Undirstöður samfélagsins molna 2

17. febrúar, 2024 Jón Karl Stefánsson

Norski fræðimaðurinn Ottar Brox hélt athyglisverðan fyrirlestur á ráðstefnunni Skjervheim Seminaret árið 2017. Í honum sýndi hann fram á það að þegar hegðun ríkisins er skoðuð sést að efnahagslegt hlutverk þess er nærri ætíð það að vera milliliður í því að færa afrakstur vinnu alþýðunnar í hendur einkafjárfesta. Þannig hefja innviðir og mikilvægar samfélagsstofnanir oftar en ekki líf sitt þegar venjulegt vinnandi fólk tekur höndum saman og byggir þær upp með það í huga að þetta gagnist samfélaginu og komandi kynslóðum. Hann tók raforkukerfið sem dæmi; en mjög stór hluti þess var hreinlega byggt upp í sjálfboðavinnu af bændum sem virkjuðu ár og læki. Þegar fyrsti hluti uppbyggingar er tilbúinn koma aðilar innan ríkisins og bjóðast til að taka við frekari uppbyggingu og svo rekstrinum. En það er svo einungis tímaspursmál hvenær þessi verðmæti enda í höndunum á þeim sem hafa bestan aðgang til að sannfæra stjórnmálamenn: Á þeim sem eiga og lifa á auðmagni.

Þannig endar almenningur í því að þurfa að borga einkaaðilum fyrir þjónustu sem var byggð upp af fyrri kynslóðum, og greidd með skatti. Stundum eru þessi fyrirtæki svo bútuð niður og seld af þessum einkaaðilum; stofnununum breytt í lausafé sem endar svo í bankareikningum auðfólks. Einkaaðilarnir sleppa við hið dýra og langdregna uppbyggingastarf og þurfa ekki að grípa inn í fyrr en starfsemin er orðin arðbær.

Fyrri kynslóðir byggðu upp samfélagsstofnanirnar. Þær horfa nú á eftir þeim í vasa einkaaðila.

Ísland er lýsandi dæmi fyrir þessa þróun. Það tók einungis nokkra aðila til að innleiða nýfrjálshyggjuna og áróðursslagorð þeirra um að ríkið ætti ekki að standa í gróðarekstri og vera í samkeppni við vesalings auðvaldið. Þeir hörðustu voru með þá framtíðarsýn að ekkert yrði eftir hjá hinu opinbera nema lögreglan, sem væri nauðsynleg til að vernda eignir auðvaldsins gegn almúganum. Þegar þessi hópur kom til sögunnar var Ísland sneisafullt af dýrmætum almenningseignum. Á níunda áratugnum byrjaði undiróðursstarfsemin og loks náðist bylting er Viðeyjarstjórnin tók við. Þeir biðu ekki boðanna. Á árunum 1992 til 2003 voru eftirfarandi ríkisfyrirtæki einkavædd:

Prentsmiðjan Gutenberg, Framleiðsludeild ÁTVR, Ríkisskip, Ferðaskrifstofa Íslands, Jarðboranir, Menningarsjóður, Þróunarfélag Íslands, Íslensk endurtrygging hf., Rýni hf, SR-mjöl hf., Þormóður Rammi hf., Lyfjaverslun Íslands hf., Þörungaverksmiðjan hf., Skýrr hf., Bifreiðaskoðun hf., Íslenska járnblendifélagið hf., Íslenskur markaður hf., Fjárfestingabanki atvinnulífsins hf., Íslenskir Aðalverktakar hf., Stofnfiskur hf., Skólavörubúð Námsgagnastofnunar, Áburðaverksmiðjan í Gufunesi, Hólalax hf., Búnaðarbanki Íslands hf., Landsbanki Íslands hf., Intís hf., Kísiliðjan hf., Landssími Íslands hf. Og Steinullarverksmiðjan hf. Fyrir þessi fyrirtæki fékk ríkið um 56 milljarða króna (Hagfræðistofnun, 2003).

Frá 2003 til 2007 bættust svo við Sementsverksmiðjan hf., Barri hf., Landsími Íslands hf., Lánasjóður Landbúnaðarins, Hitaveita Suðurnesja og Baðfélag Mývatnssveitar. Fyrir þetta fékk ríkið um 85 milljarða (FUE, 2007).

Bylting nýfrjálshyggjunnar náði lengra en einungis til ríkisfyrirtækja. Á sama tíma sáu spilltir kaupfélagsstjórar sér leik á borði að stela eignum stærsta einstaka atvinnurekanda landsins; Samvinnuhreyfingunnar. Það rán tók svo skjótan tíma að enginn náði að bregðast við því þegar þessi hreyfing, sem hafði tekið meira en heila öld að byggja upp, rann í vasana á spilltu innanbúðarfólki. Kvótakerfið, sem komið var á af stjórnmálamönnum sem voru beint tengdir við stór útgerðarfélög á landinu, tryggði að nokkrir aðilar eignuðust dýrmætustu auðlind þjóðarinnar. Halldór Ásgrímsson var til dæmis bróðir Ingólfs Ásgrímssonar, sem nú á nærri alla útgerð í heimasveit hans.

Alþýðan stóð eftir slypp og snauð.  Árið 2008 kom svo efnahagshrun. Íslenska hagkerfinu, eignalitlu og skuldugu, var reddað fyrir horn með túrisma, líklega tímabundið, en samfélagið stendur á á brauðfótum. Það hefur ekki efni á að byggja upp heilbrigðis- og sjúkrastofnanir og halda uppi velferðarkerfi. Fjöldi heimilislausra hefur aukist um 67% á síðustu 10 árum. Æ færri hafa efni á að eignast heimili.

En Íslendingar virðast ekki hafa tekið eftir því að við erum mitt inn í gríðarlegu samfélagslegu hruni. Geir Haarde og Bogi Ágústsson hafa ekki tilkynnt um þetta hrun í sjónvarpinu. En þetta er hrun, og það tekur ekki einungis til efnahagsmála og velferðar, heldur er einnig um að ræða siðferðislegt og menningarlegt hrun. Getur einhver sagt kinnroðalaust að við berum virðingu fyrir og tökum mark á helstu stjórnendum landsins? Ríkir einhver önnur stjórnmálastefna en einfaldlega að gera það sem fyrirtækjaeigendur segja okkur að gera? Er einhver önnur utanríkisstefna en sú að hlýða fyrirmælum Bandaríkjanna, NATO og Evrópusambandsins? Telur einhver að okkar skarpasta heiðarlegasta fólk sé nú við stjórnvölinn í leifunum af því sem kallast Ísland?

Nú þegar Reykjanes brennur og tryggingafélögunum hefur tekist að komast undan því að borga fyrir eignatjónið og láta skattgreiðendur um það, og eru í þessum töluðu orðum að millifæra inn á erlenda bankareikninga, munum við vakna og skilja hvað hefur gerst? Ef ekki, þá er best að pakka saman og fara. Auðfólkið er hvort eð er líklega búið að pakka í töskurnar með þýfið.

Heimildir

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu (FUE), 2007. Einkavæðing 2003-2007. Skýrsla unnin fyrir forsætisráðuneytið. Sótt frá https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/einkavaeding/einkavaeding03-07.pdf.pdf

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. 2003. Einkavæðing á Íslandi 1992-2003. Skýrsla unnin fyrir forsætisráðuneytið. Sótt frá htt   ps://ioes.hi.is/files/2021-05/Einkavaeding_a_Islandi_1992_2003.pdf