Síle valdi og hafnaði

21. desember, 2021 Katjana Edwardsen

Vinstrimaðurinn Gabriel Boric sigraði í forsetakosningunum í Síle 19. desember. Þær snérust mjög um arfinn frá herforingjastjórninni, harðlínufrjálshyggjuna.

Árið 1970 var fulltrúi vinstriaflanna, Salvador Allende, kosinn forseti í Síle, og aftur 1973. Það voru kosningarnar 1973 sem yfirfylltu bikar hægriaflanna og Bandaríkjanna. Bandaríska leyniþjónustan CIA hafði þá lengi grafið undan stjórnvöldum og þannig nánast lamað Síle. Þegar landsmenn kusu samt Allende aftur þurfti að grípa til hryðjuverka. Þáttur Bandaríkjanna í falli sósíaldemókratanna í Síle er rækilega sannaður m.a. í bandarískum skjölum sem leynd hefur verið létt af.

Herforingjastjórn og arfur hennar

Villimennska herforingjastjórnarinnar sem tók við eftir valdaránið blóðuga 11. september 1973 er líka rækileg studd skjölum og og vitnisburðum, ekki síst frá eftirmönnum fórnarlambanna (eins og t.d. mannréttindafulltrúa SÞ, Michell Bachelet). Ég mæli með heimildarmynd á Netflix, "Colonia Dignidad" (6 þættir). Colonia Dignidad var aðeins einn af óteljandi fangavistunarstöðum þar sem fólk var pyntað og líka oft drepið í stjórnartíð Pinochets.

Næsta tímamótamarkandi kosning var þjóðaratkvæðagreiðslan 5. október 1988, "El Plebicito del SI o NO" sem, gegn miklu ofurefli, felldi Pinochet. Aftur mæli ég með kvikmynd, að þessu sinni spennandi leikinni bíómynd, "NO!" undir stjórn Pablo Larrain.

Tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslunnar var að löggilda framlengingu á herforingjastjórninni. Pinochet datt ekki í hug að svarið yrði annað en þrumandi "SI" (já) við framhaldssetu Pinochets. Hann hafði járntök á fjölmiðlum og náð að fjarlægja þá pólitískt virku meðal vinstrimanna. Þar að auki er giskað á að enn þann dag í dag, óopinberlega, «elski» 30% þjóðarinnar Pinochet.

Þar komum við að kjarnanum: Pinochet var riddaralegur, "almennilegur karlmaður". Að auki sýndist hann vera mjög trúaður (sem sagt «góð mannerskja»). Frá útvarpði og sjónvarpi dundu óslitnar lofgerðir um það hve ríkt og skínandi landið var orðið undir forustu hans. Vinstri sinnum var hins vegar lýst sem hættulegum þorpurum sem vildu komast yfir eignir fólks.

Sömu mælskulist mátti heyra frá Jose Antonio Kast, fulltrúa hægriaflanna í kosningunum núna (19. desember). Það þykir ekki góður siður að kalla «fasista» þá stjórnmálamenn sem manni mislíkar við. En Kast er í raun og veru fasisti. Hann er vissulega mjúkmáll en póltík hans er járnhnefi.

Uppreisn og kosningar um stjórnarskrá

Stillum tímann aðeins aftur á bak, til 18. október 2019, "El estallido" (sprengingin): Piñera hefur nýlega montað af því að Síle væri suður-amerísk «vin», án þess að nefna hver eigi þá «vin». Vaxandi fjöldi fólks hefur sannreynt að það tilheyri alla vega ekki eigendunum. "Til að fá lífeyri þurfum við að borga einkasjóðum meira en við fáum tilbaka. Við verðum að borga fyrir einka-sjúkratryggingu og fyrir menntun barna okkar. Við erum skuldug upp fyrir eyru, vinnum frá því við förum á fætur þar til við leggjum okkur aftur, þekkjum varla eigin börn…»

Þegar svo «eigin börn» neita að borga í neðanjarðarlestina á leið í skólann vegna einhverrar smáverðhækkunar taka foreldrarnir afstöðu með börnunum. Það sem byrjar með að unglingar stökkva höfrungahlaup yfir hliðin að neðanjarðarlestunum og þróast út í raunverulega uppreisn, með skriðdrekum og forseta sem lýsir yfir að landið sé í stríði. "Sríði?!" hljómaði hið reiða svar götunnar. «Stríð?» Ert þú í stríði við eigin þjóð?

Uppreisnin stóð í margar vikur og lauk ekki fyrr en eftir að uppreisnarmenn höfðu sett eigið líf í hættu en þvingað fram loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann 25. október 2020 mátti þjóðin svara eftirfarandi spurningum: 1) Á að hafna stjórnarskránni [markaðsbókstafstrúar-stjórnarskrá Pinochets] fyrir nýja? 2) Á þjóðkjörin stjórnlaganefnd að semja nýja nstjórnarskrá? JÁ, sagði þjóðin – yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar! – við báðum spurningunum.

Kosningar í klofnu landi 2021

En þá kom bakslag. Hægriöflin settu í gang sínar venjulegu lygar um hvað biði Síle í höndunum á «nytsömum sakleysingjum sem stórnað er frá Rússlandi, Kúbu og Kína». Ég fer ekki út í smáatriði. Lesendur þessarar vefsíðu ættu að þekkja markaðsöflin nógu vel til að vita það þau aðlaga «upplýsingarnar» sem þau miðla, háð menntunarstigi, trú og menningu viðtakenda (sbr. "algóriþma"). Fyrst og fremst eru «upplýsingarnar» skipulega siktaðar og síaðar og líka bætt við skáldskap. «Sannleikur» er hreint ekki á dagskránni.

Það hlýtur að hafa verið með tár á kinnum sem margir Sílebúar fréttu að fasisti hefði sigrað fyrstu umferð kosninganna í ár. Líkt og í Brasilíu höfðu hófsamir hægrimenn ekki náð nægilegu fylgi til að fella kandídat vinstrimanna. Aðeins fasistinn, sem lofaði gulli og grænum skógum, náði því. Með yfirburðum. EN kosningaþáttakan var aðeins 47%.

Það hlýtur líka að hafa verið með tár í augum sem þeir hlustuðu á grófar lygar fasistans um andstæðinginn. Margir hljóta að hafa hugsað, «við eigum ekki möguleika, við erum á leið inn nýja harðstjórn.»

Þegar upp rann dagur seinni umferðar, 19. desember 2021, stóðu flestir strætisvagnar í Santíagó og fleiri bæjum kyrrir. Af hverju? Það voru 33 gráður og sérstaklega í fátækum hverfum átti fólk í mestu vandræðum með að koma sér á kjörstað. Sílebúar utanlands uppgötvuðu fyrir sitt leyti að til að kjósa í sendiráði þyrftu menn að hafa skráð sig í því sendiráði í júlí. Samt var kjörsóknin 56% og kandídat vinstrimanna, Gabriel Boric, fékk 56 % atkvæða.

Síle er djúpt klofið land, líkt og t.d. Spánn eða Brasilía. Þannig fara harðstjórnir með lönd. Það verður of mikið til að verja báðum megin, líka of mikið til að berjast gegn, og engar málamiðlanir eru ásættanlegar.

En í Síle ræður ný kynslóð, kynslóð sem er meðvituð um skiptingu gæðanna og um umhverfið. Gabriel Boric mun hafa sagt: «Síle var fæðingarstaður nýfrjálshyggjunnar. Síle mun líka verða gröf hennar.». Manni leyfist að vona.


Katjana Edwardsen er norskur áhugamaður um suðuramerísk málefni. Hún bjó í áratug á Íslandi.