Norrænir ráðherrar vilja framlengja stríð – og berja höfði við stein
—
Á þingi Norðurlandaráðs í Reykavík í síðustu viku ræddu ráðherrar Norðurlanda einkum varnarmál og lýstu yfir stuðningi við «siguráætlun» Zelensskys í Úkraínustríðinu. Studdu þeir þar með ósk hans um tafarlausa aðild að NATO og langdrægar eldflaugar sem skjóta mætti inn í Rússland.
Ályktanir þingsins eru eins og draugakveðskapur úr dauðs manns gröf. Gunnar á Hlíðarenda kvað kampakátur í haugi sínum, mót tungli:
..heldur kvaðst hjálmi faldinn
hjörþilju sjá vilja
vættidraugur en vægja
valfreyju stafur deyja
valfreyju stafur deyja.
Það útleggst svo: heldur kvaðst hermaðurinn hjálmi faldni vilja sjá orustu og deyja en vægja. Gunnar var hetja og hirti ekki um stöðu sína, það að hann var þegar dauður. Þeir sem ég sé nú leika hetjuhlutverk Gunnars Hámundarsonar eru Zelensky plús forsætisráðherrar Norðurlanda, allir. Hlutverkið fer þeim misvel. Þeir gera sig hina vígreifustu og horfast ekki í augu við raunveruleika stríðsins sem þeir tjá sig um, og storka nú Rússum sem mest þeir mega, þó þeir hafi þegar tapað.
Forsaga frá 10. áratug
Flest er neyðarlega sorglegt í þeirri stöðu sem Norðurlöndin hafa komið sér í. Hún á sér auðvitað forsögu. Vandræðastaðan – grundvallarvandinn má segja – skapaðist á 10. áratugnum. Þá mörkuðu Bandaríkin stefnu sína að loknu Kalda stríðinu sem þau töldu sig vissulega hafa unnið. George H. Bush forseti sagði í stefnuræðu sinni í jan 1992, bara viku eftir fall Sovétríkja: „Við erum Bandaríki Norður-Ameríku, leiðtogi Vesturlanda sem er orðinn leiðtogi heimsins.“ Hann tók upp hugtakið „New World Order“. Og á sömu mánuðum var sett fram í Pentagon „varnarmálaáætlun“ fyrir 10. áratuginn (Wolfowitz-doktrína) og þar var „fyrsta verkefnið er að koma í veg fyrir að til verði nokkur hnattrænn keppinautur“ við Bandaríkin. Einnig stóð þar að það væri „grundvallaratriði að viðhalda NATO sem undirstöðuverkfæri vestrænna varna og öryggis og einnig sem farvegi bandarískrar þátttöku og áhrifa í evrópskum öryggismálum.“ Sjá hér.
Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur síðan einmitt miðast við hnattræn yfirráð – og að hindra mögulega hnattræna keppinauta – með hjálp herstöðvakerfis, NATO, efnahagslegs og hernaðrlegs stríðsreksturs o.s.frv. þó það væri undir öðrum yfirskriftum, s.s. stríð gegn hryðjuverkum, stríð gegn harðstjórum, stríð lýðræðis gegn alræði m.m.
Á 10. áratug var spurningin: Hvað skal gera gagnvart Rússlandi, leifum Sovétríkjanna og því öryggiskerfi sem sniðið var að tilvist þeirra og fyrirferð, sérstaklega í Evrópu. Það voru reyndar tekin nokkur byrjandi skref til nýs, samevrópsks öryggiskerfis. Mikilvægustu vörður á þeim vegi voru „Sáttmáli nýrrar Evrópu“ gerður í París 1990 (sjá Mbl. 22.11. 1990) og svonefnd Founding Act NATO-Russia eða „Grundvallarsamþykkt um gagnkvæm samskipti, samvinnu og öryggi“ frá 1997. Í þessum samkomulögum báðum var hugsunin sú að skipan öryggismála í Evrópu yrði að gera í samvinnu aðilanna.
EN! – meðan þessu fór fram voru menn í Washington (og Brussel) samt á fullu að þróa annað kerfi: einhliða útvíkkun NATO, fyrsta útvíkkun bandalagsins kom skömmu síðar, árið 1999.
Útþensla NATO, það má vel horfa framhjá Rússlandi!
Forustumenn Vestursins gerðu sér vissulega grein fyrir að sú einhliða stefna gæti bakað vissan vanda, einkum gagnvart Rússlandi. Bill Clinton forseti viðurkenndi opinskátt á tímabili (t.d. í ræðu í Þýskalandi 1994) að austurstækkun NATO skapaði þá hættu „að draga upp nýja línu milli austurs og vesturs sem myndi skapa sjálfuppfylltan spádóm um framtíðar átök.“ Varnarmálaráðherra Clintons, William Perry, varaði ákveðnar við þessu. Hann sagði frá því síðar að flestir í ráðandi kreðsum í Washington á 10. áratug vissu að sú stefna – og svik við áður gefin loforð – myndi skapa átök við Rússa, en það kæmi ekki að sök þar sem Rússar væru svo veikir, “Who cares, they’re a third-rate power” (The Guardian, 9. mars 2016). Þeir héldu einfaldlega að hægt væri að horfa framhjá Rússlandi og öryggishagsmunum þess (Clinton taldi sig auk þess hafa Jeltsín forseta nógu vel í vasanum).
NATO-útvíkkunarstefnan var svo keyrð áfram án þess að horft væri til hægri né vinstri, hvað þá skeytt vaxandi aðvörunarhrópum Rússa. Líka eftir að Rússland reisti sig við og náði vopnum sínum með nýjum forseta eftir aldamótin 2000 töldu vestrænir ráðamenn að hægt væri að loka þann veruleika úti.
Úkraína, geopólitískt mikilvægt land, truflaði útþensluna. Þar höfðu (fyrir 2014) aldrei meira en 20% landsmanna áhuga á inngöngu í NATO. Beita þurfti því klókindum, strategistarnir í Washington tóku til sinna ráða og komu í kring andrússnesku valdaráni og NATO-sinnaðri stjórn, með litabyltingu 2014.
Þá var víglínan sem eitt sinn lá í miðri Evrópu komin upp að landamærum Rússlands, bingó! En valdaránið vakti hörð viðbrögð Rússa gagnvart Úkraínu: fyrst innlimun Krímskaga og loks Kremlverjar úr vörn í sókn, með ólöglegri innrás í austurhéruðin í febrúar 2022. Vikurnar á undan innrásinni höfðu Rússar krafið Washington/NATO um gagnkvæmar öryggistryggingar og að Úkraína stæði utan NATO, ella myndu þeir „bregðast við hernaðarlega“. Þetta staðfesti Jens Soltenberg á síðasta ári í ræðu um deiluna:
Bakgrunnurinn var sá að Pútín forseti lýsti yfir haustið 2021, og m.a.s. sendi hann samningsuppkast sem þeir vildu að við undirrituðum, um að lofa engri frekari NATO-útvíkkun. Það var það sem þeir sendu okkur. Og var skilyrðið fyrir því að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu. Auðvitað undirrituðum við það ekki.
Stoltenberg segir það beint: innrás Rússa snerist um að stöðva austurþenslu NATO. En um það voru Biden/Blinken/NATO ekki til umræðu, sögðu einfaldlega nei, svo að innrásin hófst. Meðal annars þá hefði auðveldlega mátt komast hjá þessu stríði með því að semja við Rússa. Ef vilji hefði staðið til í Vestrinu, en það var ekki.
Nú var það „frásögnin“ sem gilti. Washington og NATO (plús allir vestrænir meginmiðlar) héldu á loft þeirri frásögn að Rússar væri í útþenslustríði til vesturs. Evrópa og „vestrænu gildin“ blessuðu væru í húfi. Úkraína mætti því aldrei semja við Pútín (sem væri „friðkaupastefna“). Sameinað Vestrið skyldi hins vegar með ríkulegri vopnaaðstoð og mestu efnahags-refsiaðgerðum sögunnar tryggja Úkraínu sigur. Þá sleit Zelensky þeim friðarviðræðum við Rússa sem hafnar voru og langt komnar (í byrjun apríl 2022). Hann gekkst inn á að vera staðgengill Vestursins með þjóð sína sem skylmingaþræla. Reznikov, varnarmálaráðherra Zelenskys, lýsti hlutverkaskiptingu Úkraínu og NATO: „Þannig að nú vinnum við vinnum ætlunarverk NATO. Þeir fórna ekki blóði sínu, við fórnum okkar blóði, það útheimtir að þeir sjái okkur fyrir vopnum.“
Raunveruleikinn eltir Vestrið uppi
Vopnavæðing og kostun Úkraínustríðsins frá Vestrinu átti að færa Úkraínu sigur, ef ekki sigur myndi það alla vega veikja Rússland sem var aðalmálið. En þetta fór ekki þannig. Þróun Úkraínustríðsins – og pólitísk og viðskiptaleg áhrif þess – sýnir það skýrar og skýrar að þessi einhliða útþenslu- og átakaaðferð Washington/NATO hefur mistekist, keyrt á vegg. Sríðið er tapað. Fyrsti og helsti taparinn er Úkraína sem er efnahagslega í rúst og óðum að tapa blómanum af karlmönnum á herskyldualdri. Algjörlega hroðalegt.
Annar tapari er Evrópa en refsiaðgerðir Vestursins gegn Rússum skaða hana miklu meira en Rússa sjálfa. Evrópa tapaði meira en efnahagslega. Hún tapaði þeim leifum af pólitísku og hernaðarlegu sjáfstæði gagnvart BNA sem hún hafði þó í fyrstu eftir lok Kalda stríðs.
Í þriðja lagi hefur Úkraínustríðið stuðlað að því að styrkja efnahagslega (og raunar pólitíska) samvinnu innan hins hnattræna Suðurs (þar í er Rússland) sem vex nú miklu hraðar en Vestrið, svo að einpóla valdakerfi eftir-kaldastríðsheimsins, New World Order, er því að hrynja.
Það er ekki hægt að halda raunveruleikanum úti endalaust. Væntanlegur sigur Rússlands í Úkraínustríði hefur verið augljós a.m.k. allt síðastliðið ár og sá veruleiki hripast nú inn í vestræna meginstraumspressu, þó hún hafi af öllum kröftum í yfir tvö ár reynt að endurspegla sigurvissu. Dæmi: New York Times skrifaði núna 1. nóvember:
„Bandarískur her og leyniþjónusta hafa komist að þeirri niðurstöðu að stríðið í Úkraínu sé ekki lengur staðnað þar sem Rússar vinni nú stöðugt á en að svartsýni í Kænugarði og Washington fari dýpkandi.“
Að berja höfði við stein og kalla á kjarnorkustríð
Samt er enn hægt að berja höfðinu við steininn, til þess að framlengja staðgengilsstríðið. Zelensky rásar á milli landa með svokallaða „siguráætlun“. Tvö meginstef hennar eru: Fleiri og langdrægari skotflaugar til Úkraínu! og Úkraína inn í NATO tafarlaust! Þetta eru einmitt þau tvö meginatriði sem Rússar fóru í stríð til að hindra svo varla fær þetta þá til að snúa við. Annað sem augljóslega býr að baki „áætlun“ Zelenskys er áform hans að draga NATO með beinum hætti inn í stríðið.
Zelensky fór fyrst með áætlunina til Bandaríkjanna, en fékk ekki nógu uppörvandi viðtökur þar. Fremsta ósk hans var um að Bandaríkin afnæmu bannið við því að skjóta mætti langdrægum skotflaugum þeirra djúpt inn í Rússland. Málsmetandi aðilar í her og leyniþjónustu töldu „áætlun“ hans ekki sannfærandi. Sjá Wall Street Journal: Engin vilyrði um þetta voru gefin.
Pútín hafði þá lýst yfir að hvert ríki sem afhenti Úkraínu slík vopn og heimilaði árásir á Rúsland væri þar með í stríði við Rússland, og kjarnorkuvopnapólitík Rússlands var breytt skv því. Slík vopn í Úkraínu og slík skotleyfi væru stysti vegur til kjarnorkustríðs. Þann 30. okt láku svo upplýsingar frá Pentagon um að hluti af „siguráætlun“ Zelenskys hafi verið bón um bandarískar Tomahawk eldflaugar, sem geta borið karnorkuvopn og draga frá Englandi til Moskvu og verða aðeins þjónustuð af Bandaríkjamönnum.
„Siguráætlun“ Zelenskys sýnir okkur geðbilaðan mann eða desperados og örlaga-glanna. En fleiri velja að berja höfði við stein. Herskáustu ríki NATO, Pólland og Eystrasaltsríkin mælast til að Úkraínu verði léð slík vopn og leyft að skjóta þeim inn í Rússland. Líka Keir Starmer – og nú, leiðtogar Norðurlanda, í Reykjavík 29. og 30. nóvember.
Norræni hernaðarandinn til Reykjavíkur
Norðurlönd hafa á undanförnum misserum lagt sig alveg flöt fyrir Bandaríkjunum og einfaldlega afhent þeim forræði varnarmála sinna. Á síðustu árum (sem var þó hafið fyrir febr. 2022) er stofnað til 47 bandarískra herstöðva á Norðurlöndum, þau stilla sér með því í fremstu víglínu í stríðinu við Rússland. Öll löndin komin í NATO. Og öfugt við fyrri siði Norðurlandaráðs eru „varnarmál“ efst á dagskrá ráðsins, og er það grundvallarbreyting. Við herstöðvarnar 47 bætist vígvæðing Norðuríshafsins. Þórdís Kolbrún sagði á þinginu að innrásin í Úkraínu og almenn hegðun Rússa „hafa gert að engu vonir um að halda Norðurskautssvæðinu sem lágspennusvæði.“
Yfirskrift þingsins var „Friður og öryggi á norðurslóðum“. Aðalatriðið var samt Úkraínustríðið. Á þinginu kom stax fram að allir forsætisráðherrar Norðurlanda styðja „siguráætlun“ Zelenskýs. Helstu atriði: tafarlaust inngönguboð í NATO til Úkraínu og að heimila að skjóta langdrægum skotflaugum djúpt inn í Rússland. Norðurlönd lofa að stórlega auka herstuðning sinn við Úkraínu. Mette Frederiksen sagði: „stuðningsfé til Úkraínu er best nýtt til hergagnaframleiðslu“. Í máli Bjarna Benediktssonar kom fram að „íslenska ríkið hefur lagt til að tvöfalda stuðningsfé sitt til Úkraínu.“
Hernaðarandinn í Evrópu hefur náð rækilega til Norðurlanda. Stríðið í Úkraínu er statt á krössgötum, svo að fyrir Úkraínustjón og Vestrið sýnast vera tveir meginkostir í stöðunni: að viðurkenna tapað stríð og semja við Rússa eða taka stórt stökk stigmögnunar með eldflaugahernaði inn í Rússland og fullri og beinni þátttöku NATO, breyta staðgengilsstríði þar með í beint stríð raunverulegra stríðsaðila. Valkostirnir vega salt á vogarskálum.
Ekki var annað að sjá en Norðurlandaráðsþing legði lóð sitt á seinni valkostinn. Ráðið er að verða að skaðræðissamkundu.Kannski var það ljóst þegar fyrir þingið. Í ferð Zelenskys með „siguráætlun“ sína til Bandaríkjanna var í áður tilvitnaðri grein í Wall Street Journal vitnað í danska forsætisráðherrann Mette Frederiksen. Hún sagði einmitt að Úkraínustríðið væri núna „á krossgötum“ og gagnrýndi Vestrið fyrir hik:
„Við verðum að tryggja að Úkraína geti unnið þetta stríð,“ sagði hún og hvatti leiðtoga vesturveldanna til að láta Úkraínu í té langdræg vopn „án takmarkana“ og að Úkraína yrði aðili að NATO.
Meira um efnið: Gunnar Smári átti góðar viðræður við Rauða borðið við Tjörva Schiöth um erindi Zelenský hingað og boðskap ráðherranna.