Kommúnisti deyr, en lifir. Ólafur Þ. Jónsson

14. júní, 2024 Þórarinn Hjartarson

Ólafur Þ. Jónsson, 1934-2023, Óli kommi að auknefni, gekk ungur til liðs við sósíalismann og hélt tryggð við hann alla tíð. Varð skipasmiður, vann seinna við blaðamennsku, kennslu o.fl. en þekktastur var hann sem vitavörður og veðurathugunarmaður á nokkrum útskögum Íslands, seinast á Hornbjargsvita. Síðustu áratugina bjó hann á Akureyri. Þar var hann helsta sprauta í Stefnu, félagi vinstri manna. Einnig gerðist hann meðlimur í Hollvinafélagi Neista og skrifaði þrjár greinar í ritið. Hann lést í nóvember sl. á nítugasta aldursári. 1. maí fundur Stefnu þetta árið var helgaður Óla komma. Eftirfarandi pistill var þar fluttur honum til heiðurs. Og nú, 14. júní, er 90 ára afmæli hans.

Eftirmæli á 1. maí fundi Stefnu

Morgunfundur Stefnu á 1. maí er fastur punktur á almanakinu ár hvert. Þetta mun vera samkoma nr. 24. Eins og þið mörg vitið var Óli kommi sá sem öðrum fremur átti heiður af þessum samkomum í 23 skipti alls á 25 ára bili, frá árinu 1999 þegar fyrsti morgunfundurinn var haldinn. Það var Ólafur sem alltaf hringdi út mannskapinn. Þrátt fyrir allar auglýsingar í Dagskránni og Viðburði á Facebook var það alltaf fyrst og fremst síminn hans Óla sem eiginlega virkaði sem baráttuaðferð, og samkomuna setti Ólafur jafnan með því sem hann nefndi 1. maí ávarp Stefnu. 

Ólafur Þ Jónsson kom til Akureyrar ca 60-tugur að aldri um 1995. Um það leyti var ekki sósíalísk barátta hátt skrifuð í landinu. Sovétríkin voru fallin 3-4 árum fyrr. Vinstri menn kepptust við að gleyma öllu sem kallaðist kommúnismi. Í stjórn ASÍ var um það leyti talað um að sleppa kröfugöngum 1. maí en gera daginn í staðinn að fjölskyldudegi í Húsdýragarðinum. 

En skyndilega var mættur hér til bæjarins maður sem kallaði sig hiklaust kommúnista, Óli kommi, og hann var stoltur af því. Þessi þekkti vitavörður stillti sér gjörsamlega þversum á straumlínur tímans á 10. áratugnum. Ég hugsaði með mér að hann væri líklega nokkuð mikið þráablóð. En áhugaverður var sá þrái, ég fann fyrir honum í sjálfum mér. Ekki síður var persónuleikinn áhugaverður. Við kynntumst og ég fann brátt út að Ólafur var minn helsti sálufélagi í þessum bæ. Nokkrum misserum síðar, í nóvember 1998, stofnuðum við saman Stefnu – félag vinstri manna á Norðurlandi. Þann 1. maí vorið eftir hélt Stefna fyrsta morgunfund sinn – og ræðumaður dagsins var Ólafur Þ Jónsson. 

Fyrir suma menn er nóg að tala um hlutina. En Óli kommi var kommi í raun, og sá kommúnismi lét ekki nægja að tala. Óli var það sem á útlensku heitir «organisator», skipuleggjandi og afar starfssamur framkvæmdamaður. Stefna – félag vinstri manna var og er rautt málfundafélag, og fyrsta áratauginn hélt hún fundi um margvísleg málefni aðra daga en bara 1. maí, um mál sem lutu að þörfum landsins, alþýðunnar og sósíalismans á mótdrægum tímum. 

Já, Óli kommi VAR kommi. Hann hafði köllun, og málstaður sósíalismans var hans helsta hjartans mál. Hann var alls ekki gjarn á að tala um sjálfan sig nema helst í sambandi við þátttöku sína í stéttabaráttunni fyrr og síðar. Samt langar mann til að vita ögn meira um hann persónulega, kannski er það smáborgaraháttur. Ólafur var vinnukonubarn sem kynntist ekki líkamlegri móður sinni. Hann eignaðist góða fósturmóður, Þórdísi, sem átti stafinn Þ í nafninu Ólafur Þ. Jónsson, en hana missti hann fjögra ára gamall. Faðir hans Jón, bryti á Dettifossi, var skotinn niður með skipinu þegar Óli var 10 ára. Eftir það var hann í ýmsum vistum. Hann fékk sem sagt snemma að kenna á sorg og óréttlæti heimsins, sem hlýtur að hafa mótað hann sem persónu. 

Hann var frá unga aldri hneigður til bóka. Það var þó ekki kostur á löngu námi þegar foreldrarnir voru fallnir frá. Hann braust samt til nokkurrar menntunar: héraðsskóli, bændaskóli, iðnskóli – og stóð þá uppi sem tréskipasmiður. En bóknám lá almennt mjög opið fyrir Óla. Menntunarþörfina uppfyllti hann síðan með lestri góðra bóka, eins og algengt er um alþýðufólk. Hann bætti um betur í því efni með því að mennta sig í marxískri fræðikenningu, og gjörðist í raun fjölmenntaður maður. Menntaskólanám tók hann löngu síðar og mun vera eini maður sem tekið hefur stúdentspróf í vitahúsinu á Hornbjargi. Varðskipið Týr kom með prófgögnin, og tók þau líka tilbaka. 

Hoppum þvínæst svolítið aftur á bak. Neskaupsstaður 1954-1965. Óli stökk þar í land 19 ára af síldarbát. Þar tók óforvarandis við stofnun fyrstu fjölskyldu, sambúð og svo iðnnám. Á Neskaupstað fékk hann nafnið Óli kommi, þannig að hann hefur skorið sig úr, jafnvel í þeim bæ sem þó var talinn talsvert rauður. Þarna dvaldist hann í 11 ár og eignaðist fjögur börn. Hann tók þar ríkan þátt í verkalýðsbaráttu og bæjarpólitík. Hann þjálfaðist sem «organisator». Á Neskaupstað kunnu kommar nefnilega að skipuleggja flokksstarf, svo vel að ekkert stóð fyrir þeim og þeir héldu hreinum meirihluta í bæjarstjórn allan þann tíma sem Óli var þar og reyndar allan þann tíma sem Neskaupstaður var sjálfstætt bæjarfélag. 

Síðan báru bylgjur lífsins hann til Reykjavíkur. Þar hóf hann fljótlega að vinna á Þjóðviljanum, sem blaðamaður og á auglýsingadeild. Þarna kynntist hann persónulega miklu af því menningarkapítali sem virkt var í kringum Þjóðviljann og skrifaði í blaðið á þeim árum, auk þess að starfa í Sósíalistaflokknum allt þar til hann var lagður niður árið 1968. 

———

Víkjum aðeins betur að kommanum Óla. Ólafur fékk sína pólitísku skólun í Sósíalistaflokknum. Sameiningarflokkur alþýðu Sósíalistflokkurinn var varkalýðsflokkur, stéttabaráttuflokkur, flokkur sem áleit það höfuðverkefni sitt að skipuleggja samtakabaráttu fólksins sjálfs, fjöldans frekar en að berjast fyrst og fremst um þingpalla og stjórnarsetu í ríkjandi stjórnkerfi. Óla var augljóslega alla tíð mjög hlýtt til þess flokks.

Ólafur var ennfremur lengi sannfærður um að til væru þau lönd þar sem fólk nyti ávaxta handa sinna. Sú sannfæring var honum mikill styrkur í pólitísku starfi. Það auðveldaði honum baráttuna að vita að það væri ekki lögmál að á baki alþýðunnar sæti stétt snýkjudýra, að til væri þjóðfélagslegur valkostur við auðvaldið, og hann missti aldrei trúna á byltingu alþýðunnar. En sú bylting gæti aldrei komið nema að neðan, það vissi hann.

Sósíalískir þingræðissinnar þóttust hins vegar geta „endurbætt“ kapítalismann eftir þingræðislegri leið, allt þar til hann yrði mannúðlegur og sósíalískur. En það var leið sem Óli hafði hvergi séð rætast. Hins vegar vissi hann af mörgum flokkum sem á þeirri leið höfðu „endurbætt“ sjálfa sig yfir í að verða hluti af valdakerfi ríkjandi stéttar. Þetta var það sem skildi að milli krata og kommúnista, endurbótasinna og byltingarsinna þegar þeir tókust á um fjöregg alþýðunnar. Óli kommi var kommi. En þó að enginn valkosturinn væri vel rauður valdi hann þó jafnan þann kost sem rauðARI var og teygði sig LENGST í vinstri ÁTTINA. Óli varð brátt eftirsóttur sem kosningastjóri fyrir Alþýðubandalagið, enda var hann annálaður smalamaður og „organisator“.

Það verður að segjast að pólitísk viðhorf Óla eftir að ég kynntist honum mótuðust mjög af fortíðarþrá. Það stafaði einfaldlega af því að sósíalískri hreyfingu og baráttu alþýðunnar á Íslandi fór mjög aftur á þeim tíma sem Ólafur barðist þar undir merkjum. Þegar hann komst til pólitísks vits upp úr seinna stríði reis alda sósíalískrar hreyfingar á Íslandi hvað hæst. Róttæki armur verkalýðshreyfingarinnar var sterkari en kratarnir og sterkari en í flestum nágrannalöndum. Hreyfingin hélt nokkurn veginn í horfinu næstu áratugi, en þegar kom fram um 1970 varð vaxandi stéttasamvinna meira einkenni á verkalýðshreyfingunni, og aðlögun hennar að leikreglum íslenska auðvaldskerfisins. Á hinn bóginn missti vinstrimennskan smám saman tengslin við verkalýðshreyfinguna svo vinstrið varð smáborgaralegt. Minna var talað um sósíalisma. Loks dundu þau ósköp yfir að löndin sem Ólafur hafði reitt sig helst á hurfu á vit kapítalisma að nýju. Það var eðlilegt og líklega óhjákvæmilegt fyrir kommúnista á svo fjarskalega andkommúnískum tímum að fyllast fortíðarþrá. Ein brúkleg aðferð til sálubótar var þá að setjast að við vita á einhverjum nógu afskekktum útskaga Íslands, og ylja sér við glæstar og góðar minningar.

Óli gat þó ekki lagt hendur varanlega í skaut. Hugsjónin kallaði á hann líkt og fyrr. Þegar uppstokkun varð á flokkakerfinu til vinstri rétt fyrir aldamótin síðustu var það afstaðan til NATO og Evrópusambandsins sem steytti á á milli róttækra og hægfara vinstrimanna. Fyrir Ólaf var það ærið tilefni til stjórnmálaþátttöku að velja þar skárri kostinn, og hafna hinum skelfilega kratisma. Einnig að standa með náttúru Íslands. Svo að hann tók fullan þátt í stofnun og starfi Vinstri grænna á Akureyri. Hann var kosningastjóri í annálaðri kosningabaráttu VG 1999 sem færði flokknum þrjá þingmenn í Norðurlandskjördæmi eystra. Hjá VG undi hann hag sínum dável um nokkurt skeið. Allt þar til kom að stofnun „hreinu vinstristjórnarinnar“ svokölluðu. Þá gerði flokkurinn tvennt sem Ólafur sá enga ástæðu til að fyrirgefa honum. Í fyrsta lagi samasamaði hann sig valdakerfinu og gekk kapítalíska efnahagskerfinu á hönd við endurreisn þess eftir hrun fjármálakerfisins 2008, og í öðru lagi sótti flokkurinn snarlega um ESB-aðild eftir kosningarnar í apríl 2009. Þetta varð of mikið fyrir Ólaf og hann hvarf frá borði. 

Nú var Ólafur Þ Jónsson nánast pólitískt húsnæðislaus um skeið. En hinn sósíalíski málstaður seiddi hann og óréttlæti heimsins særði hann enn sem áður. Honum var ómögulegt að láta það afskiptalaust. Þegar hann var rúmlega áttræður gekk hann til liðs við Alþýðufylkinguna, lítil samtök sem reistu hér fána stéttabaráttu og sósíalisma um tíma og reyndu líka framboð í tvennum Alþingiskosningum, en þraut svo örendið. Eftir að Alþýðufylkingin þagnaði stillti Ólafur sér reyndar aftur á lista Vinstri grænna í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri vorið 2022. Hann sagði mér þá í afsökunarskyni að þarna væru góðar ungar konur í efstu sætum sem hann langaði til að koma í bæjarstjórn. 

Í þessari upprifjun um Ólaf vin minn á þessum morgunfundi vil ég að lokum segja að eftir því sem fauk í hin flokkspólitísku skjól Ólafs lagði hann alltaf meiri áherslu og kapp á að halda hátt á loft merki Stefnu félags vinstri manna á 1. maí. Fyrir réttu ári síðan las hann okkur í síðasta skiptið 1. maí-ávarp Stefnu, jafn brennandi og áður, þó stirður væri hann og valtur á fótum, 89 ára að aldri. Áður en hann setti fundinn las hann 10 kjörorð Stefnu 2023. Ég læt þau vera síðustu orð mín um Óla komma. Þau gilda öll enn í dag.

• Styðjum baráttuöflin í verkalýsðhreyfingunni!

• Aðeins samtakaaflið færir okkur sigra!

• Gegn okurvöxtum, verðtryggingu og húsaleiguokri! 

• Verjum velferðarkerfið – gegn einkavæðingu!

• Höfnum spilltri bankasölu – félagsvæðum fjármálakerfið! 

• Jafnrétti kynjanna!

• Verjum fullveldið. Nei við bókun 35 – um forgang Evrópulöggjafar fram yfir íslensk lög!

• Ísland úr NATO!

• Úkraína þarf samningalausn. Engan stuðning við staðgengilsstríð NATO!

• Auðvaldskreppa, auðvaldsrányrkja og auðvaldsstríð… Svarið er sósíalismi!