Rússnesk öryggismálastefna frá Lenín til Pútíns 1

28. mars 2022 — Þórarinn Hjartarson

Lenínogpútín

Einkennist utanríkispólitík Pútíns af útþenslustefnu? því verður ekki svarað nema skoða hana í samhengi við pólitík annarra heimsvelda. Það þarf jafnframt að skoða öryggismálastefnu Rússlands í sögulegu samhengi – og þar birtist furðu mikil söguleg samfella þrátt fyrir ólíkt stjórnarfar í Kreml á ólíkum tímum.

Það er ljótt og það er ógnvænlegt stríðið sem geisar í Úkraínu. Eins og stríð eru yfirleitt. Samt er þetta stríð ekki orðið verulega blóðugt ennþá. Miðað við BNA/NATO-stríð eins og t.d. í Írak x 2, Líbíu, Sýrlandi... En það eru talsverðar horfur á að það eigi eftir að verða mun blóðurgra. Dánartölur munu hækka. Samningsvilji beggja stríðsaðila er takmarkaður og skilyrtur.

Það er mjög takmarkað gagn að hafa af fréttum frá Úkraínu í íslenskum fréttamiðlum. Að vanda eru þar aðeins þýddar fréttir vestrænna fréttastöðva, einkum bandarískra og breskra. Fréttastöðvar þær tryggja að «rétt saga» sé sögð. Við heyrum t.d. aðallega um árásir á borgaraleg skotmörk í Úkraínu, ekki á hernaðarleg. Samkvæmt upplýsingum frá Pentagon gefur það sjónarhorn þó ranga mynd af stríðinu. Sjá hér. Meginstef fréttastöðvanna er á þá leið að Rússum gangi stríðið afleitlega en Úkraínu gangi þeim mun betur að veita viðnám (sem tjáir líklega fyrst og fremst óskhyggju). Fyrir vikið, má skilja, komi heldur ekki til greina að semja við Rússa um neinar af meginkröfum þeirra. Þess vegna mun stríðið líklega dragast á langinn.

Upp á umfang stríðsins og yfirstandandi mannúðarkrísu gúgla ég um mannfall almennra borgara í Úkraínu, og þann 23. mars eftir eins mánaðar stríð taldi Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna 977 almenna borgara fallna, eftir eins mánaðar stríð. Til samanburðar má nefna að í Persaflóastríði, líka samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna, drápu efnahagslelgu refsiaðgerðirnar einar og sér 500 þúsund börn. Madeleine Albright nýlátinn utanríkisráðherra var spurð 1996 hvort þær aðgerðir hefðu þá svarað «svo háum kostnaði» og hún taldi svo vera. https://www.youtube.com/watch?v=omnskeu-puE Við heyrðum hins vegar afskaplega lítið í fréttum um öll þessi dánu börn í Írak. Það er af því fréttastofurnar vestrænu passa sig að segja «rétta sögu.»

Úkraínustríðið tekur líka á sig þessa mynd efnahagslegra refsiaðgerða. Innrásinrásin varð startskot fyrir kannski mestu efnahagslegu refsiaðgerðir sögunnar, einkum frá hendi BNA og Evrópuríkja á hendur Rússlandi. Þær eru af sama meiði og áðurnefndar refsiaðgerðir gegn Írak eða aðgerðirnar gegn Íran – stríð með öðrum aðferðum – en samt margfaldar í umfangi. Rússland mun í samvinnu við Kína o.fl svara því með eigin ráðstöfunum, að henda dollarnum sem gjaldmiðli í sínum viðskiptum (og æði margir munu fylgja dæmi þeirra). Rússland mun beina viðskiptum sínum frá Vestrinu. Það mun hafa gríðarlegar afleiðingar í öllum heimsviðskiptum.

Efnahagslega stríðið gegn Rússlandi er stutt af flestum Evrópulöndum, Norður-Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi, S-kóreu og Japan, en yfirleitt ekki af öðrum ríkjum heimsins. Úkraínustríðið snýst ekki um Úkraínu. Við horfum fram á mjög djúptækan klofning, gjá, milli austurs og vesturs. Og vaxandi matarskort á heimsvísu, og fátækt. Og margt fleira sem ekki verður fjallað um hér.

Kröfur Pútíns

Úkraína á 21. öld er ógæfusamt land, land sem er samt ekki einu sinni aðalatriði þessarar deilu. Fyrir Pútín er ekki Úkraína sjálf aðalmálið heldur vonast hann til að geta gegnum Úkraínustríðið komið á einhverju fyrirkomulagi um «sameiginlegt öryggi” við vesturlandamæri Rússlands sem Rússar geti búið við. Öryggi gegn hverju? Jú, öryggi gegn útþenslu hernaðarbandalagsins NATO upp að húsvegg Rússlands.

Kröfur Pútíns eru ýmist á hendur Úkraínu eða á hendur NATO. Og aðalatriði þeirra lágu fyrir þegar stríðið hófst: Úkraína verði hlustlaus (utan NATO), Krímskagi verði áfram rússneskur, sjálfstæði fyrir sauðausturhéruð Úkraínu (Donbass). Þessar þrjár kröfur eru í samræmi við vígstöðuna í heild, og gætu líklega verið fljótleystar. Svo er enn annað markmiðið Pútíns: af-nasismavæðing. Það sýnist manni erfiðara mál. Og kostar örugglega meira blóð.

Bandarísk plön: «að teygja Rússland»

Úkraína er ekki aðalmálið fyrir Pútín, ekki fyrir BNA/NATO heldur. Hlutverk Úkraínu í þeirra tafli er að vera staðgengill í staðgengilsstríði, í raun fyrst og fremst fallbyssufóður. Og hlutverk Úkraínumanna er þá að deyja, helst með harmkvælum, og vera lengi að því. Markmið stríðsflokksins í Bandaríkjunum (þar sem flokkslínur ganga þvert á formlegar flokkslínur) er ekki frjáls Úkraína heldur hitt að Úkraína nýtist til að «teygja Rússland» (láta það yfirteygja sig), koma Rússlandi á kné svo skipt verði um stjórnvöld í Moskvu. Og að stríðið nýtist til að selja vopn.

Fremsta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna, RAND-Corporation lagði 2019 fram skýrslu um viðureignina við Rússland sem nefndist “Að teygja Rússland” (Extending Russia) og gengur út á að láta “reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda, heima og utan lands... og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega.” Hernaðaraðstoð við Úkraínu er þarr efst á blaði, en önnur atriði í því að «teygja Rússland» eru að auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn, stuðla að valdaskiptum í Hvítrússlandi, hagnýta spennuna í Suður-Kákasus, minnka áhrif Rússa í Mið-Asíu, bjóða nærveru Rússa í Moldóvu birginn, ennfremur að «hindra olíuútflutning og uppbyggingu gasleiðslna.” Sjá hér: https://neistar.is/greinar/rand-stofnunin-og-austfirdir-stridsaaetlanir-gegn-russlandi/

Stríðið í Úkraínu er sem sagt staðgengilsstríð eins og Neistar hafa áður slegið föstu milli Rússlands og BNA/NATO. https://neistar.is/greinar/sta%C3%B0gengilsstr%C3%AD%C3%B0-r%C3%BAssa-og-nato/ Það mótar eðlilega stríðið að Rússar (segjum stjórnvöld í Moskvu) líta á stöðu Úkraínu sem algerlega «tilvistarlega» spurningu fyrir Rússland. En hvorki BNA né NATO halda slíku fram fyrir sína parta, skiljanlega. NATO ætlar sér ekki í beint stríð við Rússa um Úkraínu. Og allt bendir til að stjórnvöld í Washington séu einmitt ánægð með að stríðið haldist sem staðgengilsstríð. Og að það dragist á langinn. Að barist verði gjarnan til «síðasta Úkraínumanns» en vona að það verði um leið Rússum og Pútín botnlaust pólitískt/hernaðarlegt kviksyndi. Af því markmiðið er að brjóta niður Rússland mun það líklega taka sinn tíma.

Eins og ég sé málið núna er það líkast því að strategistum BNA (undir leiðsögn m.a. RAND corporation) hafi með margvíslegum ögrunaraðgerðum sínum einmitt tekist að egna Pútín út í það stríð sem þeir óskuðu sér, þjóðréttarlega löglaust og pólitískt íþyngjandi stríð (Pútín fái sitt Víetnam). Ég segi þetta með þeim fyrirvara að mögulega geta átt eftir að koma fram fleiri þungvægar upplýsingar varðandi forsendurnar fyrir rússnesku innrásinni – til þess að maður «skilji» hana sem er ekki það sama og að «verja» hana.

Gamlar átakalínur

Það er enginn vegur að skoða eða skilja stríðið í Úkraínu sem einangraðan atburð, atburð sem hófst 24. febrúar sl. Hvað þá að skoða hann sem afleiðingu af einhverju sem gerðist í heilabúi þess manns sem hleypti af startskoti innrásarinnar þann dag, Vladimír Pútín. Að gera það lýsir ekki aðeins mikilli söguleysu, algerri vitleysu líka. En slík er samt einhvers konar ríkjandi túlkun atburðanna hjá okkur.

Það er fyrst til að taka að hinar sögulegu átakalínur kringum Úkraínudeiluna, og þó enn frekar átakalínur milli Rússlands og Vestursins, eru langar. Þar dugar alla vega ekki minna en ein öld til skoðunar. Í öðru lagi er ekki ráðlegt – til skilnings á deilunni – að einblína á Úkrínu eina og sér. Eins og þegar hefur komið fram: Fyrir hina raunverulelgu deiluaðila, Rússa og hins vegar BNA/NATO er Úkraína sjálf ekki einu sinni aðalatriði málsins.

Fyrst þarf að minnast á heimsvaldastefnuna. Í upphafi 20. aldar hafði keppni stórvelda um nýlendurnar breyst í baráttu nýs eðlis: baráttu á milli ríkja ásamt auðhringum þeirra, ekki fyrir afmörkuðum heimsveldissvæðum og yfirráðasvæðum á sama hátt og áður heldur baráttu fyrir hnattrænum yfirráðum í sífellt samþættaðra heimsvaldakerfi. Það er sú kapítalíska heimsvaldastefna sem ennþá ríkir, þó ýmsir telji slíka greiningu merki um «gamaldags hugsun».

Í þessu heimsvaldakerfi í upphafi 20. aldar hafði Bretland ennþá ríkjandi stöðu. Halford Mackinder var leiðandi breskur kenningasmiður um hnattræn stjórnmál (geopolitics). Í bókinni Democratic Ideals and Reality (1919) ritaði hann: „Hinar miklu styrjaldir sögunnar eru bein eða óbein niðurstaða af ójafnri þróun landa.“ Verkefni kapítalískra hnattrænna stjórnmála væri að örva „vöxt heimsvelda“ sem myndi enda með „einu heimsveldi“. Mackinder varð frægur fyrir kenningu sína um Kjarnalandið: Yfirráð yfir því sem hann kallaði „ heims-eyjuna“ (hin samföstu meginlönd Evrópu, Asíu og Afríku) og gegnum það yfirráð í öllum heiminum gætu að hans sögn aðeins fengist með því að ráða yfir Kjarnalandinu – hinum miklu löndum Evrasíu sem ná yfir Evrópu, Rússland og Mið-Asíu. Á hinni nýju öld Evrasíu yrðu völd yfir landi – ekki völd yfir sjó – úrslitaatriði. Eins og Mackinder orðaði það: „Sá sem ræður Austur-Evrópu ræður yfir Kjarnalandinu: Sá sem ræður Kjarnalandinu ræður yfir Heimseyjunni: Sá sem ræður Heimseyjunni ræður yfir heiminum.“ https://neistar.is/greinar/hnattraen-herstjornarlist-og-gagnbylting/

1991: Kaldastríðsheimur verður „einpóla heimur”

Í bók frá 1943 viðurkenndi Halford Mackinder að Bandaríkin hefðu tekið við hinni leiðandi stöðu í kapítalískum hnattrænum stjórnmálum, «geópólitík», af Bretlandi og hann lýsti jafnframt yfir að „landsvæði Sovétríkjanna jafngildir Kjarnalandinu“. Úrslit Seinni heimsstyrjaldarinnar leiddu hins vegar til skiptingar heimsins í Vesturblokk undir forustu BNA og svo Austurblokk þar sem Sovétríkin réðu mestu. Ris og hnig þýska nasismans hafði enn fremur leitt til þess að minna fór fyrir kenningum um heimsyfirráð og “geópólitík” en áður. Nú kom kaldastríðstríðstíminn, 40 ára tímabil þar sem heimsvaldasinnum þótti illt til fanga, bæði vegna þjóðfrelsisbaráttu nýlendna og hins vegar vegna herstyrks og pólitísks styrks Sovétríkjanna.

Heimsvaldametnaður Bandaríkjanna varð ekki fyllilega ljós fyrr en á tímabili hinna nöktu heimsvaldastefnu sem fylgdi falli Sovétríkjanna. Aðeins fáum mánuðum eftir «fallið» sendi Paul Wolfowitz, aðstoðarutanríkisráðherra í stjórn Bush eldra, frá sér Defense Planning Guidance þar sem skrifað stóð: „Stefna okkar verður núna [eftir fall Sovétríkjanna] að endurstilla miðið, og miða að því koma í veg fyrir að til verði nokkur hnattrænn keppinautur». Wolfowitz undirstrikaði það að „Rússland verður áfram stekasta herveldi Evrasíu” og því væri mikilvægt að veikja hnattpólitíska stöðu þess áður en það næði sér aftur á strik. Til þess yrði að ná undir vestræn áhrif fyrrum fylgiríkjum Svovétríkjanna. Ennfremur „hefur það grundvallarþýðingu að viðhalda NATO sem undirstöðuverkfæri vestrænna varna og öryggis og einnig sem farvegi bandarískra áhrifa og þáttöku í evrópskum öryggismálum.” https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.htm

Þessi “Leiðarvísir varnarmála” frá Wolfowitz varð brátt viðtekinn af öllum helstu strategistum í Washington. Raunar var þó mikilvægasti arkítekt bandarískrar “geópólitíkur” eftir 1991 ekki Paul Wolfowitz heldur Zbigniew Brzezinski. En einnig hann taldi það meginatriði á að hindra uppkomu mögulegs keppinauts, sérstaklega Rússlands, sló hann föstu. Og hann benti einnig á stöðu Úkraínu sem meginatriði: „Úkraína, nýr og mikilvægur reitur á evrasíska taflborðinu, er hnattpólitískur hverfipunktur af því sjálf tilvera hennar sem sjálfstætt ríki hjálpar til að breyta Rússlandi. Án Úkraínu hættir Rússland að vera evrasískt veldi…. En vinni Rússland aftur yfirráð í Úkraínu.. fær Rússland sjálfkrafa aftur efni til að verða voldugt heimsveldi sem spannar Evrópu og Asíu.“ (2. Kafli bókarinnar The Grand Chessboard frá 1997).

Þessi stefna BNA og NATO um að halda Rússlandi í skefjum, þjarma að því meðan það er veikt, helst hafa það undir, hefur í sem stystu máli verið ríkjandi stefna hjá USA og NATO undanfarin 30 ár. Hún var líka ríkjandi á tímum Kalda stríðsins en þá ríkti ákveðið valdajafnvægi sem var rofið 1991. Það ár opnaðist gríðarlegt svæði heimsvaldasinnum til «enduruppskiptingar». Risaveldið var nú aðeins eitt og fór að gera einhliða ráðstafandir í krafti yfirburðavalds síns. Þeir sem ekki beygðu sig, aðlöguðu efnahagskerfi og stjórnarfarið kröfum BNA (það var kallað barátta fyrir “lýðræði”) kölluðu yfir sig stríð og refsiaðgerðir (Írak, Íran, Júgóslavía, Afghanistan, Líbía, Sýrland, Venesúela o.s.frv) svo eftir meðferðina stóðu oftar en ekki grátt leikin lönd.

Yfirburðavald BNA/Vestursins eftir 1991 stafaði einkum af því að Rússland var á hnjánum. Áherslan á það að þenja út NATO eftir brotthvarf Varsjárbandalags, alveg austur að landamærum Rússlands – þvert á loforð gefin Sovétleiðtogum um 1990, sjá National Security Archive – leiddi beint af áðurnefndri herstjórnarlist í Washington. Einhver myndi kenna slíka útþenslu við “sókn” og “ógnun”. En NATO hélt þó áfram að kalla sig “varnarbandalag” og bað Rússa að «sofa alveg rólegir» (skotflaugum í Póllandi og Rúmeníu væri miðað á Norður-Kóreu og Íran!). En þetta er sú þróun sem smám saman hefur byggt upp spennu á vesturlandamærum Rússlands. «Frumkvæðið» í því hefur komið að vestan.

Rússnesk öryggismálastefna lík á ólíkum tímum

Bogi Ágústsson lýsti utanríkisstefnu Rússlands fyrr og nú í einni setningu svona: „Segja má að stöðug útþensla hafi ríkt öldum saman í því skyni að ná yfirráðum í grannlöndum Rússlands í vestri.”

Í stuttu máli er ég alveg ósammála þessu. Ég ætla mér þó ekki margar aldir aftur í tímann. Það kann að hljóma undarlega en þannig er það samt, að þrátt fyrir harla breytilegt stjórnarfar í Rússlandi á rúmri öld þá hefur utanríkisstefnan þar í landi nær allan þann tíma verið merkilega stöðug og sjálfri sér lík. Og það er ekki hægt að segja að utanríkispólitík Rússa hafi einkennst af útþenslustefnu. Hins vegar hafa “öryggismálin” verið algjört meginatriði hjá Rússum/Sovétmönnum, rík tilhneiging til að fara fram á “vinsamleg” stjórnvöld grannríkja, og sérstaklega við vesturlandamæri sín. Á tímabili var það viðbótarkrafa, a.m.k. ósk, að stjórnirnar næst vestan við þá væru pólitískt “rauðar”. Það var þó aldrei aðalatriði, en vinsamlegar þurftu þær að vera. Þetta skal skoðað nánar.

Stjórnarfarið hefur verið breytilegt frá 1917. Þar á meðal hafa ólíkir og andstæðir stéttarhagsmunir setið í forsæti, ólígarkar hafa komið í staðinn fyrir kommúnistaflokk. En utanríkispólitíkin hefur samt verið nokkuð lík, og sérstaklega öryggismálastefnan. Hvernig þá, líkar persónur við stjórn? Rússneskur þjóðarkarakter? Ég held ekki. En áberandi efnahagslegir þættir eru sameiginlegir. Rússland er risaland og það er tiltölulega mikið sjálfu sér nægt efnahagslega. Það var það á sósíalíska tímanum og er það enn. Í dag er Rússland hernaðarlegt stórveldi en það er ekki tilsvarandi efnahagslegt stórveldi. Rússland hefur lítið gert sig gildandi í baráttunni um kapítalíska heimsmarkaðinn, erlendar fjárfestingar Rússa eru minni háttar og langstærstur hluti af útflutningi Rússlands er hrávara (einkum jarðgas og olía). Það hefur m.ö.o. ekki þau einkenni og innri drifkrafta sem kallar á útþenslu og efnahagskerfið er á mörkum þess að vera á svokölluðu heimsvaldastigi samkvæmt skilgreiningum Leníns. Sjá hér: https://proletaren.se/artikel/ar-ryssland-ett-imperialistiskt-land

Svo er staða Rússlands í heiminum. Allan þennan tíma, alla 20. öld og inn á þá 21. hafa Rússar/Sovétríkin verið í geópólitískri varnarstöðu af því efnahagslega sterkari heimsveldi hafa barist um ríkjandi stöðu á hinum kapítalíska heimsmarkaði og um áhrifasvæði. Framan af voru evrópsk stórveldi þar í aðalhlutverki, Bretland sem varði ríkjandi stöðu sína gagnvart útþenslu Þýskalands sem þurfti «lífsrými» og «enduruppskiptingu». Tíminn eftir 1945 hefur svo einkennst af drottnunarstöðu Bandaríkjanna. Eftir 1991 styrktu Bandaríkin stöðu sína og unnu að því að gera heiminn að frjálsu athafnasvæði vestrænna auðhringa (hnattvæðingarþróunin). En kapítalisminn þróast ójafnt og á 21. öldinni hefur hraðvaxandi efnahagsveldi Kína breytt stöðunni og ógnað gömlu heimsveldunum – sem svara með því að treysta á hernaðaryfirburði sína og verkfærið NATO.

Af þessum sökum má segja að Rússland/Sovétríkin hafi verið í svipaðri geópólitískri stöðu á allri þeirri rúmu öld sem um er rætt. Það getur skýrt það að öryggismálastefnan hefur í meginatriðum verið keimlík þrátt fyrir ólíkt stjórnarfar í þessu risalandi. Sjá greiningu marxíska ritsins Monthly Review á Úkraínudeilunni og geópólitíkri sögu Rússlands: https://monthlyreview.org/2022/03/07/mr-073-11-2022-04_0/

Heimtufrekju Rússa við landamæri sín, sérstaklega vesturlandamærin, er óhjákvæmilegt að skoða út frá sögu landsins. Og þá einkum í ljósi tíðra og afar blóðugra herferða úr vestri inn í Rússland á undaförnum öldum, en landið er sem kunnugt er flatt og opið til vesturs (síðasta áhlaup kostaði 27 milljónir Sovétmanna lífið). Áhersla Rússa hefur þess vegna lengi verið á að koma upp og viðhalda «öryggisbelti» milli sín og helstu stórvelda Evrópu og Vestursins. Að stærsti nágranninn vestan megin, Úkraína, sé í senn pólitískt fjandsamlegur og gangi í hernaðarbandalag með andstæðingunum (formlega eða í reynd) er og verður sérhverjum rússneskum ráðamanni martröð. En árið 2008 lýsti leiðtogafundur NATO einmitt yfir að Úkraína (og Georgía) yrði tekin inn í hernaðarbandalagið mikla. Pútín hefur sagt það frá 2008 og reynslan hefur sýnt það að Rússar gera hvað sem er og hætta á hvað sem er til að forða því að það geti gerst.

Sem sagt: Viðvarandi ógn frá stórveldum í vestri hefur líka stuðlað að því að skapa samfellu í öryggismálapólitík Rússlands á ólíkum tímum.

Tvö stutt undantekningartímabil

Það hefur sem sagt í meginatriðum verið samfella í landvarnapólitík Rússa í rúmlega öld. Það hafa samt verið tvö stutt undantekningartímabil í þessari samfellu:

a) Á árunum 1917-1922 bundu bolsévíkar í Sovétrússlandi (Sovétríkin þá ekki orðin til) vonir við að verkalýðsbylting breiddist út í Evrópu og höguðu utanríkispólitík sinni eftir því. Á meðan geisaði borgarastríð í Rússlandi sjálfu með þátttöku 14 kapítalískra ríkja (undir forustu Breta og Bandaríkjanna) sem lögðu gagnbyltingunni til herafla. Á þessum tíma skrapp raunar Sovét-Rússland harkalega saman. Fyrst var Finnlandi veitt sjálfstæði. Svo olli hernaðarsókn Þjóðverja því að Úkraína, Hvíta-Rússland, Eystrasaltslönd, Pólland og «Transkákasuslönd» «töpuðust». Úkraína og Hvíta-Rússland voru síðan endurheimt af Rauða hernum 1919. En 1920 réðust Pólverjar til austurs og hremmdu stór hvítrússnesk og úkraínsk svæði (svæði sem Sovétríkin hernámu svo 1939, og innlimuðu þau svæði síðan eftir seinna stríð).

b) Sovétríkin leystust upp 1991 og Rússland varð þá um skeið nýfrjálshyggjuríki undir forræði Bandaríkjanna/AGS/ Alþjóðabankans sem lögðu upp hagstjórnarlínuna, kennda við «sjokkmeðferð». CIA og Clinton forseti stjórnuðust beint í framboðsmálum Borisar Jeltsín. Á þessum árum geisuðu tvö stríð í Júgóslavíu sem leiddi til uppbrots hennar (balkaníseringin) og þensla NATO til austurs komst á skrið. Rússland var á meðan veiklað af djúpri kreppu og gat ekki varið svæðisbundna hagsmuni sína. En þegar Rússland, í stjórnartíð Vladimírs Pútíns, náði sér af kreppu 10. áratugarins hvarf það aftur til fyrri öryggismálastefnu, sem einnig hafði gilt á Sovéttímanum, og einkenndist af gætinni en samt harðri landvarnarpólitík.

Samanburður 2022 við 1939

Tíminn núna líkist vissulega mjög fyrirstríðstímum, og það má vel draga línur samsvörunar við tímann í aðdraganda stríðsins 1939. Sú «enduruppskipting» áhrifasvæða sem BNA kastaði sér út í eftir fall Sovétríkjanna 1991 var ekki fyrsta tilraun heimsvaldasinna í til slíkrar uppskiptingar. Heimsstyrjaldirnar báðar voru raunar atlögur að slíkri «enduruppskiptingu». Þýskaland taldi sig hlunnfarið af gömlu nýlenduveldunum og vantaði «rífsrými» í samræmi við stóraukna efnahagsgetu sína og fýsti þess vegna í «enduruppskiptingu». En gömlu nýlenduveldin girtu fyrir slíkt, og í aðdraganda seinna stríðs voru Sovétríkin orðin staðreynd á risastóru landsvæði í austri.

Stríðið við Rússland á 21. öldinni er háð á mörgum sviðum. Nýlega hefur Evrópuþingið í Brussel ályktað sérstaklega um upphaf Seinni heimstyrjaldarinnar. Sú ályktun var gerð í september 2019, þegar 80 ár voru liðin frá innrás Þjóðverja í Pólland 1939. Ályktunin fól í sér svokallaða «söguendurskoðun», endurtúlkun á upphafi stríðsins og þar með allri sögu þess. Þar segir að Evrópuþingið:

«…leggur áherslu á að Heimsstyrjöldin síðari, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, hófst sem bein afleiðing af hinum illræmda sovét-nasíska griðasáttmála frá 23. ágúst 1939, einnig þekktur sem Mólotoff-Ribbentrop samningurinn og leynilegum ákvæðum hans, en með þeim skiptu þessar tvær alræðisstjórnir, sem deildu sameiginlegu markmiði um heimsyfirráð, Evrópu í tvö áhrifasvæði.” https://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-09-19_EN.html

Þessi sagnfræði er í þá veru að Hitler og Stalín hafi deilt með sér Evrópu og byrjað svo heimsstyrjöldina sameiginlega. Þýskaland var áður talið vera einn upphafaðili Seinni heimsstyrjaldar en þarna eru Þýskaland og Sovétríkin sögð bera ábyrgðina sameiginlega og að þau hafi haft hliðstæð útþesnlusinnuð markmið. Framhald þessarar stórfelldu „sögulegu endurskoðunar” er svo að tengja Pútín við „útþenslusinnan” Stalín (og við Hitler) og þá er innrásin í Úkraínu 2022 orðin t.d. hliðstæð innrásinni í Pólland 1939.

En söguendurskoðun ESB snýr flestum hlutum á haus. Þegar yfirgangur Þýskalands jókst, einkum með innlimun Austurríkis og vaxandi hótunum gagnvart Tékkóslóvakíu og Póllandi, leituðu Sovétmenn ákaft eftir varnarbandalagi við Frakka og Breta gegn yfirgangsseggjunum, bandalagi um „sameiginlegt öryggi“ með gagnkvæmum skuldbindingum um sameiginlegar aðgerðir gegn þeirri yfirgangsstefnu. En hjá gömlu nýlenduveldunum var friðunarstefnan (appeacement) gagnvart Hitler allsráðandi og skilaði 1938 Munchensamkomulaginu, samkomulagi Þýskalands, Ítalíu, Englands og Frakklands, samkomulagi sem hélt Sovétmönnum rækilega utangarðs. Þetta var einmitt „griðarsáttmáli” Hitlers og Vesturveldanna þar sem Tékkar voru þvingaðir af stórveldunum fjórum til að fara að vilja Þjóðverja.

Síðustu tilraunir til að mynda bandalag gegn stríðsöflunum voru gerðar í ágúst 1939 þegar Hitler hótaði Pólverjum út af Danzig. Um miðjan ágúst buðu Sovétmenn fram einnar milljón manna herlið til að verja Pólland, en bresk-frönsk samninganefnd sem kom til Moskvu hafði ekkert umboð til að lofa neinum aðgerðum á móti (aðgerðum t.d. Frakklandsmegin). Í ljósi alls þessa þóttust Sovétmenn sjá að Vesturveldin vildu beina árásarstefnu Hitlers í austur, og að hann fengi frjálsar hendur í þá áttina.

Tilraunir Sovétmanna til að byggja «sameiginlegt öryggi” með Vesturverldunum runnu út í sandinn. Þeir voru aldrei viðurkenndir sem bandamenn. Val þeirra var að berjast við Hitler eða semja við Hitler. Þrautarúrræði þeirra var að gera taktískan «griðasamning» við hann í ágústlok 1939. Um hlutleysi í komandi átökum. Og keypti sér með því tíma. En það sem innsiglaði örlög Póllands var ekki griðasamningurinn heldur hið lífvana and-Hitlersbandalag, um «sameiginlegt öryggi», sem hvarf raunar úr heimi í Munchen 1938. Það «sameiginlega öryggi» sem Sovíetríkin kepptu að var hliðstætt því «sameiginlega ríki» sem Pútín hefur leitað eftir við vesturlandamæri sín undangengin misseri.

Í samningnum 1939 sömdu Sovétmenn um «áhrifasvæði» í mögulegum framtíðarátökum. Tveimur vikum eftir að Þjóðverjar hófu innrásina í Pólland hertóku Sovétmenn austurhéruð landsins að sk. Curzonlínu, en það var einmitt sú lína sem Pólverjar höfðu ráðist austur fyrir og hernumið í árásarstríði sínu 1920. Hún var í meginatriðum þjóðernamörkin milli Pólverja og hins vegar Hvítrússa/Úkraínumanna. Landamæradeila ríkjanna var enn óútkljáð 1939.

Það eru maragar samsvaranir milli 1939 og 2022, en söguendurskoðun ESB er hættuleg og fráleit á allan hátt. Sjá m.a. hér: https://neistar.is/greinar/operasjon-barbarossa-enn-og-aftur/

Pútín = Hitler?

«...austur í Rússlandi er risinn leiðtogi sem minnir á fátt meira en Adolf í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari. Og hefur sér til fulltingis hliðstæðuna við Göbbels, sem nú heitir Lefroff...» (Fréttabl. 23. mars) Þannig orðar það góða skáld Pétur Gunnarsson fullyrðingu sem heyrist nú mjög víða, en batnar ekkert við það.

Að bera innrás Pútíns í Úkraínu núna á einhvern hátt saman við innrás Hitlers á Pólland 1939 (eða árásir hans á Vestur-Evrópu 1940, hvað þá á Sovétríkin 1941) er svo vitlaus að ekki tekur tali. Hlutfallslegur efnahagsstyrkur Þýskalands 1939 var margfaldur á við efnahagsstyrk Rússlands í dag. Eða berum saman vígstöðuna: Þegar herir Þýskalands og bandamanna þeirra réðust inn í Sovétríkin í júní 1941 var allt meginland Evrópu sameinað undir einni herstjórn (einu undantekningar voru Sviss og Svíþjóð).

Núna er staðan aftur furðulega lík stöðunni 1939: Nánast allt meginland Evrópu er sameinað í pólitísk-hernaðarlega bandalagið NATO gegn Rússum (undanþegin eru Hvítrússland og Sviss). Löndin Úkraína, Georgía, Svíþjóð og Finnland eru að vísu enn ekki formleg NATO-lönd en hafa öll tekið upp „aukna samstarfsaðild“ við NATO. Fyrir svo utan sjálfan stóra frænda fyrir vestran haf sem stjórnar þessu öllu. Í Evrópu er Rússland einangrað. Svo ætti Pútín að hafa áhuga á árás á NATO-lönd sem eiga margfalt fleiri kjarnorkusprengjur en hann og standa fyrir 57% af herútgjöldum heims en herútgjöld Rússa nema 3,8%! Þá væri hann genginn af vitinu, en Ólafur Ragnar sagði í Silfrinu um daginn að Pútín virki alltaf bæði hógvær og yfirvegaður.

(seinni grein um öryggismálastefnu Rússlands tekur fyrir Eysrasaltslönd og Finnland 1939/40, Austur-Evrópu eftir stríð og stríðið í Afganistan frá 1979 – og ber saman við öryggismálapólitík Pútíns 2022)