heldur hafa stríðsátök sögunnar að geyma nærri endalaus dæmi um slíkt. Undir hernámi Ústasja, SS Skanderbeg og annarra nasista í Júgóslavíu voru þær reglur við lýði að fyrir hvern nasista sem felldur var af júgóslavnesku andspyrnunni skyldu 10 almennir borgarar vera teknir af lífi. Fjöldamorð eins og þau sem áttu sér stað í My Lai í Víetnam voru framin á venjulegum þorpsbúum sem viðbrögð við árásum skæruliða á hersveitir Bandaríkjamanna. Svo mætti telja endalaust. 

Að baki þeirri hugmynd að sameiginleg refsing sé einhvern veginn réttlætanleg liggja fordómar og fyrir fram gefnar ranghugmyndir sem eru svo fastmótaðar að þeir sem hafa þær taka þeim sem sjálfsögðum sannleik. Þeir líta svo á að allir sem í þeirra huga falla í sama hóp séu eins, einskonar sameiginleg vera. Þegar einn armur af þessari sameiginlegu veru; hvort sem það eru allir í menginu þetta eða hitt þjóðarbrot, allar konur eða allir karlar, allir sem tala þetta tungumál o.s.frv., fremur glæp, þá eru allir í hópnum sekir. Undirliggjandi er svo að þeir sem frömdu glæpinn hugsi sig tvisvar um áður en þeir ögra valdi hefnaranna, enda muni það þýða að fólk úr þeirra eigin hópi mun þjást.

Þetta eru afleiðingar frumstæða hluta hugar okkar, hluta sem skynsemi okkar á að, og getur, unnið á og haldið í skefjun. Það er auðvelt að hleypa lífi í þessa tegund hugmyndafræði. Það má gera með áróðri sem djöfulgerir hóp fólks, hampar öðrum og býr til ímynd um „okkur og þau“. Heilinn okkar er víraður á þann hátt að þetta gerist án þess að við þurfum að nota orku í það. Það er auðvelt að leyfa fordómunum að grassera, ná völdum. Það gefur hlýja tilfinningu að upplifa það að maður tilheyri einhverjum hóp og að í þeim hópi sé samstaða gegn sameiginlegum óvinum. Hjarðeðlið mun alltaf sigra ef það fær stuðning úr fjölmiðlum.

Það er eitt að sleppa frá sér slíkri skoðun á pöbb eftir fótboltaleik. Það er annað þegar valdamesta fólk heims hampar hugmyndafræði um sameiginlega refsingu. Orðræða valdamestu stjórnmálamanna Ísraela, og stuðningsmanna þeirra í Bandaríkjunum, nú er dæmi um það hatur, fordóma og sjálfumgleði sem er allra besta eldsneyti hættulegustu tegundar sameiginlegra refsinga. Þetta er sú tegund orðræðu sem hefur áður í sögunni leitt til raunverulegra þjóðarmorða. Allir sem tilheyra einhverjum hópi eru settir undir sama hatt, lýst sem dýrum eða eitthvað þaðan af verra, og látið er sem að refsingar sem beinast gegn einstaklingum sem tilheyra þessum meinta glæpahóp, en höfðu ekkert með glæpina sjálfa að gera, sé mikið réttlætismál. Hér eru nokkur alveg fersk dæmi sem geta valdið martröðum:

„Gaza mun brátt verða að tjaldborg. Það verða engar byggingar.“ (Ónafngreindur yfirmaður hjá Ísraelsher við blaðamann Channel 13 og NY Post.)

„Alls staðar þar sem Hamas starfar, allir staðir sem þeir fela sig í, þessi illgjarna borg [Gaza], við munum breyta þeim í rjúkandi rústir“ (Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels í nýlegu sjónvarpsátali).

„Finish them!“ (Nikky Haley, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ í viðtali hjá sjónvarpsstöðina Fox News). 

„Ertu í alvöru að spyrja mig um palestínska borgara? Hvað amar að þér? Hefur þú ekki séð hvað gerðist? Við erum að berjast við Nasista…. Ég ætla ekki að fara að gefa óvinum mínum vatn eða rafmagn. … Ef [Hamas] ætlar að nota mannlega skildi (human shields) þá er það á þeirra ábyrgð“ (Naftali Bennett, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels í viðtali við Sky News).

Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels lýsti yfir „algjöru umsátri“ um Gaza og sagði: „We are fighting human animals.“

Og Ísrael hefur látið kné fylgja kviði. Rafmagn hefur verið tekið af, sem hefur lamandi áhrif á alla innviði á borð við sjúkrahús, sprengjur eru látnar dynja á íbúðahverfi og fólkið í þessum stærstu einangrunarbúðum heims er lokað inni. Aðgerðir Hamas voru einnig dæmi um sameiginlega refsingu, og þrátt fyrir 70 ára kúgun Ísraels á Palestínumönnum er ekki hægt að réttlæta það hryðjuverk á almennum borgurum. En Ísland á í pólitísku og efnahagslegu samstarfi við þetta gríðarlega valdamikla ríki sem Ísrael er. Ef hroki, hatur og ofbeldi pólitískrar elítu Ísraels verður ekki gagnrýnt, þá verður ekkert að marka íslenska utanríkispólitík það sem eftir er.