Rósa Luxemburg og Karl Liebknecht – byltingarandinn lifir

24. janúar, 2018 Þorvaldur Þorvaldsson
Aktivistar að bera slagorð í LLL-göngunni

Í janúar 1919 reis verkalýður Berlínar upp, eins og víðar í Þýskalandi. Heimsstyrjöldinni var nýlokið og andi Októberbyltingingarinnar sveif yfir vötnum. Uppreisnin í Berlín var hins vegar bæld niður af mikilli hörku og stjórn sósíaldemókrata stóð fyrir fjöldamorðum á verkamönnum í kjölfarið. Leiðtogar nýstofnaðs Kommúnistaflokks Þýskalands, Rósa Luxemburg og Karl Liebknecht voru myrt 15. janúar.

Síðan þá hefur þeirra verið minnst nær óslitið með minningargöngu á sunnudagsmorgni um miðjan janúar. Þúsundir hafa tekið þátt í henni til að hylla byltingarbaráttuna og minnast fórnarlamba hennar. Helgina 13. -14. janúar s.l. fórum við tveir félagar í Alþýðufylkingunni, Vésteinn Valgarðsson ásamt undirrituðum, og tókum þátt í þessum atburði í Berlín. Á laugardeginum á undan var alþjóðleg ráðstefna skipulögð af dagblaðinu Junge Welt og fleiri aðilum.

Markaður fyrir LLL-gönguna
Markaðstorg kommúnismans

Tema ráðstefnunnar var að þessu sinni „Byltingarbaráttan og 3. heimurinn.“ Þar voru fjölmargar málstofur með framsögum og umræðum um ólíkustu efni. Og á efri hæðinni var mikill markaður þar sem fjölmargir flokkar, samtök og hópar sem tengjast byltingarbaráttunni kynntu sín sjónarmið og buðu bækur, blöð og annan varning til stuðnings sínum málstað. Þar voru, auk þýskra kommúnistaflokka, flokkar frá öðrum löndum, sem sumir starfa einnig meðal innflytjenda í Þýskalandi, samtök afkomenda sjálfboðaliða úr Spánarstríðinu, fulltrúar frá ýmsum stofnunum og söfnum sem tengjast byltingarbaráttunni, fulltrúar frá Kúbu, Venesúela og víðar að. Hér er aðeins fátt eitt upp talið, en þarna er hægt að eyða heilum degi í að tala við fólk, skiptast á hugmyndum og áhugaverðu efni.

Svipmynd af LLL-göngunni

Klukkan 10 á sunnudagsmorgninum söfnuðust svo saman um 12.000 manns við Frankfurter Tor-torgið og gengu á aðra klukkustund, sem leið liggur að grafreit Rósu og Karls og annarra byltingarleiðtoga þar sem þeirra var minnst, ræður voru haldnar og rauðar nellikur lagðar á leiðin. „Die Toten mahnen uns“ (Þeir dauðu hvetja okkur) er letrað á stóran stein yfir miðjum grafreitnum, og minnir á að blóð fórnarlamba byltingarinnar hrópar á okkur að taka við fánanum og láta ekki dauða þeirra verða til einskis. Það er mjög áhrifamikið að taka þátt í þessari göngu þar sem, þrátt fyrir klofning og sundrungu, sameinast allir byltingarsinnar á táknrænan hátt í virðingu fyrir föllnum hetjum byltingarinnar.

Að ári verða 100 frá morðunum á Karli Liebnecht og Rósu Luxemburg og hundruðum annarra byltingarmanna í Berlín. Þá má reikna með að þessi viðburður verði með veglegra móti. Við ætlum þá aftur og ætlum að hafa frumkvæði að hópferð héðan frá Íslandi. Við hvetjum alla áhugasama til að hafa samband með góðum fyrirvara og láta orðið berast. Leggjum okkar af mörkum til alþjóðlegrar byltingarsamstöðu í janúar 2019.

Þorvaldur Þorvaldsson

Vésteinn Valgarðsson og Þorvaldur Þorvaldsson reisa hnefa við gröf Rósu Lúxembúrg