Úkraína og raunveruleikinn

28. febrúar, 2024 Þórarinn Hjartarson

Þann 24. febrúar átti innrás Rússa í Úkraínu tveggja ára afmæli. Þau tvö ár höfum við Íslendingar lifað við býsna massífan stríðsáróður. Og á afmælinu fengum við enn á ný stóra og þekkta skammta af ákalli um áríðandi stuðning okkar við Úkraínu. Við erum í stríðsliðinu.

Því skal þó ekki leynt að á RÚV var boðskapurinn að þessu sinni allur annar en fyrir einu ári síðan. Á árs afmælinu sögðu allir sem RÚV talaði við að Úkraínumenn væru að vinna stríðið, og eina leið til friðar væri að hjálpa Úkraínu til þess. Að þessu sinni glumdi hins vegar járnkaldur raunveruleiki að baki orðunum sem áttu þó að glæða hinn «áríðandi stuðning». Rósa Magnúsdóttir prófessor lauk máli sínu svo: «Zelensky þarf kannski að fara að endurskilgreina hvað sigur fyrir Úkraínu þýðir – og gæti þurft að ganga að samningaborði.» Þetta hef ég ekki heyrt í íslensku útvarpi áður. Þarna nefndi Rósa snöru í hengds manns húsi. Það skal þó nefnt að í Heimskviðum sama dag var mest talað við Erling Erlingsson og hann hleypti raunveruleikanum lítt eða ekki að.

Ekki hefur alltaf verið auðvelt að tala máli skynseminnar í Úkraínudeilunni. Það skal viðurkennt. Í tilefni af tveggja ára afmælinu hafa þó margir tjáð sig, eða verið spurðir, einmitt um raunhæfa og réttsýna afstöðu til þessa stríðs. Nú hef ég valið út umsagnir 3-4 einstaklinga sem af ólíkum ástæðum eru bæði mjög athyglisverðar og mikilvægar. Allar koma þær betur út fyrir Rússa en Vestrið. Af hverju skyldi það vera?

Fyrrverandi formaður hernaðarnefndar NATO

Harald Kujat var æðsti yfirmaður þýska hersins, Wehrmacht. Hann er einnig fyrrverandi formaður Hernaðarnefndar NATO (NATO Military Committee), nú á eftirlaunum. Hann er því  enginn „nóboddý“. Nú nýlega gaf hann viðtal við lítt þekkt svissneskt blað þar sem aðalboðskapurinn fólst í heiti greinarinnar: Nú væri rétti tíminn til að taka upp aftur samningaviðræður þær sem rofnar voru. (Jetzt wäre der richtige Zeitpunkt, die abgebrochenen Verhandlungen wieder aufzunehmen). Ég er lélegur þýskumaður en hef lesið norska þýðingu greinarinnar. Í stuttu máli telur Kujat að það þurfi að horfast í augu við að stríðið í Úkraínu sé tapað og framlenging þjóni fyrst og fremst því að framlengja þjáningar Úkraínumanna. Þýska meginstraumspressan er ritskoðuð og hefur þagað yfir viðtalinu eins og mannsmorði.

Spurður um gang stríðsins svaraði Harald Kujat:

Því lengur sem stríðið stendur verður erfiðara að semja um frið. Rússneska innlimunin á fjórum úkraínskum héruðum 30. september 2022 er dæmi um þróun sem verður mjög erfitt að snúa við. Þess vegna fannst mér það svo mikill skaði þegar friðarviðræðurnar í Istanbul voru rofnar eftir mikinn árangur og með í heild jákvæða niðurstöðu fyrir Úkraínu. Í Istanbul-viðræðunum virtist Rússland hafa gengið inn á að draga her sinn að línunni frá 23. febrúar, þ.e.a.s. frá því fyrir árásina á Úkraínu… Úkraína hafði skuldbundið sig til að hafna NATO-aðild og að leyfa ekki staðsetningu erlends herliðs eða herstöðva… Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum greip þáverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, inn og hindraði undirskrift. Röksemdir hans voru þær að Vestrið væri ekki tilbúið að binda endi á stríðið.

Kujat kallar það „alvörulaus rök“ að Úkraína berðist fyrir „frelsi okkar“ Vesturlandabúa. Spurt var þá af hverju það séu „alvörulaus rök“.

Úkraína berst fyrir frelsi sínu, fullveldi sínu og landfræðilegum óskiptanleik. En helstu tveir stríðsaðilar í þessu stríði eru Rússland og Bandaríkin. Úkraína berst líka fyrir bandarískum geopólitískum hagsmunumar, þar sem yfirlýst markmið eru að veikja Rússland pólitískt, efnahagslega og hernaðarlega í þeim mæli að menn geti snúið sér að þeim geopólitíska keppinaut sem er sá eini sem getur sett hnattræn yfirráð þeirra í hættu: Kína. 

Gamli yfirherforinginn bendir hér á að Úkraína sé í sínum rétti að verjast ólöglegri innrás Rússa. En jafnframt að Úkraína hafi allan þann tíma einnig barist fyrir bandarískum geópólitískum hagsmunum og markmiðum, sem a.m.k. frá rússneskum sónarhól eru höfuðhliðin á þessu stríði. Þeir hagsmunir ganga út á það að „veikja Rússland pólitískt, efnahagsleg og hernaðarlega“. Það hefur alla tíð verið hið bandaríska og vestræna markmið. Zelensky forseti og úkraínska forustan sýndi í blábyrjun stríðs raunsætt mat á hagsmunum Úkraínu en beygði sig svo undan vestrænum þrýstingi.

Það kemur honum í koll. Eins og Kujat bendir á voru Rússar í byrjun innrásar tilbúnir að falla frá öllum landakröfum öðrum en Krím, sem áður var innlimað. En vegna framgöngu Vesturlanda og í raun yfirtöku þeirra á stríðinu er ekki líklegt (jafnvel útilokað) að Rússar verði jafn rausnarlegir í skilmálum annað sinn.

USA/Vesturlönd yfirtóku stríðið segir Jeffrey Sachs

Í þessum mánuði átti Chris Hedges viðtal á chrishedges.substack.com við hinn heimsþekkta hagfræðing Jeffrey Sachs (efnahagasráðgjafa m.a. Gorbachevs, Jeltsíns, margra Austur-Evrópuríkja m.m. Viðtalið var einkum um nýja bók Sachs um John F. Kennedy, To Move the World: JFK’s Quest for Peace. Bókin fjallar um hinn diplómatíska og sjálfstæða leiðtoga Kennedy sem CIA „varð“ að lokum að fjarlægja. CIA á ekki við slíkan vanda að etja gagnvart núverandi ráðamönnum, en í samningahæfni í samskiptum þeirra við Rússa og Sovétmenn reynir á svipaða eðliskosti hjá Bandaríkjaforsetum. Í lok viðtalsins kemur svo eftirfarandi stutt skilgreining á Úkraínustríðinu:

Chris Hedges: Hafandi starfað í Rússlandi hvernig skilgreinir þú rússnesku innrásina í Úkraínu?

Jeffrey Sachs: Ég skilgreini hana þannig að hún hafi komið á 8. ári stríðs sem hófst með því að Viktor Janukovitsj var steypt með valdi og stigmagnaðist eftir það, [ég skilgreini hana] sem eitthvað sem algjörlega mátti komast hjá. Af því að ef Biden hefði samið við Pútín í desember 2021 hefði ekki komið til stríðs. Ég lít á hana [innrásina], í byrjun, sem tilraun til að þvinga Úkraínu að samningaborðinu. Og fáum dögum eftir að hin sk. „sérstaka hernaðaraðgerð“ (SMO) hófst – sem var ekki að umfangi til eins og innrás til að yfirtaka Úkraínu heldur hernaðaraðagerð til að ýta Úkraínu að samningaborði – og eftir nokkra daga sagði Zelensky: „Við getum samið“. Nokkrum dögum eftir það sagði hann: Við getum verið hlutlaus. Ég veit, af því ég hef talað fólkið sem tók þátt í samningaviðræðunum í mars 2022, að viðræðurnar skiluðu gríðarmiklum árangri á grundvelli úkraínsks hlutleysis og ekki-útvíkkunar NATO. Og svo vitum við að dag einn stöðvuðust samningaviðræðurnar. Úkraínumennirnir gengu inn til tyrknesku milligöngumannanna og sögðu: við ætlum ekki að semja núna, við gerum hlé á þessum viðræðum.

Af hverju? Bandaríkin sögðu þeim: Þið þurfið ekki að semja. Þið þurfið að sigra Rússa. Þið þurfið ekki að samþykkja hlutleysi. Þið hafið okkur að baki. Og Bandaríkin ýttu þannig Úkraínu út í stigmagnandi stríð og hugsuðu að samþætting efnahagslegra refsiaðgerða og HIMARS-skotflaugakerfa og annarra undravopna myndu þvinga Pútín til að hörfa. En Pútín hörfaði ekki. Hann setti raunar af stað herkvaðningu sumarið 2022. Svo að bandaríska ógnunarstefnan virkaði ekki. Hún leiddi út í næstu umferð stigmögnunar. Og hefur sérstaklega leitt til mikils blóðbaðs, algjörlega fyrirsjáanlegs, af því Bandaríkjamenn hafa neitað – og með Bandaríkjamenn meina ég Biden forseta okkar sem er ábyrgur  ásamt teymi sínu – þeir hafa hafnað samningum við hvert mögulegt tækifæri.

Og þeir segja okkur að það sé ekki við neinn að semja og að Rússar hafi ekki áhuga á samningum, og það er lygi. Munurinn er einmitt sá að Rússar hafa áhuga á samningaviðræðum til að stöðva stækkun NATO, en Bandaríkin hafa áhuga á að fara hvert sem þeim dettur í hug. Engu öðru ríki, jafnvel ekki kjarnorkurisaveldi, leyfist að setja nein „rauð strik“ í nágrenni við sig, á meðan við [BNA] höldum upp á tvöhundruðasta ár Monroe-kenningarinnar. Við sögðum fyrir 200 árum, enginn á að blanda sér inn á hinu vestræna jarðarhveli, en Rússar hafa hins vegar ekki leyfi til að segja: Við viljum ykkur ekki á landamærin okkar. Það kemur Rússum ekki við! Svo að þetta eru gríðarleg mistök í bandarískri utanríkisstefnu. 

Þannig mæltist Jeffrey Sachs. Hann tjáir sig alltaf á afar skýru hversdagsmáli. Það að segja að vestræn pólitísk elíta hafi verið höfuðaflið í því að ýta Úkraínudeilunni í þann hnút sem yrði ekki leystur nema í stríði – er töluverð fullyrðing. En hún er staðfest af hverri nýrri upplýsingu um aðdraganda og fyrstu vikur þessa stríðs.

Kristinn Hrafnsson um Úkraínustríð sem „hreyfiafl breytinga“

Þetta gerir ekki  innrás Rússa löglega. Skoðuð út af fyrir sig og þjóðréttarlega verður hún líklega alltaf ólögleg. En geopólitískar kringumstæður þessa stríðs (sem staðið hefur frá 2014) gefa því annað eðli en sem einfalda árás Rússa á Úkraínu. Hernaðarleg viðbrögð andstæðingsins, Allsherjarveldisins og NATO, einfaldlega „yfirtrompuðu“ aðgerð Rússa, breyttu þar með bæði ásýnd hernaðaraðgerðarinnar og eðli.

Og geopólitísk vídd Úkraínustríðsins er býsna víðfeðm. Í ágúst síðastliðinn skrifaði Kristinn Hrafnsson á blogg sitt í sambandi við leiðtogafund ríkjaklúbbsins BRICS, um dramatískar „jarðsögulegar flekahreyfingar“ og gríðarlegan áhuga á klúbb þessum vítt og breytt um heim utan Vesturlanda. Þá skrifar hann:

Alls hafa 40 ríki lýst áhuga á að verða meðlimir BRICS og hafa 23 lönd þegar sótt um aðild… Hreyfiafl þessara risabreytinga er ólögleg innrás Rússa í Úkraínu en afleiðingarnar eru djúpstæðari en ætla má af oft þröngsýnum greiningum vestrænna meginstraumsmiðla.

Það að BRICS-lönd og lönd hins hnattræna suðurs hafa helst valið að taka ekki afstöðu til Úkraínustríðs  og neita að taka þátt í refsiaðgerðum Vestursins gegn Rússum bendir til að þau kjósi að líta á stríðið sem staðbundið evrópskt stríð frekar en rússneskt heimsvaldastríð, og svo er hitt að þróun stríðssins í Úkraínu virðist beinlínis virka til þess að auka valmöguleika og olnbogarými fyrir önnur þjóðríki heims gagnvart Allsherjarveldinu (Hegemóninum) sem hefur til þessa verið afar takmarkað.

Pepe Escobar tengir saman Gaza og Úkraínu

Brasilíumaðurinn Pepe Escobar ritar um geópólitík í margvísleg rit. M.a. tvær greinar nú vegna tveggja ára afmælis Úkraínuinnrásar Rússa. Greinarnar tvær eru eftirfarandi: Frá 16. febrúar og 23. febrúar. Þær eru mikilvægar og Escobar tekur að vanda skýra afstöðu. Hér að neðan munum við vitna dálítið í þær. Sú fyrri er skrifuð eftir ferð Escobars til Donbass í byrjun febrúar sl. Sú seinni er skrifuð degi fyrir tveggj ára afmælið.

Það er ómögulegt að láta styrk, seiglu, og trú fólksins í Donbass njóta sannmælis, fólksins sem stendur á víglínunni í staðgengilsstríði Vestursins gegn Rússlandi. Baráttan sem það hefur háð frá 2014 hefur nú sýnilega fellt dulargerfið og afhjúpað sig sem, innst í kjarna, alheimsstríð hins sameinaða Vesturs gegn rússneskri siðmenningu.

Rétt eins og svarta mold Nýja-Rússlands [Novorossia] er svæðið þar sem „reglubundna alþjóðlega skipulagið“ mætti örlögum sínum gæti Gazabeltið í Vestur-Asíu, ættlandið Palestína, orðið sá staður þar sem zíonisminn mætir örlögum sínum. Bæði „reglubundna skipulagið“ og zíonisminn eru, fyrst og síðast, grundvallarsmíð vestræns einpóla heims, og lykill að því að styrkja hina efnahagslegu og hernaðarlegu hagsmuni hans.

Í seinni greininni heldur Escobar áfram frá sama sjónarhorni:

Þriðja heimsstyrjöldin er komin og geisar á hernaðarlegum, fjármálalegum og stofnanalegum vígvöllum, og baráttan er tilvistarlegs eðlis. Allsherjarveldið (Hegemon) er í sannleika í stríði gegn þjóðarréttinum, og aðeins „efnisleg hernaðaraðgerð“ getur komið því á kné. Ósamhverfi öxullinn er á fullri ferð. Þar eru ríkisbundnir (stately) og ekki-ríkisbundnir leikmenn sem leika ósamhverfum leikjum á hinu hnattræna taflborði til þess að máta hið bandarísk-stýrða „reglubundna skipulag“. Framvörður öxulsins er jemenska andspyrnuhreyfingin Ansar Allah. Ansar Allah er alveg vægðarlaus. Þeir hafa skotið niður RQ-9 Reaper-dróna sem kosta 30 milljón dollara með bara sjálfsmíðaðri skotflaug sem kostar 10 þúsund dollara. Þeir eru þeir fyrstu í hnattræna Suðrinu til að nota andskipa-skotflaugar á Ísraeltengd flutningaskip eða bandarísk herskip. Í öllu praktísku tilliti er Ansar Allah í stríði við engan smærri aðila en bandaríska flotann. Ansar Allsh hefur hertekið ofurháþróað sjálfvirkt neðansjávarfar (AUV), Remus á 1,3 milljón dollara, tundurskeytislagaðan neðansjávardróna sem getur borið gríðarlegt magn nema og skynjara. Næsti leikur? Hönnun afturábak í Íran? Hnattræna suðrið bíður spennt, tilbúið að borga í gjaldmiðlum utan við dollarinn.

Allt hið ofanskráða – Ho Chi Mihn-stígurinn í Víetnamstríðinu endurskapaður í siglingaumhverfi 21. aldar – sýnir að Allsherjarveldið uppfyllir kannski ekki lengur kröfuna um að geta kallast „pappírstígrisdýr“, kannski frekar „pappírsblóðsuga“.

Hnattræna suðrið stígur fram

Inn í stóru myndina, sem tengd er miskunnarlausu þjóðarmorði framkvæmdu af Ísrael á Gaza stígur fram á sviðið sannur leiðtogi hins hnattræna Suðurs, forseti Brasilíu, Luiz Ináció Lula da Silva. Lula talaði í nafni Brasilíu, Suður-Ameríku, Afríku, BRICS 10 og yfirgnæfandi meirihluta hins hnattræna Suðurs, þegar hann réðist á Ísrael og skilgreindi Gaza-harmleikinn sem það sem hann er, þjóðarmorð. Engin furða að fálmarar zíonismans um allt hnattræna norðrið – plús lénsmenn hans í suðri færu í falsettu.

Það sem Lula sagði var BRICS 10 í aksjón. Þetta var greinilega fyrirfram ráðfært við Moskvu, Peking, Teheran og, auðvitað, Afríkubandalagið. Lúla talaði í Addis Abeba, og Eþíópía er núna aðildarríki að BRICS 10. Barátta Jemena fyrir „okkar fólki“ á Gaza er spurning um húmaníska, siðræna og trúarlega samstöðu. Þetta eru grundvallarreglur fyrir hin framstormandi austrænu „siðmenningarveldi“, bæði innanlands og alþjóðlega. Þessi samleitni grundvallarreglna hefur nú skapað „beina tengingu“ framreiknaða á hinar siðrænu og andlegu víddir – milli Andspyrnuöxulsins í Vestur-Asíu og slavneska Andspyrnuölxulsins í Donbass.

Mikil athygli má beinast að tímaskalanum. Herlið frá Donetsk People’s Republic (DPR) og Rússlandi hafa notað tvö ár harðra bardaga í Nýja-Rússlandi bara til að komast á það stig – byggt á staðreyndum vígvallarins – að „samningar“ þýða bara skilmálar um uppgjöf Kiev.

Gagnstætt þessu er vinnan hjá Andspyrnuöxlinum í Vestur-Asíu ekki einu sinni hafin. Það er sanngjarnt að segja að styrkur hans og fullveðja skuldbinding sé ekki tilbúin enn… 

Þannig að spurningarnar sem spurðar eru af yfirgnæfandi meirihluta hins hnattræna Suðurs og sem stendur með Lula geta verið: Hverjir aðrir, aðrir en Ansar Allah, Hizbollah og Hashd al-Shaabi munu ganga til liðs við Ósamhverfa öxulinn í baráttunni um Palestínu? Hverjir eru til í að koma til hins heilaga lands og deyja þar? (Þrátt fyrir allt, í Donbass eru það bara Rússar og rússnesku mælandi sem deyja fyrir sögulega rússneskt land).

Það færir okkur á leiðina að lokataflinu: aðeins vestur-asísk sérstök hernaðaraðgerð, allt að hinum beiska endi, mun útkljá palestínska harmleikinn…

Vandinn er að ekkert annað þjóðríki getur mælt sig við hið kjarnorkuvædda/hljóðfráa, hernaðarlega risaveldi Rússland þar sem 7,5% þjóðartekna er varið til hermála. Rússland mun standa í stríðsrekstri allt þar til elítur Allsherjarveldisins ná sönsum, sem mölgulega gerist þó aldrei.

Á meðan sér og lærir Andspyrnuöxull Vestur-Asíu dag frá degi. Það er mikilvægt að muna að fyrir allar andspyrnuhreyfingar um allt hnattræna Suðrið – þar á meðal m.a. Vestur-Afríkubúa gegn franskri nýnýlendustefnu – fyrir þá geta geopólitísku brotlínurnar ekki verið skarpari.

Víglínurnar liggja svona: sameinaða Vestrið gegn íslam; sameinaða Vestrið gegn Rússlandi; og fyrr en síðar stór hluti Vestursins, jafnvel nauðugur, gegn Kína.

Staðreyndin er að okkur hefur verið sökkt niður í heimsstyrjöld sem er bæði tilvistarleg og siðmenningarleg. Meðan við stöndum við vegaskiltið er tvennt til: annað hvort er það stigmögnun í átt að opinskárri „efnislegri hernaðaraðgerð“ eða margföldun blandaðs stríðs á mismunandi breiddargráðum.

Svo að það er komið undir Ósamhverfa öxlinum að kalt, rólega og samstillt smíða neðanjarðargangana, tengingarnar og stígana sem geta grafið undan og kollvarpað hinu bandarísk-stýrða einpóla reglubundna alþjóðlega skipulagi.

Escobar tjáir sig í öllu lengra og líka flóknara máli en Sachs. Boðskapur hans er þó bærilega skýr. Vonirnar um skjótan frið, fyrir Úkraínu og fyrir Palestínu er ekki mjög góðar. Hvers konar varanlegur friður er hverfull meðan meinvætturin mikla heldur kröftum sínum. Það eru vondu fréttirnar. Góðu fréttirnar eru þær að þeir kraftar dvína og fálmarar hennar veikjast – nokkuð ört.

Á mynd yfir greininni eru f.v. Jeffrey Sachs, Harald Kujat og Pepe Escobar.