Launadeilurnar – sundrung og baráttueining

21. mars, 2019 Þórarinn Hjartarson


Kjaradeilurnar á vinnumarkaðnum harðna, það slitnar upp úr viðræðum – og jafnfram greinist verkalýðshreyfingin skýrar en áður í tvær fylkingar. Í gær, 20. mars, sagði formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna (LÍV), Guðbrandur Einarsson, af sér formennsku. Hann lét svo um mælt að LÍV hefði verið komið vel á veg með að ná „ágætis kjarasamningi án átaka“, en fulltrúar stærsta félags verslunarmanna, VR, hefðu sett sambandinu stólinn fyrir dyrnar. Ragnar Þór Ingólfsson sagði hins vegar að tilboð SA til verslunarmanna hingað til hefðu falið í sér „kaupmáttarrýrnun handa meginþorra félagsmanna“. Á sama fundi í LÍV var svo Ragnar Þór kjörinn formaður sambandsins sem mun nú gerast aðili að samfloti VR með Eflingu stéttarfélagi, Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Samhliða þessu gerðist það 19. mars að fjölmennur fundur Framsýnar stéttarfélags í Þingeyjarsýslu undir forustu Aðalsteins Baldurssonar afturkallaði samningsumboðið frá Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) og gekk til liðs við félögin í áðurnefndu samfloti. Einhugur ríkir augljóslega ekki í launþegahreyfingunni en eining baráttusinna staðfestist og styrkist.

Það hefur komið í ljós að ágreiningurinn bæði innan LÍV og innan SGS snýst annars vegar um baráttuaðferðir og hins vegar um um afstöðuna til styttingar vinnuvikunnar og „gagntilboða“ Samtaka atvinnulífsins (SA) þar að lútandi.

Í kröfugerðinni núna hefur verkalýðshreyfingin ákveðnar en áður krafist styttingar vinnuvikunnar. Það er góð og framsækin krafa. Núgildandi lög um 40 stunda vinnuviku voru sett fyrir hálfri öld, árið 1970. Frá 1970 hefur framleiðni í landinu margfaldast og væri eðlilegt að launafólk nyti þess, en löggilt vinnuvika er áfram óbreytt. Þess má geta að á hálfri öld þar á undan, 1920-70, styttist vinnuvika verkamanna (Dagsbrúnar) úr 66 tímum í 40. Krafa um styttingu vinnuviku er auk þess „græn stefnumörkun“ þar sem slík kjarabót kæmi fram í auknum frítíma frekar en aukinni neyslu.

En SA svara þessari kröfu með alls kyns mótleikjum: kröfum um styttingu eða brottfall kaffihlés starfs-manna, lengingu dagvinnutímabils (sá tími dagsins þegar greitt er dagvinnukaup) og lækkun á yfir-vinnuálagi (jafnvel úr 80% í 40%!). VR, Efling, VLFA og VLFGRV höfnuðu frá upphafi öllum hugmyndum SA í þessa veru. Og nú álykta Þingeyingarnir í Framsýn: „Framsýn hefur ítrekað látið bóka andstöðu sína í samninganefnd SGS og krafist þess að hugmyndum SA um vinnutímabreytingar væri vísað út af borðinu, en án árangurs. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið tilbúin að skoða frekari útfærslur á þessum breytingum með ákveðnum fyrirvörum.“

Draumur sumra verkalýðsforingja um „ágætis kjarasamninga án átaka“ mun naumast ganga eftir. Eftir vel heppnað hótelþernuverkfall 8. mars hefst á morgun, 22. mars, annars vegar verkfall félagsmanna VR í hópbifreiðafyrirtækjum og hins vegar verkfall félagsmanna Eflingar hjá hópbifreiðafyrirtækjum og 40 hótelum á starfssvæði félagsins. Baráttuandinn er góður. Raunveruleg breyting á tekjuskiptingu í landinu kemur ekki átakalaust. Gerum okkur ekki grillur um annað.