Sólveig Anna Jónsdóttir nýr formaður Eflingar!
—
Sólveig og B-listinn sigra stjórnarkosningu Eflingar; Láglaunafólk landsins öðlast sterka rödd!
B-listinn undir forystu Sólveigar Önnu hefur hlotið sigur í stjórnarkosningum Eflingar. Þau hlutu mikinn kosningasigur með um 80% atkvæða. Fólkið í Eflingu hefur séð hverjir tala þeirra máli, hverjir brenna fyrir hagsmunum launafólks.
Efling er eitt stærsta stéttarfélag landsins og þessi breyting mun skapa ólgu innan ASÍ, Ólgu sem hefur verið að byggjast upp lengi og er löngu tímabær. Stéttarfélög landsins hafa mörg hver legið í dvala. Þau hafa leyft auðvaldssinum að valta yfir sig. Sjálfstæðisflokkurinn, hagfræðingar og Samtök Atvinnulífsins hafa tekið saman með hinum ýmisu stéttarfélögum í að lofa hagvöxtinn og endurreisnina, kaupmáttinn og góðærið. En hverjir sitja eftir? Það er fólkið á lægstu laununum, það er fólkið sem þarf að vinna langar vaktir fyrir lítil réttindi og minna kaup.
Þetta fólk þurfti lyftistöngina sem ofangreindir aðilar tala um, en hún var ekki handa þeim. Fólkið á toppinum fékk bróðurpartinn, miðjan fékk sitt, og mylsnan sáldraðist niður til þeirra á botninum. Hagur þessa fólks hefur kanski skánað eitthvað frá hruni, en ekki eins og er talað um, ekki eins og er rómað og ekki eins og er logið um. Hvað eru 3% ofan á ekkert? Hvað með 20% ofan á ekkert? Samt er þetta fólkið sem allur turninn hvílir á. Þau vinna við þrif og smíðar, matreiðslu, barnapössun og þar fram eftir götum. Samfélagið allt þarfnast þeirra!
Þetta fólk hefur nú vaknað upp við það að þau lifa streituhrjáðu lífi, með hlutfallslega lítinn frítíma og þröngan fjárhag, á meðan jakkafataklæddir menn koma í sjónvarpið og segja þeim að þau séu heppin og hafi það gott.
Þetta fólk hefur ákveðið að það vilji berjast fyrir sínu og ætli ekki lengur að hlusta á afsakanir um 3% hækkanir og hvernig kaupmátturinn sé svo mikið hærri. Þau sjá hvert peningarnir eru að fara. Þau sjá hverjir eru raunverulega að græða og að það er ekki fólkið sem stritar. Þau sjá fólkið sem græðir á því þegar þau tapa.
Þau segja hingað og ekki lengra.
Þetta fólk kaus B-listann.