Kristni, síonismi og and-semítismi

8. mars, 2024 Tjörvi Schiöth

Musterishæðin og Al-Aqsa moskan í Jerúsalem

Kristinn síonismi

Í umræðunni um Ísrael-Palestínumálið hafa kristnir bókstafstrúarmenn verið ansi áberandi upp á síðkastið, þar sem þeir eru mestu stuðningsmenn apartheid-stjórnarinnar í Ísrael, sem stundar í þessum töluðu orðum víðtækar þjóðernishreinsanir á Palestínumönnum. En Ísraelsher hefur núna á 5 mánuðum drepið 30.000 óbreytta borgara á Gasa, sem er þrisvar sinnum meira heldur en mannfall óbreyttra borgara í stríðinu í Úkraínu (sem hefur staðið yfir í heil 2 ár). Þar af hefur Ísraelsher drepið yfir 12.000 börn og 8.000 konur á Gasa, en það eru 20 sinnum fleiri börn en þau sem hafa látist í stríðinu Úkraínu (587 er talan frá Sameinuðu þjóðunum).

Þess vegna er löngu kominn tími til að skrifa nokkra pistla um kristna bókstafstrú og kryfja þessa pólitísku hugmyndafræði í merginn. Kristnir bókstafstrúarmenn fá ekkert að sleppa við gagnrýni frekar en aðrir (frjálslyndir kratar, frjálshyggjumenn, hægrimenn, fasistar o.s.frv.), eða að komast upp með að halda uppi sínum pólitísku hugmyndum óáreittum, stikkfrí frá allri beittri gagnrýni. Fyrsta spurningin er: hvers vegna eru kristnir bókstafstrúarmenn svona miklir stuðningsmenn Ísraelsríkis? Sem þeir virðast styðja af miklu ofstæki, í fullkominni blindni, sama hvað, þvert á öll yfirgnæfandi sönnunargögn sem benda til þess að Ísrael hafi verið að stunda ólöglega landtöku, reka apartheid-stefnu, fremja þjóðernishreinsanir og drepa óbreytta borgara í massavís?

Stutta svarið er: kristinn síonismi. Þetta er mikilvægt hugtak til að átta sig á, vegna þess að það skýrir á margan hátt hinn mikla stuðning Vesturlanda við Ísrael, og hvernig vestrænir stjórnmálaleiðtogar hafa alltaf leyft Ísrael að komast upp með hvað sem er. Þeir þurfa aldrei að svara fyrir eða sæta afleiðingum fyrir allar sínar árásir gegn Palestínumönnum eða öðrum nágrönnum sínum (t.d. innrásir þeirra í Líbanon eða linnulausar loftárásir þeirra á Sýrland síðustu árin).

Næsta spurning er: hvað er kristinn síonismi? Ég viðurkenni að ég á smá erfitt með að átta mig á þessu fyrirbæri. En það gengur nokkurn veginn út á það að kristnir menn styðji hugmyndina um að Gyðingar byggi upp Ísrael og fyrirheitna landið, vegna þess að þeir trúa því að þetta uppfylli mikilvæga spádóma Biblíunnar sem spá fyrir um endurkomu krists og heimsendi. Þetta er byggt á túlkun á ákveðnum versum í Opinberunarbók Jóhannesar, og víðar í ritningunni, sem er túlkuð á þann hátt að áður en æðsta markmiði kristinna manna er náð, sem er endurkoma krists og dómsdagur, þegar hinir útvöldu munu rísa upp frá dauðum og hljóta eilíft sælulíf í himnaríki (þegar „konungsríki guðs“ verður sett á laggirnar, eins og það er orðað í Biblíunni), þá þurfa Gyðingar að hafa endurbyggt allt Ísrael og einnig að hafa endurreist musterið í Jerúsalem (ef ég skil þetta rétt).
Það virðist sem sagt vera eitthvað grundvallaratriði í kristnum síonisma að gyðingar endurbyggi musterið í Jerúsalem. En það mun væntanlega fela í sér að rífa Al-Aqsa moskuna, sem stendur núna á musterishæðinni (Temple Mount), og hefur gert síðan á 7. öld e.Kr. En Al-Aqsa moskan er þriðji helgasti staður Múslima (á eftir Mecca og Medina). Þannig að trúarlega hlið málanna virðist skipta ansi miklu í þessum heimspólitísku átökum. Hamas-liðar nefndu aðgerðina 7. október, þegar þeir brutust út úr Gasa, „Al-Aqsa flóðið“ (vísan í moskuna í Jerúsalem).

Noam Chomsky segir í áhugaverðu viðtali sem ég fann á netinu að kristinn síonismi útskýri hvers vegna Vesturlönd stóðu að sköpun Ísraelsríkis á sínum tíma (Balfour-yfirlýsingin 1917 var samin og sett fram undir áhrifum kristinna síonista í Bretlandi). Stofnun Ísraelsríkis var einhverskonar „project“ kristinna síonista á Vesturlöndum á fyrri hluta 20. aldar, og skýrir hvers vegna Vesturlönd hafa stutt Ísraelsríki svona dyggilega ætíð síðan, þvert á öll þau voðaverk sem Ísraelsher og landtökumenn í Palestínu hafa svo sannarlega gerst sekir um.

Einhverjir sem þekkja betur til mega endilega leggja sínar lóðir á vogaskálarnir í þessu máli. Ég er einnig ennþá að bíða eftir því að kristnir bókstafstrúarmenn útskýri það sjálfir fyrir okkur hvað það er sem þeir raunverulega trúa. Hvað er það í þeirra trúarbrögðum og þeirra túlkun á ritningunni sem skýrir stuðning þeirra við Ísraelsríki? (þetta með musterið í Jerúsalem, endurkomu krists, heimsendi og allt það). Hvers vegna eru þeir svona feimnir að opinbera sínar skoðanir? Hvað eru þeir eiginlega að fela? Er þetta eitthvað feimnismál? Þeir eru allavega ekki feimnir við að opinbera sinn mikla pólitíska stuðning við Ísrael! Og kveina hásföfum þegar Palestínumenn og stuðningsmenn þeirra mótmæla á Austurvelli. En það er ekki nóg að taka bara sterka afstöðu, nota sterk orð og hrópa upp til himins, það verður líka að koma með 𝑟𝑜̈𝑘 og útskýra hvers vegna maður tekur sína tilteknu afstöðu í málinu. Svona nú, út með það.

Kristni gegn Gyðingum

Áðan fjallaði ég um hinn mikla stuðning kristinna bókstafstrúarmanna við apartheid-stjórnina í Ísrael, og hvað kunni að skýra hann. En þessi stuðningur þeirra við „Gyðinga“ (öllu heldur við Ísraelsmenn – það þarf að gera greinarmun á þessu tvennu) er frekar mótsagnakenndur, vegna þess að kristnir menn gerast sjálfir oft á tíðum ansi sekir um and-semítisma (gyðingaandúð eða gyðingahatur). Þar sem þetta fyrirbæri – and-semítismi – á rætur sínar að rekja til kristinnar trúar. Um þetta hefur verið skrifað í mörgum fræðibókum og er vel þekkt meðal fræðimanna, en kannski ekki svo mikið meðal almennings. Svo gerast kristnir stuðningsmenn Ísrael ansi oft sekir um að rugla saman annarsvegar Ísraelsmönnum og hinsvegar Gyðingum almennt, en að gera slíkt er talin vera orðabókarskilgreiningin á and-semítisma (vegna þess að þarna er verið að alhæfa um heilt þjóðarbrot eða trúarhóp). Það eru nefnilega ekki allir Gyðingar síonistar, þeir styðja ekki allir apartheid-stjórnina í Ísrael, eða réttlæta allir voðaverk Ísraelshers og landtökumanna gegn Palestínumönnum. Nokkrir af fremstu gagnrýnendum heims á Ísraelsríki eru sjálfir Gyðingar, aðilar eins og Noam Chomsky, Norman Finkelstein og Gideon Levy. Þess vegna er ekki hægt að alhæfa um „Gyðinga“ og rugla þeim saman við Ísraelsmenn – að gera alla „Gyðinga“ ábyrga fyrir því sem sem stórnvöld í Ísrael eru ábyrg fyrir, eða að láta eins og allir „Gyðingar“ styðji heilshugar það sem stjórnvöld í Ísrael og landtökumenn standa fyrir.

Þessi meinti stuðningur kristinna manna við Gyðinga (lesist: við Ísraelsríki og síonisma) er sumsé mótsagnakenndur, vegna þess að Gyðingar hafa verið mjög ofsóttir af kristnum mönnum í gegnum tíðina. Lengst af bjuggu þeir flestir í Evrópu þar sem ríkjandi trúarbrögð voru kristni. Frá því á miðöldum hafa kristnir menn framið regluleg fjöldamorð gegn gyðingum sem eru kölluð pogroms. Eins og þekkt er náðu þessar gyðingaofsóknir kristinna manna hámarki í helför þýskra nasista í seinni heimsstyrjöldinni.

Þetta var allt saman réttlætt á þann hátt að Gyðingar hefðu hafnað frelsara sínum (Jesú) og að þeir bæru einnig ábyrgð á að hafa drepið/krossfest hann. En þeir voru ekki bara sakaðir um að hafa drepið og hafnað frelsaranum (Messíasi, eða Kristi), heldur einnig um að hafa „drepið Guð“ (deicide), sem er mun alvarlegri ásökun og með öllu ófyrirgefanleg. Þessar ásakanir kristinna manna eru svo rótfastar í kristni að þær ná alla leið aftur í Nýja Testamentið – þar sem höfundur Jóhannesarguðspjalls lætur Jesú segja að Gyðingar séu komnir frá djöflinum.

Jóhannesarguðspjall, kafli 8:

31 Þá sagði Jesús við Gyðingana….
33 Þeir svöruðu honum: „Vér erum niðjar Abrahams…“
42 Jesús svaraði…
44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist.

Jóh. 8:31-44

Höfundur Jóhannesarguðspjalls gefur einnig sterklega í skyn að Gyðingar beri ábyrgð á morðinu á Jesú. Hann talar alltaf um „Gyðinga“ – gerir aldrei greinarmun á þeim og faríseum, saddúkeum, æðstu prestunum o.s.frv., heldur talar alltaf um „Gyðinga“ í heild. Það eru ekki bara æðstu prestarnir o.s.frv. sem báru ábyrgð á dauða Jesú, morðinu á guði, heldur „Gyðingarnir“ allir.
Svipuð stef er að finna í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, þar sem er oft minnst á „júða“ – óvini Drottins – í frekar fjandsamlegum tón.

Þetta mótíf er einnig algengt í skrifum frumkristinna manna. Einhvers staðar fékk Hallgrímur Pétursson sinn innblástur. Sjá til dæmis páskamessu biskupsins Melító frá Sardis á 2. öld e.Kr. þar sem notast er við mjög áhrifaríka mælskulist:

„The one who hung the earth in space, is himself hanged; the one who fixed the heavens in place, is himself impaled; the one who firmly fixed all things, is himself firmly fixed to the tree. The Lord is insulted, God has been murdered, the king of Israel has been destroyed, by the hand of Israel…“ (ensk þýðing).

„Sá sem hengdi jörðina í geimnum, er sjálfur hengdur; sá sem festi himininn á sínum stað, er sjálfur rekinn í gegn; sá sem festi alla hluti, er sjálfur negldur við tréð. Drottinn er smánaður, Guð hefur verið myrtur, konungi Ísraels hefur verið eytt – af hönd Ísraels.“ (mín þýðing á íslensku).

Þessi messa er einn allsherjar reiðilestur yfir Gyðingunum. Það væri hægt að rekja þessa löngu sögu alla leið fram í nútímann, en það er t.d. þekkt að Marteinn Lúther, upphafsmaður mótmælendatrúar, sem var mikill gyðingahatari, skrifaði bók með nafninu Um Gyðingana og þeirra lygar. Það er einfaldlega ekki pláss hér til að reka alla þessa löngu sögu. Eins og áður segir, þá hafa verið skrifaðar heilu fræðibækurnar um þetta þar sem þessi saga er rakin.

Varðandi ofsóknir nasista gegn Gyðingum og hvernig það var réttlætt með vísan í kristna trú, þá verður rakið hér eitt sláandi dæmi sem er mjög lýsandi fyrir hvernig það gekk fyrir sig. Þetta var atvik sem gerðist í bænum Gunzenhausen í Þýskalandi árið 1934. Eftirfarandi texti er mín þýðing úr bókinni The Holocaust: A New History (2017) eftir Laurence Rees:

… á þessum fyrstu árum nasistastjórnarinnar í Þýskalandi gerðist þetta atvik þegar ráðist var gegn Gyðingum í Fránkóníu í Bæjaralandi – í bænum Gunzenhausen, sem er 50 km suðvestur af Nürnberg.

Að kvöldi 25. mars 1934 fór Kurt Bär, 22 ára stormsveitarliði (Sturmabteilung eða SA), með nokkrum félögum sínum á krá í Gunzenhausen sem var rekin af Gyðingum. Það var pálmasunnudagur, dagur sem hefur mikla trúarlega þýðingu fyrir kristna menn, en stormsveitarmennirnir höfðu heyrt að „arískur“ maður væri að drekka á kráni – eitthvað sem þeim þótti vera svívirðilegt. Eftir að stormsveitarmennirnir komu á krána hélt Bär því fram að Júlíus Strauss, sonur eigandans (sem var Gyðingur), hefði hrækt á hann – þó að Júlíus Strauss neitaði að hafa gert slíkt. Þá fór Bär að lúberja hann. Og ekki bara soninn, heldur einnig föður hans (eigandann) og allt hitt fólkið í Strauss-fjölskyldunni [sem bjó í sama húsi og kráin sem fjölskyldan átti].

Fjöldi fólks fór að safnast saman fyrir framan krána til að fylgjast með. Á einum tímapunkti tók Bär sér pásu frá barsmíðunum, nógu lengi til að halda óundirbúna ræðu fyrir framan mannfjöldann. Í ræðunni spurði hann hvernig það væri mögulegt, „jafnvel á þessum dögum“, að „kristnir menn gætu farið á krá og drukkið bjór hjá Gyðingum. Þar sem Gyðingar væru svarnir óvinir okkar [mortal enemies], sem hefðu neglt Drottinn okkar við krossinn. Enn fremur eru Gyðingar ábyrgir fyrir tveimur milljónum látinna í heimsstyrjöldinni og 400 látnum og 10.000 særðum í [nasista] hreyfingunni. Auk þess, hversu margir Gyðingar hafa nauðgað þýskum stúlkum og hversu margir kynblendingar hlaupa nú um götur Þýskalands? Nú á dögum, ef Gyðingur þorir að hrækja á stormsveitarmann, þá er það eins og hann hræki á sjálfan Adólf Hitler og alla [nasista] hreyfinguna!“ Eitt vitni sagði að „um 200 manns“ hafi hlustað á ræðu Bärs og að „allir hafi tekið undir með því sem Bär sagði.“

Að ræðunni lokinni héldu barsmíðarnar áfram á Júlíusi Strauss og hans fjölskyldu, þar sem mannfjöldinn hvatti stormsveitarmennina áfram og hrópaði: „Lemdu hann! Lemdu hann!“ Síðan var öll Strauss fjölskyldan flutt í fangelsið í bænum. Í opinberri skýrslu um atvikið er greint frá því að frú Strauss hafi mótmælt því að hún hefði verið handtekin, sagðist ekki hafa ekki gert neitt af sér. Þá sló Kurt Bär hana í andlitið og sagði: „Þú gyðingadræsa, haltu þér saman.“ Þegar frú Strauss reyndi að fela sig frá Bär, á bak við fangelsisstjórann, og greip þar með í handlegg hans, þá varð það til þess að Bär sló hana einusinni enn og sagði: „Gyðingadræsan þín, þú skalt ekki snerta kristinn mann.“

Nokkur hundruð borgarar í Gunzenhausen – sumar heimildir segja meira en þúsund – fóru þá að marséra um götur bæjarins, hrópandi „Burtu með Gyðingana! Burtu með Gyðingana!“ Ráðist var á eignir Gyðinga, um þrjátíu Gyðingar voru handteknir og tveir þeirra létust. Einn svipti sig lífi þegar múgur ógnaði honum. Hinn, Jacob Rosenfelder – sem fannst látinn inni í skúr og leit út fyrir að hafa hengt sig – var nánast örugglega myrtur, en morðið á honum var látið líta út fyrir að hafa verið sjálfsmorð [hitt „sjálfsmorðið“ er einnig talið hafa verið morð sem var síðan reynt að hylja yfir].

Laurence Rees. The Holocaust: A New History (2017), Penguin Books, bls. 64-65.

Þegar Helfararsafnið í Washington DC var opnað á sínum tíma var fyrst um sinn ekkert fjallað það hvernig and-semítismi hafði grundvallast í kristinni trú, um ofsóknir kristinna manna gegn Gyðingum í gegnum aldirnar, eða hvernig nasistar vísuðu í kristni til að réttlæta sínar ofsóknir gegn Gyðingum. Það var ekki fyrr en eftir að það var bent á þetta, og þegar þessum skorti á slíkri umfjöllun var andmælt, sem að sett var upp lítil sýning í endanum á safninu um kristilegan and-semítisma og um það hvernig gyðingaofsóknir hafi grundvallast í kristni. Þegar ég heimsótti þetta safn árið 2019 skoðaði ég þessa sýningu, sem var mjög áhugaverð. En þetta er vissulega mjög viðkvæmt mál, vegna þess að eins og við vitum þá eru Bandaríkin mjög kristið land, og þetta safn er staðsett í hjarta Washington DC. En þegar yfirvöld viðurkenna þetta og setja meira að segja upp sýningu um þetta á safni (sem var sett á laggirnar af stjórnvöldum í Washington DC), þá er varla hægt að afneita þessu/neita að horfast í augu við þennan óþægilega veruleika.

Myndirnar sem fylgja þessum pistli sýna dæmi um áróður nasista þar sem vísað var í kristni til að réttlæta and-semítisma og gyðingaofsóknir. Þetta eru aðallega alræmdar skopmyndir úr dagblaðinu Der Stürmer, en þar var oft notast við kristið myndmál. Der Stürmer var gefið út af Júlíus Streicher, svæðisstjóra nasista í Nürnberg, sama svæði þar sem atvikið í bænum Gunzenhausen átti sér stað 1934 (sem var rakið hér fyrir ofan).