Staða og verkefni Alþýðufylkingarinnar.

Nú á dögunum kom landsfundur Alþýðufylkingarinnar saman til að ræða árangur flokksins og framtíð hans. Hér er ályktun landsfundar um stöðu og verkefni Alþýðufylkingarinnar.


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

Þó að Alþýðufylkingin hafi ekki flegið feitan gölt í kosningaúrslitum undanfarin ár, verður að meta mikilvægi flokksins eftir fleiri mælistikum.

Eftir efnahagshrunið 2008 hefur Alþýðufylkingin, ein flokka, varpað ljósi á orsakir kreppunnar og sett fram raunhæfa alhliða stefnu, sem beinir stéttabaráttunni að uppgjöri við auðvaldsskipulagið og barist gegn aðild að ESB, Nató og öðrum stuðningi við heimsvaldastefnuna.

Alþýðufylkingin hefur afhjúpað hvernig kapítalisminn viðheldur ójöfnuði í samfélaginu og efnahagslegu ójafnvægi, sýnt fram á mikilvægi félagsvæðingar fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins og sett fram nokkuð ítarlega stefnu í umhverfismálum, heilbrigðismálum og fleiri málaflokkum.

Alþýðufylkingin hefur á fáum árum opinberað byltingarsjónarmið á flestum sviðum, í stefnuskrám, fjölda ályktana, kosningabaráttu, útgáfustarfi, innan fjöldahreyfinga og á öðrum vettvangi. Þar hafa þau vakið verðskuldaða athygli og fengið talsverðar undirtektir, þó að fjölmargir, sem hafa tekið undir stefnuna, hafi kosið að verja atkvæði sínu á annan hátt af „taktískum“ ástæðum.
Alþýðufylkingunni hefur þó ekki tekist að virkja nægilegan fjölda til virkrar þátttöku í starfi flokksins, til að byggja upp öflugan forystukjarna. Það hefur komið niður á árangri flokkssins og tiltrú á mikilvægi hans. Það hefur aftur komið niður á virkni félaganna, samstöðu og frumkvæði.

Alþýðufylkingin verður að breyta um áherslur og leggja vinnu í innri uppbyggingu til að geta skapað sér verðugan sess í íslenskri pólitík. Áherslan verður að vera á að festa í sessi öflugan kjarna af félögum, sem byggja upp þekkingu sína og pólitíska vitund með námi og starfi bæði innan flokksins og út á við. Flokkurinn verður að læra að takast á við veikleika sína og bæta úr þeim, og allir virkir félagar verða að taka þátt í því. Það skapar okkur nýjan og sterkari grundvöll til að fá nýja félaga og stuðningsfólk til liðs við okkur.
Þó að Alþýðufylkingin muni, að óbreyttu, ekki leggja áherslu á þátttöku í kosningum á næstunni, mun hún áfram verða í fararbroddi í málefnastarfi og byltingarsinnaðri stefnumótun, ásamt því að taka þátt í stéttabarátunni, og framsækinni baráttu á mörgum sviðum.