Nokkur vísindaleg hindurvitni

26. júlí, 2021 Björgvin Leifsson



Fyrirsögn þessarar greinar er að sjálfsögðu mótsögn þar sem hindurvitni geta ekki verið vísindaleg. Hún á hins vegar nokkuð vel við þar sem hér verður fjallað um nokkrar gervikenningar með vísindalegu yfirbragði og misnotkun nokkurra vísindalegra hugtaka. Greinin byggir að mestu á tveimur vefsíðum, 10 Psuodo-science theories we'd like to see retired forever og 10 scientific ideas that scientists wish you would stop misusing. Ég mun fjalla um nokkra þessara punkta.

1. Sönnun

Hugtakið sönnun vefst ótrúlega fyrir almenningi svo ég tali nú ekki um "vísindalega" sönnun. Kjarni málsins er að vísindin "sanna" aldrei eitt né neitt og væri í rauninni nær að tala um vísindalegar afsannanir heldur en sannanir. Vísindalegar kenningar eru afrakstur langrar þekkingarsöfnunar, þar sem stöðugt er bætt við fyrri þekkingu og hún jafnvel látin fyrir róða ef ný þekking kollvarpar fyrri hugmyndum. Í raun og veru er þetta kjarni allra vísinda og mesti styrkur þeirra: Að hafa það sem sannara reynist svo ég vitni í Ara fróða.

2. Kenning

Almenningur ruglar oft saman hugtökunum "tilgáta" (hypothesis) og "kenning" (theory). Oft heyrist sagt að þetta eða hitt sé "bara kenning". Ekkert getur verið fjarri lagi. Kenning er, eins og sagði hér að ofan, afrakstur langrar þekkingarsöfnunar. Hún kann að breytast með tíma þar sem ný þekking bætir við hana og jafnvel geta kenningar horfið ef ný þekking bendir eindregið til að eldri kenning sé ekki rétt.

Tilgáta er aftur á móti eins konar frumhugmynd um hvers vegna tiltekið viðfangsefni er eða hagar sér við tilteknar aðstæður. Tilgátur þarf að prófa með vísindalegum tilraunum eða rannsóknum og þannig getur smám saman orðið til kenning ef allar niðurstöður benda í sömu átt. Þannig hafa t.d. þróunarkenningin og afstæðiskenningin verið þaulprófaðar í meira en 100 ár og hafa eingöngu styrkst með tímanum þar sem öll viðbótarþekking hefur eingöngu styrkt þær.

3. Náttúrlegt

Hér er um tvenns konar misskilning að ræða, í fyrsta lagi að maðurinn sé einhvern veginn aðskilinn frá annarri, lifandi náttúru, og í annan stað að matvæli geti verið annað hvort náttúrleg eða ónáttúruleg.

Í fyrra tilfellinu er því jafnvel haldið fram að mannlegt atferli sé einhvern veginn ekki náttúrlegt miðað við önnur dýr. Í seinna tilfellinu eru "náttúrleg" matvæli ræktuð án aðkomu mannsins (hvernig svo sem það á að vera hægt) en "ónáttúrleg" þá haldin einhverri ónáttúru, sem maðurinn hefur sett í þau. Hér gleymast lítil atriði eins og að t.d. nútíma maís er afrakstur árþúsunda kynbóta og er dauðadæmd tegund án afskipta mannsins. Maísplantan er því eins "ónáttúrleg" og hægt er að hugsa sér burtséð frá því hvernig hún er ræktuð.

4. Góð og slæm gen

Oft heyrist sagt að hann eða hún séu með gen fyrir hinu og þessu, svo sem hjartasjúkdómum, blóðsjúkdómum o.s.frv. Nú er það svo að gen mynda samsætur þannig að í ákveðnu sæti á ákveðnu litningapari er sitt hvort genið, sem við fengum frá foreldrum okkar, annað frá móður en hitt frá föður. Þannig er það samsætan, sem skiptir máli og oft geta samsætur haft áhrif hver á aðra og er þetta m.a. þekkt varðandi blóðflokka.

Á malaríusvæðunum í Afríku er ákveðið gen nokkuð algengt. Gen þetta veldur sigðafrumusýki, sem lýsir sér í því að rauðu blóðkornin aflagast og geta því ekki flutt súrefni. Það segir sig sjálft að þeir, sem fá þetta gen frá báðum foreldrum (samsætan er arfhrein) lifa ekki lengi en það undarlega er að þeir, sem eru arfblendnir um þetta gen (og með helming rauðu blóðkornanna aflagaðan) fá ekki malaríu, sem aftur drepur u.þ.b. tvær milljónir árlega af þeim, sem eru arfhreinir um heilbrigða genið. Þannig viðheldur malarían ákveðnu hlutfalli sigðafrumugensins í stofnum manna á sýktu svæðunum en þetta hlutfall er mun lægra meðal afkomenda svartra þræla í Bandaríkjunum þar sem malaría er ekki til staðar.

Ofangreint dæmi lýsir vel hversu flókin tengsl geta verið milli náttúrlegs vals og umhverfis. Þannig getur vel verið að samsæta, sem t.d. eykur líkur á tilteknum hjartasjúkdómi, hafi einhverja þróunarfræðilega kosti, sem við höfum enn ekki áttað okkur á.

Að lokum er vert að benda á þó að t.d. Íslensk Erfðagreining hafi fundið gen fyrir hinu eða þessu er ekki þar með sagt lækning sé endilega á næsta leiti.

5. Tölfræðilega sannað

Þegar vísindamenn segja að eitthvað (t.d. einhver munur á meðaltölum) sé tölfræðilega marktækt eiga þeir einfaldlega við að munurinn sé of mikill til að teljast tilviljun. Þeir eiga EKKI við að eitthvað sé tölfræðilega sannað, enda getur tölfræði aldrei sannað eitt né neitt. Tölfræði er hjálpartæki til að meta líkur á atburði eða líkur á því að atburður sé tilviljun eður ei.

Þetta gildir einnig um fylgni milli tveggja breyta. Jafnvel þó að fylgnin sé marktæk þýðir það ekki endilega að það sé orsakasamband á milli breytanna.

6. Hinir hæfustu lifa af

Í fyrsta lagi: Darwin notaði aldrei orðin "the survival of the fittest". Hvað þýðir að vera "hæfur" þróunarfræðilega? Það þýðir ekki að vera stærstur eða sterkastur eins og gervidarwinisminn með Herbert Spencer í fararbroddi hélt fram. Það þýðir einfaldlega að viðkomandi genasamsetning fellur best inn í umhverfið og einstaklingarnir því líklegri til að eignast afkvæmi og skila gegnum sínum áfram til næstu kynslóðar.

7. Lífrænt

Að eitthvað sé lífrænt þýðir einfaldlega að það sé gert úr lífrænum kolefnisssameindum. Það þýðir ekki að varan sé laus við efnasambönd eða meira náttúrleg en einhver önnur vara.

Öll fæða er lífræn, sama hvernig hún er ræktuð, vegna þess að hún inniheldur kolefni.

Hlutir geta verið náttúrlegir og "lífrænir" en samt stórhættulegir, svo sem alls konar eiturefni, sem lífverur framleiða. Hlutir geta verið framleiddir af mönnum, jafnvel úr svokölluðum "gerviefnum", en samt mjög öruggir og jafnvel betri í sumum tilfellum en svokallaðar "náttúrlegar" afurðir. Sem dæmi má nefna insúlín framleitt af erfðabreyttum örverum.

8. Bólusetningar og einhverfa

Bara svo þið vitið það: Það er búið að svipta Andrew Wakefield lækningaleyfi og tímaritið Lancet er búið að biðjast afsökunar á að hafa birt grein hans um tengsl bólusetninga og einhverfu, enda var hún fölsun frá upphafi til enda.

9. Hómópatía

Vatn getur læknað þig af því að það innihélt einhvern tíma lyf.

Jahá!

Þá hljótum við að geta sparað stórfé með því að borða af tómum diskum þar sem einu sinni var matur á þeim.

10. Eiturefni

Til er fólk, sem heldur því fram að allt það, sem það vill ekki láta ofan í sig sé fullt af alls konar eiturefnum. Það getur hins vegar ekki skilgreint þessi eiturefni, hvernig þau komust í matvælin eða hvernig þau verka. Sem dæmi má nefna þegar grasæturnar halda því fram að dýraafurðir séu stórvarasamar vegna þess að dýraprótein séu á einhvern hátt verri en plöntuprótein.

Eiturefnahysterían hefur m.a. leitt til þess að ef vara er merkt "lífræn" selst hún á uppsprengdu verði og er þá ekki spurt að því hvort "lífræni" búgarðurinn sé umkringdur "ólífrænum" búgörðum. En kannski halda menn að "ólífrænu" efnin stöðvist einhvern veginn við girðinguna.


Greinin birtist fyrst á heimasíðu höfundar, brl.is