NATO: 75 ára verkfæri BNA og (vaxandi) böl Evrópu

22. apríl, 2024 Þórarinn Hjartarson


Fyrri grein

NATO 75 ára. Öll mín 74 æviár í þessu landi hef ég búið við heimsmynd og óvinamynd NATO. Grundvallaratriði hennar er Rússafóbían. Árið 1949 og enn í dag segir myndin það sama: „Ógn okkar er í austri, Rússar undir alræðisstjórn og sú hætta vofir yfir að þeir ráðist vestur yfir Evrópu. Friðurinn og lýðræðið Í Evrópu stendur og fellur með sterku NATO.“

Síðustu tvö árin höfum við Íslendingar verið enn fastari í þessari mynd en áður, og hættan virðist bara aukast. Á afmælinu 4. apríl sl. skrifaði utanríkisráðherra Íslands (verðandi forsætisráðherra) grein og sagði:

„Á næstu árum þurfum við Íslendingar að vera undir það búin að takast á hendur auknar skuldbindingar innan Atlantshafsbandalagsins… og erindi bandalagsins hefur aldrei verið brýnna“

Guðni Th Jóhannesson forseti og sagnfræðingur tjáði sig um upphaf Atlantshafsbandalagsins á afmælinu. Bandalagið hefði orðið til sem varnarbandalag lýðræðis gegn Sovétinu, og Ísland þurft að vera með vegna legu sinnar.

Lýðræði leið und­ir lok í Tékkó­slóvakíu árið 1948 en áður ræddi Winst­on Churchill járntjaldið sem skipti Evr­ópu í tvennt og Harry Trum­an um Trum­an-kenn­ing­una. Hug­mynd­in um varn­ar­banda­lag vest­rænna ríkja hafi þá hlotið fylgi vest­an hafs og á meg­in­landi Evr­ópu. Þá finnst mönn­um að eigi það varn­ar­banda­lag að geta staðið und­ir nafni þá þurfi að hafa aðstöðu á Norður-Atlants­hafi – þá þurfi Ísland að vera með (viðtal Morgunblaðið 4/4).

Í yfirstandandi baráttu um Bessastaði er einna vinsælasti forsetaframbjóðandinn, skv. nýjustu skoðanakönnunum, alveg sérstök málpípa NATO og aukinna hervarna á Íslandi. Svo að heimsmynd/óvinamynd NATO stendur a.m.k. jafn sterk og hún stóð árið 1949.

Eitt er það sem hefur versnað að mun frá 1949: Þá voru hér andstæðar fylkingar í utanríkismálum, fylkingar sem börðust á Austurvelli, og andstæð sjónarmið tókust á á Alþingi og í íslenskum fjölmiðlum. Nú er andstaða við stefnu og heimsmynd NATO hins vegar ekki til á Alþingi og hún heyrist lítt eða ekki í fjölmiðlum. „Andstæðingar NATO“ í valdastólum mæta samviskusamlega á helstu samkomur NATO. Við búum við eina „opinbera heimsmynd“. Þjóðin vagar veginn fram með NATO-klafann læstan um hálsinn fastar en áður.

Aldrei verið varnarbandalag


NATO hefur aldrei verið varnarbandalag. Það var 1949 stofnað til að tryggja samofna auðvaldshagsmuni yfir Atlantshafið. Annars vegar var hlutverk bandalagsins baráttan gegn sósíalismanum. Undir það merki þyrptist borgarastétt Vestur-Evrópu, skiljanlega, þegar sósíalismi sótti fast fram í álfunni fyrst eftir seinni heimsstyrjöld.

Hins vegar þjónaði NATO frá upphafi hagsmunum risans í bandalaginu, Bandaríkjunum. Bandaríkin komu margefld út úr seinna stríði, árið 1945 framleiddu þau helming heimsframleiðslunnar og þau höfðu þörf fyrir fjárfestingarmarkaði. Efnahagur Evrópu var hins vegar í molum. NATO varð (ásamt Marhallaðstoð) verkfæri þeirra til að ná drottnunarstöðu í Vestur-Evrópu.

Opinberlega gaf NATO sig út fyrir að vera varnarbandalag gegn hættunni á árás Sovétríkjanna til vesturs í Evrópu. Ráðamenn í Washington gengu ekki síður út frá dómínó-kenningunni, um hættu á kommúnískum valdatökum og raðáhrif milli landa líkt og í dómínó. Truman forseti lofaði bandarískum stuðningi við allar frjálsar þjóðir sem ógnað væri af ytri eða innri alræðisöflum. Með „alræðisöflum“ var þó eingöngu átt við kommúnismann. Fasistaríkið Portúgal var eitt stofnríkja NATO og í NATO-ríkinu Grikklandi ríkti fasískt einræði 1967-1974. Við fasismann var NATO aldrei feimið.

Vafasöm valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, ásamt almennri hernaðarógn frá Sovétríkjunum, var á Íslandi oftast nefnt sem ástæða fyrir stofnun NATO og þátttöku Íslands sem þar með fórnaði hlutleysi sínu. En í viðræðum Bjarna Benediktssonar og íslenskra fulltrúa í Washington í mars 1949 „voru menn sammála um að bylting kommúnista væri mesta hættan sem vofði yfir Íslandi.“ („Úr bandarískum leyniskýrslum um Ísland á dögum kalda stríðsins“, Lesbók Morgunblaðsins 24. mars 1976, 3).

Bjarni Benediktsson á milli þeirra Manlio Brosio aðalritara NATO og William Rogers utanríkisráðherra Bandaríkjanna sker sneið af NATO-köku á 20 ára afmæli bandalagsins árið 1969 í Washingtonborg


Hætta á hernaðarúthlaupi Sovétmanna í vestur var aldrei annað en áróður. Hvað sem segja mátti um stjórnarfar innan Austurblokkarinnar var aldrei neitt sem benti til að Sovétríkin sýndu árásarhneigð út yfir eigin „blokk“ (skv. línum lögðum í Jalta) – a.m.k. ekki fyrr en með Afganistanstríði á fyrri hluta 9. áratugs (stríði sem CIA narraði þau út í segir Brzezinski). Það var ólíkt risaveldinu í vestri, með nálægt 130 hernaðaríhlutanir utanlands bara á tíma kalda stríðsins.

Það að Varsjárbandalagið var ekki stofnað fyrr en rúmum sex árum á eftir NATO (eftir að Vestur-Þýskaland gekk í NATO) sýnir líka hvernig orsakasamhengi ógnar og hervæðingar í Evrópu var. Risaveldin tvö voru mjög misvel á sig komin eftir styrjöldina. Varsjárbandalagið var í reynd annars vegar stuðpúðabelti gagnvart Vesturveldum, þ.e.a.s. NATO undir stjórn Bandaríkjanna, en hins vegar var það valdatæki Sovétmanna innan eigin blokkar.

Eins og áður segir var Atlantshafsbandalagið líka verkfæri eins og bandalagið í austri, verkfæri Bandaríkjanna. En til hvers var það hugsað? Ismay lávarður, fyrsti aðalritari NATO, dró vel saman raunverulegt hlutverk bandalagsins í fáum orðum þegar hann sagði að tilgangur þess væri að „halda Ameríkönunum inni í Evrópu, Rússunum úti og Þjóðverjum niðri“.

Á árum Kalda stríðsins, eftir tilkomu Varsjárbandalagsins (og sovésku kjarnorkusprengjunnar) ríkti ákveðið valdajafnvægi í Evrópu milli risaveldanna tveggja, oft nefnt „ógnarjafnvægi“. Í þriðja heiminum ósköpuðust Bandaríkin og einnig evrópsk nýlenduveldi í fjölmörgum styrjöldum gegn þjóðfrelsisöflum og „kommúnisma“. En þetta tímabil bauð samt upp á tiltölulega mikið olnbogarými og sjálfsákvörðun þjóðríkja vítt um heim (utan nánustu áhrifasvæða risaveldanna) í krafti þess að risaveldin voru tvö sem buðu skjól, og bæði leituðu eftir skjólstæðingum. Ólíkt því sem seinna varð áttu sjálfstæð ríki valkosti.

Þegar svo óvinurinn hvarf

Járntjaldið féll 1989. Varsjárbandalagið og síðan Sovétríkin voru formlega leyst upp 1991. Þegar óvinurinn var horfinn varð spurningin um tilgang og tilvistargrunn Atlantshafsbandalagsins eðlilega knýjandi. Þetta var í stjórnartíð George H. Bush vestan hafs og utanríkisráðherrans James Baker.
Á samningafundum um sameiningu Þýskalands með Gorbatsjov og Shevardnadze utanríkisráðherra í febrúar 1990 (eftir fall járntjaldsins) sagði James Baker að „lögsaga NATO myndi ekki færast eina tommu í austur“. Einnig sagði hann: „Og ef sameinað Þýskaland verður í NATO munum við passa upp á ekki-útvíkkun á lögsögu þess til austurs“ .

Aðalritari NATO Manfred Wörner lofaði Kremlverjum ekki síður öryggistryggingum í maí 1990:

“Sú staðreynd að við erum fúsir til að staðsetja ekki heri austar en Sameinað Þýskaland gefur Sovétríkjunum traustar tryggingar. (NATO, “Address by Secretary General, Manfred Wörner to the Bremertryggingar. Tabaks Collegium,” 17 May 1990).

Þessi ummæli féllu 1990, af því spurningin um áframhaldandi tilveru NATO – og sérstaklega mögulega útþenslu þess til austurs – var megináhyggjuefni sovéskra ráðamanna. Þær áhyggjur reyndust verða megináhyggjuefni Rússa líka eftir endalok Sovétríkjanna 1991 – ekki að ástæðulausu.

Nýja stefnan – að tryggja hnattræn yfirráð

„Fyrir náð guðs vann Ameríka kalda stríðið… Við erum Bandaríki Norður-Ameríku, leiðtogi Vesturlanda sem er orðinn leiðtogi heimsins“ ( By the grace of God, America won the Cold War… We are the United States of America, the leader of the West that has become the leader of the world) sagði Bush forseti í stefnuræðu sinni í janúar 1992, aðeins fjórum vikum eftir fall Sovétríkjanna. Og áður en fullir tveir mánuðir voru liðnir frá umræddu falli var lagt fram stefnuplagg í varnarmálaráðuneytinu Pentagon, undir ráðherrunum Dick Cheney og Paul Wolfowitz, Defense Planning Guidance for 1994-1999, en glefsum úr því var skömmu síðar lekið til New York Times og þar mátti lesa:



Stefna okkar þarf nú að endurstilla miðið…, Fyrsta verkefni okkar er að koma í veg fyrir að til verði nokkur hnattrænn keppinautur… við verðum að viðhalda gangverkinu til að aftra mögulegum keppinautum frá því að sækjast einu sinni eftir að leika stórt svæðisbundið eða hnattrænt hlutverk… það hefur grundvallarþýðingu að viðhalda NATO sem undirstöðuverkfæri vestrænna varna og öryggis og einnig sem farvegi bandarískrar þátttöku og áhrifa í evrópskum öryggismálum.

Nýja strategían var seinna kölluð Wolfowitz-kenningin. Meginatriði hennar var sem sagt að tryggja þyrfti hnattræn yfirráð (hegemony) Bandaríkjanna – og NATO hefði í því tilliti jafn mikilvægu hlutverki að gegna í Evrópu og áður, þó margir teldu hlutverki hernaðarbandalagsins lokið með falli andstæðingsins. Verkefnið var nú að „neyta fallsins“ og tryggja þannig yfirráðin. Þetta var í fyrsta mánuði eftir umrætt fall, svo stefnan hefur verið tilbúin fyrir fram.

Verkefni NATO snerust sem sagt ekki bara um baráttu gegn kommúnismanum. Það var ekki einu sinni aðalatriði, var það líklega aldrei. Sovétríkin voru fallin, kommúnismahættan horfin, a.m.k. úr Evrópu en hlutverk NATO sem verkfæris BNA hélst. Munum orð Ismay lávarðar, hlutverk NATO var ekki bara að „halda Rússum úti“ heldur líka halda „Bandaríkjunum inni í Evrópu“, og nú bættist við víðtækara verkefni: að tryggja Bandaríkin gegn mögulegum hnattrænum keppinautum í framtíðinni.

Zbigniew Brzezinski var afar áhrifaríkur bandarískur strategisti við lok kalda stríðsins. Í bók sinni The Grand Chessboard frá 1997 hafði hann einmitt, líkt og Wolfowitz, fyrst og fremst augastað á að tryggja til frambúðar einpóla heim, ekki síst tryggja það “að enginn evrasískur keppinautur komi fram sem gæti orðið ríkjandi í Evrasíu og þannig ögrað Bandaríkjunum.” (The Grand Chessboard, New York: Basic Books 1997, xiv)
NATO skyldi halda hlutverki sínu – en staðan var verulega breytt. Með falli Sovétríkjanna hafði myndast „tómarúm“. Og einmitt nú, og vegna þess, sprakk heimsvaldametnaður Bandaríkjanna út í fullum blóma, enda þolir heimsvaldastefnan ekkert „tómarúm“. Uppistaða í heimsmynd Bandaríkjanna varð nú Sérstöðuhyggjan (exceptionalism), og henni fylgdi sjálftekinn réttur þeirra til að beita einhliða valdi. Sérstöðuhyggjan, og tilheyrandi ofmetnaður, birtist vel í orðum utanríkisráðherrans Madeleine Albright árið 1998 (spurt var um Írak):

“Ef við þurfum að beita valdi er það af því við erum Bandaríkin, hin ómissandi (indispensable) þjóð. Við stöndum hátt og sjáum lengra en önnur lönd inn í framtíðina og við sjáum hætturnar þar fyrir okkur öll.“ ( B. Herbert, “In America; War Games,” The New York Times, 22 February 1998)

Verkefnin voru næg, verkefni innan Evrópu og ekki síður utan. Kringum aldamótin var NATO í nokkrum skrefum gert hnattrænt hernaðarbandalag. NATO lék stórt hlutverk í Bosníustríðinu frá 1995. Kosovostríðið gegn Júgóslavíu 1999, ólöglegt stríð án SÞ-samþykktar, var háð undir merkjum og forustu NATO (uppistaða NATO-hersins var bandarískur lofthernaður). Þar með var „out of area“-stefna (út fyrir svæðið) bandalagsins mörkuð. Nú snérist hernaðurinn ekki um varnir Vestur-Evrópu heldur var þetta sóknarstríð utan NATO-svæðisins, og vel að merkja inn á sögulegt áhrifasvæði Rússlands.

Í fylgd Bandaríkjanna út fyrir Evrópu

Strax árið 1991 (í tengslum við Persaflóastríðið) hafði Wolfowitz sagt við Wesley Clark, yfirhershöfðingja NATO: „Og við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm“ (J. Sachs, “Ending America’s War of Choice in the Middle East,” Horizons: Journal of International Relations and Sustainable Development, no.11 (2018): 25). Sú „hreinsun“ í Austurlöndum nær komst samt ekki vel í gang fyrr en eftir árásina á Tvíburaturnana sem brast á eins og eftir pöntun 11. september 2001.


Daginn eftir hrun tvíburaturnanna skírskotaði NATO til 5. greinar sáttmála síns (árás á einn er árás á alla). NATO lýsti þannig stuðningi við „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“ sem Bandaríkin lýstu strax yfir – í keppni sinni eftir fullum yfirráðum í Austurlöndum nær. Þau stríð stóðu samhangandi næstu tvo áratugi. NATO kastaði sér fumlaust „out of area“. Bandalagið tók sérstaklega að sér beint forustuhlutverk í styrjöldunum gegn Afganistan 2001 og Líbíu 2011.

En frá og með fyrsta áratug nýrrar aldar fór „fleirpóla“ heimur að þróast á efnahagssviðinu þegar einkum viðskiptaveldið Kína ók upp að hlið Bandaríkjanna og stefndi fram úr þeim á heimsmarkaðnum, og tengdi sig síðan við Rússland, Íran og hnattræna Suðrið. Þá varð fókusinn í Washington skýrari: að verja skyldi hina einpóla heimsskipan með kjafti og klóm. Stjórnstöð þeirrar heimsskipanar var í Washington – og NATO var til þjónustu reiðubúið.

Slík barátta þarf auðvitað sína mælskulist (retórík). Líkt og gagnvart sósíalismanum áður gengur áróðurinn út á að andstæðingarnir séu svo herskáir og yfirgangssamir (athugið að Bandaríkin hafa gert 251 hernaðarinnrás bara frá 1991 en Kína hefur ekki háð styrjöld frá 1979). Í öðru lagi gengur áróðurinn út á að hér eigist við þeir vondu og góðu, lýðræðið eigi í höggi við valdboðsríki og alræði.

Hvers konar öryggiskerfi í Evrópu?
Strax í byrjun 10. áratugar var í Washington og Brussel farið að tala um útvíkkun NATO og jafn snemma sýndu Rússar að þeim leist ekki neitt slík áform. Þeir vildu nýtt öryggiskerfi fyrir Evrópu, alla Evrópu, líka Rússland. Kringum fall múrs og járntjalds 1989 lagði Gorbatsjov fram hugmyndir um „Sameiginlegt evrópskt heimili“ með rúm fyrir ólíkar vistarverur mismunandi þjóðskipulaga og pólitískrar menningar. Í Washington lögðu menn á móti fram hugmynd um „Evrópu heila og frjálsa“ sem grundvölluð væri á vestrænu „frjálslyndu lýðræði“ og þar sem NATO héldi sér. Á því heimili skyldi aðeins vera eitt herbergi.

Í nóvember 1990 var undirritaður af Gorbatsjov, Bush eldri og heilum 32 Evrópuríkjum Parísarskráin eða „Sáttmáli nýrrar Evrópu“. „Með því að undirrita samninginn eru kaflaskil í heimssögunni. Kalda stríðinu er lokið“ sagði Bush (Morgunblaðið 22.11. 1990). Samningurinn rímaði reyndar mjög við hugmyndir Gorbatsjovs, mikið byggður á Helsinkisáttmálanum frá 1975, ekki síst gilti þar hugmyndin um „óskiptanlegt öryggi“, öryggi annars mætti aldrei vera á kostnað hins. Parísarskráin fól í sér eitt yfirgrípandi öryggiskerfi fyrir alla Evrópu. Þar stóð m.a.: „Öryggi er óskiptanlegt og öryggi hvers aðildarríkis er óaðskiljanlega tengt öryggi allra hinna.“ Fjórum árum síðar, 1994, skilaði sú hugsun sért inn í raunverulega öryggismálastofnun þegar Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) var stofnuð, einnig utan um prinsipp „óskiptanlegs öryggis“ (Glenn Diesen, The Ukraine War & the Eurasian World Order, Clarity Press 2004, bls 147-150)

En ÖSE sem stofnun var veikluð við fæðingu og fékk aldrei neitt teljandi hlutverk. Þegar þar var komið sögu var Rússland afar veikt og á hnjánum. Bandaríkin réðu hins vegar sviðinu, nú var þeirra sögulega tækifæri til að ná yfirráðum (hegemoníu) í staðinn fyrir sameiginlegt „óskiptanlegt öryggi“. Öryggismálasvið Evrópu var ekki fyllt upp af ÖSE – heldur af NATO.

Árið 1994 og nokkur næstu ár var NATO í reynd víkkað út til austurs, í nýrri mynd sem nefndist „Samstarfsaðild fyrir friði“ (Partnership for Peace). Inn í það gengu flest Austur-Evrópulönd, og Rússland þar með. „Samstarfið“ var formlega lagt upp sem sameinandi og sem „valkostur“ við beina útþenslu NATO. Þetta var undir forustu Bill Clintons. Enda var „samstarfið“ alveg á forsendum Vestursins og í reynd aldrei neinn valkostur við NATO. Fremur var það „aðlögun“ að NATO og skref viðkomandi ríkja til fullrar aðildar

Skref inn í NATO, já, og byggði upp skriðþungann að næsta skrefi, skrefinu inn. Washington og Brussel boðuðu nú „valfrelsi“, “freedom of choice”. En þegar NATO smám saman einokaði allt öryggissviðið fólst „valfrelsi“ viðkomandi landa í því að ganga inn í NATO-öryggið eða vera utangarðs og alveg án öryggis ella. Undirbúningur að fyrstu austurútvíkkun NATO var komin á fullt 1994, samhliða stofnun „samstarfsaðildarinnar“. Fyrsti skammtur af austurstækkun Atlantshafsbandalagsins varð svo 1997.

Jafnframt byggðist upp í Rússlandi tortryggni og vansæld með þessa skipan mála. Thomas Pickering, bandaríski sendiherrann í Moskvu, varaði við stemningunni árið 1993 því að „eini vissi fastinn í því sem við höfum heyrt frá öllum rússneskum viðmælendum er gríðarleg viðkvæmni gagnvart hlutverki NATO“, sagði hann. Jeltsin Rússlandsforseti var vissulega mjög háður Bandaríkjaforsetum í öllu sínu valdabrölti, en honum leist ekki orðið á bikuna og skrifaði Clinton vini sínum í árslok 1994 og fullyrti að hin skjóta fyrirhugaða stækkun NATO „verður túlkuð, ekki bara í Rússlandi, sem upphafið að nýjum klofningi Evrópu.“ (National Security Archive, “NATO Expansion: What Yeltsin Heard,” George Washington University, 16 March 2018.)

En Rússar voru á 10. áratug afar veikir, efnahagslega, pólitískt og hernaðarlega. Þeir höktu áfram á nýfengnu farartæki kapítalisma. Boris Jeltsín varð með tímanum persónugerfingur fyrir lasið og veiklað Rússland. Sem auðvitað þýddi líka að Rússar boðuðu ekki Evrópu hættu á nokkurn hátt, voru engum ógn nema helst sjálfum sér.

Ný innilokunarstefna – aðvaranir reynslubolta

En einmitt þá þótti tímabært að búa til nýja klofningslínu þvert yfir álfuna, með austurstækkun NATO. Í bandaríska stjórnkerfi utanríkismála á 10. áratugnum voru eðlilega skiptar skoðanir um öryggismál, og ekki síst um mögulega útvíkkun NATO í austur. William Perry, utanríkisráðherra Clintons 1994-97 lét sjálfur í ljós þá skoðun í Washington að NATO-stækkun myndi styggja Rússa alvarlega en uppskar gjarnan háð:

Í reynd þegar ég skiptist á skoðunum við fólk og reyndi að túlka rússneska viðhorfið… viðbrögðin sem ég fékk voru eiginlega: „Hverju skiptir hvað þeim finnst? Þeir eru þriðja flokks veldi.“ (J. Borger, “Russian hostility ‘partly caused by West’,” claims former U.S. defence head,” The Guardian, 9. mars 2016)

James Baker, utanríkisráðherrann sem samdi við Gorbachev 1990 var líka krítískur á austurstækkun Nato:

“Besta aðferðin til að finna óvin er að leita að honum, og ég óttast að það sé það sem við gerum þegar við reynum að einangra Rússland.“ (J. A: Baker, “Russia in NATO?”, Washington Quarterly 25, no.1 (2002): 93–103)

Þetta var „containment“ endurborið: að einangra og inniloka/útiloka Rússland. Innilokunarstefnan var áður nefnd, stefnan sem Truman forseti tók upp 1947, að ráðum George Kennan. En við hinar breyttu aðstæður réttri hálfri öld síðar leist sama Kennan hins vegar mjög illa á slíka stefnu. Í viðtali árið 1997 varaði hann sterklega við því að: “að þenja út NATO væru örlagaríkustu mistök á öllum eftir-kaldastríðsárunum“. Einmitt af því slík stefna ógnaði öryggi Rússlands, sagði hann. Og seinna áréttaði Kennan:

Ég held að þetta sé byrjunin á nýju köldu stríði… Það var yfir höfuð engin ástæða til þessa. Enginn ógnaði neinum öðrum. (T. L. Friedman, “Foreign Affairs; Now a Word From X”, The New York Times, 2. maí 1998).

Aðvaranir margra reyndra bandarískra pólitíkusa voru mjög sterkar og alvarlegar, en þær réðu ekki för. Heimsvaldastefnan réði, Bandaríkin stefndu á heimsyfirráð, og útþensla NATO var nauðsynleg í því augnamiði. Ný innilokunarstefna átti að stuðla að því að Rússland héldi áfram að vera veikt.
Ef Rússar skyldu bregðast illa við mun NATO auðvelda Washington að fást við þann vanda. Einmitt þannig var rökfærslan. Madeleine Albright útskýrði þetta í apríl 1997: “Ef svo ólíklega skyldi vilja til að Rússland þróist ekki eins og við viljum það… þá er NATO til staðar. (T. G. Carpenter and B. Conry, NATO Enlargement: Illusions and Reality. Cato Institute, 1998, p.205.)

Að vekja fjandsamleg viðbrögð Rússa var líka markmið í sjálfu sér af því það tryggir samheldnina í NATO og af því að tök Bandaríkjanna á Evrópu helgast af því hvað Evrópa er háð BNA í öryggismálum.
Samhengið er sem sagt þannig að útþensla NATO í skrefum allt upp að landamærum Rússlands er grundvallarorsök fyrir vaxandi spennu á svæðinu. Þegar Rússar smám saman fara að bregðast harkalegar við er til svar við því: Það krefst frekari stækkunar NATO. Um það verður fjallað í næstu grein.