Um forræðismanneskjuna

28. apríl, 2022 Jón Karl Stefánsson


Jens Ingvald Bjørneboe var án efa einn merkasti rithöfundur og heimspekingur Norðurlandanna. Hann spilaði lykilhlutverk í endurreisn anarkismans í Noregi við miðbik síðustu aldar með bókum á borð við „Den onde hyrde“ (vondi hirðirinn), sem fjallaði um réttarkerfið og þá einkum fangelsin og þríleikinn „Bestialitetens historie“ þar sem hann tekur ofbeldi í allri sinni mynd fyrir. Hann var mjög óvinsæll hjá norsku valdastéttinni og var meðal annars dæmdur fyrir klám og guðlast árið 1966 og almennt gert mjög erfitt uppdráttar. Þrátt fyrir að hafa gefið út meistaraverk á borð við „Haiene“, „Jonas“ auk leikrita og ljóðabóka, var Bjørneboe hvað þekktastur fyrir kraftmiklar og gagnrýnar ritgerðir sem hann fékk birtar í ýmsum blöðum og tímaritum. Meðal þeirra þekktustu er sú sem birtist hér, „Om formyndermennesket“. Ritgerðin er ákall til ungs fólks um að standast yfirgang valdsins, hvar sem það kemur fyrir. Þessi ritgerð á síst minna við í dag en hún gerði þegar hún birtist fyrst árið 1975, ári áður en hann framdi sjálfsmorð. Sívaxandi ritskoðun og þöggun á gagnrýni, hvort sem það er á skuggastyrjaldir, yfirgang risafyrirtækja og hagsmunasamtaka þeirra, sóttvarnaraðgerðir eða gegn nasisma, sýnir að forræðismanneskjan er hvergi af baki dottin. Í heimi þar sem æ meira er ætlast til þess að menn taki undir með orðræðu valdsins, ellegar dæmast falsfréttamenn eða eitthvað þaðan af verra, eru fólk eins og Bjørneboe lífsnauðsynleg áminning.

– Jens Bjørneboe

Forræðismanneskjan er sérstök undirtegund mannskepnunnar sem – óháð kynstofni, litarhætti, trúarbrögðum eða lífsskoðun – upplifir sína mestu gleði og hamingju við að skipta sér af hugsunarhætti, lestri, tjáningu og/eða lífssýn annarra. Eins og nafnið gefur til kynna er það forræðismanneskjunni allra kærast, hún telur það sína helstu dyggð, og hún sýnir siðferðislega yfirburði sína í þessu: Að hafa vit fyrir öðrum. Forræðismanneskjan veit betur en við sjálf hvað er okkur fyrir bestu. Þess vegna vill hún ákveða fyrir okkar hönd – til að hjálpa okkur. Forræðismanneskjan sjálf hefur hina einu réttu skoðun og vitneskju: Þeir sem reyna að halda öðru fram eru anarkistar, níhilistar, eða óvitar; kjánaleg og siðspillt börn sem forræðismanneskjan neyðist til að hafa stjórn á.

Forræðismanneskjan lætur aldrei stjórnast af valdafýsn eða öðrum eins ófáguðum kenndum þegar hún reynir að stýra okkur. Forræðismanneskjan hefur einungis hinn fegursta ásetning. Það erum við sem látum stjórnast af óæskilegum fýsnum. Forræðismanneskjan veit hvað er réttast að gera hverju sinni. Allt sem við teljum okkur vita er rangt. Þess vegna er það skylda forræðismanneskjunnar að stjórna því hvað við gerum – ellegar myndum við, villuráfandi siðspilltu óvitarnir, bara skaða okkur sjálf. Forræðismanneskjan verndar okkur hverja vökustund. Og vegna þess að forræðismanneskjan hefur ætíð rétt fyrir sér, veit alla hluti betur en við sem erum smá, hjákátleg og siðspillt, er það skylda forræðismanneskjunnar að gera það sem í valdi hennar stendur að hafa hemil á því sem við gerum.

Forræðismanneskan snertir á öllum flötum mannlífsins – allt frá vondum bókum til áfengisvarna, frá stuttum pilsum og löngu hári til pólitískra og heimspekilegra vangaveltna – og er þar ávallt og ætíð kennivald. Heimurinn sem forræðismanneskjan elskar er heimur yfirvaldsins.

Við komumst í tæri við yfirvaldshyggjuna, löngunina til að hafa völd yfir öðrum, hjá foreldrum, kennurum, prestum, embættismönnum, lögreglu og dómurum: Það segir sig sjálft að manneskjur yfirvaldshyggjunnar sækja í störf innan valdastofnana, í störf yfirvaldshyggjunnar. Af þeim sökum munum við að sjálfsögðu rekast á þær í fangelsisstofnunum, í réttarkerfinu, í hernum. Helsta ósk þeirra er að finna sér samastað þar sem þær geta ráðið yfir varnarlausum manneskjum, þar sem orð þeirra eru lög. Það skilyrði sem þær telja allra mikilvægast að setja er það að þær þurfi aldrei að færa sönnur á mál sitt með reynslu eða rökum, en þá getað þær einbeitt sér að því að skipa öðrum fyrir, eins og dómari getur kveðið sinn úrskurð án þess að þurfa að bregðast við mótrökum, eða eins og ákveðin tegund kennara sem líkar aldrei við að fá alvöru spurningar. (Til eru kennarar sem geta aldrei sagt: „Ég veit það ekki“ eða „mig skortir þekkingu til að svara því“.)

Best líður yfirvaldsmanneskju í umhverfi þar sem höft er hægt að leggja á tjáningu og hægt er að stjórna því hvað menn lesa. Draumasamfélagið eru fangelsi, vinnubúðir, skólar, herdeildir, kirkjur og dómssalir.

Hin yfirvaldssinnaða manneskja getur aðeins notið sín, henni finnst hún bara örugg og hamingjusöm, þegar hún starfar innan kerfis þar sem hún hefur fólk fyrir ofan sig og annað fólk fyrir neðan sig – hún vill að sparkað sé í hana ofan frá og að hún geti svo sparkað niðurávið.

Forræðismanneskjan er aldrei sterkur einstaklingur, heldur ætíð aumur og óöruggur, fullur af kvíða og án raunverulegs sjálfstrausts. Sterk og andlega sjálfstæð manneskja er umkringd jafningjum og frjálsum vinum – ekki börðum þrælum og hlýðnum undirsátum. Viðhorf yfirvaldshyggjunnar mótast alltaf úr kvíðanum við að missa vald yfir öðrum – og vald yfir öðrum er nokkuð sem sá þráir sem ekki hefur vald yfir sjálfum sér. Sá sem er ófrjáls, huglaus og hræddur vill vera umkringdur ófrjálsum, huglausum og hræddum manneskjum. Allir þeir sem hafa sjálfstæðar hugsanir eru óvinir.

Í augum hinna yfirvaldssinnuðu er öll sjálfstæð hugsun glæpur: Gagnrýni, sem í eðli sínu eru ekki einungis lýðræðisleg réttindi heldur beinlínis lýðræðisleg skylda, líta þau á sem mannvonsku og mótþróa. Það sem þegar hefur verið ákveðið er rétt – að gagnrýna það er siðlaust.

Andgerð yfirvaldshyggjunnar – forræðismanneskjan – er óháð tíma og rúmi. Hún fyrirfinnst í öllum stjórnmálaflokkum og kemur í ýmsum styrkleikaflokki, en ætla má að þessi andgerð finni sig best meðal yfirvaldssinnaðra kommúnista eða hinna afdráttarlausustu íhaldsmanna á borð við ofurstanna í Grikklandi eða – almennt séð – meðal presta, kennara, yfirmanna fanglesa, hermanna og þjóna réttarkerfisins. Í stuttu máli: meðal þeirra sem vilja vernda hin núgildandi og varanlegu gildi.

Hver eru vopnin gegn forræðisfólkinu?

Hvernig getum við varið okkur og hugsanafrelsi okkar gegn kvíða forræðismanneskjunnar fyrir hinni frjálsu hugsun?

Fyrsta boðorðið er: Hugsaðu ætíð sjálfur! Þ.e.a.s., aldrei látast skilja eitthvað sem þú skilur ekki í raun og aldrei þykjast vera sammála einhverju sem þú ert ekki sammála eða skilur ekki. Þú verð í einu og öllu ábyrgð á öllu því sem á sér stað þar sem þú ert hverju sinni.

Annað boðorðið er: Trúðu aldrei því sem eldra fólk segir þér, því þau hafa ætíð eitthvað sem þau vilja fela! Allt eldra fólk er með slæma samvisku, og það mun reyna að halda því leyndu. Það lýgur – beint og óbeint – markvisst og án þess að gera sér sjálft grein fyrir lyginni. Ekki heldur samþykkja það sem þú lest hér og nú: Ef þér finnst að yfirvald, hlýðni, þvinganir og hræsni sé betra en hreinskilni og sjálfstæði, gjörðu svo vel, en þú skalt færa heiðarleg rök fyrir því.

Þriðja boðorðið er: Vertu óhlýðinn! Þú lærir ekkert af því að vera hlýðinn.

Fjórða boðorðið er: Spyrðu! Þ.e.a.s., spyrðu allar yfirvaldssinnaðar manneskjur, allar forræðismanneskjur, um alla hluti. Þú skalt þvinga þær til að færa rök fyrir hverju orði sem þær segja. Spyrðu þar til þær vita ekki lengur hvað þær heita. Spyrðu í smáatriðum, af nákvæmni og miskunnarlaust um hvern punkt. Þú verður að krefja forræðismanneskjuna um rök og sönnunargögn fyrir hverri fullyrðingu sem hún lætur frá sér. Hún skal ekki deyja í syndinni.

Hafðu ekki áhyggjur af þessu verkefni. Níutíu hundraðshlutar allra ganga um með fastmótaðar skoðanir sem þeir erfðu eða fengu í láni frá allra verstu óværum nútímans: Blöðunum, útvarpinu, kvikmyndinni og sjónvarpinu.

Fimmta boðorðið er: Vertu tortrygginn! Næstum allir foreldrar, kennarar, herforingjar o.s.frv. o.s.frv., munu reyna að blekkja þig. Þau vilja „jákvæð“ ungmenni í kringum sig, „tillitsöm“, „dugleg“, „heilbrigð“, „glöð“, en umfram allt „jákvæð“ ungmenni. „Jákvæð“ þýðir gagnrýnislaus, yfirvaldssinnuð, hlýðin ungmenni sem trúa hinum eldri, sem líta upp til þeirra, sem samþykkja þau.

Sannleikurinn er sá að öll þau sem eru í dag eldri en 35-40 ára hafa gert versta axarskaft sem mannkynssagan hefur að geyma. Þau hafa eyðilagt heiminn.

Öllum framförum vísindanna, tækninnar o.s.frv. hefur þessari kynslóð sem nú er tekin að eldast tekist að breyta í andstæðu sína: Hugleysi þeirra, græðgi, heimska og kvíði gagnvart ábyrgð og sjálfstæðum hugsunum, hefur umbreytt dýrðlegum heimi í geðveikrarhæli, líkbrennslu, fangelsi og kirkjugarð.

Einungis sljór, hugmyndasnauður og hræddur ungdómur getur borið traust til þeirrar kynslóðar sem nú hefur völdin.

Einungis meðvituð, tillitslaus og hugrökk umsnúningsbarátta skynseminnar og mannúðarinnar getur bjargað því sem enn er hægt að bjarga.

Steypið forræðismanneskjunum af stóli!

Þær berjast ekki fyrir betri heimi, heldur eigin hagsmunum.