Teymi Sameinuðu þjóðanna fann engin merki um fjöldanauðganir Hamas
—
Það kemur fáum á óvart að fundist hafi merki um kynferðisofbeldi í gögnum ísraelska ríkisins um árás Hamas 7. október líkt og fjölmiðlar greindu frá í byrjun vikunnar. Fáir hafa neitað því að slíkt hafi getað gerst þegar Hamas ásamt fleiri hópum og óbreyttum borgurum réðust inn í Ísrael frá Gasa. En ásakanir Ísraela snérust hins vegar ekki um tilfallandi kynferðisofbeldi heldur um að Hamas hafi beitt fjöldanauðgunum og kynferðisofbeldi sem vopni. Teymi SÞ sem ber ábyrgð á nýrri skýrslu segir í niðurstöðukafla ekki geta staðfest “algildi” kynferðisofbeldis eða að neinar beinar sannanir hafi fundist. Skýrsla teymisins byggir meðal annars á viðtölum við vitni úr hópi gísla sem voru í haldi Hamas, og öðrum gögnum, myndböndum og myndum frá stofnunum í Ísrael. Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi tekist að ná viðtölum við nein fórnarlömb þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og leit. Engin fórnarlömb hafi gefið sig fram.
Þegar skýrslan er lesin má hins vegar finna þar merkilegar upplýsingar sem ekki koma fram í Íslenskum fjölmiðlum og mætti færa rök fyrir að ættu mun frekar heima í fyrirsögnum um málið. Þar á meðal að teymið hafi ekki hitt nein fórnarlömb kynferðisofbeldis þrátt fyrir mikla leit (mgr. 8, bls. 4) eða geta staðfest að fjöldanauðganir hafi átt sér stað. Sem var megin ásökun Ísraela. Í niðurstöðu kafla skýrslunnar er lagt áherslu á tvennt. Annars vegar að teymið hafi fundið „skýrar upplýsingar” um að kynferðisbrot hafi átt sér stað á gíslum í haldi Hamas og hins vegar að teyminu hafi ekki tekist að sannreyna merki um útbreitt kynferðisofbeldi í tengslum við árásina. Í fréttatilkynningu SÞ um málið var lagt áherslu á fyrra atriðið en ekki hið seinna. Að auki kemur fram að teymið hafi fundið upplýsingar um kynferðisofbeldi gagnvart Palestínumönnum á Vesturbakkanum.
Aftarlega í skýrslunni segir að teymið hafi alls ekki getað staðfest ásakanir um fjöldanauðganir líkt og ísraelsk stjórnvöld hafa haldið fram og að raunverulegrar rannsóknar („fully-fledged“) sé þörf til að komast að niðurstöðu. Teymið viðurkennir einnig að laga- og læknisfræðileg skoðun á myndefni sem ísraelsk yfirvöld létu teyminu í té hafi ekki leitt í ljós neinar „ áþreifanlegar vísbendingar“ um að nauðganir hafi átt sér stað. Þá segir í skýrslunni að vitni og heimildarmenn sem teymið var í tengslum við hafi dregið úr vitnisburði sínum eftir því sem á leið, tekið til baka fyrri fullyrðingar, og sumir hafi jafnvel sagt að þeir væru farnir að efast um endurminningar sínar frá árásinni.
Á blaðsíðu fimmtán má lesa að gögnin sem skýrslan byggir á voru að stórum hluta fengin frá ísraelska ríkinu vegna „skorts á samstarfsvilja af hendi Ísraelsríkis við viðkomandi stofnanir Sameinðu þjóðanna“. Ástæðan er að Sameinðu þjóðirnar hafa ekki leyfi til að starfa innan landsins og Ísrael hefur hafnað öllum hugmyndum um óháða rannsókn. Með öðrum orðum hefur Ísrael komið í veg fyrir að SÞ geti lagt sjálfstætt mat á ásakanirnar með sinni eigin rannsókn.
Í stað þess að upplýsa lesendur um raunverulegt innihald skýrslunnar settu fjölmiðlar í loftið fyrirsagnir sem henta Ísrael og undirbyggja ásakanir um kerfisbundnar nauðganir Hamas samtakanna. Fyrirsagnir sem eru sambærilgar við fréttatilkynningu teymis SÞ. En hvers vegna hefur Ísrael lagt svona mikla áherslu á að spyrða kynferðisofbeldi við Hamas? Svarið gæti legið í upplýsingaleka sem fjölmiðilinn The Grayzone fjallaði um í gær en þar kemur fram að samkvæmt leynilegri kynningu frá ísraelskum aðilum sem byggð er á gögnum frá Frank Luntz, þekktum ráðgjafa tengdum Repúblikanaflokknum, finnst fólki verra að Hamas hafi beitt nauðgunum heldir en öðru ofbeldi líkt og aftökum eða morðum.
Jafnvel þó svo að Hamas hafi beitt nauðgunum í innrásinni, sem engar sannanir eru fyrir, getur það ekki réttlætt á nokkurn hátt viðbrögðin og yfirstandandi þjóðarmorð á Gasa. Fyrir Ísrael skiptir það hins vegar ekki máli. Allt snýst um að hafa áhrif á almenningsálitið til að afmennska Hamas og réttlæta brútal aðgerðir Ísraelshers og samkvæmt glærukynningu Frank Luntz virkar best að saka Hama um kynferðisofbeldi og nauðganir. Þess má geta að sama dag og skýrsla teymis SÞ kom út birti The Intercept, sem afhjúpaði alvarlega galla í umfjöllun NYT í síðustu viku, aðra frétt um málið þar sem talsmaður Be’eri kibbútsinns hafnar fullyrðingum um að tvö af þremur meintum fórnarlömbum úr frétt NYT hafi verið nauðgað.
Þrátt fyrir að Alþjóðadómstóllinn hafi nýlega staðfest að fullnægjandi rök séu fyrir því að ákæra Ísrael fyrir þjóðarmorð hefur ekkert lát verið á árásum Ísraelshers og þúsundir til viðbótar hafa látið lífið undanfarnar vikur auk þess sem fjöldi fólks og barna hefur þegar látist úr hungri og næringarskorti.