Hernaðaráætlanir gegn Rússlandi og ósk um aðstöðu á Austfjörðum

1. nóvember, 2020 Þórarinn Hjartarson



Mikilvægasta hernaðarlega hugveita í Bandaríkjunum er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Stofnunin lagði fram mikla hernaðaráætlun gegn Rússlandi á síðasta ári. Hún ber titilinn, Rússland teygt. Barist á hagstæðum grunni. (Extending Russia: Competing from Advantageous Ground) Það er ítarleg áætlun upp á rúmlega 300 bls. Hana má sjá hér.

Birting á þessu staðfestir að margt af því ráðabruggi bandarískrar utanríkiselítu sem maður hefur haft í getgátum liggur nú opinskátt fyrir.

„Að teygja Rússland“, hvað þýðir það? Í inngangi ritsins er það útskýrt sem „friðsamlegar aðgerðir [svo] sem reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda heima eða utan lands… og ber að skoða sem aðgerðir sem myndu láta Rússland keppa við Bandaríkin á sviðum og svæðum þar sem Bandaríkin hafa samkeppnisforskot og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.“

Fjórði kafli ritsins heitir „Landpólitískar aðgerðir“ (Geopolitical Measures). Yfirskriftirnar tala sínu máli: Aðgerð 1: Útvega vopnaaðstoð til Úkraínu. Aðgerð 2: Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn. Aðgerð 3: Stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi. Aðgerð 4: Nýta spennuna í Kákasuslöndum. Aðgerð 5: Draga úr áhrifum Rússlands í Mið-Asíu. Aðgerð 6: Standa gegn áhrifum Rússlands í Móldóvu.

Áherslurnar eru skýrar og síðan hernaðaráætlunin var lögð fram 2019 hefur orðið „uppreisn“ í Hvítarússlandi og spennan í Kákasus heldur betur hlaðist upp með stríði Asera og Armena. Bandarískir strategistar tala löngum um að gera Sýrland að „Víetnam Rússlands“. Og allar þessar aðgerðir miða að því að „teygja Rússland“ á áhrifasvæði sínu, grafa undan áhrifum þess og veikja það með hjálp álagsþreytu.

Þriðji kafli hernaðaráætlunarinnar heitir „Efnahagslegar aðgerðir“. Þær eru samkvæmt yfirskriftum: Aðgerð eitt: Hindra olíuúflutning. Aðgerð 2: Draga úr útflutningi á jarðgasi og hindra útbyggingu á gasleiðslum.

Sá hluti af hernaðaráætlun RAND er nú einnig á framkvæmdastigi. Olía og gas eru helsti útflutningur Rússa. Þýskaland er í brýnni þörf fyrir jarðgasið frá Rússlandi og Nord Stream leiðslan (sjá hér) um Eystrasalt er nærri tilbúin. Bandaríkin hafa frá byrjun lagt gríðarlega áherslu á að stöðva hana, m.a.s. hótað Þýskalandi efnahagslegum refsiaðgerðum. Aukin efnahagssamvinna Rússlands og Þýskalands er mikill þyrnir í augum Bandaríkjanna.


Vá fyrir dyrum Rússa

Í því að reka fleiga á milli Rússlands og Þýskalands gegna Eystrasaltslönd, Hvítarússland og Úkraína lykilhlutverki, landfræðinnar vegna. Litabylting tókst í Úkraínu 2014 og bandaríska utanríkiselítan hefur haft „valdaskipti“ í Hvítarússlandi á stefnuskránni síðan, samanber þessa áætlun RAND.

Í Washington og hjá NATO eru miklar vonir bundnar við uppþotin í Hvítarússlandi eftir kosningarnar umdeildu í ágúst. Þremur vikum eftir kosningarnar, og meðan uppþotin vegna þeirra voru mest í Minsk, héldu Bandarískar hersveitir æfingar í Litáen við Hvítrússnesku landamærin. Sjá nánar.

Horfurnar fyrir Nord Stream versnuðu verulega við dularfullt drápstilræði við rússneska stjórnarandstæðinginn Navalny. Þá tóku bandamenn BNA í Evrópu vel við sér. Í framhaldinu hefur Evrópuþingið a) viðurkennt stjórnarandstöðuna í Hvítarússlandi sem réttmætt stjórnvald landsins og b) krafist þess að lagning Nord Stream sé stöðvuð. Líkur styrkjast nú á því að þetta tvennt, uppþot í Hvítarússlandi og Navalny-málið séu verkfæri sem duga muni til að stöðva framkvæmd Nord Stream. Sjá nánar.

Svo nú tikkar í flest box og hjá RAND-corporation. Eftir litabyltinguna 2014 hefur Úkraína tekið fullan þátt í heræfingum NATO í Austu-Evrópu. Og Rússum mun þykja vá fyrir sínum dyrum ef NATO-sinnuð öfl ná völdum í Hvítarússlandi og „herskáasta þjóð í sögu mannkynsins“ (orð Jimmy Carters) með NATO-bandamönnum sínum getur þá stundað heræfingar sínar meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands.


Hvernig getur Ísland hjálpað til?

Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Mbl.is greindi frá heimsókn yfirforingja í Bandaríkjaher til Reykjavíkur sl. föstudag.

Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu segir bandaríska herinn vera að íhuga aukna fjárfestingu hér á landi sem myndi fjölga þjónustu svæðum fyrir flotann við Íslands strendur. Herinn sé að kanna hvort „eitt hvað verðmæti sé í litlu, varanlegu fótspori frá Bandaríkjunum“ á Íslandi.

Á Íslandi eru nokkrar þjónustu stöðvar fyrir NATO. Við erum að kanna hvað þyrfti til að stækka við þær stöðvar, fjárfesta í þeim,“ sagði Burke á fundi sem haldinn var í sendiráðinu í dag. „Mig langar mikið í þá valkosti sem við höfðum fyrir 25 til 30 árum síðan, með tilliti staða sem hægt er að lenda á og athafna sig.

Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðir en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega. Auk þess myndi slík aðstaða geta stutt undir öflugri leit og björgun á hafsvæðum umhverfis Ísland.

Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke. „Ég veit ekki hve móttækileg ríkisstjórnin ykkar er í þessu máli, svo við verðum að eiga það samtal.““ Sjá grein Mbl hér.

Svo mörg voru þau orð. Á síðustu árum hefur viðvera Bandarísks herliðs á Keflavíkurvelli breyst úr stopulli viðveru í fasta viðveru með vaxandi en „hreyfanlegan herafla“, og aukningin hefur verið hröðust í stjórnartíð Katrínar og Bjarna. Fréttin af heimsókn Burkes bendir til að fleiri tíðinda geti verið að vænta.