Þegjandi herleiðing Norðurlandabúa? (seinni hluti)

26. mars, 2024 Þórarinn Hjartarson

Nú, seint í mars, stendur yfir mikil NATO-heræfing í Norður-Noregi, í landi, lofti og á legi. Nordic Response, heitir hún. Hún er raunar hluti af heræfingum sem eru „þær stærstu frá Kalda stríði“ segja NBC-news. Kjarnasvæði aðgerðanna er Finnmörk, nyrst í Noregi, inni í landi og með ströndum fram en þær ná líka inn í Svíþjóð og Finnland. Þarna eru það 14 NATO-ríki sem taka þátt, yfir 50 herskip, um 100 flugvélar og um 20 þúsund hermenn.  

17 bandarískar herstöðvar í Svíþjóð

Eins og fram kom í fyrri grein um sama efni, „Norðurlandafréttir: 47 bandarískar herstöðvar og Svíþjóð í NATO“  var sænski fáninn dreginn að hún í höfuðstöðvum NATO þann 11. mars sl. Aðildarríki númer 32 mætt, húrra! Nei, öðru nær, ömurlegur Ulf Kristersson forsætisráðherra sagði, „við erum loksins komin heim!“ Og ömurlegt er það allt. Með þessu lýkur meira en 200 ára hefð sænsks hlutleysis í stórveldaátökum í álfunni, m.a. í báðum heimsstyrjöldunum, sem reyndist Svíþjóð þó happadrjúgt. Eftir 1980 hefur hlutleysið að vísu verið meira í orði en á borði, m.a. tók Svíþjóð þátt í NATO-stríðum bæði í Afganistan og Líbíu.

Hlutleysinu er nú kastað út sem valkosti. Tyrkir settu Svíum kosti, um grimmari meðferð flóttamanna sem skilmála fyrir NATO-aðild, sem tafði hana um eitt ár. Það hefi átt að nægja til hafna þessum félagsskap. Í millitíðinni náðu Svíar samt að gera samning við Bandaríkin – um herstöðvar. Hann var undirritaður 6. desember sl.

Jan Guillou (f. 1944) er með þekktustu og virtustu rannsóknarblaðmönnum og rithöfundum Svía (margar skáldsögur hans þýddar á íslensku). Hann skrifaði í febrúar í Aftonbladet greinina „Sverige har frivilligt underkastat sig“, sem fjallar um samning Svía við Bandaríkin um herstöðvar í Svíþjóð. Guillou skrifar:

Það er líkast því að Svíþjóð hafi verið í stríði við Bandaríkin og tapað. A.m.k. ef skoðaður er varnarsamningurinn milli ríkisstjórnar Svíþjóðar og Bandaríkjanna. Þar eru innleidd bandarísk yfirráð í Svíþjóð… [Samningurinn] er einstakur í sögu okkar og ótrúlega víðtækur. Um er að ræða fullkomna undirgefni.

Strax í upphafi samningstextans er slegið föstu að Bandaríkin fái „óhindraðan aðgang og not af umsömdum stöðvum og svæðum“. 

Einmitt það. Og hver eru þessi umsömdu stöðvar og svæði? Þau eru talin upp á bls. 37. Það eru herflugvellir Svíþjóðar allir með tölu og allar stærri herstöðvar, alls 17 upptalin. Það eru sem sagt í reyndinni landvarnir Svíþjóðar í heild sinni þar sem Bandaríkin eiga að fá „óhindrað“, þ.e.a.s. ótakmarkað, vald.

Á þessum „umsömdu“ svæðum koma að auki sérstök vernduð svæði sem „eingöngu bandarískur herafli mun hafa aðgang að og nota“ og þar sem bandarísk lögsaga skal gilda.

Bandaríkin fá líka heimild og frelsi til byggja upp „svæði og stöðvar“ til að geyma vopn og herbúnað. Það eru ekki gerðar neinar undantekningar um gerðir vopna, ekki einu sinni kjarnorkuvopn (grein 14). Aðilarnir „geta komið sér saman um ofanskráð í þeim mæli sem nauðsynlegt er“.

Guillou skrifar í alllöngu máli um hin víðæku réttindi, hlunnindi, forréttindi, réttarfrelsi og refsileysi sem bandarískt herlið skal njóta í Svíþjóð, nánast eins og það væri á hernumdu svæði. Síðast fjallar hann um hina furðulegu þögn í kringum gerð og samþykkt þessa herstöðvasamnings í sænsku stjórnkerfi: „Það er óskiljanlegt hvernig þetta gat gerst með leynd án nokkurrar minnstu umræðu við stjórnarandstöðuna í Utanríkismálanefnd. Því þannig hlýtur það að hafa gengið fyrir sig.“ Líkt og í Noregi er þögnin ærandi.   

Proletären heitir málgagn sænskra kommúnista og sér ekki ástæðu til fagnaðar. „Myrkrið leggst yfir Svíþjóð,“ svo hefst leiðarinn 28 febrúar. Og áfram:

Sænska aðildin að NATO felur í sér fullan stuðning við bandarísku heimsvaldastefnuna og keppni hennar að heimsyfirráðum. Ásamt DCA-herstöðvasamningnum gerir það Svíþjóð að fullgildu verkfæri í bandarísku stríðsvélinni…

Fjarvera allrar umræðu og það að svifta þegnana réttinum að segja sitt um afdrifaríkasta málið allt frá ESB-aðildinni 1995 er smánarblettur. Samviskulausir og sögulausir stjórnmálamenn hafa slitið sig úr tengslum við þjóðina og við sænska sögu…

Nato-aðildin skerðir alvarlega öryggi Svíþjóðar og landsmanna, kallar yfir land okkar stríðshættu sem við höfum ekki verið nálægt í seinni tíð. Svíþjóð verður peð í stórveldatafli þar sem kjarnorkuvopn á sænsku landi geta orðið raunveruleiki…

Hundtrygga Danmörk

Það er ástæða til að styrkja öryggi okkar, og það gerum  við nú með sögulegu samstarfi við Bandaríkin“ sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra á fréttamannafundi 21. desember 2023.

Samningurinn gefur Bandaríkjunum m.a. heimild til að staðsetja herlið og útbúnað varanlega á dönsku landi. Þau fá aðgang að flugvöllunum Skrydstrup, Karup og Aalborg. Að sögn Frederiksen er það fyrir bæði lengri og styttri tímabil.

Fram kom á fréttamannafundinum að samningurinn væri með líku sniði og samningarnir við Noreg, Svíþjóð og Finnland. Viðvera hers á hinum nýju herstöðvum sýnist hugsuð eittvað hreyfanleg og breytanleg, fyrir „bæði lengri og styttri tímabil“.  Vera kann að snið samningsins sé samt eitthvað frábrugðið hinum löndunum þar sem Poulsen varnarmálaráðherra fullyrti að hann heimili ekki geymslu kjarnorkuvopna á dönsku landi.

Danmörk hefur lengi getið sér orð sem einn USA-tryggasti hundurinn á NATO-búinu, sendandi vænan herstyrk til Afganistan 2001, ein Norðurlanda sendi hún vænan herstyrk til Íraks 2003, sprengjuflugvélar gegn Líbíu 2011 o.s.frv. Í uppljóstrunum Snowdens kom í ljós að leyniþjónusta danska hersins hefur lengi stundað persónunjósnir í Danmörku og einnig njósnir utan Danmerkur og sendi jafnóðum til Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) með því m.a. að veita NSA aðgang að dönskum ljósleiðurum. Um það fjallaði m.a. Information í greinaflokki 2014.

Tekið var fram í kynningu samningsins að hann snerti ekki Færeyjar og Grænland. Það þýðir ekki að þau séu „ósnert“ á neinn hátt. Sannast sagna hafa Bandaríkin lengi sýnt Grænlandi miklu meiri hernaðarlegan áhuga en Danmörku.

Grænland hallar sér í vestur

Árið 2019 falaði Donald Trump forseti Grænland til kaups. Mette Frederiksen kallaði það «absúrd», en málið var ekki þar með dautt. Árið eftir snéri Trumpstjórnin sér beint til Grænlendinga og bauð ríflegan «aðstoðarpakka» til uppbyggingar í Grænlandi, sem grænlenska landstjórnin þáði, að því er virtist án umhugsunar. Bandaríkin opnuðu um leið ræðismannsskrifstofu í Nuuk. Danska blaðið Arbejderen skrifaði um málið.

Danir hafa á undanförnum árum lagt fram stóraukið fé til varnarmála á Grænlandi, eftir verulegan þrýsting frá Bandaríkjunum. Bandaríkin hafa sem kunnugt er sjálf haft herstöð norður við Thule síðan 1951.

Núna í febrúar kynnti ný landstjórn á Grænlandi stefnu sína í utanríkis,- öryggis- og varnarmálum til næstu tíu ára. Þar er meginatriðið að Grænlendingar „stefna að aukinni samvinnu við Norður-Ameríku“ (og Ísland!).

Grænlendingar vilja „samvinnu ekki bara við ríkisstjórninar í Washington og Ottawa heldur við einstök ríki“ í Norður-Ameríku. „Tekið er sérstaklega fram að ekki sé óskað eftir frekari viðveru hers á Grænlandi. Hins vegar sé nauðsynlegt að hafa herstöðvar, en þá fjarri byggð.“

Orðalagið er ögn myrkt og dularfullt, en boðar varla gott. Tekið er fram sem megintilhneiging að í utanríkis,- öryggis- og varnarmálum vilji menn halla sér að N-Ameríku, líklega án þess að Danmörk þurfi endilega að vera milliliður. Eftir orðanna hljóðan óskar landstjórnin ekki eftir fastri viðveru hers frekar en orðið er. Orðalagið um fasta og ekki fasta viðveru herja bendir þá trúlega til að um sé að ræða „hreyfanlegt“ fyrirkomulag heraflans líkt og í bandarísku herstöðvunum í Danmörku.

Bandaríkin hafa kannski ekki enn keypt Grænland en byrjunin er greinilega yfirtaka utanríkis-, öryggis- og varnamálanna. Aðferð Trumps var dálítið klunnaleg eins og honum er lagið, en „smáskrefaaðferðin“ reynist betur.

Ísland er með

Bandaríkin þurftu ekki að gera herstöðvasamning við Ísland með hinum Norðurlöndunum. Einfaldlega af því herstöðvasamningur þeirra við landið frá 1951 er enn í fullu gildi. Bandaríkin fluttu aðeins her sinn burt í bili af taktískum ástæðum árið 2006. Í samningi um brottflutninginn það ár var skýrt tekið fram að nú lyki „fastri viðveru“ bandarísks herliðs, en Íslendingar myndu „veita bandarískum herafla og öðrum herafla NATO áfram aðgengi að íslensku landsvæði og um það, eins og nauðsynlegt er…“

Í sameiginlegri yfirlýsingu Pentagon og íslenska Utanríkisráðuneytisins frá 2016 er undirstrikað að Varnarsamningurinn frá 5. maí 1951 „verður áfram undirstaða samstarfs milli landanna tveggja á sviði varnarmála… Utanríkisráðuneyti Íslands samþykkir áætlanir varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna um varnir Íslands þar sem hernaðarlegum úrræðum er beitt.“

Yfirlýsingin talar sérstaklega um „breytanlegan liðsafla“ á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Viðvera hermanna hefur farið stórlega vaxandi. Árið 2007 voru einhverjir hermenn hér í 17 daga alls en frá 2015/16 hafa erlendir hermenn haft hér daglega viðveru. Uppbygging á Öryggissvæðinu vex jafnt og þétt, flughlöð, flugskýli, færanleg aðstaða fyrir herlið, íbúðabyggingar (“fyrir meira en þúsund hermenn inni á varnarsvæðinu“ sögðu áformin árið 2019).

Það er skilgreiningaratriði hvort Öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli sé herstöð. Herstöð með „breytanlegan liðsafla“ eins og nútímaherstöðvar gjarnan eru. Eitt er það sem stöðin á sameiginlegt með nýju herstöðvunum á Norðurlöndum. Hún þróast í þögn, án umræðu. Hún þróast án aðkomu Alþingis. Uppbygging á Öryggissvæðinu, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins, fer fram án þess að vera rædd á Alþingi. Pentagon finnst það best, íslenskum stjórnvöldum finnst það best. Engin stjórnarandstaða er í málinu. Þannig skal það vera.

Sóknaraðgerðir, ekki vörn

Enginn skyldi láta sér til hugar koma að þessi herstöðvadreifing Bandaríkjanna á Norðurlöndum hafi eitthvað með varnarbaraáttu að gera. Það verður að hafa í huga að megnið af þessum nýju herstöðvum er skammt frá landamærum Rússlands. Bandaríkin eru hins vegar hinum megin á hnettinum ef ég man rétt. Hin ríkjandi frásögn í öllum ráðandi fjölmiðlum á Vesturlöndum er að Pútín, Hitler okkar daga, sé í Úkraínu „on the march” í vesturátt og ætli hreint ekki að láta sér nægja Úkraínu. Það á að réttlæta hina vestrænu vígvæðingu.

Þá er á það að líta að í Úkraínu berst Pútín um  fjögur rússneskumælandi héruð rétt upp við landamæri Rússlands. Dugir það til að geta heitið heimsvaldaleiðangur? Víglínan í hinu nýja Kalda stríði liggur ekki eftir Atlantshafinu. Hún er ekki heldur þar sem gamla Járntjaldið lá í Mið-Evrópu – heldur fylgir hún í grófum dráttum vesturlandamærum Rússlands, eftir vægðarlausa sókn Bandaríkjanna og NATO í austur frá 1991.

Herstöðvarnar á Norðurlöndum eru einfaldlega bandarísk hernaðarsókn á norðurvængnum. Og á nokkrum síðustu mánuðum hefur sú sókn verið leiftursókn.  Herstöðvarnar 47 bætast við 800 herstöðvar Bandaríkjanna vítt um heim. Nú um stundir fjölgar þeim einkum umhverfis Rússland og Kína, þar sem æði margar USA-herstöðvar voru þó fyrir.

Fyrir Norðurlönd tákna herstöðvarnar fyrst og fremst það að þessi lánlausu lönd kveðja nú bæði raunverulegt hlutleysi og sýndarhlutleysi og einnig diplómatí, og snúa inn á allsherjar hernaðarlega átakastefnu. Stjórnvöld á Norðurlöndum hlýða því, öll í takt, bandarískum takt, að stilla sér í fremstu víglínu komandi átaka og gera sig um leið að bandarískum stökkpalli yfir Rússland.  Öryggistilfinningin hríslast niður bakið! Eða hitt þá heldur. Það voðalegasta af öllu er þó að þetta virðist alls staðar ganga fyrir sig án pólitískrar andstöðu svo heitið geti. Herleiðing í ærandi þögn