Endurgreining á gögnum Pfizers og Moderna kallar á alvöru áhættumat

26. júlí, 2024

Snemma árs 2020 lagði virt stofnun á sviði öryggisprófa fyrir bóluefni, the Brighton Collaboration and the Coalition for Epidemic Preparedness Innovations partnership, Safety Platform for Emergency vACcines (SPEAC), fram lista yfir þær aukaverkanir sem helst ætti að leggja áherslu á að hafa auga á þegar bóluefni gegn Covid-19 yrðu prófuð. Listinn var lagður fram fyrir Alþjóða heilbrigðisstofnunina, WHO, sem samþykkti listann eftir vandlega rýni.

Þegar kom að sjálfum prófunum Lyfjafyrirtækjanna á aukaverkunum vegna hinna nýju lyfja sinna var þessi listi hins vegar hunsaður og fyrirtækin notuðust við eigin öryggisstaðla. Það var ekki fyrr en eftir að meirihluti íbúa hins Vestræna heims hafði fengið þessar bólusetningar að sjálfstæðir rannsakendur fengu tækifæri á að rýna betur í gögnin.

Árið 2022 komu loks niðurstöður slíkrar endurgreiningar á gögnum Pfizers/BioNTech og Moderna sem lögð höfðu verið til lyfjaeftirlits Bandaríkjanna og leiddu til samþykkis á notkun lyfjanna eftir þriðja-fasa prófanir þeirra. Greiningin sem var unnin af Frairman o.fl. (2022) var birt í fagtímaritinu Vaccine og helsti munur á greiningarferlinu milli rannsóknar þeirra og svo rannsókna lyfjafyrirtækjanna sjálfra var sá að notast var við viðmiðunarkröfur SPEAC.

Aðalniðurstöður rannsóknarinnar voru að alvarlegar aukaverkanir komu fram hjá 10.1 og 15.1 fleiri af hverjum 10.000 bólusettum í samanburði við lyfleysu (placebo) hópinn í rannsóknum Pfizers og Moderna. Þetta er töluvert meira en niðurstöður lyfjafyrirtækjanna höfðu sjálfar sýnt. Í rannsókninni var enn fremur framkvæmd gróf greining á gagnsemi bóluefnanna í samanburði við skaðann vegna aukaverkana þeirra, svokölluð risk/benefit analysis. Þá var borið saman það að hve miklu leyti bóluefnin komu í veg fyrir sjúkrahúsinnlagnir í samanburði við þá sem ekki höfðu verið bólusettir, við það hver mikill skaði hlaust vegna aukaverkana lyfjanna. Greiningin leiddi í ljós að þegar öll gögn voru dregin saman var skaðsemin vegna aukaverkana meiri en gagnsemin, þ.e. að hve miklu leyti lyfin komu í veg fyrir sjúkrahúsinnlagnir vegna covid-19 sýkingar.

Það sem vekur kannski mestan ugg varðandi rannsóknina eru þær takmarkanir sem vísindamennirnir sem gerðu hana stóðu frammi fyrir. Margar þessar takmarkanir komu til vegna háttsemi lyfjafyrirtækjanna sjálfra. Þannig brutu bæði Pfizer og Moderna samkomulag sem gert hafði verið við heilbrigðisyfirvöld um að fyrirtækin myndu framkvæma eftirfylgdarrannsókn sem myndu gera það mögulegt að sjá langtímaáhrif þessara lyfja þegar fyrirtækin tóku sjálf þá ákvörðun að bjóða þeim sem höfðu verið í placebo-hópnum, þ.e. sem höfðu fengið lyfleysu en ekki bóluefnin, að fá raunverulegu bóluefnin mjög snemma eftir að lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafði gefið lyfjunum grænt ljós. Þetta eyðilagði tvíblinduþátt rannsókna sem fylgdu í kjölfarið.

Rannsóknir lyfjafyrirtækjanna voru enn fremur gallaðar þar sem einungis voru skoðuð gögn einum mánuði eftir að önnur sprauta Pfizer hafði verið gefin, og einum mánuði eftir að fyrri sprauta Moderna hafði verið gefin. Hvað gerðist í kjölfar þessa mánaðar fór beint í óminnið. Vísindamennirnir bentu enn fremur á það að margir þeirra sem greindust með alvarlegar aukaverkanir vegna lyfjanna fengu fleiri en eina aukaverkun, en voru skráðir sem eitt tilfelli hver. Einnig notuðu lyfjafyrirtækin, eins og áður var sagt, ekki öryggisviðmið eins og þau sem SPEAC hafði lagt til, heldur notuðu eigin viðmið til rannsóknanna. Nokkur fjöldi viðfanga hafði verið skráður sem hættir í rannsókninni áður en þeim hafði lokið án þess að skýrt væri sérstaklega hvers vegna. Aðalvandamálið var svo það að lyfjafyrirtækin hafa ekki gefið aðgang að persónugögnum sem neyðir síðari rannsóknir að nota tölfræðigögn. Þetta hylur upplýsingar sem geta haft mikið vægi.

Vísindamennirnir leggja áherslu á að rannsókn þeirra verður að líta á sem forrannsókn fyrir umfangsmeiri rannsókn. Skortur á aðgangi að einstaklingsgögnum neyddi þá til að nota eins varkárar ályktanir út frá gögnunum og hægt var. Þegar slík rannsókn yrði framkvæmd þyrfti svo að gæta áhrifa af upplýsingaumhverfi á skráningu gagna sem varðar skaðsemi vegna alvarlegra aukaverkana í samanburði við gagnsemi við að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum covid-19. Þá myndi mikil umræða um skaðsemi efnanna geta leitt til ofskráningar á aukaverkunum. Umræða sem einkennist af því að því að lyfin séu hættulaus og gagnleg, eins og gert hefur verið, hefði öfug áhrif. Þeir sem myndu upplifa aukaverkanir vegna lyfjanna myndu síður greina frá þeim sem slíkum, þ.e. heilsufarsskaðinn yrði ekki tengdur við bóluefnagjöfina. Mjög erfitt er að vita með vissu hvaða áhrif lyfin hafi raunverulega og bóluefnaskaði á borð við taugasjúkdóma, fósturlát, síþreytu o.s.frv. er alls óvíst, sennilega ólíklegt, að verði tengdur við bóluefnin. Rannsóknir sem gætu gert skil á því yrðu dýrar og flóknar í hverju tilfelli.

Loks yrði slík rannsókn að gera greinarmun á þeim hópum sem skoðaðir yrðu. Þannig mynd án alls efa koma allt aðrar niðurstöður í greiningu á gagnsemi / skaða lyfjanna hjá eldra fólki og þeim sem hefðu undirliggjandi sjúkdóma en hjá þeim sem yngri væru og heilsuhraustari. Þessi eftirgreining hafði tekið alla hópana saman í einn.

Svo er spurningin um það hver myndi fjármagna slíka dýra rannsókn. Ekkert fyrirtæki hefur beinan efnahagslegan hag af því að rannsaka hvort efnin sem farið hafa farið í umferð séu örugg og áhrifarík eða ekki. Margar ríkisstjórnir hafa skrifað undir yfirlýsingu um að þau beri ábyrgð á skaða vegna þessara lyfja og persónulegur ávinningur stjórnmálamanna sem tóku þátt í dreifingunni er enginn. Auglýsingaherferðin um þessi lyf var gríðarlega ágeng og umfangsmikil og margir þeirra sem lýstu yfir efasemdum um þessi lyf voru hafðir að háði og spotti, misstu jafnvel störf sín og æru. Fyrir sjálfstæða vísindamenn er slík reynsla ekki hvati til að leggjast í rannsóknir. Líklega eru margir þeir sem grunar að þeir hafi hlotið skaða af þessum lyfjum hræddir við að greina frá því af ótta við félagslega útskúfun og jafnvel verri þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Það verður því þrautin þyngri að fá slíka rannsókn gerða. Það er einungis á færi heilbrigðisyfirvalda að gera alvöru tvíblindurannsókn sem sker úr því fyrir víst hvort þessi efni geri meiri skaða en gagn, og þá greint eftir aldurshópum og áhættuþáttum. Það að lyfin hafa reynst vera fullkomlega gagnslaus til að koma í veg fyrir smit og útbreiðslu ætti að vera næg ástæða til þess að skoða aukaverkanaþáttinn betur. Að framkvæma ekki slíka rannsókn er siðferðisbrot.

Greinina í fullri lengd má nálgast hér:

Fraiman, J., Erviti, J., Jones, M., Greenland, S., Whelan, P., Kaplan, R. M., og Doshi, P. 2022. Serious adverse events of special interest following mRNA COVID-19 vaccination in randomized trials in adults. Vaccine, 40, bls. 5798-5805. https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/36055877/

Mynd á forsíðu: Spencer Davis, CC BY 4.0 <https://creativecommons.org/licenses/by/4.0>, via Wikimedia Commons