VG – Þarfasti þjónn stórauðvaldsins?: Um svikin við strandveiðimenn

24. júlí, 2023 Jón Karl Stefánsson

Á landsfundi 2021 samþykkti VG stefnu um „Auðlindir hafs og stranda“. Þar voru reifuð falleg loforð um sjálfbæra nýtingu og sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar sem styrkt yrði með auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Þjóðin, lofaði VG, ætti að njóta arðs eða auðlindarentu og standa ætti vörð um hagsmuni sjávarbyggða, smábáta og minni útgerða. Lykilatriði í loforðasúpu VG var að hampa ætti strandveiðum. Eins og Vigfús Ásbjörnsson, formaður smábátafélagsins Hrollaugs, lýsti fóru frambjóðendur VG sérstaklega um sjávarbyggðir landsins fyrir kosningar og básúnuðu þessi loforð. Eftir að kosningum lauk, nánast samdægurs, voru þessi loforð alfarið svikin.

Nú hefur sjávarútvegsráðherra endurtekið leikinn. Þann 6. júlí sl. tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, ráðherra VG, að ekki væri „svigrúm“ til að bæta við veiðiheimildir til strandveiða. Við þetta misstu rúmlega 1000 manns sem hafa atvinnu af strandveiðum tækifæri til að vinna sér til hnífs og skeiðar.

Forysta VG samþykkti hins vegar nýlega lög sem eykur réttindi fyrir öfluga togara með botndræg veiðarfæri sem draga má eftir botni sjávarins á grunnslóð landsins. Umhverfisáhrif af þessari veiðiaðferð eru hrikaleg og oft óafturkræf.

Hversu stóran hluta fiskveiðiaflans á að færa stóru útgerðunum á ryksugutogurunum, og hversu stóran hluta til smábáta? Jú, rúm 95 til stórútgerðanna og 5 til strandveiða, auðvitað. Munurinn á þessu tvennu er mikill. Stóru togararnir moka upp þúsundum tonna af fiski, frysta hann og senda gjarnan erlendis til vinnslu. Hagnaðurinn af þessum iðnaði fer til hluthafa útgerðanna. Þeir eru tiltölulega fáir og gríðarlega efnaðir. Með smábátaveiðum dreifast gæðin yfir á hlutfallslega miklu fleiri einstaklinga. Veiðiaðferðir risaútgerðanna eru mjög óumhverfisvænar og valda óafturkræfum skaða á lífríki sjávar. Kjartan Páll Sveinsson lýsir vel kostum strandveiða fram yfir stórútgerð í grein sinni, “Rógburður SFS í stuttu máli”.

Þetta mál ætti að vera klappað og klárt: Miðað við öll loforð VG ætti að gera allt til þess að auka hlut smábáta á kostnað risaútgerðanna. En hið þveröfuga hefur átt sér stað. Hver ein og einasta ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, undir forystu VG, hefur hampað risaútgerðunum á kostnað smábátaeigenda. Þeir virðast ekki ætla að virða mótmælafund smábátasjómanna með svari: Hrokinn er algjör. Rík áhersla er að benda fólki á að lesa grein Vigfúsar Ásbjörnssonar frá því í fyrra er VG hafði þegar svikið kosningaloforð sín algerlega.

Þessi svik VG við kjósendur sína, grunngildi sín og alþýðu landsins má ekki fyrirgefa. Með því að stela þessum atkvæðum hefur flokkurinn beinlínis tekið völdin frá þeim sem vildu sjá þá stefnu sem þeim var lofað. Þetta gerir VG að þarfasta þjóni stórauðvaldsins í dag.