Vígvæðing Úkraínu leiðir ekki til friðar

6. desember, 2023 Þorvaldur Þorvaldsson

Nú þegar hallar öðru ári stríðsins í Úkraínu virðist komin upp pattstaða. Margboðuð gagnsókn Úkraínuhers rann út í sandinn áður en hún byrjaði og í kjölfarið reynist stöðugt erfiðara að telja fólki trú um að Úkraína geti knésett Rússland á vígvellinum. Fyrir vikið hefur úkraínskum stjórnvöldum reynst sífellt erfiðara að sannfæra umheiminn um að senda sér hergögn og annan stuðning. Sífellt fleiri viðurkenna nú það sem í raun hefur legið fyrir frá upphafi, að fyrr eða síðar verði að setjast niður og semja. Það eina sem hefur breyst er að eftir því sem lengra líður þrengist samningsstaða Úkraínu, auk þess sem fleiri mannslíf tapast og eyðileggingin eykst. En hvers vegna er þá haldið áfram og hve lengi verður það hægt?

Stríðsæsingar og áróðursstríð

Ef til vill má skýra þessa tregðu til að horfast í augu við hið augljósa með þeim stanslausa áróðri sem ráðið hefur ferðinni, ekki bara í Úkraínu heldur einnig í flestum Evrópuríkjum og í Norður-Ameríku. Látið hefur verið í veðri vaka að illmennið Pútín hafi byrjað stríðið upp úr þurru í landvinningaskyni eða vegna inngróinnar rússneskrar illsku. Taumlaus áróðurinn gegn öllu því sem rússneskt er hefur tekið á sig furðumyndir, eins og nýleg samhljóða samþykkt Alþingis ber með sér þar sem lýst var yfir að hungursneyð í Úkraínu á fjórða áratugnum hafi verið skipulagt hópmorð af hálfu Rússa. Í fyrsta lagi var samþykkt slíkrar tillögu um sagnfræðilega túlkun á skjön við allar hefðir þingsins, í öðru lagi er fjarri því að sagnfræðingar séu á einu máli orsakir hungursneyðarinnar – sem deyddi einnig fjölda fólks í Rússlandi – og í þriðja lagi er samþykktin kaldhæðnisleg í ljósi þess hvað íslensk stjórnvöld hafa ekki verið tilbúin að taka jafnsterkt til orða gegn fyrir fram yfirlýstum áformum Ísraels um þjóðarmorð á Palestínuþjóðinni á Gaza.

 Íslensk stjórnvöld hafa, eins og í öðrum NATO-ríkjum og ESB, haldið uppi þeim málflutningi að ekki megi semja við Rússland, enda sé það vonlaust. Reyndin er hins vega sú að samningar kenndir við Minsk 1 og Minsk 2, voru gerðir í þessari deilu 2014 og 2015. Rússland reyndi að halda þeim til streitu en Úkraína sneri baki við þeim þegar í stað. Síðar upplýstu François Hollande og Angela Merkel að það hafi aldrei staðið til að standa við samninga þessa, heldur nota þá til að vinna tíma til að byggja upp úkraínska herinn fyrir komandi stríð. Í mars 2022 Höfðu Rússland og Úkraína efnislega náð saman við samningaborðið í Tyrklandi, en Forysturíki NATO þrýstu á Úkraínu að hafna samningum.

Áróður og veruleiki

NATO-ríkin, með Bandaríkin í fararbroddi, hafa reynt að skapa afar falska mynd af ástandinu og framvindu mála milli Rússlands og Úkraínu, þar sem skiptast á hreinar lygar, hálfur sannleikur og tali um óþægilegar staðreyndir eytt jafnóðum. Þannig er reynt að lýsa heilögum málstað úkraínskra stjórnavalda og hverju sem er skuli kostað til svo hann megi sigra á vígvellinum.

Bandaríkin höfðu allt frá því Sovétríkin voru lögð niður unnið að því að byggja upp tengsl við afturhaldsöfl í Úkraínu í því skyni að koma til valda leiðitömum ríkisstjórnum og ala á fullum fjandskap við Rússland. Þar var safnað saman ólíkum öflum, meðal annars hægriöfgahópum og aðilum sem hampa nasistatáknum. Þessi öfl náðu völdum í blóðugu valdaráni sem kennt hefur við Maidan-torgið í Kænugarði. Í kjölfarið var andstaða barin niður með ofbeldi. Í seinni tíð hefur vestrænum fjölmiðlum þótt óþægilegt að ræða um daður ýmissa í úkraínska stjórnkerfinu við nasisma, en það birtist þó glögglega í því hvernig minningu Stepans Bandera, sem stjórnaði herjum sem myrtu hundruð þúsunda í samvinnu við Hitlers-Þýskaland, hefur verið hampað á liðnum árum. Hægriöfgamenn voru í forystu fyrir hernaðarlegri uppbyggingu í Úkraínu og hafa kynt undir fjandskap við Rússland. Framhaldið er nokkuð þekkt, en hér hefur þó ekki verið fjallað um þær ögranir sem Vesturlönd hafa í áratugi beitt gegn Rússlandi. Það er efni í aðra grein. Ekkert af þessu réttlætir vitaskuld innrásina í Úkraínu en fram hjá þessari forsögu verður þó ekki litið.

Kröfur friðarhreyfingarinnar

Eins og alltaf er mikilvægt í öllum aðstæðum að reyna að takmarka skaðann og stöðva hryllinginn, sem nú á sér stað í Úkraínu. Til þess er nauðsynlegt að afhjúpa stríðsáróðurinn og gera kröfur til ríkisvaldsins í okkar landi að hætta að kynda undir stríðinu með orðagjálfri um möguleikann og nauðsynina á úkraínskum  sigri og stuðningi við taumlausa vígvæðingu. Með því að stöðva vopnasendingar til Úkraínu yrði hún knúin til að stöðva átökin og setjast að samningaborðinu. Í framhaldinu er það besta niðurstaðan að íbúar í hinum ýmsu og gerólíku héruðum Úkraínu fái að ráða framtíð sinni sjálfir í frjálsum kosningum.

Lykilkrafa friðarhreyfingarinnar í Úkraínustríðinu ætti því að vera: „Stöðvum vígvæðingu Úkraínu.“

Grein þessi birtist fyrst í Dagfara, tímariti Samtaka hernaðarandstæðinga.