Valdarán rennur út í sand

26. júní, 2023 Ritstjórn

Íslenskt útvarp og flestir andrússneskir krossfarar fögnuðu gríðarlega 24. júní yfir því sem fréttirnar lýstu sem tilvistarkreppu stjórnvalda í Moskvu vegna uppreisnar Wagner málaliða.

Öðrum, einkum þeim sem andvígir eru hinni andrússnesku krossferð, varð hugsað til ítalska endurreisnarspekingsins Machiavellis (f. 1469) og vitnuðu þá einkum í orð hans um málalið (leiguher) og gagnsemi þess til landvarna. Líklega mætti Vladimir Pútín taka orð hans til náinnar skoðunar: 

„Ég vil þá fyrst segja að sá her sem fursti hefur til varnar ríki sínu er: Eigin her, málaliðar, aðfengið hjálparlið eða sambland alls þessa. Málaliðar og hjálparsveitir eru til einskis gagns og hættulegar. Það ríki sem á gengi sitt undir málaliðum er hvorki traust né öruggt. Því að þeir eru sundurlyndir, agalausir og ótrúir, harðvítugir gagnvart vinum, blauðir gagnvart féndum. Þeir óttast ekki guð né halda trúnað við menn. Kjarni málsins er sá að þeir hafa ekki áhuga né hvatir til að berjast og það eina sem heldur þeim í herbúðum er naumur máli og hann nægir tæplega til að þeir séu viljugir til að leggja líf sitt í sölurnar fyrir húsbændur sína…

Ég ætla að gera enn ljósar hve ótryggar slíkar hersveitir eru. Málaliðsforingjar eru annað hvort dugandi menn eða þeir eru það ekki. Ef þeir eru það ekki er hægt að treysta þeim af því að þeir keppa alltaf að því að auka eigin vegannað hvort með því að kúga yfirboðara sína eða með því a kúga aðra í óþökk þeirra. Séu þeir hins vegar duglausir leiða þeir venjulega yfiirboðara sína í glötun.“ — Niccolo Machiavelli, Furstinn, Rvk, 1987, bls. 58-59.

En nú skal vitnað í ritið World Socialist Web Site sem er þungavigtarrit í trotskíistahreyfingunni, gefið út af International Committee of the Fourth International. Það rit er málpípa heimsvaldaandstöðu og gerir minna til þótt e.t.v. umdeild baráttustefna trotskíista skíni líka í gegn. Grein þessi frá 25. júní er nokkuð stytt, ritstjórn ritsins er skrifuð fyrir henni, en hana má nálgast hér.

Misheppnuð valdaránstilraun í Rússlandi: orsakir og afeiðingar

Valdaránstilraun undir forustu Evgeny Prigozhin, foringja rússnesku Wagner málaliðasveitanna féll saman á laugardagskvöld að staðartíma. Með samkomulagi sem miðlað var fyrir milligöngu Alexanders Lúkasénkó forseta Hvítarússlands hefur Prigozhin yfirgefið Rússland og Rússneska leyniþjónustan (FSB) hefur sleppt uppreisnar-rannsókn gegn Wagner-foringjanum sem hún hóf fyrr sama dag. Óstaðfestar sagnir sveima um að samkomulagið innihaldi brottrekstur varnarmálaráðherrans Shoigu og Valerey Gerasimov formanns herforingjaráðs, og einnig tilfærslu Wagnersveita til Afríku. 

Prigozhin hóf valdaránstilraun sína föstudagskvöld að staðartíma með 30 mínútna vídeóupptöku þar sem hann geisaði gegn hernaðarforustu Rússlands og skírskotaði mjög beint til hins NATO-sinnaða arms/klíku innan valdastéttar Rússlands. Prigozhin, sem fyrir aðeins fáum vikum síðan kallaði eftir fjöldaherkvaðningu og fullri stríðshagstjórn til að berjast við ógnina frá NATO, hélt nú eftirfarandi fram: „Úkraínuher ásamt NATO-blokkinni ætluðu ekki að ráðast gegn Rússlandi.“

Á laugardagsmorgun birtist Pútín forseti í sjónvarpi og sakaði Prigozhin, án þess að nefna hann með nafni, um að koma fram á snærum NATO. Pútín lýsti yfir: „Í dag heyr Rússland erfitt stríð fyrir framtíð sinni, hrindir ásókn nýnasista og verndara þeirra. Allri hinni hernaðarlegu, efnahagslegu og áróðurslegu vél Vestursins er beint gegn okkur.“

Seinna á laugardagskvöldi, eftir að Wagnerliðar höfðu yfirtekið Rostov við Don og útjaðar Moskvu auglýsti Prigozhin að þeir myndu bakka. Skyndileg hörfun hans bendir ljóslega til að sá stuðningur sem hann reiknaði með fyrir valdaráni var ekki fyrir hendi. 

Hvað kom Prigozhin til að gera valdaránstilraun? Í fyrsta lagi er ljóst að vaxandi árekstrar hans við rússneska ríkið og herinn urðu að báli. Undanfari valdaránstilraunarinnar voru bitrar fordæmingar Prigozhins á Shoigu varnarmálaráðherra sem hann sakaði um að heyja ekki stríðið af nægilegu harðfylgi. Það hefur komið fram að draga átti verulega úr fjármögnun til Wagnersveitanna. Fyrr i þessum mánuði neitaði Prigozhin að taka boði Pútíns um að Wagnersveitir væru settar undir stjórn hersins.

Merki eru um að herinn hefði fengið nóg af langvarandi verndarhendi Pútíns yfir þessum kjaftfora og virðingarlausa (við herinn) þorpara. Aðgerðir hans í Úkraínu, gagnlegar upp að vissu marki, trufluðu faglegar aðferðir hersins undir stjórn þjálfaðra yfirmanna. Það er óhætt að álykta að Prigozhin hafi freistað valdaráns til að koma í veg fyrir aðgerðir gegn honum. 

Í öðru lagi væri það hámark pólitískrar einfeldni að halda að NATO hafi verið óvirkur áhorfandi að atburðum undanfarinna 24 til 36 klukkutíma. Bandalagið hefur klárlega fylgst með vaxandi orrahríð milli Prigozhin og Rússlandshers af mikilli aðgát og reikna má með að NATO hafi verið í sambandi við hann. Það er engin önnur líkleg skýring á NATO-vinsamlegum réttlætingum Prigizhins þegar hann setti af stað valdarán.

Tengslamenn Prigozhins hjá NATO höfðu góðar ástæður til að fara fram á að hann hefðist handa núna. Valdaránstilraunin er gerð þremur vikum inni í hinni NATO-studdu gagnsókn Úkraínu. Hún hefur  kostað tugi milljarða dollara í undirbúningi en hefur til þessa verið mikið áfall, með þúsundir fallinna úkraínskra hermanna dag hvern og aðeins fáein þorp hernumin á ný. Eftir aðeins tvær vikur mun NATO halda meiri háttar fund í Vilníus þar sem útlit var fyrir að yrði yfirskyggður af hinum hernaðarlega ósigri, þar til valdaránstilraunin kom til.

Biden stjórnin og NATO-bandamenn hafa reiknað út að valdaránstilraun, jafnvel þó hún tækist ekki, myndi veikja rússnesku stjórnina og grafa undan hernaðaraðgerðum hennar. Alla vega hefur valdaránstilraunin breytt fréttum fjölmiðla frá því að vera frásögn af misheppnaðri gagnsókn í frásögn af misheppnaðri Pútínstjórn.

Hin hröðu viðbrögð hátt settra fulltrúa bandarískrar heimsvaldastefnu, Zelenskystjórnarinnar og NATO-vinsamlegrar andstöðu innan rússneskrar ólígarkastéttar sýna að valdaránstilraunin kom þessum aðilum ekki á óvart. 

Bandaríski ofurstinn Alexander Windman, sem hefur verið lykilmaður í bandarískum stríðsundirbúningi gegn Rússlandi í meira en áratug tísti á föstudagskvöld: „Fyrir þá sem undrast hafa um gengi stríðsins í Úkraínu þá gengur það vel í uppreisninni í Rússlandi.“ Seinna í valdaránstilrauninni stakk hann upp á að NATO færði út loftvarnir sínar „100 mílur inn í Úkraínu“.

Elissa Slotkin, einn leiðandi CIA demókrati í BNA, tísti: „Afstaða Bandaríkjanna á þessu stigi ætti að vera að fylgja atburðarásinni náið, aðstoða úkraínska bandamenn okkar í því að hagnýta öll tækifæri a vígvellinum og vera hreyfanlegur og viðbúinn á ófyrirsjáanlegum augnablikum í sögunni.“ Zelensky Úkraínuforseti lét líka í ljós stuðning við valdaránstilraun Prigozhins. 

Fyrrverandi ólígarki Mikhail Kodorkvskí, búsettur í London, lykilmaður í NATO-studdum aðgerðum til að steypa Pútínstjórninni studdi valdaránstilraunina sem „einstakt tækifæri“ og skoraði á fólk að taka upp vopn til að tryggja að Prigozhin myndi „lifa af og ná Kreml.“ Og eftir hörfun Prigozhins hyllti Kodorkovskí valdaránstilraunina sem meiriháttar áfall fyrir Pútínstjórnina:

„Mælikvarði skaðans er stórkostlegur. Samningaviðræður við Úkraínu, ef þær hefjast, verða út frá miklu veikari stöðu. Sjálfstæði hersinns, og þar með baráttugeta hans, verður stórlega skert. Andstaðan verður að draga vissar ályktanir… Þó að stríðið hætti ekki verður ný uppreisn ekki lengi að koma. Verkefnin eru ljós. Við munum koma okkur að verki.“

Að valdaránstilraunin hafi verið undirbúin með ákveðinni þátttöku NATO er nógu ljóst. En að lýsa henni sem aðallega sem CIA samsæri væri að horfa fram hjá raunverulegum klofningi sem er fyrir hendi innan rússnesku stjórnarinnar og þeirra samfélagslegu hagsmuna sem ákvarða pólitík hennar. 

Valdaránstilraunin sýnir umfram allt gjaldþrot Pútínstjórnarinnar sem Prigozhin sjálfur er sprottinn upp úr. Hann er Frankenstein skrímsli, skapað af forsetanum en sem hann missti stjórn á. 

Í áratugi voru Pútín og Prigozhin nánir bandamenn. Þar til nýlega nutu Wagnersveitirnar, sem spruttu upp úr herleyniþjónustunni GRU, augljósrar verndar frá Pútín og öðrum valdamiklum öflum innan ríkiskerfisins. 

Prigozhin, fasískur stríðsherra, milljarðamæringur og dæmdur afbrotmaður, er fulltrúi fyrir mikilvægan arm rússneska óligarkísins sem snýst gegn stríðinu eingöngu af því aðgerðir Pútíns til að verja hagsmuni eignastéttarinnar og forréttindi ríkisins í aðgangi að gríðarlegum auðæfum landsins hefur kostað þá of mikið. 

Pútín hefur reynt jafnvægisgöngu milli þessara arma, og sú viðleitni til að sætta andstæða óligarka-hagsmuni hefur ákvarðað útfærslu þess sem hann enn kallar „sérstaka hernaðaraðgerð“.

Frá byrjun hefur  stefna Kremlar í Úkraínu verið byggð á þeirri von að takmarkaður hernaðarlegur þrýstingur myndi fá vestræna heimsvaldasinna til að viðurkenna „lögmæta“ öryggishagsmuni hinnar kapítalísku rússnesku stjórnar. Pútín hefur haldið þeirri stefnu ótrauður þó svo að farið hafi verið yfir öll hans „rauðu strik“, nú síðast „rauða strikið“ sem var tilraunin til að steypa honum sjálfum. 

Hvernig Pútín bregst við er eftir að sjá, hvort sem það verður með hernaðarlegri stigmögnun eða með verulegri tilslökun til að koma á einhvers konar sátt. Heimsvaldasinnuðu stórveldin hafa þó engan áhuga á málamiðlun. Endanlegt markmið þeirra er að sundurlima Rússland til að koma hinum feikilegu auðlindum Sovétríkjanna fyrrverandi undir sín beinu yfirráð.  

Hagsmunir rússneskra og úkraínskra ólígarka útiloka alla framsækna vörn um hagsmuni vinnandi alþýðu gegn ránsstefnu heimsvaldasinna. Aðalóttinn sem allir geirar rússneska fámennisveldisins (óligarkí) deila, er að stríðið muni skapa aðstæður fyrir endurkomu voldugra hefða marxískrar alþjóðahyggju meðal rússnesks, úkraínsks og alþjóðlegs verkalýðs. Stríðið í Úkraínu verður að stansa með óháðri byltingarsinnaðri skipulagningu alþjóðlegs verkalýðs, en ekki með NATO-studdri kollsteypingu Pútínstjórnarinnar og sundurlimun Rússlands.