Stríðshaukarnir í Washington vilja stórstyrjöld – og hver getur hindrað þá?

29. október, 2023 Pål Steigan

Nýr kafli hefst

Formleg ræða Joes Bidens til þjóðarinnar frá skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu á fimmtudag (19. okt) markar nýjan kafla í stríðunum sem geisa.

Biden sagði: „Við stöndum andspænis hverfipunkti í sögunni – einu þeirra augnablika þegar ákvarðanirnar sem við tökum í dag munu ákvarða framtíðina fyrir marga komandi áratugi.“

Samkvæmt Biden eru stríðið í Úkraínu og stríðið á Gaza tvær hliðar á sama máli – það snýst um að viðhalda bandarískum yfirráðum:

„Bandarísk forusta er það sem heldur heiminum saman. Bandarísk bandalög eru það sem heldur okkur, Bandaríkjunum, öruggum. Bandarísk gildi eru það sem gerir okkur að samstarfsaðila sem önnur lönd vilja vinna með. Við myndum setja það allt í hættu ef við yfirgæfum Úkraínu, ef við snerum baki við Ísrael, sem er bara ekki þess vert.“

Þannig að frásögnin [um stríðið] fjallar ekki lengur um það að verja fullveldi Úkraínu. Hún fjallar um að viðhalda yfirráðum Bandaríkjanna andspænis alvarlegri, tilvistarlegri ógn. Til að leggja þyngd á bak við þessi ummæli hefur Hvíta húsið lagt fram lagafrumvarp upp á 105 milljarða dollara í hergögn handa Úkraínu, Ísrael og Taívan. Bandarískir embættismenn segja að yfir 50 milljarðar fari til bandarískra vopnaframleiðenda. Og menn senda hergögn sem eyrnamerkt voru til Úkraínu til Ísrael.

Og þegar maður horfir á mælskulistina sem Biden og ný-íhaldsmenn nota til að undirbyggja frásögnina og gefa henni stefnu þá er það endurvinnsla á George W. Bush frá 2002-2003. Þetta eru „öxulveldi hins illa upp á nýtt“. En nú er baráttan gegn Rússlandi, Íran og Kína.

Og það eru Bandaríkin, hið ómissanlega vald, sem eitt getur haldið uppi reglu í öngþveitisveröld. Það er eins og ekkert hafi gerst frá 2003.

Munurinn er þó sá að Bandaríkin eru iðnaðarlega og efnahagslega miklu veikari en þau voru þá og meintir aðalóvinir Bandaríkjanna eru orðnir miklu, miklu sterkari. Staða Bandaríkjanna í hinu hnattræna suðri er nánast farin forgörðum og Kína og Rússland hafa efnahagslegt og iðnaðarlegt afl sem þau höfðu ekki þá.

Og samt er kýlt af fullum styrk á að leysa þessar áskoranir með styrjöld.

The Duran: Neocons cannot be stopped, they will get war

Þetta er líka niðurstaða þeirra Alex Christoforou og Alesander Mercouris eins og sjá má hér í þessu samtali þeirra.

Kína hefur gert sitt besta til að reyna að forðast stórstyrjöld en svo virðist sem Kína sjái nú stöðuna sömu augum og Rússland, og í fyrsta sinn sendir Kína sex herskip til Miðausturlanda til að tryggja verslunarleiðir.

Axios skrifar í kvíðvænlegri grein:

„Hátt settir bandarískir embættismenn segja okkur að sú ógn að stríð þróist frá Gaza-svæðinu sé raunveruleg og vaxandi, sem þvingar Pentagon til að setja fleiri bandaríska herafla í aukna viðbragðsstöðu til snöggrar staðsetningar og að flýta enn frekar vopnasendingum inná svæðið.

Af hverju þetta er mikilvægt: Glóandi mælskulist frá Ísrael og Íran – þ.á.m. opinberar hótanir um útvíkkun stríðsins – hafa bandarískir embættismenn nú á oddinum. „Þetta er býsna hættuleg staða“ sagði hátt settur embættismaður í stjórnsýslunni við okkur. Það getur allt mjög fljótlega farið út af sporinu. Allur heimshlutinn getur lent í átökum.“

Það sem við heyrum: Þetta er mikil ástæða þess að Biden og varnarmálaráðuneyti hans beita háþróaðri gulrótar-og-písk tækni til að bremsa innrás Ísraels á Gaza. Einfaldlega þurfa þeir tíma til að undirbúa sig undir íranska stigmögnun á öðrum stöðum, m.a. til að fá fleiri loftvarnarkerfi til svæðisins með hraði, upplýsa heimildarmenn Baraks Ravid hjá Axios.

Í válegri upptroðslu á sunnudag á „This Week“ á ABC aðvaraði  Loyd Austin varnarmálaráðherra um „útlit fyrir verulega stigmögnun árása á okkar hermenn og okkar fólk í heimshlutanum öllum.““

Bandaríkjamenn álíta að Ísraelsmenn „mundu berjast í tveggja vígstöðva stríði, og slík átök geta dregið inn bæði Bandaríkin og Írani, aðalstuðningsmenn Hizbollah“, skrifar New York Times.

Skrifborðsstríðsmennirnir í Washington hafa aldrei verið í stríði. Reynsluboltar bandaríska hersins eru miklu tregari að kasta heiminum út í stórstyrjöld. Einn af þeim, Daniel Davis ofursti, skrifaði um þetta í sterkri grein.

How the Russia-Ukraine Conflict Could Be America’s Next ‘Forever-War’

Hann bendir líka á að Bandaríkin séu illa skóuð fyrir slíkt stríð. Niðurstaða Davis er:

„Bandaríkin rekur hugsunarlaust í það að endurtaka mörg verstu mistök sem Washington hefur gert síðustu hálfa öld. Við veitum forustu út frá tilfinningum okkar, og styðjum Úkraínu-liðið í stríðinu við Rússland – stríð sem ekki sýnir nein merki um að ljúka á næstunni – en án hinnar nauðsynlegu nákvæmu greiningar á því hvað þessi stuðningur mun kosta okkur, hver strategían á að vera eða hvaða raunhæfa markmiði við stefnum að. Við reynum bara að senda farm eftir farm af stuðningi til Kiev án þess að hugsa um langtímaáhrifin í okkar landi.“

Er þriðja heimsstyrjöldin þegar hafin? 

Sagt er að Úkraína hafi skotið 18 bandarískum ATACMS-flaugum á rússnesk skotmörk. Sé rétt er það rosalegt. Það má rökstyðja að eftir á verði það metið svo að við höfum verið í þriðju heimsstyrjöldinni frá 2022 og að það sem nú gerist sé mögnun upp á alvarlegra  og hættulegra stig þeirrar styrjaldar. Það eru a.m.k. 30 lönd sem taka býsna beinan þátt  í stríðinu gegn Rússlandi í Úkraínu. Bresti á full styrjöld í Miðausturlöndum mun þetta enn meira líkjast heimsstyrjöld.

Fyrri heimsstyrjaldir byrjuðu líka skref fyrir skref. Er hið sama að endurtaka sig? Veröldin getur hnotið inn í styrjöldina af því hermálabatteríið vill hana og stjórnmálamennirnir eru bæði heimskir, hrokafullir og þröngsýnir og sjá sér hag í þátttöku. Og að fólkið sé of heilaþvegið og afvegaleitt til að skipuleggja baráttu gegn komandi katastrófu? 

Greinin birtist 24. október á norska vefritinu steigan.no