Líkurnar á því að lenda á toppnum

9. mars, 2020 Jón Karl StefánssonEinhver sterkasta trú borgaralega sinnaðra og íhaldssamra er að það sé í valdi hvers einstaklings fyrir sig hvernig honum reiðir af fjárhagslega. Þetta er auðvitað að mörgu leyti rétt, en algjör fásinna að öðru leyti því sú samfélagsgerð sem við búum við gefur ekki sjálf mikla möguleika á tilfærslu.

Grundvallarstrúktúr samfélagsins er stigveldið. Sjálf grundvallarreglan er sú að þeir sem eru ofar í stigveldinu hafa síðasta orðið í ákvörðunartöku, ekki þeir sem undir eru. Það er í valdi þeirra sem eru ofar í stigveldinu að ákveða hvaða stefna er tekin. Hversu margir eru í hverju þrepi ræðst svo af því hversu mikil mannaforráð hver stjórnandi hefur. Við leyfum okkur mikla einföldun hér, en í fjögurra laga stigveldi þar sem hver stjórnandi ræður yfir 10 undirmönnum og einn er í efsta þrepinu er stéttskiptingin á eftirfarandi leið: 1 eigandi, 10 forstjórar (t.d. sviðsstjórar, aðalritarar o.s.frv), 100 millistjórnendur og 1000 almennir starfsmenn. Í allt eru því 1111 manneskjur í þessu stigveldi. Rúmlega 90 prósent eru almennir starfsmenn, rúmlega 9 prósent eru millistjórnendur, 0,9 prósent eru forstjórar og 0,09 prósent eru eigendur.

Auðurinn seytlar að jafnaði upp á við í þessu kerfi. Þegar þeir sem neðar eru í kerfinu fá ekki raunverulegt verðgildi vinnuframlags síns (þ.e., eru arðrændir) fer mismunurinn (virðisaukinn) upp á næstu þrep. Því hærra sem menn eru í kerfinu, þeim meira endar hjá þeim. Því meiru sem haldið er eftir frá hverjum starfsmanni, því meiri auður safnast á hærri þrep. Það er því beint samband á milli fátæktar í neðri þrepunum og auðlegðar í hinum efri. Áhrifavaldarnir í kerfinu eru hagsmunir einstaklinganna, völd þeirra og persónulegur, peningalegur hvati. Hærra settir einstaklingar ráða launum undirsettra, hverjir komast ofar í þrepin og hverjir ekki.

Það er ekki í hag hinna sem ofar eru settir að setja sjálfan sig viljandi í neðri þrep; a.m.k. er enginn efnislegur hvati til þess. Það er því einungis ef ný staða verður til í efri þrepunum – ef til vill vegna þess að stjórna þarf 10 nýjum starfsmönnum; ef einhver hverfur frá í efri þrepunum eða ef einhverjir í enn hærri þrepum velja burt einn forstjóra eða millistjórnanda – að möguleiki opnast á því að einhverjir af þeim 1000 sem eru í neðsta þrepinu fá möguleika á því að hækka sig um þrep. Það gildir einu hversu gáfaðir, duglegir eða vel menntaðir þessir 1000 eru; valdið til þess að ákveða hver tekur hið lausa sæti er hjá hinum einstaklingunum sem eru í þessum efri þrepum í pýramídanum. Persónuleg hæfni einstaklingsins eykur möguleika hans að einhverju leyti þegar velja á einhvern í þessa einu stöðu á efra þrepi, en líkurnar eru þrátt fyrir það um 0,1%, þ.e. agnarlitlar. Tækir þú þátt í fjárhættuspili þar sem líkurnar á vinningi væru 1 á móti 1000? Ofan á þetta bætist svo að enn aðrir þættir, t.d. frændtengsl, geta haft áhrif á valið á hinum heppna í þrepakerfinu. Hreint tölfræðilega eru líkurnar ekki kræsilegar að öllu jöfnu.

Það er fásinna að halda því fram að í þessu kerfi séu dugnaður og hæfni einstaklinganna stærsti þátturinn í velgengni einstaklingsins. Ef við förum aftur í hinn frumstæða reikning á stéttarstöðu í stigveldi er það einfaldlega þannig að 90 prósent einstaklinganna eru í stétt almennra starfsmanna en tæpt 1 prósent er eigendur. Það hefur engin áhrif á sjálfan strúktúrinn hver færist um í þessu. Á hverjum tímapunkti er mikill ójöfnuður í kerfinu, bæði hvað varðar völd og efnisleg gæði.

Það væri hinsvegar stór munur á því ef leikreglunum yrði breytt í þá veru að ákvörðunarvald innan samfélagsins dreifðist á fleiri hendur. Það er þetta pýramídakerfi sem liggur til grundvallar efnahagslegri kúgun samfélagsins og að þessum strúktúr þarf að beina sjónum til að möguleiki sé á því að koma á jafnvægi í samfélaginu.