Útrýmingarherferð gegn Sömum

7. febrúar, 2021 Jón Karl Stefánsson



Norðurlöndin hafa sameiginlega staðið að þjóðernishreinsunum og menningarmorði sem er fullkomlega sambærilegt við það sem hefur átt sér stað í Norður-Ameríku og Ástralíu. Það sem gerir þjóðernishreinsanir "okkar" nágranna jafnvel andstyggilegri en þær síðarnefndu er að við vitum ekki einu sinni af þeim. Skilningur fólks á frumbyggjum norður-Skandinavíu er svo lítill að með ólíkindum má telja. Hér er verið að vísa til þjóðar Sama, okkar næstu nágrannaþjóðar.

Þegar ég hef minnst á Sama hér á Íslandi fæ ég oftast tvenns konar viðbrögð. Annars vegar algjört skilngingsleysi, þ.e. viðmælandinn veit nánast ekki hvað ég er að tala um. Þetta er fjölmennasti hópurinn, sá sem veit ekki einu sinni að Samar séu til og að á Norðurlöndunum hafi engir verið áður en Germanir/Norðurlandabúar komu þangað. Hins vegar eru þeir sem hafa heyrt um Sama, en gera ráð fyrir því að þetta séu einfaldlega einhvers konar sveitafólk í Lapplandi, eflaust svipað og við. Þetta málefni þykir oftast ekki það áhugavert að samtalið fari mikið lengra.

Því verður að gefa stutta og ófullkomna, og eflaust ekki alveg rétta lýsingu á hvað hin samíska þjóð er, með þeim fyrirvara að ég er alls enginn sérfræðingur um þeirra málefni. Það eina sem ég hef er að ég á samíska vini og fjölskyldu og hef reynt að læra tungumál þeirra og sögu.

Sámi-fólkið eru einstök menningarþjóð. Tungumál þeirra er ekkert skylt við norræn tungumál. Það er eitt þeirra tungumála Evrópu sem telst ekki hluti af Indó-Evrópska tungumálatrénu, heldur er flokkað sem hluti af úralska tungumálaflokknum. Í þeim hópi eru meðal annars finnska, ungverska og eistneska. Landsvæðið sem þessi þjóð byggir kalla þeir sjálfir Sápmi, en það svæði nær frá mið Noregi í Vestri, til Hvíta-hafsins í austri. Menning þeirra tengist ekki landamærunum sem okkur er tamt að þekkja. Þegar fyrrnefnd ríki skrifuðu línur sínar í landakortin var það gert algjörlega án þess að taka tillit til þessa fólks. Stór hluti Sama lifði þá hirðingjalífi og ferðaðist með búfénað sinn milli svæða eftir árstíðum. Beitilendur þeirra lentu því oft í mismunandi ríkjum og sumir lentu í því að vera skattlagðir af fleiri en einu ríki. Þetta átti þó ekki við alla, en sumir þeirra lifðu á fiskveiðum og voru sleipir bátasmiðir og sjómenn.

Það er ekki ómögulegt að það hafi einmitt verið þessir samísku sjómenn sem voru fyrstu landnmámsmenn Íslands, en fornleifauppgröftur á Stöð í Stöðvarfirði bendir til þess að um árið 800 hafi þar verið fólk af samísku bergi brotið sem bjuggu í stórum skálum. Flókið handverk sem talið er að einungis Samar hafi kunnað á hefur fundist þar í miklu mæli (sjá nánar hér). Af einhverjum ástæðum hefur Íslendingum ekki þótt þessi uppgötvun nógu merkileg til að endurskoða Landnámssögu okkar.

Það er nokkuð á huldu hversu lengi Samar hafa búið á Skandinavíuskaganum, en líklega hafa þeir verið þar a.m.k. jafnlengi og Germanarnir sem við teljum okkur vera afkomendur af. Líklega eru þeir fyrstu frumbyggjar skagans og norrænir menn komu því þangað á eftir. Elstu mannvistaleifar sem fundist hafa sem gætu verið frá Sömum eru um 10 þúsund ára gamlar hellaristur, bálkestir og örvaoddar sem fundist hafa við Alta, nyrst í Noregi.

Gamlar heimildir herma að þeim tíma sem fyrstu víkingahöfðingjarnir herjuðu á strendur Evrópu hafi landsvæði Sama spannað yfir þrjá-fjórðu hluta Skandinavíu, og að átök hafi þegar verið farin að láta kræla á sér milli víkingahöfðingjanna og Sama. En Samar og víkingar stunduðu einnig viðskipti sín á milli. Hreindýraskinn, raf, og ýmsar aðrar vörur voru verðmætar afurðir. Í Egils sögu Skallagrímssonar er viðskiptum víkinga við Sama og aðra frumbyggja í Norður Skandinavíu, viðskiptum sem þá voru kölluð "Finnkaup", lýst nokkuð vel.


Þjóðernishreinsun hefst

Þrátt fyrir að hægt sé að giska að á hafi skipst skin og skúrir í viðskiptum milli Sama og annarra Norðurlandabúa virðist hafa ríkt einhvers konar jafnvægi milli þjóðanna. En seint á átjándu öld hófst nýtt og ógeðfellt tímabil í sögu Norðurlanda. Upphafsmenn þeirrar stefnu sem seinna fékk hið opinbera heiti "Fornorsking av Samer", eða "Norðmannavæðing Sama" voru kristnir trúboðar sem hófu komur sínar á landsvæði Sama. Þeir litu svo á að nauðsynlegt væri að útrýma menningunni, þar sem hún var svo ólík þeirri einu réttu: kristinni norskri menningu. Þetta viðhorf eitraðist yfir í opinbera stefnu ríkisins og á nítjándu öld var stefnan tekin opinberlega. Þetta var hluti af þjóðernishyggjubylgjunni sem þá réði ríkjum. Lög voru samþykkt sem bönnuðu alla kennslu á samískri tungu, kennslu um sögu Sama og menningu. Samískar fjölskyldur fengu ekki að kaupa land og heimavistaskólar voru byggðir. Börn samískra foreldra voru tekin frá fjölskyldum sínum og sett í heimavistaskóla þar sem þeim var stranglega bannað að tala samísku og ræða um samísk málefni. Samar áttu að verða almennilegt, norskt fólk.

Læknar tóku virkan þátt í þessu menningarmorði og allt til sjötta áratugar 20. aldarinnar voru samar skilgreindir sem andlega vanheilir og flokkaðir með geðfötlun. Ótrúlegt en satt var þessi iðja að útrýma samískri menningu opinber stefna Noregs allt fram til miðbiks níunda áratugarins. Það var ekki fyrr en Samar stóðu fyrir stórum mótmælum í Norður Noregi, í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Gro Harlem Brundtlands að stífla hina heilögu Alta-á.

Mannréttindabarátta Sama hófst þá og náði nokkrum árangri. Þeir stofnuðu eigin þing í Kautokeino í Finnmörk í Noregi og börðust fyrir því að gera tungumál sitt og menningu hærra undir höfði. Lög hafa náðst í gegn sem heimila þeim að stunda búskap sinn á hefðbundinn hátt og útrýmingarlögin hafa smátt og smátt verið afnumin. En mjög langt er í land.

Samar eiga enn undir högg að sækja á Norðurlöndum og heilu kynslóðirnar bera enn sterk ör á sálinni eftir tilraunir hins opinbera að útrýma menningu þeirra. Þeir þurfa enn að glíma við mikla fordóma í Skandinavíu, og skilningsleysi heimsins á tilveru þeirra. Þeir hafa aldrei verið beðnir afsökunar og þessi kafli velferðarríkjanna og tilraun til útrýmingar (sem reyndar er ekki sú eina, eins og þeir sem kynna sér sögu norrænna Tatara munu komast að) er enn ljótt leyndarmál sem fáir tala um.