Utanríkis- og flóttamannastefna taglhnýtingsins

6. október, 2023 Ritstjórn

Bandaríkin eiga aðild að öllum helstu styrjöldum á 21. öldinni, hafa yfirleitt frumkvæðið og forustuhlutverkið. Bandaríkin eru „herskáasta þjóð í mannkynssögunni“ eins og Carter fyrrum Bandaríkjaforseti orðar það. En hinn mikli riddari hernaðarins fer ekki svo í neitt meiri háttar stríð að litla Ísland komi ekki og hnýti sig í tagl stríðshestsins.

Stríðin eru ýmist hernaðarleg, háð með vopnum, eða efnahagsleg eða hvort tveggja. Undantekningarlaust eru þau dulbúin sem „mannúðaríhlutanir“. Hernaðarstríðin eru stundum beinar innrásir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra en stundum valdaskiptaaðgerðir í formi „uppreisna“ og „litabyltinga“ en studdar og fjármagnaðar af Bandaríkjunum & co. Efnahagslegu stríðin geta verið fórnarlambinu jafn skaðvæn og eyðileggjandi og hin, enda árasaraðilinn ríki með yfirtökin bæði í fjármálakerfi heimsins og „alþjóðasamfélaginu“.

Listi aðgerðanna er langur og ömurlegur. Og hann hefur alltaf þetta endurtekna stef: „Með stuðningi Íslands“. Eftir 11. september 2001 lýstu Bandaríkin yfir „stríði gegn hryðjuverkum” og réðust inn í Afganistan. NATO lýsti yfir því sama, og stökk með í stríðsdansinn. Með stuðningi Íslands. Rúmu ári síðar hófu Bandaríkin og Bretland stríð gegn Írak sem drap milljón manns. Með stuðningi Íslands. Það var á dögum Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar. En þegar svo frú Clinton og NATO réðust á Líbíu 2011 og steyptu löglegri stjórn landsins var vinstristjórn á Íslandi en hún fylgdi taktslættinum í Washington engu miður en sú fyrri. Seinna sama ár hófst „uppreisn“ fjölþjóðlegra hryðjuverkaherja gegn Sýrlandi, studd og fjármögnuð af Bandaríkjunum og svæðisbundnum bandamönnum og samþættuð við kyrkjandi efnahagsstríð. Með stuðningi Íslands, undir vinstri og svo hægri stjórn. Árið 2014 hófst stríðið gegn Rússlandi í Úkraínu: CIA-stýrð litabylting í Kiev, síðan fullt efnahagslegt stríð eftir andsvar Rússa á Krím, síðan borgara- og staðgengilsstríð í Austur-Úkraínu, stig af stigi. Með stuðningi Íslands.

Refsiaðgerðir Bandaríkjanna og Vestursins gegn sósíalískt sinnaðri stjórn Madúró í Venesúela höfðu staðið lengi en urðu umfangsmiklar og mjög alvarlegar 2014/15, enda Bandaríkin langstærsti viðskiptaaðili landsins. Refsiaðgerðirnar fóru stigvaxandi næstu árin. Eftir kosningarnar í landinu 2018 varð þetta að fullu efnahagslegu og pólitísku stríði þegar Bandaríkjastjórn ákvað að koma sér upp upp hliðarstjórn fyrir landið, mjög svipað og hún hafði gert í Líbíu og Sýrlandi nokkrum árum fyrr. Sjá hér samanburð. Hún fylgdi eigin uppskrift. Nú lýsti hún yfir stuðnðingi við stjórnarandstæðinginn Juan Guaidó sem hið lögmæta stjórnvald landsins. Tryggustu bandamennirnir fylgdu auðvitað í halarófu. Með stuðningi Íslands.

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Joe Biden forseta Bandaríkjanna.

Ísland hafði fyrirfram mjög lítil viðskipti við Venesúela. Fyrir okkur urðu áhrif þess arna mest á sviði flóttamannamála. Í nóvember 2019 var sú ákvörðun tekin hjá Útlendingastofnun að setja Venesúela í sérflokk og afgreiða með jái allar umsóknir þaðan um alþjóðlega vernd. Þannig gekk það til næstu 4 árin, allir umsækjendur þaðan fengu alþjóðlega vernd. Um þetta skrifar Kristinn Hrafnsson snarpan pistil á bloggi sínu 1. október:

„Þegar Juan Guaidó reyndi að ræna völdum í Venesúela sá Bandaríkjastjórn sér leik á borði og sá tækifæri til að losna við kommúnistann Madúró. Hún ákvað að Guaidó væri lögmætur forseti landsins. Stjórnir Evrópuríkja og nokkur önnur til, gerðu slíkt hið sama eins og kórdrengir sem tóna með æðstaprestinum. Því var mjög hampað að næstum 50 ríki styddu Guaidó en þess ekki getið að það þýddi að 150 ríki studdu hann ekki.

Íhaldsöxulinn yfir Atlanshafið færði líka Guaidó gjafir, þannig gaf Bandaríkjastjórn honum yfirráð yfir bandarískum olíufyrirtækjum í eigu ríkissjóðs Venesúela og í London ákvað íhaldsstjórnin að afhenda honum 30 tonn af gulli sem voru til geymslu í Englandsbanka. Guðlaugur Þór, þá utanríkisráðherra í nýfrjálshyggjustjórn Katrínar Jakobsdóttur (sem situr enn) lýsti því yfir fyrir hönd allra íslendinga að Juan Guaidó væri þeirra forseti. Íslenska hægri stjórnin vildi einnig sýna stuðning í verki.

Af einskærri manngæsku var ákveðið að opna íslensk landamæri fyrir öllum flóttamönnum frá Venesúela, svona rétt á meðan draumastjórn nýfrjálshyggjunnar tók til heima fyrir. Því kostaboði var tekið fagnandi og Venesúelabúar streymdu til Íslands.“

Svo gerist eitthvað, og hinn mikli riddari stríðsin af einhverjum ástæðum breytir um stefnu. Bandaríkin breyttu stefnunni gagnvart Venesúela á seinni hluta árs 2022, opnuðu fyrir olíuviðskipti við landið og afléttu þannig refsiaðgerðunum að mikilvægum hluta. Það er ljóst að mikilvægasta orsök breyttrar stefnu var aukin þörf fyrir olíu og jarðgas á vesturhveli eftir innrás Rússa í Úkraínu. Önnur orsök var sú að handbendinu Guaidó hafði alveg mistekist að ná áhrifum í landi sínu. Bandaríkjastjórn bjó til eitthvert pólitískt yfirvarp (mannréttindarök) til að réttlæta endurupptöku viðskipta við Venesúela.

Og nú verður dæmið ámátlegast. Taglhnýtingurinn verður að gera hið sama. Breyta stefnu. Hann er jú bundinn í taglið og getur ekki annað! Útlendingastofnun lét nú skjótt af þeirri almennu stefnu sinni að afgreiða jákvætt umóknir frá Venesúela. Hún afgreiðir hverja umsókn fyrir sig og hafnar nú hverri umsókninni af annarri. Og þegar þau mál eru kærð til Kærunefndar útendingamála axlar sú nefnd sína „ábyrgð“ og vinnur skítverkið fyrir ríkið. Hún býr til úrskurð þar sem hún gerir að sínum rökin sem bandaríska utanríkisráðuneytið færði fyrir ákvörðun sinni. Ein helsta, ef ekki helsta, röksemdin er sú að afnám hinna bandarísku refsiaðgerða gegn landinu bæti svo ástandið í landinu að fólk þaðan þurfi nú ekki alþjóðlega vernd. Sem sagt, annað hvort: Efnahagslegu refsiaðgerðir Bandaríkjanna og bandamanna eru höfuðorsök fyrir þeim skorti sem ríkt hefur í landinu. Eða: Ef Bandaríkin hætta að refsa þurfum við ekki að refsa meira heldur! Kristinn Hrafnsson skrifar um hinn „stoltarlega“ íslenska viðsnúning:

„Fær þá Jón „forseti“ Guaidó ekki hæli sem flóttamaður? … Eitthvað gekk illa fyrir forsetann Guaidó að koma sér fyrir og undan honum fjaraði nokkuð hratt. Meðferð hans á verðmætunum þótti líka einkennast af „skorti á gagnsæi“ sem er kurteislegt orðalag yfir spillingu. Olíuverð hækkaði líka sem gerði Madúró kleyft á gera ástandið í landinu skárra og vinsældir hans og styrkur efldist.

Guaidó var því ekki lengi í Paradís og í nálægum löndum urðu stjórnarbreytingar frá hægri til vinstri og þar var hann settur út af sakramenntinu svo sem í Kólumbíu, Brasilíu og töluvert sunnar í Santiago í Chile. Innrás Rússa í Úkraínu minnti einnig Bandarísk stjórnvöld á, að það þyrfti að skoða olíuhagsmuni sér nær og mundu menn þá allt í einu eftir því að stærstu olíubirgðir heims eru í Venesúela. Það varð kúvending. Bandaríkjastjórn hætti að púkka upp á Juan Guaidó og ákvað að hann væri eftir allt saman ekki frelsishetjan Jón forseti. Evrópuríkin fylgdu með og flestöll leppríki. Þetta fór hljótt og án yfirlýsinga, á Íslandi sem annars staðar. Ekki er að finna neitt á vef utanríkisráðuneytis Sjálfstæðisflokksins um hvort Flokkurinn hafi stigið þetta skref enda svo sem óþarft að ræða það. Ef Ameríkaninn segir að þetta sé svona þá er það bara svona.

Án pólitísks rökstuðnings (engin spurði heldur) breytti þetta stöðu boðsgestanna frá Venesúela. Úr því Guaidó er ekki lengur forseti heldur Madúró þótti einhvern veginn ekki nokkur ástæða til annars en að senda fólkið sem tók gylliboðinu og flúði til Íslands undan Madúró, til baka …til Madúró!

En eftir þetta undarlega hliðar, saman, hliðar dansspor íslenskra stjórnvalda, undir tónsprota Bandaríkjanna sat eftir amk á annað þúsund Venesúelabúar á Íslandi og skilja hvorki upp né niður í þessu salsa-afbrigði. Landið sem bauð það velkomið í skjól undan ömurlegri vist í ofríki kommúnismans hefur nú skipt um skoðun og telur fullboðlegt að það hundskist heim til sín. Þó að hér sé vending þar sem tilvalið væri að dusta rykið af nokkrum uppáhaldsfrösum Íhaldsins þegar það þarf að skýra það óskýranlega, svo sem „forsendubrestur“ eða „ómöguleiki“ var fremur reynt að klæða þetta í betri búning til að gefa pólitískri hringavitleysu lögmæti með stjórnvaldsstimpluðum orðavaðli.

Ísdrottningin sem tók við forystuhlutverki í úthýsingarmálum, fól því Kærunefnd útlendingamála að bræða hann saman. Niðurstöðurnar eru þunnur þrettándi, eitthvað á þá leið að kommúnisminn sé sársaukaminni en áður. Til að bíta hausinn af skömminni byggir Kærunefnd útlendingamála málflutning sinn að miklu leyti á skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins og bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Menn nenna ekki einu sinni að dylja taglhnútinn.

Í þessu máli fann Sjálfstæðisflokkurinn líka uppruna sinn og svarar fylgishrapi með því að hata nú útlendinga, sérstaklega ef þeir eru ekki arískir. Sjálfstæðisflokkurinn tekur nú undir það stef að útlenskt fólk frá suðurálfu sé að stela saggafullum, ljóslausum kolakjöllurum frá rammíslensku fólki í húsnæðisvanda.

Ég hugsa að gestunum frá Venesúela sé ekki skemmt, það svaraði hjartnæmu gylliboði um að  setjast að veisluborðinu á Íslandi en fær nú bara vatnsglas í anddyrinu og er svo skipað að snauta heim til sín. En Katrín Jakobsdóttir brosir – og veifar bless.“