Undirstöður samfélagsins molna

9. janúar, 2024 Jón Karl Stefánsson

Fjármagnseigendur eru í þann mund að ná fullum sigri yfir almannaeigninni á Íslandi. Stofnanir og eignir sem fyrri kynslóðir byggðu upp með mikilli vinnu og ákveðni eru annað hvort horfnar, orðnar of veikar til að standa undir sér, eða eru á leið í hendurnar á einkafjármagninu. Meðal þeirra stofnana sem þegar eru horfnar af sjónarsviðinu eru langflest samvinnufélög og sparisjóðir, bankar, eldsneytis og símafyrirtæki og mörg fleiri sem geta nú skapað eigendum sínum mikinn gróða. Æ stærri hluti heilbrigðis- og menntakerfisins er komið í einkaeign, og hinir sömu eigendur og stjórna stærstu einkafyrirtækjunum hafa tögl og hagldir á sjálfum lífeyrissjóðunum. Hið opinbera er um leið spennt upp af yfirbyggingu og fjöldi óþarfra stjórnenda, nefnda, ráða og gæluverkefna tekur æ stærri hluta af skattfé. Hið opinbera á Íslandi á ekki fyrir skuldum og er rekið með halla sem hefur síðustu áratugina verið greiddur með sölu á almannaeignum og sköttun launþega. Nú nálgumst við þann punkt þar sem ekki verður hægt að selja meiri eignir. Með því hefur íslenskt auðvald fengið fullt hús. Þessu fylgja alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið. Þessi græðgi hefur ekki einungis haft efnahagsleg áhrif, heldur hefur hún molað þær undirstöður sem tók svo mikla vinnu að byggja upp.

Sameignin horfin

Eigna og tekjustaða hins opinbera er í mínus á Íslandi. Þó að sá halli virðist ekki mikill á yfirborðinu er hann til marks um stefnu og þróun Íslands til lengri tíma. Samkvæmt tölum frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem teknar eru saman á vefsíðunni opinberumsvif.is, voru eignir hins opinbera 2.249 milljarðar króna, en skuldirnar 2.616 árið 2022, munur upp á 367 milljarða. Heildartekjur hins opinbera voru 1.650 milljarðar króna en heildargjöld voru 1.805 milljarðar; halli upp á 155 milljarða. Hið opinbera hefur sem sagt ekki efni á sjálfu sér eins og mál standa í dag.

Hvar skyldi nú eiga að sækja muninn? Mun ríkisstjórnin og sveitarfélögin skoða yfirbyggingu sína með því að loka óþarfa ráðum og nefndum, fækka aðstoðarfólki ráðafólks eða minnka fjáraustur í prjál? Á að sækja tekjur með skattlagningu á hina ofurríku, á stórútgerðina og einkabankana?

Það er ákaflega sorglegt að hugsa til þess að við vitum öll að þetta verður ekki raunin. Tekjumissirinn verður sóttur þangað sem hann hefur verið sóttur síðustu 30 árin: Með niðurskurði á þjónustu, með aukinni skattheimtu til almennings og með sölu almenningseigna. Hið opinbera er nú í andlegri eign stórkapítalistanna á Íslandi. Hér ríkir ekki frekar sjálfstæð efnahagsstjórn frekar en utanríkisstjórn.

Refirnir og kýrnar

En þessum lausnum hefur verið beitt svo oft og í svo miklu mæli frá því að Alþýðuflokkurinn sveik alþýðuna í hendur Sjálfstæðisflokknum í Viðey, að það er æ minna að sækja í þann brunn. Ríkið á nú fasteignir upp á 313 milljarða króna, 408 milljarða í einhverjum sjóðum og svo 1.013 milljarða í félögum. Á meðal þessara félaga eru Seðlabankinn, Háskóli Íslands, Landspítalinn, Landsvirkjun og Landsnet, eitthvað í Landsbankanum og Íslandsbanka og svo nokkur minni fyrirtæki. Sum þeirra skapa tekjur í þjóðarbúið, eru mjólkurkýr, og ef slík fyrirtæki verða seld er það eins og að pissa í skóinn. Ef þessi fyrirtæki verða seld, hvar á þá að ná í tekjurnar til lengri tíma? Slíkt hlýtur að leiða til þess að almenningsþjónusta verði hreinlega lögð af. Sala eigna nær svo einungis til 313 milljarða, sem rétt dugar til að borga fyrir eins árs yfirbyggingu og skattaívilnanir til hinna ofurríku.

Mjólkurkýrnar eru girnilegar fyrir stórkapítalið. Þeir sem tilheyra þeirri stétt sjá lítinn persónulegan ágóða af því að reka dýra almannaþjónustu. Þeir geta hæglega keypt sér þjónustu úr einkageiranum, smokrað sér fram fyrir í röðinni og þurfa ekki neitt sem heitir velferð. Þeir geta jafnvel séð gróða í almannaþjónustu á borð við spítala og annað þvíumlíkt. Þeir þurfa ekki að borga fyrir uppbyggingu innviðanna í slíkri þjónustu, það hefur almenningur gert í gegnum skattgreiðslur, með viðkomu í ríkissjóði.

Samvinnuhreyfingin varð til á síðari hluta 19. aldar. Til að byrja með skapaði hún mikla velsæld hjá almenningi landsins í krafti hugsjónar og samvinnu, en með tímanum náði græðgi og klíkuskapur að eyðileggja hreyfinguna að mestu leyti, en með undantekningum. Helstu eignirnar enduðu hjá sérvöldum. Mynd, forsíða tímaritsins Samvinna, 1. tölublað 1936.

Viljann til að halda uppi velferðarsamfélagi er ekki að finna hjá stétt stórkapítalista, þeirri sem hefur einnig mest áhrif á stefnumótun í hinu opinbera. En venjulegt fólk sér málin öðruvísi. Ef við þurfum að fara að borga milljónir fyrir læknisþjónustu, skólagöngu og orku breytist líf okkar allra gríðarlega. Við þurfum að gera eins og Bandaríkjamenn; borga tryggingafélögum morðfé fyrir heilsuna, þátttöku í menntun og aðgengi að viðunandi húsnæði. Lífið verður aldrei samt.

Við erum í raun komin á þennan stað. Heilbrigðiskerfið er stórskaddað, ef það er borið saman við það sem við áttum fyrir tíunda áratug síðustu aldar. Sjúkra- og hjúkrunarrýmum hefur fækkað úr 1212 á hverja 100 þúsund íbúa árið 1987 niður í 280 árið 2019. Niðurstaðan er þessi: Starfsfólk spítalanna hefur aldrei séð það svartara.

Borgarspítalinn var opnaður árið 1967. Á þessum árum gátu Íslendingar hreykt sér af úrvals heilbrigðiskerfi þar sem engum var vísað frá. Nú er öldin önnur. Samkvæmt tölfræði sem tekin var saman af stofnuninni NOMESKO var heildarfjöldi sjúkrarýma á Íslandi 2835 eða 1212 á hverja 100 þúsund íbúa árið 1987. Þeim hefur fækkað jafnt og þétt og árið 2019 var heildarfjöldi sjúkrarýma á Íslandi kominn niður í 1009, eða 280 á hverja 100 þúsund íbúa. Svipaða sögu má segja um hjúkrunarrými. Heilbrigðiskerfi Íslendinga er mergsogið og sprungið.

Menntun og tilgangsleysi

Staða menntamála er einnig þannig að við getum kallað það hrun. Hin margumrædda Pisa-könnun sýndi algjört hrun á námshæfni íslenskra barna. Alls kyns ástæður hafa verið færðar fyrir því af hverju staðan í menntamálum hefur versnað svo mjög. Þær eru eflaust allar réttar og spila sem þáttur í stærra spili. Þar hljóta niðurskurður í menntamálum síðasta áratuginn, vanhugsaðar covid-lokanir, íhaldssemi hreintungustefnunnar (sem kemur í veg fyrir að tungumálið þróist á þann hátt að það sé skiljanlegt nýrri kynslóðum), skortur á íslensku afþreyingar og fræðsluefni, niðurskurður og annað í þeim dúr að vinna saman í að skapa andlegt neyðarástand nýrra kynslóða Íslendinga.

Ég held að ræturnar að þessari krísu sem beinist að börnunum okkar nái dýpra. Til þess að ná árangri í nokkru sem er, til dæmis á sviði menntunar, verður að stefna að einhverju marki. En það sem er æ meira áberandi er það að yngsta kynslóðin, eins og við hin, erum hætt að sjá hver markmið okkar sem heild er og þar með hvert við stefnum sem samfélag. Er yfirhöfuð eitthvað til sem heitir samfélag?

Börnin okkar sjá ekki frekar en við hin neina framtíð fyrir þetta land. Ísland er ekki til. Við stefnum ekki að neinu, ólíkt fyrri kynslóðum sem sáu ástæðu fyrir því að vinna að uppbyggingu landsins. Það eina sem okkur virðist skipta einhverju máli nú er fjárhagslegur gróði einstaklingsins. Samvinna og samkennd er að deyja út. Það sem stóð upp úr í Pisa könnuninni var það að íslenskum börnum hefur ekki verið kennd samkennd. Hver er þá vonin fyrir því að Íslendingar taki framar höndum saman til að byggja nokkuð upp?

Stjórnmál eru dauð

Þegar nýfrjálshyggjan var að ryðja sér til rúms í Bretlandi stungu áróðursmenn Margarethar Thatcher upp á snilldar slagorði: „There is no alternative“ (TINA). Skilaboðin voru einföld; hið kapítalíska hagkerfi er það eina sem virkar og öllum öðrum hugmyndum skyldi bara gleyma. Þetta var vandlega íhuguð og langvarandi áróðursherferð sem smám saman tengdi saman hugmyndafræðina um að ekkert skyldi framar hindra hegðun einstaklinga og fyrirtækja sem áttu fjármagn í að gera allt sem í valdi þeirra stóð til að auka þetta fjármagn og um leið þau völd sem fjármagninu fylgja við hugtökin lýðræði, frelsi og svo ekki síst hugtakið skynsemi. Kapítalismi var ekki lengur einungis efnahagsveruleiki þar sem framleiðslutækin voru í einkaeign og leikmönnum efnahagskerfisins var skipað í launþega og eigendur. Nei, kapítalismi var nú samnefnari fyrir lýðræði, frelsi og skynsemi. Um leið var falskri tvíhyggju beitt, svarthvítu rökvillunni. Valmöguleikarnir voru ætíð bara tveir: Hægri eða vinstri, frelsi eða fjötrar, kapítalismi eða kommúnismi, skynsemi eða barnaskapur, frjáls markaður eða ríkisrekstur.

Það tók tíma, en smám saman gegnsýrði þessi hugsun samfélagið. Þetta hafði æ meiri áhrif á stefnumótun. Ef auðvaldið girnist samvinnufélög, banka í ríkiseigu, sparisjóði og þá innviði sem almenningur hafði borgað fyrir með skattfé sínu, þá var því stillt upp með öðrum slagorðum: „Ríkið á ekki að vera í samkeppni við einkageirann“, „fé án hirðis“, og svo þeirri hugmynd að ef hinir ofurríku fá bara að gera það sem þeir vilja þá tryggi ósýnileg hönd dularfulls guðs að þetta leiði til bestu niðurstöðunnar fyrir alla.

Þessi falska tvíhyggja gegnsýrði ekki einungis huga kjósenda sjálfstæðisflokksins. Þessar raddir fóru að heyrast æ meira á kratavæng stjórnmálanna. Hugmyndafræði um afnám stéttskiptingar, samvinnu, efnahagslegs lýðræðis og sanngjarna dreifingu afrakstur erfiðis vinnuaflsins hvarf úr hugum vel stæðra atvinnustjórnmálamanna sem kölluðu sig vinstrimenn. Það var Alþýðuflokkurinn undir stjórn Jóns Baldvins sem endanlega sveik þessar hugsjónir í Viðey. Þeir sem töluðu fyrir því að launþegar og almenningur í heild sinni ætti að fá stjórn og hlutdeild í þeim auði sem skapaðist í samfélaginu, þeir sem stóðu fyrir sjálfstæðri efnahagsstefnu og utanríkisstefnu, þeir sem voru tengdir við almúgann almennt og stóðu með þeim voru teknir fyrir og þeim bolað út smátt og smátt.

Nú er svo komið að bæði stærstu „vinstri“ flokkarnir, Samfylkingin og VG, og svo einnig Píratar og önnur svipuð afsprengi, hafa sem undirliggjandi forsendur allra aðgerða sinna þær sömu og „hægri“ flokkarnir. Hegðun þeirra er ekki hægt að greina frá hegðun þeirra sem opinskátt styðja frekari yfirburði fjármagnsstéttarinnar. Leiðtogi „vinstri grænna“ tekur brosandi þátt í sölu þeirra fáu eignahluta í bönkum og öðrum mikilvægum félögum sem eftir eru, tekur undir stríðsáróður Atlantshafsbandalagsins og leggur sitt af mörkum í Alþjóðaefnahagsráðinu, alþjóðastofnun sem hefur það að markmiði að koma allri almannaeign í hendur einkaauðvaldinu. Samfylkingin hefur fórnað öllu fyrir eitt einasta stefnumál, að koma Íslandi í báknið ESB.

Formaður Vinstri-Grænna hefur tekið þátt í störfum Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) sem berst fyrir framtíðarheimsskipan þar sem einkafyrirtæki hafa fulla stjórn. Mynd frá heimasíðu World Economic Forum.

Þannig erum við komin á þann stað að við vitum að engar kosningar munu breyta neinu úr þessu. Það er enginn munur á Samfylkingu, Pírötum, Vinstri Grænum, Viðreisn, Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum. Þetta er einn og sami flokkurinn, í grundvallaratriðum er stefna þeirra alveg sú sama. Fyrir utan það að valdamiðjan er ekki á Alþingi heldur í fjármálakerfinu. Stefnunni verður ekki breytt. Við erum því í algjörri stjórnmálakreppu. Við vitum sennilega öll að það skiptir engu máli hvern við kjósum.

Gúttóslagurinn. Það tók mikla baráttu heilla kynslóða að byggja upp réttindi verkafólks á Íslandi og mynda undirstöður samhjálpar. Mynd, Efling.

Draumalandið

Sú framtíð sem bíður okkar nú er einmitt sú að síðustu almenningsstofnanirnar gefast upp. Allt verður í einkaeign, einnig heilbrigðis- og velferðarkerfið, skólarnir og orkustofnanirnar. Einungis ein stofnun verður eftir: Lögreglan og dómstólarnir sem munu tryggja öryggi hagsmuna þessara fjármagnseigenda. Við munum þá í raun lifa nýtt lénskerfi. Við verðum algjörlega háð, og þar með í eigu, þeirra fjármagnseigenda sem við gerum samninga við.

Almenningur hefur samþykkt þessa þróun í hljóði með því að fá brauðmola, afþreyingu og svo óljós loforð um að við verðum rík. Guð okkar eru loforð um sívaxandi ríkidæmi.

En meir að segja þessi nýi guð, peningarnir, er hverful skepna. Ráðafólk okkar hefur valið að binda okkur fast við hið vestræna fjármálakerfi. Á því virðumst við hafa hreina og óbilandi trú. En sú trú gæti brostið á næstu misserum. Við erum hluti af hinu vestræna fjármálakerfi, og þar eru miklar blikur í lofti. Um það verður fjallað í framhaldsgrein.