Grænland tilheyrir Grænlendingum – ekki Bandaríkjunum né Danmörku
—

Aldalöng ill meðferð danska ríkisins á Grænlandi er nú nýtt af verðandi Bandaríkjaforseta með það að markmiði að ná yfirráðum og taka við þar sem nýlendustefna og heimsvaldastefna Dana endar, skrifar Lotte Rørtoft-Madsen.
Grænlendingum og grænlensku þjóðinni hefur verið ruddalega hrint inn á stórpólitíska sviðið á síðustu dögum og vikum. Reynt er að gera hina tæplega 57.000 íbúa og eyjuna þeirra stóru að samningsefni, peði sem hægt er að flytja til og frá á hinu stóra skákborði heimsvaldastefnunnar.
Í gríðarlegu fjölmiðlaljósi fór sonur Donalds Trumps í sviðsetta „ferðamannaheimsókn“ til Nuuk á þriðjudag [7. janúar] og frá bústað Trumps í Flórída var ljóst að verðandi Bandaríkjaforseti væri tilbúinn að setja afl á bak við orð sín, hann útilokaði ekki að beita efnahagslegu eða hernaðarlegu valdi til að vinna Grænland.
Á blaðamannafundinum í Flórída voru þessi orð látin falla:
Blaðamaður spyr: Geturðu fullvissað heiminn um að þú munir ekki beita hernaðarlegum eða efnahagslegum þvingunum á meðan þú reynir að ná yfirráðum yfir þessum svæðum [Grænlandi og Panama]?
– Nei, grípur Trump fram í.
Blaðamaðurinn heldur áfram:…og geturðu sagt okkur aðeins frá því hver áætlun þín er? Munt þú gera nýja samninga?
– Nei, ég get ekki fullvissað um það… þú ert að tala um Panama og Grænland… Ég get ekki fullyrt neitt um þetta. En ég get sagt þér þetta: Við þurfum á þeim að halda til að tryggja efnahagslegt öryggi.

Þurfum Grænland til að tryggja efnahagslegt öryggi, segir Donald Trump
Fyrir framan myndavélarnar birtist nýkjörinn forseti Bandaríkjanna – ekki Pútín – með augljósar hernaðar- og efnahagsógnir í garð Grænlands og dönsku ríkisheildarinnar [Danaveldis].
Og hvað segir þá Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur? „Bandaríkin eru mikilvægasti bandamaður Dana. Umræðan í dag breytir því ekki.“
Þetta er fordæmalaust, fáránlegt, algjörlega ný-nýlendusinnað drama sem Grænland hefur verið látið leika.
Múte B. Egede, formaður Lndsstjórnar Grænlands, og ýmsir grænlenskir stjórnmálamenn hafa ótvírætt lýst því yfir að Grænland sé ekki til sölu. Eftir blaðamannafund Trumps á þriðjudag endurtók Múte B. Egede það sem hann sagði einnig í nýársræðu sinni, þ.e. að „Grænland tilheyrir Grænlendingum“. Hann, ólíkt Mette Frederiksen, kallaði ummæli Trumps „alvarlegar yfirlýsingar“.
Kosningar til grænlenska þingsins, Inatsisartut, eru væntanlegar eftir nokkra mánuði. Sjálfstæðismálin voru þegar ofarlega á dagskrá stjórnmálanna áður en þróun síðustu daga varð. Það er ekki óraunhæft að ímynda sér að Grænlendingar ákveði að lýsa yfir sjálfstæði innan fyrirsjáanlegs tímaramma. Samkvæmt sjálfstjórnarsamningnum sem gildir um samband Grænlands innan ríkisheildarinnar verður danska þjóðþingið að samþykkja hann í kjölfarið.
Með samningnum hafa Danir viðurkennt að Grænlendingar séu sérstök þjóð að þjóðarétti. En nýlendustefnan er enn við lýði meðal ráðamanna í Kristjánsborg. Sumir stjórnmálamenn munu ekki einu sinni ábyrgjast já ef ákvörðun um sjálfstæði Grænlands verður tekin til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Grænland er enn útilokað frá ýmsum vettvangi og samhengi þar sem ákvarðanir sem hafa áhrif á Grænland eru teknar. Einstök mál eins og hið ógurlega spíralhneyksli, sem Múte B. Egede hefur kallað þjóðarmorð, eru dæmi um hvernig nýlendustefnan er ekki hluti af fjarlægri fortíð.
Heyrnarleysi og hroki dönsku ríkisstjórnarinnar gerir það að verkum að sjálfstæði færist ofar á dagskrá stjórnmálanna á Grænlandi. Með þessu eru ráðamenn Danmerkur sjálfir að kasta dönsku ríkisheildinni fyrir borð.
Öldum saman hefur danska ríkið beitt Grænland illri meðferð og þeirri tilfinningu að vera niðurlægt og arðrænt sem því fylgir, og það nýtir nú verðandi Bandaríkjaforseti til að tala máli grænlensks sjálfstæðis, með það að markmiði að ná yfirráðum þar sem nýlendustefna og heimsvaldastefna Dana endar.
Trump hefur þegar nefnt Kanada í norðri sem hugsanlegt nýtt ríki Bandaríkjanna. Í suðri hefur hann kallað eftir því að Panamaskurðurinn verði endurafhentur Bandaríkjunum. Undir yfirskini baráttunnar gegn eiturlyfjum og eiturlyfjahringjum hefur hann hert mælskulist sína gegn Mexíkó. Og svo er það Grænland.
Frá sjónarhóli hins kreppuhrjáða bandaríska heimsveldis lítur heimurinn svona út: umhverfis heimsveldið, á jöðrum þess, eru fjölmörg ríki með lykilaðstöðu. Er hægt með einhverjum hætti að tengja þau fastar við sig? Eða er hægt að nota hótunina um það sem samningatromp þegar efnahags- og stjórnmálasamningar eiga að nást?
Frá sjónarhóli Christiansborgar er staðan augljós: Danmörk „missir Grænland“ og litla landið okkar missir um leið nánast allt mikilvægi í utanríkis- og öryggismálum í NATO.
Að mati Nuuk er staðan erfið: Þegar Grænland er gert að peði í geópólitísku tafli um auðlindir, vatnsleiðir og fleira verður afar erfitt að velja sér eigin leið og verja hana.
Réttur Grænlendinga til að ákveða eigin framtíð verður að vera óskorað og hvers konar afskipti, fjárkúgun og mútur sem þeir verða fyrir verður að fordæma. Hvort sem það er frá Bandaríkjunum, Danmörku eða frá öðrum stöðum.
Greinin var fyrst birt á arbejderen.dk þann 8. janúar
Lotte Rørtoft-Madsen er formaður hins danska Kommunistisk Parti