Herinn sem skrapp frá

28. apríl, 2021 Einar Ólafsson

Einar Ólafsson skrifaði þessa grein í Kjarnann 26/4 um hin endurnýjuðu hernaðarumsvif á Íslandi. Samkvæmt greininni „hefur Alþingi ekkert að segja um ákvarðanir um aukin hernaðarumsvif og framkvæmdir hér á landi, það fær bara upplýsingar eftir á um þessar ákvarðanir.“ Eftir að greinin birtist fréttist af nýrri slíkri ákvörðun: þáttöku Íslands í norður-evrópskum samstarfsvettvangi um varnarmál, JEF, sem Bretar leiða. Hér er greinin uppfærð vegna þess.


Það var því miður takmörkuð ástæða fyrir herstöðvaandstæðinga til að fagna þegar bandaríska herliðið var kallað frá Íslandi árið 2006, enda gerðist það engan veginn vegna baráttu þeirra heldur var um að ræða einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar vegna breyttra aðstæðna á alþjóðlegum vettvangi og auk þess var aðgangi Bandaríkjahers til umsvifa hér á landi haldið opnum þótt ekki væri lengur um formlega herstöð að ræða.

Annars vegar þurfti að kalla þessa hermenn í hernað annars staðar, „vegna brýnnar þarfar fyrir hefðbundinn herafla annars staðar í heiminum“, eins og segir í samningi um brottflutninginn, sem var svo sem ekkert betra í hinu stóra samhengi en þeir væru hangandi yfir litlu þarna á Miðnesheiði.

Hins vegar var skv. samningi um brottflutning Bandaríkjahers 29. september 2006 alls ekki meiningin að viðveru herliðsins mundi ljúka fyrir fullt og allt („myndi FASTRI viðveru bandarísks herliðs á Íslandi ljúka í lok september 2006“), enda var varnarsamningurinn við Bandaríkin áfram í gildi, og þótt „tilteknum“ varnarsvæðum og mannvirkjum væri skilað til Íslendinga var samkomulag um að Ísland skyldi „veita bandarískum herafla og öðrum herafla NATO áfram aðgengi að íslensku landsvæði og um það, eins og nauðsynlegt er …“. (Sérstaklega var tekið fram að Bandaríkjamenn skyldu halda fjarskiptastöðinni við Grindavík sem varnarsvæði.)

Herstöðin var lögð niður formlega en varnarsvæðin, sem Íslendingar tóku við, skyldu áfram vera aðgengileg Bandaríkjaher og NATO og Ísland skyldi „veita gistiríkisstuðning“ vegna „aðgerðaþarfa“ og „tímabundinnar viðveru á vettvangi eftir þörfum“.

Hernaðarleg umsvif voru svo negld niður í varnarmálalögum sem voru samþykkt á Alþingi 16. apríl 2008 með samhljóða atkvæðum þingmanna allra flokka nema VG sem greiddu atkvæði gegn lögunum.

Hernaðarleg umsvif aukast

Þetta var svo áréttað í sameiginlegri yfirlýsingu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Íslands 29. júní 2016 (utanríkisráðherra þá var Lilja Alfreðsdóttir), sem var viðbót við samkomulagið frá 2006, – að utanríkisráðuneytið tryggi áfram rekstur viðeigandi varnaraðstöðu og -búnaðar, heimili að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagið nýti sér aðstöðu eftir þörfum, loftrýmisgæsla haldi áfram …, – og loks að kannað verði aukið samstarf og „Utanríkisráðuneyti Íslands samþykkir áætlanir varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna um varnir Íslands þar sem hernaðarlegum úrræðum er beitt.“

Utanríkisráðherra
Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson.

Í skýrslu utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, á Alþingi í maí 2017 kemur fram að framlög Íslands til varnarmála og Atlantshafsbandalagsins hafi aukist á liðnum tveimur árum (þ.e. frá 2015) og m.a. hafi íslensk stjórnvöld aukið við gistiríkisstuðning á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (bls. 51). „Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðinu og starfræksla ratsjárkerfisins, sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu, er veigamikill þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins.“ Milli áranna 2017 og 2019 jukust framlög Íslands til varnarmála um 37 prósent, úr 1.592 milljónum króna 2017 í 2.185 milljónir króna 2019. Þessi vöxtur er skýrður svo í skýrslu utanríkisráðherra í apríl 2019 (bls. 64): „Vöxtur útgjalda helgast af vaxandi skuldbindingum sem Ísland hefur tekist á hendur innan Atlantshafsbandalagsins og aukinni tímabundinni viðveru liðsafla bandalagsins á Keflavíkurflugvelli vegna versnandi öryggisástands í Evrópu, þ.m.t. á Norður-Atlantshafi.“

Erlendir hermenn hafa haft daglega viðveru á Íslandi a.m.k. frá árinu 2015 eða 2016, þannig að hin „tímabundna viðvera á vettvangi“ hefur í reynd verið viðvarandi í a.m.k. fjögur til fimm ár. Sumarið 2019 voru boðnar út fyrstu framkvæmdir í framkvæmdaáætlun upp á tæpa 14 milljarða króna á vegum bandaríska hersins og NATO. Drög að þessari áætlun urðu a.m.k. að einhverju leyti til áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Í skýrslu utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, á Alþingi í apríl 2018 segir að á síðustu árum hafi umsvif Bandaríkjahers, sem og annarra bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins, aukist á norðanverðu Atlantshafi vegna versnandi horfa í öryggismálum og breytts öryggisumhverfis í Evrópu (bls. 99). „Í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna 2016 var á síðasta ári gengið frá samkomulagi milli landanna um fyrirkomulag á varnarframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Tilgangur framkvæmdanna er að styðja við tímabundna viðveru erlends liðs afla á Íslandi og sinna nauðsynlegu viðhaldi á flugbrautum og öryggissvæði Keflavíkurflugvallar.“

Alþingi stikkfrí

Þótt gengið hafi verið frá þessu samkomulagi áður en núverandi ríkisstjórn tók við er engu að síður ömurlegt fyrir Vinstri græn, eina flokkinn á Alþingi sem er andvígur aðild að NATO og hernaðarsamvinnu við Bandaríkin, að framkvæmdir fari á fullt meðan flokkurinn er í ríkisstjórn og ástæða til að spyrja hvort engin leið hafi verið að stöðva þær. Væntanlega er slíkt þó ekki einfalt og þetta því einfaldlega eitt af því Vinstri græn þurfa að kyngja í stjórnarsamstarfinu.

En hvert sem svarið við því er, þá er ljóst að, ef undan eru skilin fjárframlög á fjárlögum, hefur Alþingi ekkert að segja um ákvarðanir um aukin hernaðarumsvif og framkvæmdir hér á landi, það fær bara upplýsingar eftir á um þessar ákvarðanir að einhverju leyti gegnum utanríkismálanefnd en annars með árlegri skýrslu utanríkisráðherra. Reyndar kvartaði þingmaður VG yfir því í umræðum um skýrsluna í maí 2017 að slíkar upplýsingar væri mjög óljósar í skýrslunni.

Kjarninn greindi frá því 25. apríl síðastliðinn að Ísland hefði gerst aðili að samstarfsvettvangi tíu ríkja í norðanverðri Evrópu um öryggis- og varnarmál, Joint Expeditionary Force (JEF), eða eins og það er orðað á vef utanríkisráðuneytisins: „samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar.“

Orðalagið „líkt þenkjandi“ er athyglisvert. Hér virðist samstarf ólíkra þjóða og ríkja ekki sett í forgang heldur lögð áhersla á mismun og andstæður. Endurspeglar þetta utanríkisstefnu Íslands?

Hér haslar Ísland sér nýjan völl í öryggis- og varnarmálum. Ekki verður séð að þetta hafi komið til tals á Alþingi og ekki kom fram hvort það hafi verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar, en Kjarninn beindi spurningum til utanríkisráðuneytisins um aðild Íslands að JEF, meðal annars um það hvenær pólitísk ákvörðun um að ganga inn í þennan vettvang hafi verið tekin og hvenær Ísland hefði fengið boð um að ganga inn. Svar hefur ekki borist þegar þetta er skrifað.

Það er því ekki að ófyrirsynju að nokkrir þingmenn VG hafa lagt fram frumvarp um að varnarmálalögunum frá 2008 verði breytt í þá veru að allar breytingar varðandi varnarsamninginn og framkvæmdir á varnarsvæðum skuli bera undir Alþingi (þingskjal 814 – 485. mál). Þessi tillaga kom reyndar líka fram í fyrra og hefur fengið í umræðum frekar jákvæð viðbrögð frá þingmönnum úr Viðreisn og Samfylkingu.

Eftir tveggja áratuga stríð í Mið-Austurlöndum er þróun á norðurslóðum orðin þannig að aftur verður æ brýnni þörf fyrir herafla og hernaðarlega aðstöðu þar. Þess vegna hefur utanríkisráðherra lagt fram drög tillögu um margföldun á öryggissvæði við Gunnólfsvíkurfjall (er enn í samráðsgátt), en það verður að gerast með breytingu á varnarmálalögum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Alþingi mun afgreiða hana.

Varðandi alþjóðlegar forsendur fyrir auknum hernaðarumsvifum hér á landi bendi ég á nýlega grein Þórarins Hjartarsonar í vefritinu Neistar, „Ys og þys út af NATO“.