Um einkavæðingu Landsbankans, geimbransans og opinberrar umræðu

19. mars, 2024 Kristinn Hrafnsson

Landsbankinn er ekki ríkisbanki heldur almenningshlutafélag, sagði bankastýran drjúg. Á sama tíma og ég las þetta var ég að hlusta á hlaðvarpið Empire þar sem breska Austur-Indíafélagið kemur mikið við sögu. Það var líka bara almenningshlutafélag (stofnað 1600) en fyrirtækið komst yfir allt Indland og átti það og rak fram til 1858. Kompaníið var með eigin her sem taldi mest 230 þúsund hermenn eða tvöfalt fleiri en breska krúnan. Austur-Indíafélagið var ekki ríki í ríkinu heldur mun öflugra en ríkið.

Í liðinni viku skaut SpaceX, geimfélag Elon Musk, risaflaug út í geim en Bandaríkjastjórn áformar að kaupa þjónustu af þessu almenningshlutafélagi og telur burðugra að einkavæða geimbransann en að standa í honum með ríkisrekstri. Sami Musk stýrir einnig fjarskiptaþjónustunni Starlink frá geimnum og ræður yfir rúmlega helmingi allra fjarskiptahnatta á braut um jörðu. Einn stærsti viðskiptavinur þar er Bandaríkjaher og kemst illa af án þessarar þjónustu. Allur hernaður Úkraínuhers reiðir sig líka á fjarskipti Starlink.

Nú er svo komið að nánast öll umræða í vestrænum lýðræðisríkjum er á vettvangi nokkurra Bandarískra almenningshlutafélaga sem beita þar ritskoðun ef þeim þykir henta og jafnvel setja einstök orð á válista, án þess að kjörnir fulltrúar fái rönd við reist. Helst er að frétta úr þeim geira að óttast er að kínverska risafyrirtækið sem rekur Tik-Tok muni ógna „lýðræðinu“ og gegn því ætla nú ábúðarfullir pólitíkusar í Ameríku að sporna. Þeir vilja fyrir alla muni að það séu bandarísk risafyrirtæki sem stjórni umræðunni en ekki kínversk.

Smám saman er lýðræðið að verða merkingarlaust enda bara kosið í stjórn leikfélagsins.

Hún mun áfram leggja til að hafa bara Vesalingana á sviði.

Pistill þessi birtist áður á Fb-síðu Kristins Hrafnssonar 18. mars.