Hópþrýstingur, undirgefni og hlýðni

26. júlí, 2024 Jón Karl Stefánsson

Nánast hvenær sem ný styrjöld er kynnt, þegar minnka á borgaraleg réttindi, þegar þagga á niður gagnrýnisraddir eða þegar múgæsingur sprettur upp í samfélaginu virkjast öflug félagssálfræðileg fyrirbæri. Hlýðni, fylgispekt og hópþrýstingur eru hættuleg vopn í höndum þeirra sem völdin hafa.

Orðið conformity má þýða á íslensku sem fylgispekt, eða undirgefni. Þá er átt við að einstaklingur lætur hegðun sína, yfirlýstar skoðanir og jafnvel hugsanir samræmast því sem sá einstaklingur telur að hópurinn hafi velþóknun á. Þannig lætur einstaklingurinn undan hópþrýstingi, raunverulegum eða ímynduðum, þegar kemur að því að taka ákvörðun eða láta hana í ljós opinberlega, mynda eða breyta skoðun eða hegða sér á ákveðinn hátt.

Fylgispekt þarf ekki endilega að vera neikvætt fyrirbæri. Hún er hluti af myndun menningarinnar, stór þáttur í því hvernig við lærum að lifa í samfélagi. Við lesum merki frá umhverfinu og lögum hegðun okkar eftir því sem við teljum koma okkur í sem minnst vandræði. Við lærum tungumálið, siðina í samfélaginu, vinnubrögð og allt annað sem þarf að temja sér til að rata um í samfélaginu. Til að vinna saman sem hópur þarf einhverja tegund undirgefni og hún er eflaust greypt inn í okkur frá fæðingu.

En þessa fylgispekt hafa menn einnig notfært sér í eigin þágu. Markaðfræðingar, almannatenglar, stríðsæsingarmenn og aðrir áróðursmenn hafa nýtt sér þetta sem veikleika manneskjunnar. Með hverri rannsókn og tækniframförum aukast möguleikar slíkra aðila til að notfæra sér þennan veikleika okkar til að móta jafnvel heilu samfélögin í sína þágu. Sagan geymir augljósar afleiðingar slíkrar undirgefni. Þegar einstaklingar gleypa eigin raunveruleikaskynjun, siðferði og reglur til að aðlagast því sem þeir telja vera það sem veitir þeim mesta viðurkenningu í samfélaginu getur voðinn verið vís.

Þekking er vörn við slíkum tilraunum áróðursmanna til að beina einstaklingunum og samfélaginu á hættulegar brautir með aðferðum sem notast við tilhneigingu okkar til hlýðni og undirgefni. Því meira sem við vitum um það hvernig undirgefni virkar og hvernig hún er notuð í mis-fallegum tilgangi, því meiri mótstöðu getum við sýnt slíkum tilraunum. Jafnvel þegar allt samfélagið virðist vera að detta í fen undirgefninnar, þá verða einhverjir að sýna hugrekki til að fylgja eigin dómgreind og sannfæringu. Það að flestir haldi einhverju fram er ekki sönnun fyrir því að það sé rétt eða gott. Eins og barnið í ævintýrinu um nýju fötin keisarans, þá getur einstaklingur sem bendir á sannleika breytt miklu. Hugrekki er því mikilvægt, en þeir sem vita ekki einu sinni að verið er að beita brögðum til að hafa áhrif á hegðun þeirra geta ekki einu sinni stutt sig við hugrekki. Þeir verða auðveld fórnarlömb meistara áróðurs og fortölulistarinnar.

Sálfræði og undirgefni

Sálfræðingar hafa lengi rannsakað fylgispekt og undirgefni. Tilraunir Jenness (1932) voru meðal þeirra fyrstu, en í þeim notaðist hann við sálfræðinema sem voru fengnir til þess að meta fjölda bauna í flösku (réttur fjöldi var 811). Hann lét þátttakendurna fyrst meta fjölda baunanna í einrúmi, en setti þá svo í hópa sem áttu að ræða sín á milli og finna sameiginlegt mat á fjölda baunanna. Þeir voru síðan beðnir um að meta aftur fjölda baunanna að því loknu. Að meðaltali breyttu karlkynsþátttakendur tölunni sinni um 256 baunir, en kvenþátttakendur breyttu sinni tölu um 382 eftir að hafa tekið þátt í þessu hópastarfi. Jenness vildi með þessu sýna að menn breyttu mati sínu vegna áhrifa fjöldans.

Ekki voru allir sáttir við niðurstöður þessara tilrauna, enda voru gallar á. Þetta var í raun ekki rannsókn á fylgispekt, heldur geta umræður einfaldlega verið mjög gagnlegar til að safna upplýsingum sem svo má nota til að gera áætlun. Í besta falli sýndi þetta fram á undirgefni sem fólst í upplýsingalegu gildi hópavinnu, en ekki endilega því að þátttakendur voru að láta undan hópþrýstingi.

Þremur árum síðar framkvæmdi Muzafer Sherif rannsókn á „félagsþáttum í skynjun“, eins og hann kallaði það (Sherif, 1935). Tilraun hans fólst í því að hann fékk þátttakendur til að setjast í myrkvað herbergi og horfa á lítinn ljósblett á vegg sem var í um 5 metra fjarlægð. Þeir áttu svo að meta hversu mikla vegalengd ljósbletturinn færðist á stuttu tímabili.

Í rauninni færðist punkturinn ekki neitt, heldur var um að ræða áhrif sem kallast sýndarhreyfingar (autokinetic effect), en þau eiga sér einmitt stað undir þessum kringumstæðum. Sýndaráhrifin eru talin stafa af því að heilinn metur hreyfingu ætíð í samhengi við nálæga hluti, en í myrkri eru engir aðrir hlutir eru til staðar til að bera hlutinn saman við. Við þetta getur sjónkerfið farið að búa til hreyfingar þar sem engar eru og úr verða þessi sýndarhreyfingaráhrif. Þessi áhrif voru nýtt í tilraunina.

Það sem Sherif vildi vita var það hvort þessi áhrif gætu stjórnast af einhverju leyti að hópþrýstingi. Hann lét því þátttakendurna koma nokkra daga í röð til að gera þessar sjóntilraunir til að sjá hvort einstaklingarnir tækju að samræma sjálfkrafa mat sitt á því hversu langt punkturinn hefði færst. Sú varð einmitt raunin. Með tímanum fóru svör þátttakendanna um það hversu langa vegalengd punktarnir höfðu færst að  líkjast æ meira hvert öðru. Greinilegt var að einhvers konar hópáhrif áttu sér stað.

Hópþrýstingstilraunir Aschs

En rétt eins og var með tilraunir Jennes, var ekki hægt að fullyrða að um undirgefni væri að ræða í niðurstöðum tilrauna Sherifs, en fræðin voru að færast nær því að sýna fram á hvernig fylgispekt kæmi fram í ákvörðunartöku. Á sjötta áratug 20. aldarinnar stóð pólski sálfræðingurinn Salomon Asch fyrir frægum tilraunum á hópþrýstingi; áhrifum jafningja á ákvörðunartöku, skynjun og skilning. Lýsing á þeirri fyrstu birtist árið 1951 í bókinni „Groups, leadership and men“. Stærri tilraunum lýsti Asch árið 1956. Þátttakendur í tilraunum hans áttu að meta lengd lína miðað við aðrar. Í hvert skipti var tilraunarlínan nákvæmlega jafn löng og ein þriggja samanburðarlína. Verkefnið var einfalt og þegar sjálfboðaliðarnir voru einir áttu þeir ekki í vandræðum að meta hvort tiltekin lína X væri jafnlöng einhverri af samanburðarlínunum. Hér yrði erfiðara að útskýra breytingu á mati á réttu og röngu með því að vísa í upplýsingagildi hópavinnu. Verkefnið var of auðvelt, og betur hægt var að bera saman það sem þátttakendur héldu í raun og það sem þeir létu frá sér.

Útkoman breyttist mikið þegar Asch lét sjálfboðaliðann sitja með hópi af öðrum þátttakendum, sem í raun voru að vinna með Asch á laun. Í þessari umferð sammæltust vitorðsmenn rannsóknarinnar að velja allir sömu röngu línu. Nú breyttist rétt svarhlutfall hjá sjálfboðaliðunum mikið. Um 75 hundraðshlutar sjálfboðaliðanna fóru nú að svara vitlaust, í takt við skoðanir sessunauta sinna. Þeir sem svöruðu áfram rétt fundu fyrir miklum óþægindum af þessu og efuðust gjarnan um réttmæti eigin skoðana. Asch síendurtók þessar tilraunir, en alltaf var niðurstaðan hin sama: Meirihluti þátttakenda lét skoðanir annarra hafa áhrif á val sitt í þessu einfalda verkefni.

Sjálfboðaliðarnir voru teknir í viðtal í kjölfarið. Í þessum viðtölum kom fram að margir þeirra höfðu ekki einungis látið undan til þess að falla í kramið hjá sessunautum sínum, eða vegna þess að þeir vildu ekki skera sig úr hópnum. Margir þeirra höfðu í raun sýnst línurnar sem um ræddi vera jafn langar. Sjálf skynjun þeirra hafði orðið fyrir áhrifum af skoðun fjöldans (Asch, 1956).

Þessar tilraunir Asch á fylgispekt voru byltingarkenndar og höfðu mikil áhrif á þróun félagssálfræðinnar. En jafnvel enn áhrifameiri tilraunir voru samt handan við hornið.

Milgram og hlýðni

Árið 1963 birtist sakleysisleg grein í vísindatímaritinu Journal of Abnormal and Social Psychology. Greinin bar nafnið „Behavioural Study of Obedience“ og var eftir ungan sálfræðing að nafni Stanley Milgram. Í greininni fór Milgram yfir niðurstöður tilrauna sem hann hafði framkvæmt í þeim tilgangi að rannsaka hlýðni fólks við yfirvald. Um það hvað vakti fyrir honum þegar hann ákvað að fara út í þær tilraunir sem hann lýsti í greininni sagði Milgram:

„Hlýðni, sem áhrifavaldur á hegðun, er málefni sem hefur mikla þýðingu fyrir nútímann. Áætlað hefur verið að á tímabilinu 1933-45 hafi milljónir saklausra manneskja verið slátrað á kerfisbundinn hátt samkvæmt skipunum. Gasklefar voru byggðir, dauðabúðir voru vaktaðar, framleiðnikröfum um dauða var fullnægt af jafnmikilli skilvirkni og framleiðsla heimilistækja. Það má vera að þessar [þessi] ómanneskjulegu áform hafi verið uppkokkuð af tilteknum einstaklingum, en ekki hefði verið hægt að koma þeim í framkvæmd á risastórum skala ef mjög stór hópur fólks hefði ekki hlýtt skipunum“ (Milgram, 1963, bls. 171).

Milgram auglýsti eftir þátttakendum í rannsókn á áhrifum refsingar á minni. Þátttakendur, sem fengu greitt fyrir, var sýndur orðalisti og tjáð það að þeirra hlutverk væri að aðstoða við að veita refsingu fyrir rangt svar annars þátttakanda, nemandans. Þátttakandinn fékk að hitta þennan nemanda, en sá var í öðru herbergi og, að því er virtist, tengdur við rafskaut þar sem hann sat á stól sínum. Það sem þátttakandinn vissi ekki var að þessi nemandi var vitorðsmaður fræðimannsins, „rafskautin“ voru ekki raunveruleg og það sem hann átti síðar eftir að heyra frá þessum nemanda var segulbandsupptaka af nokkuð sannfærandi leikrænum tilburðum þessa vitorðsmanns.

Þátttakandinn var svo færður í annað herbergi. Þar var hann fenginn til að koma sér fyrir við tæki sem gaf annarri manneskju rafstuð. Á tækinu var fjöldi (30) rofa í röð, og sýndi hver rofi mismunandi styrk rafstuðsins sem þátttakandinn átti að gefa leikaranum. Styrkleikinn fór úr „vægu“ (slight shock) yfir í „Hætta – Mjög alvarlegt“. Þátttakandinn fékk þær upplýsingar að tilgangur tilraunarinnar væri að mæla áhrif refsingar á færni við minnispróf. Kennivaldið í tilrauninni var maður í hvítum slopp sem las spurningar sem leikarinn átti að svara. Við rangt svar fyrirskipaði kennivaldið þátttakandanum að gefa nemandanum stuð, og þá hærra eftir hvert rangt svar. Við hvert skipti sem leikarinn fékk rafstuð kvartaði hann sárar og þegar komið var upp fyrir miðju borðsins hóf hann óska eftir því að hætta tilrauninni. Kennivaldið sagði einungis eina af fjórum setningum á borð við „tilraunin verður að halda áfram“. Þátttakendurnir stóðu fyrir einföldu en erfiðu vali: Að streitast á móti, eða láta undan kröfum yfirvaldsins á kostnað þess að fórna eigin gildum (Miller, Collins og Brief, 1995).

Hlýðni er normið

Upphaflega ætlaði Milgram sér að koma auga á þann sérstaka hóp sem léti undan skipunum sama hvað og svo rannsaka hvað gerði það fólk svo sérstakt. Hann bjóst við því að þetta væri lítill minnihluti sem svo væri hægt að rannsaka sérstaklega. Hann gerði einnig könnun meðal kollega sinna og þeir töldu að frá 0 til 3 af hundraði myndu ganga alla leið. Aðal háða breytan í tilrauninni var hámarksstyrkur rafstuðs sem þátttakandinn var tilbúinn að gefa áður en hann mótmælti og hætti tilrauninni. Aðeins sérstaklega undirgefið fólk, eða jafnvel siðblint, myndi láta sér detta í hug að gefa manneskju skaðlegt og sársaukafullt rafstuð þrátt fyrir mótmæli, einungis vegna þess að kennivald sagði þeim að gera það.

Milgram til mikillar undrunar varð niðurstaðan allt önnur. Langstærstur hluti þátttakenda (65%) gaf ekki einungis sterkara rafstuð en hann hafði reiknað með, heldur fór alla leið og hélt áfram löngu eftir að leikarinn hafði óskað eftir því að tilrauninni yrði hætt og að hann þjáðist (Milgram, 1963). Einungis örfáir hættu snemma. Þeir sem voru óvenjulegir voru ekki þeir sem hlýddu, heldur þeir sem streittust á móti.

Milgram skráði sérstaklega niður viðbrögð þátttakendanna. Hann sagði að framvinda tilraunarinnar „skapaði mikla taugaspennu í sumum [þátttakenda]. Mikill sviti, skjálfti og stam voru dæmigerð tjáning þessarar tilfinningalegrar truflunar. Eitt óvænt merki um spennu – sem enn hefur ekki verið útskýrt – var reglulegur taugaveiklunarhláturt, sem í sumum þróaðist í óviðráðanlegt flogakast“ (Milgram, 1965).

Vegna þess hversu óvæntar niðurstöður tilraunirnar gáfu, hélt Milgram áfram að rannsaka hlýðni með svipuðu formi næstu árin, en breytti tilteknum hlutum í hvert skipti. Þannig lét hann leikarann kvarta sárar undan sársauka og lét þátttakandann vita að hann væri með hjartagalla. Stundum fékk þátttakandinn að finna sjálfur raunverulegt rafstuð, óþægilega sterkt, áður en tilraunin hófst, og hann bætti við rofum sem sýndu enn meiri rafstyrk. Þannig stóð við einn hnappinn einfaldlega xxx, og svo bættust við þrír sem voru ómerktir. Allt þetta var gert til að rannsaka hvaða þættir minnkuðu hlýðni. Allt þetta hafði mun minni áhrif á hlýðni en Milgram átti von á. Meirihluti fólks virtist frekar hlýða kennivaldinu heldur en að hlusta á eigin sannfæringu. Það sem minnkaði hlýðni þó mest var frekari nálægð þátttakandans við leikarann. Þegar þátttakendur sátu við hliðina á nemandanum (og í einni útgáfu tilraunarinnar áttu þeir meir að segja að þvinga hönd nemandans að rafskautinu), þá loksins jókst óhlýðni að einhverju marki. Árið 1974 gaf svo Milgram út bók þar sem hann lýsir tilraunum sínum og hvaða þekkingu má draga af þeim (Milgram, 1974).

Rannsóknirnar hafa verið endurteknar oft af öðrum vísindamönnum í gegnum tíðina. Meta-rannsóknir þar sem fjöldi svipaðra tilrauna voru teknar saman sýndu að fullkomin hlýðni kom fram í að lágmarki 28% tilfella og að hámarki í 91% tilfella. Engin sjáanleg breyting varð með tímanum; þ.e. við virðumst alveg jafnhlýðin í dag og árið 1965 (Blass, 1999). Konur reynast engu minna hlýðnar en karlar og aldur virðist heldur ekki skipta máli. Breski ríkisfjölmiðillinn endurtók rannsóknina í jafnvel enn stærri skala en Milgram hafði gert og sýndi í sjónvarpsþætti árið 2009. Niðurstöðurnar þar voru jafnvel enn meira sláandi, einungis þrír af fjölmörgum þátttakendum tilraunarinnar neituðu að ganga alla leið í þeirri tilraun (Portillo, 2009).

Okkur er tamin hlýðni við „yfirvald“

Þær spurningar sem Milgram hafði í huga þegar hann hannaði tilraunir sínar á hlýðni var það hvernig á því stæði að vel menntað, venjulegt fólk, hefði getað svarað „ég var bara að hlýða fyrirmælum“ eftir að hafa tekið þátt í beinlínis ótrúlegum voðaverkum. Hann var þá sérstaklega með í huga allt fagfólkið og venjulegt starfsfólk sem tóku þátt í að gelda fólk, safna því saman, pynta, gera tilraunir og myrða fólk á dögum Þriðja ríkisins, en þessi sama spurning á við um ótal fleiri tímabil í mannkynssögunni. Flugmennirnir sem slepptu kjarnorkusprengjunum yfir Hiroshima og Nagasaki voru ósköp venjulegir menn. Óbreyttir hermenn sem útrýmdu Herero og Namaqua þjóðflokkunum voru venjulegir menn. Við Íslendingar vorum í hópi hinna viljugu sem tóku þátt í dauða og eyðileggingu í Írak. Undir kófinu urðum við svo vitni af því að orðið „hlýðni“ var hampað sem aldrei fyrr og ástand ríkti sem getur kallast hópmúgsefjun. Það súrrelíska ástand skapaðist og þau völd sem lyfjafyrirtæki fengu var sýnikennsla í mætti hlýðninnar.

Margar kenningar hafa verið settar fram til að útskýra niðurstöður tilrauna Asch og Milgrams. Hvað Asch varðar er spurningin sú hvað veldur því að fólk hefur þessa tilhneigingu til þess að treysta frekar því sem meirihlutinn segir að sé rétt en eigin skilningarvitum, eða þykist allavega gera það? Í tilfelli Milgramtilraunanna, hvað veldur því að svo margir eru líklegir til þess að láta eigin dómgreind, siðferðisreglur og sannfæringu lúta í lægra haldi fyrir hlýðni við yfirvald?

Skýringarnar sem settar hafa verið fram eru að ýmsu tagi. Milgram setti fram tvær tilgátur til að útskýra hlýðnihegðun. Eina þeirra kallaði hann agentic state theory. Hann taldi að grundvallaratriði í hlýðni væri að einstaklingurinn sem sýnir hlýðnihegðun fari að líta á sig einfaldlega sem tæki til að koma vilja annars aðila í framkvæmd. Þess vegna þætti einstaklingnum ekki lengur að hann eða hún bæri ábyrgð á eigin gjörðum; ábyrgðin væri hjá þeim sem bað hann um að framkvæma athöfnina (Milgram, 1973; sjá einnig Nissani, 1990). Þessa skýringu mætti kalla „ég er bara að vinna hérna“.

Hin skýringin sem hann setti fram kallaði hann einfaldlega kenning um undirgefni (theory of conformism) og vísaði hann þá til tilrauna Aschs. Þannig mætti útskýra hlýðni þannig að hinn hlýðni einstaklingur hefði ekki, eða fyndist hann ekki hafa, getu eða þekkingu til að taka sjálfur ákvörðun um tiltekið málefni. Þess vegna myndi hann láta sjálfa ákvörðunartökuna í hendur einstaklings eða hóps sem hann teldi að vissi betur og hefði meiri reynslu og þekkingu.

Leiðsagnarreglur undirgefninnar

Skýringin, sem hér verður skoðuð, er sú að í bæði tilfellum Aschs og Milgrams er um að ræða sterkar og mikilvægar leiðsagnarreglur sem við notum til að skera úr því hvort eitthvað sé rétt eða rangt. Þessar reglur hafa meistarar fortölulistarinnar nýtt sér alla tíð til að sannfæra fólk um ágæti hugmynda eða til að sverta aðrar.

Tilraunir Aschs sýna þannig hvers vegna áróðursbragðið sem kallað hefur verið „skrúðgöngulestin“ (bandwagon) er svo öflugt. Skrúðgöngulestin byggir á rökvillunni argumentum ad populum, sem felst í þeirri ályktun að röksemdafærsla sé sönn vegna þess að margt eða allt fólk telur að svo sé; gert er ráð fyrir því að “ef margir trúa því að svo sé, er það svo.” Þessi villa kemur einnig fram í siðfræði í því þegar gert er ráð fyrir því að finnist mörgum eitthvað ásættanlegt sé það ásættanlegt.

Skrúðgöngulestin er notuð í áróðri til að sannfæra hóp um að framkvæma eitthvað „sem allir eru að gera“;  um að einhver stefna sé sprottin úr óstöðvandi fjöldahreyfingu og að það sé í þeirra þágu að ganga til liðs við hana. Þeir sem ekki eru í halarófunni eru furðufuglar sem enginn vill vera í slagtogi með og því félagslega mikils virði að vera í rétta liðinu. Þeir sem eru að fullu eða að hluta til í lestinni fá um leið staðfestingu á því að það að halda sér um borð sé rétta leiðin. Orðfæri sem höfðar til fólks á þennan hátt er t.d. “flestir eru sammála um að …”, eða „allir vita að…“ og allt í þeim dúr.

Skrúðgöngulestin snertir bæði á innbyggðri þrá okkar við að falla í kramið hjá öðrum, og svo óttanum við félagslega útskúfun. Þetta styttir okkur líka leið í ákvörðunartöku. Það er miklu ódýrara að beita leiðsagnarreglu eins og „ef öllum finnst eitthvað, þá hlýtur það að vera rétt“ heldur en að eyða orku og tíma í vandlega íhugun um röklegt  hald  gæði sönnunargagna með eða á móti einhverri staðhæfingu. Þetta er því hentug leiðarstytting, en það er mikilvægt að rugla henni ekki saman við raunverulegan sannleik. Það að flestir séu á einhverri skoðun, eða virðist vera það, er ekki vísindaleg sönnun fyrir því að hún sé rétt. „Flestir“ og jafnvel „allir“ hafa mjög oft haft ákaflega rangt fyrir sér í gegnum tíðina. Um þetta verður rætt í kafla um félagsmótunarlíkan sem kallast „Elaboration Likelihood Model“.

Svipað gildir um niðurstöður tilrauna Milgrams. Í því tilfelli er leiðsagnarreglan sú að „sérfræðingarnir vita best“. Tilraunir Milgrams hafa svo hjálpað við að móta ýmsar fortöluaðferðir sem tengjast hlýðni og trú á kennivald (appeal to authority). Að láta persónu sem hefur yfirbragð kennivaldsins veita upplýsingarnar er áhrifarík fortöluaðferð. Kennivaldið í tilraununum var ekki einungis vald sem gat umbunað eða refsað þátttakendunum. Frá sjónarhóli þeirra voru þetta sjálfir vísindamennirnir sem skipulögðu tilraunirnar. Þeir hljóta að vita betur. Sennilega höfum við fæst nógu mikið sjálfstraust til að einu sinni láta okkur detta í hug að véfengja það að sérfræðingar viti betur. Að halda öðru fram væri fáránlegt, ekki satt?

Við ölumst upp við leiðsagnarreglur. Okkur er meir að segja refsað fyrir að treysta ekki á þær. Börn sem véfengja sannleiksgildi fullyrðinga kennara eru sögð vera nöldrarar. Fólk sem fer gegn fjöldanum á í hættu á að vera útskúfað. Það gerir lífið auðveldara að einfaldlega læra þessi boðorð og fylgja þeim umhugsunarlaust.

Við höfum meir að segja komið okkur upp ýmsum helgisiðum og eigin leiðsagnarreglum til þess að auðvelda okkur að þekkja sérfræðinga úr fjöldanum og vita hvað er í meirihlutaálitinu. Sérfræðingar klæða sig á ákveðinn hátt og tilheyra ákveðnum stéttum. Sérfræðingar í læknavísindum geta klæðst hvítum slopp, efnahagssérfæðingar í dýrum jakkafötum, bókmenntasérfræðingar í ódýrum jakkafötum o.s.frv. Við aðlögum huga okkar að því að þekkja þessi merki, og þeir sem vilja taka að sér hlutverk sérfræðingsins temja sér ákveðinn talsmáta og jafnvel látbragð.

Auðvitað eru til alvöru sérfræðingar sem hafa ákveðna sérþekkingu. En þetta hlutverk getur einnig verið blekkjandi. Þó einhver sé í hlutverki sérfræðings um eitthvað málefni, þá stoðar það lítið ef hann eða hún er ekki á vettvangi þess sem um ræðir, hefur ekki allar upplýsingar og hefur ekki sett sig inn í málið. Raunveruleikinn er sjálfur sannleikurinn og ef einhver „ekki sérfræðingur“ hefur aðgang að þessum raunveruleika er sá í fullum rétti að benda á hann og er betur til þess fallinn að bera skilaboðin. Oft felst „sérþekkingin“ í litlu öðru en réttum klæðaburði og talsmáta, sem er svo matreiddur á sannfærandi máta í fréttatímunum. En það breytir oftast ekki miklu. Þessar leiðsagnarreglur eru ekki einungis tíma og orkusparnaður. Þær eru beinlínis hluti af samfélagsgerð okkar og heimsmynd. Þess vegna geta menn brugðist ókvæða við því ef einhverjir ganga gegn skoðun fjöldans eða rengja sérfræðinga. Hver þykist sá vera?

Það beinlínis ógnar hinu þægilega og sjálfvirka kerfi sem hjálpar okkur í hversdagsleikanum við að taka ákvarðanir. Þær eru samofnar í samfélagið. Við eigum að hlýða yfirmönnum og sérfræðingum á hverju sviði. Samfélagið gæti farið að hökta ef þannig grundvallarreglur hætta að virka sem skyldi. Ákvörðunartökukeðjan gæti rofnað. Að einhver véfengi réttmæti þess að sérfræðingar og meirihlutinn viti betur þegar þú sjálfur hefur samþykkt það er auk þess merki um að þetta óhlýðna fólk telji sig „betra“ og gáfaðra, en ekki bara meirihlutinn og sérfræðingarnir, heldur líka þú og þínir. Slíkt getur verið túlkað sem hroki eða vitleysisháttur.

Að notfæra sér leiðsagnarreglur

Uppeldið hefur kennt okkur hlýðni við yfirvald. Við lærum það í skólanum, úr sjónvarpsþáttum, á vinnustöðum, í samskiptum við ríkisstofnanir og öllum stigveldisstýrðum stofnunum að það borgar sig að hlýða þeim sem eru ofar í stigveldinu. Það fylgja því afleiðingar, oft alvarlegar, að samþykkja ekki yfirvald þeirra sem ráða. Að hlýða hefur smátt og smátt orðið að skilyrtum viðbrögðum; það verður eðlilegt að hlýða þeim sem eru í efri þrepum í stigveldinu, sama hversu fáránlegar skipanirnar eru. Tilraunir Stanleys Milgrams sýndu að fyrir langflesta eru viðbrögðin við skipun frá yfirvaldinu hlýðni, jafnvel þegar samviskan segir að skipunin gangi yfir öll siðferðismörk. Einungis örfáir neita að hlýða. Það er nóg að refsa þeim fáu sem óhlýðnast; hinir hlýða sama hvað.

Svo eru auðvitað ótal aðrar aðferðir sem hafa verið hannaðar með vísindalegri nákvæmni til við að skapa sannfærandi fortöluboð. Þeir sem nýta sér þetta eru þeir sem hafa helst efni á því: Stórfyrirtæki, opinberar stofnanir og öflugir þrýstihópar. Við verðum að vera meðvituð um þetta. Við megum ekki láta tilfinningu um að einhver sé trúverðugur, eða að „allir vita“ þetta eða hitt stjórna ákvörðunartöku okkar. Þessa tilfinningu hafa sérfræðingar lært að möndla með. Við verðum að skoða röksemdafærsluna, þau gögn sem liggja fyrir og reyna að leggja kalt mat á það sem við sjáum, og ekki vera hrædd við að hafa prinsipp, vera gagnrýnin og muna að sannleikur boðaður af yfirvaldi er varasamur.

Heimildir og ítarefni

Asch, S. E. 1951. Effects of group pressure upon the modification and distortion of judgment. In H. Guetzkow (Ed.), Groups, leadership and men (bls. 117–190). Pittsburgh: Carnegie Press.

Asch, Solomon E. 1956. Studies of independence and conformity: 1. A minority of one against a unanimous majority. Psychological Monographs, 70, bls. 1-70.

Blass, T. 1999. The Milgram paradigm after 35 years: Some things we now know about obedience to authority. Journal of Applied Social Psychology, 29, bls. 955–978. doi:10.1111/j.1559-1816.1999.tb00134.x

Blass, T. 2002. The Man Who Shocked The World. Psychology Today (mars 2002). Sótt frá https://www.psychologytoday.com/intl/articles/200203/the-man-who-shocked-the-world

Eder, Donna og Janet Lynne Enke. 1991. The structure of gossip: Opportunities and constraints on collective expression among adolescents. American Sociological Review, ágústhefti, bls. 494-508.

Jenness, A. 1932. The role of discussion in changing opinion regarding a matter of fact. Journal of Abnormal Social Psychology, 27, 279–296.

Loftus, E, F. 1997. Creating false memories. Scientific American, September, bls 70-75.

Loftus, E. 1980. Memory: Surprising new insights into how we remember and why we forget. Reading MA: Addison Wesley.

Loftus, E. 1992. When a lie becomes memory truth: Memory distortion after exposure to misinformation. Current Directions in Psycological Science, ágúst, bls 121-123.

Milgram, S. 1963. Behavioral study of obedience. Journal of Abnormal and Social Psychology, 67. 371-378. https://doi.org/10.1037/h0040525

Milgram, S. 1974. Obedience to authority: An experimental view. London: Tavistock Publication

Miller, A. G., Collins, B. E., og Brief, D. E. 1995. Perspectives on obedience to authority: The legacy of the Milgram Experiments. Journal of Social Issues, 51, 1-19.

Nissani, M. 1990. A Cognitive Reinterpretation of Stanley Milgram’s Observations on Obedience to Authority. American Psychologist, 45. Bls. 1384–1385. Sótt frá https://web.archive.org/web/20130205025321/http://www.is.wayne.edu/mnissani/PAGEPUB/milgram.htm

Portillo, M. og Petterle, D. 2009. How violent are you? Horizon, sería 45, þáttur 18. BBC. Sótt frá https://www.bbc.co.uk/programmes/b00kk4bz Sherif, M. (1935). A study of some social factors in perception. Archives of Psychology, 27, bls. 187.