Sigrumst á víti heimilisleysis og ótryggs húsnæðis.


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018.

Fjöldi heimilislausra hefur aukist stöðugt yfir lengri tíma og eru nú 349 manns heimilislausir samkvæmt skýrslu Velferðarráðs Reykjavíkur 2017.

Stöðug fjölgun heimilislausra yfir langan tíma er merki vangetu núverandi samfélagsgerðar til að:

1. Koma í veg fyrir að einstaklingar missi fótfestu í lífi sínu. Sú fótfesta byggir á stoð sem kapítalískt samfélag ræðst gegn úr ýmsum áttum. Stór hluti fólks á hverjum tímapunkti hefur ekki og er ólíklegt til að fá örugga atvinnu. Enda er það í hag auðvaldsins að hafa slíku ótryggu vinnuafl til að dreifa, sem þarf að sætta sig við lág laun og léleg kjör, og sem í leiðinni dregur úr samningamætti stöðuga vinnuaflsins. Gróðadrifni fasteignamarkaðurinn blæs upp verð húsnæðis að því marki að á almennum markaði kostar leiga eða útborgun af húsnæðisláni einn til tvo þriðju, jafnvel meira, af mánaðarlaunum láglaunastarfsmanns.

2. Koma stoð undir þá einstaklinga sem hafa misst þessa fótfestu. Manneskjur sem hafa engan fjárhagslegan stöðugleika og ýmist treysta sér ekki til eða hreinlega geta ekki leigt eða keypt heimili. Eins á manneskja sem búin er að missa heimili og er jafnvel háð fíkniefnum erfitt með að feta sig á vinnumarkaðinum. Ofan á bætast heilbrigðis- og geðræn vandamál sem spretta af því að lifa við heimilisleysi sem koma enn frekar í veg fyrir fjárhagslegt öryggi manneskjunnar.

Úrræðin gegn heimilisleysi verða ekki aðeins að vera til þess að hjálpa þeim sem nú þegar eru heimilislausir heldur líka til þess að fyrirbyggja heimilisleysi til að byrja með. Enda dugar ekki að þurrka gólfið meðan enn rennur úr krananum.

Slík úrræði hjálpa ekki aðeins þeim sem eru eða eiga á hættu að verða heimilislausir, heldur nýtur öll alþýðan góðs af þeim. Skref í áttina að öruggu húsnæði fyrir alla eru:

1. Réttur til atvinnu og réttur til húsnæðis.

2. Að fasteignir, yfir höfuð, séu teknar úr markaðskerfinu og leigðar eða þeim úthlutað þannig að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að geta ekki borgað leigu eða lánsútgjöld um mánaðarmótin.

3. Félagsvæðing hagkerfisins, sem leiðir af sér styttri vinnutíma, hærri laun fyrir þau lægst launuðu, mannsæmandi meðferð á vinnustöðum og lægra húsnæðisverð.

Búsetuúrræðin sem nú eru til staðar rúma aðeins um 150 manns eða varla helming heimilislausra. Bæta þarf aðstöðu til að allir heimilislausir geti átt öruggt húsaskjól hverju sinni. Einnig er skortur á gistiúrræði sem er opið allan sólarhringinn.

Ásamt skammtímaúrræðum þarf langtímaúrræði sem miða að endurhæfingu og aðlögun. Einn af dragbítum endurhæfingar heimilislausra er glæpavæðing eiturlyfjanotkunar. Eiturlyfjanotkun ætti að teljast til heilbrigðisvanda og viðeigandi meðferð gefin af heilbrigðiskerfinu.