Almannatengsl hafa yfirtekið fréttirnar

17. apríl, 2024 Jón Karl Stefánsson

Samkvæmt bandarísku stofnuninni Bureau of Labor Statistics (BLS) (https://www.bls.gov/) störfuðu um 58,500 einstaklingar sem „news analysts, reporters, and journalists“ í Bandaríkjunum árið 2022. Miðgildi launa þeirra var um 55,960 Bandaríkjadalir á ári og því er spáð að þessum störfum fækki um 3% á næstu 10 árum. Þeim mun því fækka um 1.900 á þessu tímabili.

Á sama tíma störfuðu um 297.100 einstaklingar sem almannatenglar (Public Relations Specialists) í Bandaríkjunum. Miðgildi launa þeirra voru um 67.440 Bandaríkjadalir á ári og því er spáð að þessum störfum fjölgi um 6% á næstu 10 árum. Þeim mun því líklega fjölga um 18.000 á næstu árum.

Þróunin er svipuð í öðrum Vestrænum ríkjum. Í Bretlandi starfa nú 73.000 einstaklingar í blaðamennsku, en 86.000 í Almannatengslum samkvæmt þeirra hagstofu, (Office for National Statistics (ONS): https://www.ons.gov.uk/) og í Kanada eru 12.000 starfandi blaðamenn en 69.900 starfa í almannatengslum, markaðsmálum og auglýsingageiranum (Statistics Canada: https://www.statcan.gc.ca/).

Á Íslandi eru almannatengsl einnig í örum vexti. Á milli áranna 2013 og 2023 fjölgaði fyrirtækjum á sviði almannatengsla úr 23 í 34, Auglýsingastofum fjölgaði úr 279 í 357 og fyrirtækjum á sviði auglýsingamiðlunar fjölgaði úr 59 í 70.

Á sama tíma er ástandið svart fyrir blaðamenn. Í skýrslu Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns blaðamannafélags Íslands kemur fram að frá árinu 2018 til 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum um tæplega helming, enda rennur helmingur auglýsingafjár á Íslandi nú til erlendra tæknirisa á borð við Facebook og Google. Erfitt er að finna nákvæman fjölda á þeim sem geta lifað af því að vera blaðamenn á Íslandi. Heildarfjöldi þeirra sem starfa við fjölmiðlun á Íslandi er, samkvæmt Sigríði, um 800, en þetta er ekki fjöldi þeirra sem starfa sem blaðamenn heldur allir þeir sem skráðir eru sem starfandi í fjölmiðlum. Þegar listi yfir skráða félaga í Blaðamannafélagi Íslands er skoðaður sést að þónokkrir þeirra sem eru skráðir sem blaðamenn starfa fyrir önnur fyrirtæki, meðal annars á sviðum almannatengsla og markaðsmála.

Rannsókn Eddu Sifjar Pálsdóttir, „Af hverju hættir fólk í blaða- og fréttamennsku“ frá árinu 2014 leiddi meðal annars í ljós að flestir þeir sem hættu að starfa sem blaðamenn fóru að vinna við almannatengsl eða önnur störf tengd upplýsingagjöf. Þetta fólk sótti í hærri laun og hentugri vinnutíma.

Í stuttu máli: Almannatengsl eru nú miklu stærri og arðbærari iðnaður en hefðbundin frétta- og blaðamennska. Þetta gæti komið einhverjum á óvart, enda eru blaðamenn mun sýnilegri hópur en almannatenglar. Þetta þýðir að langmest af þeim upplýsingum sem við innbyrðum nú sem fréttir eru í raun unnar á almannatengslaskrifstofum sem hafa það hlutverk að þjóna hagsmunum þeirra sem borga fyrir þjónustu þeirra. Við verðum að vera meðvituð um þetta.